Færsluflokkur: Málverk

Fiat Lux 5

Dieric_Bouts_-_Altaarstuk_van_het_Heilig_Sacrament original  b

Hér skal leystur blíður vindur í hitabylgjunni í Danmörku. Kannski er þetta hálfgert prump, en sumir hafa ef til vill gaman af því líka, ef ég þekki lesendahóp Fornleifs rétt.

Vind heitir hollenskt tímarit, sem ég hef eitt sinn skrifað grein í og vinn nú að annarri. Nú vita allir Íslendingar sem alið hafa manninn í Niðurlöndum, að vaffið á hollensku og í orðinu Vind er borið fram með sem íslenskt F. Vind er borið fram á niðurlensku líkt og fynd í fyndni á íslensku, og hefur ekkert með vind að gera. Vindurinn á hollensku er wind. Vind (fundur) er hins vegar nafnið á merkilegu og mjög fjölbreytilegu tímariti/magasíni um sögu, listasögu og fornleifafræði. Það er í einstaklega háum prentgæðum og inniheldur hágæðaljósmyndir. Greinarnar í tímaritinu, sem kemur út 4 sinnum á ári, eru ekki allt of langar og mjög læsilegar fyrir þá sem geta lesið sig fram úr niðurlensku, þó það sé aðeins í litlum mæli eins og það er raunin með mig. Svo er  tímaritið ekki dýrt í áskrift (sjá hér). Síðasta tölublað er 210 blaðsíður. Eitthvað af auglýsingum er í ritinu, sem skýrir hve ódýrt það er. Auglýsingarnar eru þó ekki til ama. Á meðal þeirra eru kynningar á mikilvægum sýningum, uppboðum og menningarviðburðum víða í Evrópu. Fyrir þá sem eru að hugsa um að kaupa sér Rembrandt og álíka, þá er gott að líta í tímaritið Vind.

IMG_0695

Gluggum í ritið. Sem dæmi tek ég eina grein í nýjasta hefti Vind, sem ég byrja á í áskrift minni. Greinin er eftir Marloes de Moor um altaristöflu meistarans frá Haarlem, Dieric (Dirk) Bouts (1415-1475) sem stendur í dómkirkjunni í Leuven í Belgíu. Taflan er talið til einna af helstu meistaraverka Niðurlanda á gotneska tímabilinu í myndlistasögunni.

Þegar ég var yngri og lærði fornleifafræði miðalda í Árósum, bráðvantaði mig góða mynd af ljósahjálmi sem hangir yfir síðustu kvöldmáltíðinni á altaristöflunni í Leuven. Maður varð á einhverju stigi kandídatsnámsins að skrifa 14 daga ritagerð um lausamuni frá miðöldum. Það fólst í því að maður hóf rannsóknarvinnu og bjó til 6 heimildalista yfir 6 mismunandi gripi sem maður afhenti til samþykktar. Þegar ritalistarnir höfðu verið samþykktir hófst lestur og nokkru síðar fékk maður dagsetningu á eitt af efnunum sem maður hafði fundið og dundað sér við. Þar á eftir hafði maður aðeins fjórtán daga til að skrifa. Mér var falið að að skrifa um ljósahjálma og kom mér það einkar vel, því ég hafði mikinn áhuga á efninu enda er um auðugan garð að gresja er kemur að ljósahjálmum sem varðveist hafa á Íslandi. Afrakstur áhugans getið þið kynnt ykkur á neðarlega á hægri spássíunni hér á Fornleifi, þar sem má finna ýmsan fróðleik um þessi forláta ljósfæri sem Íslendingar keyptu fyrir nokkra kýrrassa og notuðu fyrst og fremst í kirkjum sínum. Pistlarnir um ljósahjálma kalla ég Fiat Lux, Verði Ljós.

Bouts 1983

Þegar ég var í námi, voru ekki til góðar myndir á veraldarvef eins og í dag. Nú getur maður nánast hlaðið niður ljósmyndum listaverkum og safngripum eins og t.d. töflunni í dómkirkjunni í Leuven, og það í nær óendanlegri upplausn (sjá hér). Í þá daga, á síðustu öld, varð maður að gera sér að góðu ljósmyndir í lélegri upplausn úr bókum. Ég dró útlínur hjálmsins í Leuven í gegn á smérpappír, og endurteiknaði síðan útlínumyndina með bleki á teiknifilmu fyrir ritgerð mína. Myndin átti að sýna hvernig sumir ljósahjálmar af sömu gerð og þeir sem varðveist hafa á Íslandi, birtust í "samtímalist" meistara 15. aldar.

Á Íslandi varðveittust ljósahjálmar vel því þar voru kirkjur ekki rændar öllum málmgripum, líkt og gerðist víða um Evrópu. Þar geisaði nær endalaust stríð hjá friðsemdarfólkinu. Málminum (messing og bronsi) sem rænt var úr kirkjum, var beint komið í vopnaframleiðslu.

Ritgerð minni frá 1983 gaf ég titilinn Metallysekroner i senmiddelalderen og prófverkefnið sem lagt var fyrir mig hafði hvorki meira né minna en þennan titil:

Der ønsker en beskrivelse af den senmiddelalderlige malmlysekrone i Vesteuropa. Desuden ønskes der en diskussion af anvendelse og produktionsforhold set på baggrund af en kortfattet oversigt over bronzestøberiets historie i det senmiddelalderlige Nordeuropa.

Ritgerðin fjallaði um hina mörgu hjálma sem varðveist hafa á Íslandi meðal annars í samhengi við ritaðar heimildir, efnahagssögu, fornleifafræði og út frá listsögulegu samhengi.

Hér fyrir ofan sjáið þið hjálm Bouts í ritgerðinni minni frá því fyrir 37 árum síðan. Það er miklu auðveldara að skrifa háskólaritgerðir í dag miðað við í "gamla daga1a" þegar maður varð að standa á haus í bókasöfnum til að finna það sem maður þurfti á að halda.

Dieric_Bouts_-_Altaarstuk_van_het_Heilig_Sacrament

 

Dieric_Bouts_-_Altaarstuk_van_het_Heilig_Sacrament original  cb


Algjörlega ófalsað málverk frá Íslandi undir hamarinn hjá Bruun Rasmussen í dag

Þúfnakot


Í dag verður boðið upp málverk hjá uppboðsfyrirtækinu Bruun Rasmussen. Sá hluti uppboðsins, þar er seld eru málverk, hefst klukkan 16 að staðartíma í Kaupmannahöfn. Þá er klukkan þrjú og rok og rassgat í Reykjavík. Málverkið sem hér sést er númer 119 á uppboðsskrá.

Nú vill svo til að Bruun Rasmussen er með algjörlega ósvikna vöru frá Íslandi. Engin brögð eru í tafli og Ólafur forvörður og sjálfcertifíseraður falsarabani þarf líklega ekki að setja gæðastimpil sinn á málverkið.

Um er að ræða olíumálverk á striga sem er 40  x  58 sm að stærð, sem sýnir kot í nágrenni Reykjavíkur árið 1847. Þá var málarinn Carl Ludvig Petersen á ferð á Íslandi með öðrum og meiri meistara, Vilhelm Melbye. Carl Ludvig Petersen teiknaði fjölda skyssa og teikninga frá dvöl sinni. Ein teikninganna er varðveitt í Þjóðminjasafni og hinar í Listasafni Íslands (sjá hér).

Þúfnakot 3

Teikning sú sem Þjóðminjasafn Íslands varðveitir fyrir íslensku þjóðina, er af sama mótífinu (sama bæ) og málverkið sem selt verður síðar í dag. Málverkið hefur Carl Ludvig Petersen að öllum líkindum málað við heimkomuna til Danmerkur, því hún er tímasett til 1848.

Þúfnakot 2

Nærmynd. Mér datt eitt andartak í hug, að málverkið sýndi kot á Seltjarnarnesi.

Ánægjulegt væri ef annað hvort Þjóðminjasafn Íslands eða Listasafnið hnepptu þetta málverk, sem danska uppboðsfyrirtækið metur á 40.000 hvítþvegnjar, danskar krónur. Það verð er þó nokkuð í hærri kantinum að mínu mati miðað við "gæði" myndarinnar. En áksjónaríus Bruun Rasmussen hafa fyrir löngu fundið fyrir því að málverkafæð Íslendinga á 19. öldunni hækkar verð og eykur áhugann á slíkir metravöru hjá nýríkum svindlurum frá Íslandi sem betrekkja stofur sínar með menningu sem þeir hafa ekkert vit á. Líklegast þarf fyrirtækið á því að halda, eftir að annað hvert 20. aldarmálverk sem þeir hafa undir höndum reynist falsað samkvæmt Ólafi konservator.

Ég skoðaði málverkið í dag ásamt góðum vini mínum, hinum 79 ára meistara Erik Bing Henriques. Við ákváðum ekki að bjóða í myndina, til að gefa fátækum söfnum á Íslandi tækifæri til að ná í hana. Og hver vill annars nú orðið eiga nokkurt málverk frá Íslandi. Menn eiga á hættu að allt þaðan sé stolið, logið, snuðað eða svikið.

O TEMPORA! O MORES!


Sjóræningjaleikur í sandkassa: Gullskipið fundið

het_wapen_van.jpg

Fáeinir fullorðnir menn á Íslandi ætla í sjóræningjaleik í sumar. Þeir eru meira að segja búnir að fá til þess leyfi frá Minjastofnun Íslands, sem hins vegar bannar á stundum fornleifafræðingum að rannsaka menningararfinn.

Leyfið til sjóræningjanna gengur út á að svífa yfir sanda með mælitæki til að finna gull og geimsteina. Fornleifafræðingur verður að vera með í sandkassaleiknum segir í leyfinu. Sá aumi félagi úr íslenskri fornleifafræðingastétt sem tekur slíka róluvallaleiki að sér verður sér til ævarandi skammar og háðungar. Hann verður þó líklega sá eini sem græðir á ævintýrinu, ef honum verður yfirleitt borgað. Það verður þó aldrei greiðsla í gulli, geimsteinum, demöntum eða perlum.

Minjastofnun hefur leyft fyrirtæki ævintýramanna undir stjórn Gísla nokkurs Gíslasonar að leita að "Gullskipinu" margfræga, sem er betur þekkt annars staðar en á Íslandi sem Het Wapen van Amsterdam. Síðast er leitað var að flaki þessa skips sem strandaði við Ísland árið 1667, fundu menn þýskan togara sem strandaði árið 1903. Hafa sumir greinilega ekkert lært af því. Þessi greindartregða virðist lama allt á Íslandi. Þetta er eins og með hrunið. Það var rétt um garð gengið þegar menn byrjuðu aftur sama leikinn og rotnir pólitíkusar taka ólmir þátt í græðgisorgíunni.

Leitið og þér munið finna

Stofnað hefur verið sjóræningjafyrirtæki sem kallar sig Anno Domini 1667. Sjóræningjarnir eiga sér einkunnarorð. Það er vitaskuld stolið, og það úr sjálfri Biblíunni: "Leitið og þér munið finna." Þeir rita það á bréfsefni fyrirtækisins á latínu. Afar furðulegt þykir mér, að menn sem eru svo vel sigldir í fleygum setningum á latínu geti ekki lesið sér heimildir um skipið Het Wapen van Amsterdam sér til gagns.

Sjóræningjarnir gera sér von um, samkvæmt því sem þeir upplýsa, að finna 1827 tonn af perlum. Vandamálið er bara að farmskrár skipanna, sem Het Wapen van Amsterdam var í samfloti við þegar það strandaði við Íslandsstrendur, upplýsa ekkert um 1827 tonn af "ýmis konar perlum", heldur um 1,827 tonn af perlum sem voru ekki nauðsynlega á Het Wapen van Amsterdam. Yfirsjóræninginn hjá 1667, Gísli Gíslason menntaðist víst í Verslunarskólanum, til að byrja með. Þar hélt ég að menn hefðu lært á vigt og mæli. Lítið hefur Gísli greinilega lært, því 1,827 tonn (þ.e. eitt komma átta tvö sjö tonn) verða að 1827 tonnum af perlum. Hvernig getur það verið að þessum talnasérfræðingi sé veitt leyfi af ríkisstofnum til að leika sjóræningja sem leitar að sandkorni í eyðimörkinni? Hvað halda landkrabbarnir í sjóræningjafélaginu að skipið hafi eiginlega verið stórt?

Slíka vitleysu höfum við séð áður í tengslum við leit að "Gullskipinu", þegar "fróðir menn" héldu því fram að rúm 49 tonn af kylfum og lurkum væru um borð (sjá hér). Á einhvern ævintýralegan hátt tókst einhverjum álfi að þýða orðið foelie sem kylfur.  Þetta var alröng þýðing eins og ég fræddi lesendur Fornleifs um fyrr á þessu ári, áður en að kunngert var að sjóræningjaleikur myndi fara fram aftur á Skeiðarársandi. Foelie er gamalt hollensk heiti fyrir múskatblóm, hýðið utan af múskathnetunni. Þetta krydd, sem hægt er að kaupa undir enska heitinu mace á Íslandi, var fyrrum gulls ígildi. Þó að það hafi verið um borð á Het Wapen van Amsterdam, er ég hræddur um að Matvælastofnum geti ekki leyft neyslu þess. Síðasti söludagur rann ugglaust út fyrir nokkrum öldum. Ef múskatblóma fyndist væri úr henni allur kraftur og hún væri frekar vatnsósa og ónýt til matargerðar.

Það verður að grípa í taumana. Sjóræningjar mega ekki ganga lausir á Íslandi. Einnig mætti ráða hæft fólk til Minjastofnunar. Mest að öllu vorkenni ég börnum íslensku sjóræningjanna sem eyða peningum fjölskyldna sinna sem ella gætu hafa runnið til barna og barnabarna mannanna, sem vonandi munu stíga meira í vitið en þeir. Öll vitum við að síðustu karlarnir með Asperger-heilkenni sem leituðu að "Gullskipinu" eins og að sandi í eyðimörkinni létu íslenska ríkið ganga í ábyrgð fyrir vitleysunni.

Mann grunar að menn eins og fyrrverandi sjálfkrýndur "forleifaráðherrann", Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hefði verið til í svona sjóræningjaleik. Vonandi hefur hann nú ekki skrifað undir gruggugan sjóræningjasamning hjá 1667 sem skattgreiðendur verða svo að borga á endanum eins og allar aðrar vitleysur í íslensku þjóðfélagi. Legg ég hér með til að sjóræningjarnir fari frekar og hjálpi kollegum sínum, íslensku stórþjófunum og skattskvikurunum við að grafa upp gull þeirra og geimsteina í heitum sandinum á Tortólu, og skili sköttum og gjöldum af því fé í sameiginlega sjóði landsins. Það væri þjóðþrifamál á við nokkur gullskip.

Myndin efst

er hluti af stærra málverki eftir hollenska meistarann Aelbert Cuyp. Þarna sjást tvö skip VOC (Vereenigde Oost-Indische Compagnie/Sameinaða Austur-indíska Verslunarfélagsins) í Batavíu um 1660. Batavía var helsta höfn Hollendinga í Indónesíu. Í dag heitir borgin á þessum stað Jakarta. Ef vel er af gáð, sjá menn kannski að skipið til hægri ber skjaldamerki Amsterdamborgar.

Hugsanlega er þetta skipið sem menn eru að leita að á Íslandi. Einhver annar en listamaðurinn Cuyp hefur skrifað 'Banda' á skut skipsins. Banda var ekki nafn þessa skips heldur höfnin á samnefndri eyju á Malaccasundi, þar sem múskattréð óx upphaflega. Höfnin í Banda var heimahöfn múskatsskipsins Het Wapen van Amsterdam, sem sigldi með mörg tonn af því verðmæta kryddi í síðustu för sinni. Menn mega trúa mér eða ekki. Ef ekki, mega þeir trúa ævintýramanninum Old Red Gísli Gold sem hér sýnir innistæðulaust sjóræningjakort nútímans, með leyfi Minjastofnunar Íslands til að leita uppi vitleysuna endalausu. Það kalla menn víst ævintýri.

0aaba8bfd1812b33b5fc646681a5c432.jpg


Er þetta nú allur sannleikurinn?

monabean_1277861.jpg

Heldur Ólafur Ingi Jónsson forvörður á Íslandi, sem ekkert fræðilegt hefur gefið út eftir sig er sem sannar það að 900 málverk, sem hann heldur fram að séu í umferð og gangi kaupum og sölum, séu fölsuð málverk íslenskra meistara?

Heldur Ólafur Ingi Jónsson að menn í uppboðsheiminum taki orð hans gild, þegar ekkert fræðilegt er þeim til stuðnings?

Heldur Ólafur Ingi Jónsson, að Lögreglunni í Kaupmannahöfn, nánar tiltekið Statsadvokaten for særlig økonomisk og international kriminalitet sé stætt á því að ákæra nokkurn, þegar það eina sem þeir og danska lögreglan hafa í höndunum eru yfirlýsingar Ólafs Jónssonar forvarðar, sem ekki getur stutt skoðanir sínar með fræðilegum vísindagreinum?

Ólafur Ingi er reyndar ekki sérhæfður í fölsunum á málverkum í fremur stuttu námi sínu a Ítalíu hér forðum daga.

Í nóvember á sl. ári hafði eigandi eins verksins, sem gert var upptækt hjá Bruun & Rasmussen árið 2014, og sem Ólafur Jónsson telur falsað, samband við mig. Ég sýndi á Fornleifi sjá hér og hér, hvar foreldrar hans hefðu keypt verkið árið 1994. Eigandinn, erfingi þekktra safnara, skrifaði mér í nóvember síðastliðnum til upplýsingar, að hann hefði fengið að vita að:

"Lögreglan hefði nú fengið staðfests að málverkið væri falsað, sem þeir vilja nú fá staðfestingu á en þekkja aðeins einn aðila sem geti skorið úr um það".

Þessi eini aðili reyndist vera Ólafur Jónsson, sá sami og staðfesti að málverkið væri falsað án þess að rannsaka það. Viðbrögð eigandans voru þau, að hann ætlaði sér með hjálp lögfræðings síns að lögsækja Ólaf. Þeim þótti ekki nein rök í því að sami maður, sem ekki hafði rannsakað málverkin, en lýst þau fölsuð skyldi rannsaka hvort þau væru fölsuð. Slíkur aðili er vitaskuld hvorki óháður né hlutlaus.

Það er nú líkast til þess vegna að Statsadvokaten for særlig økonomisk og international kriminalitet í Kampmandsgade 1 í Kaupmannahöfn hefur ákveðið að losa sig við málið með því að segja að það sé fyrnt.

Lögreglan og sérstakur Ríkissaksóknari í Danmörku eru ekki vitlausari en það, að þau skilja vel, að óheppileg sé aðkoma þeirra að máli þar sem "sérfræðingur", sem ekki hefur skrifað neitt fræðilegt um allar þessar 900 falsanir, er kallaður til til að sanna fölsun sem hann hefur þegar sagt að sé fölsun. Það mun aldrei góðri lukku stýra í dönskum réttarkerfi. Ólafur Jónsson eyðilagði, sýnist mér á öllu, málið fyrir sjálfum sér.

Mitt einasta ráð til Ólafs Inga Jónssonar er að sýna okkur sérfræðiþekkingu sína svarta á hvítu - og helst líka í lit -, svo hægt sé að taka hann alvarlega. Það get ég ekki gert, m.a. eftir að Ólafur þaut út opinberlega hér um árið og lýsti yfir á opnum fyrirlestri, að málverk frá 18. öld, sem líklegast hafa verið máluð af Sæmundi Hólm (sjá hér og hér), væru verk hollensks "meistara" frá 17. öld.

Þekkingu Ólafs á nýrri meisturum dreg ég ekki efa, en hann verður að sýna okkur þessa þekkingu. Birta, Ólafur, birta!

Ítarefni:

Afar sérstakur saksóknari

Tvær falsanir af 900 ?

Þingsályktunartillaga fyrir þá sem veggfóðra með Kjarval?

 


mbl.is Samfellt brot málverkafölsunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

11. Getraun Fornleifs

kj_43_1260692.jpg

Nú þegar Fornleifur er hvort sem er kominn í listastuð með greinar um tvíæringja í Feneyjum og mynd eftir Þorvald Skúlason sem er til sölu í Kaupmannahöfn (sjá síðustu greinar), er við hæfi að láta listhneigða fornfræðinga landsins rembast örlítið.

Þess vegna er 11. getraun Fornleifs listagetraun, og líklega er hún allt of létt. Myndin er um 75 x 60 sm að stærð

Hver málaði myndina?

Hvenær?

Hvaða stað sýnir hún?

Hvar hangir myndin?

Hvað borgaði sá sem keypti hana síðast?


Falleg mynd eftir Þorvald Skúlason til sölu í Kaupmannahöfn

_orvaldur_skulason_hos_nina_1260611.jpg

Fornleifur hefur fengið leyfi listaverkasala og vinar síns í Kaupmannahöfn að birta mynd af einstaklega fallegu málverki með einstaklega fallegri litasamsetningu. Verkið er frá yngri árum Þorvaldar Skúlasonar.

Málverkið er nú til sölu í Kunsthandel Nina J, í Gothersgade 107.  Myndin er úr safni hjónanna og listamannanna Maríu H. Ólafsdóttur, sem var íslensk, og Alfreds I. Jensens.

Málverkið er líklega málað í Osló eða Kaupmannahöfn. Ég hallast sjálfur að Vesterbro í Kaupmannahöfn. Ég tel að það sé málað á sömu árum og þetta verk sem var til sölu hér um árið í Gallerí Fold í Reykjavík:

_orvaldur_skulason.jpg

Ef menn vilja eignast gott verk, er um að gera að flýta sér. Hér eru upplýsingar um Kunsthandel Nina J, þar sem myndin er til sölu. Verðið kemur mjög á óvart. Eins og Danir segja; Først kommer, først får

maestro_orvaldur_1260615.jpg

Meistari Þorvaldur


Skítafréttamennska á RÚV, enn einu sinni

fr_20150324_011320_1256984.jpg

Róbert Jóhannsson "fréttamaður" á RÚV birtir frétt sem hann kallar "Gyðingurinn hafði trú á Hitler". Þar heldur hann því fram að gyðingur, sem keypti málverk af Hitler, hafi verið listaverkasali.

Samuel Morgenstern í Vín, sem keypti og seldi um tíma myndir Hitlers í byrjun 20. aldar, átti rammagerð og séræfði sig í glerrömmum. Hann var ekki listaverkasali frekar en Sigurður Einarsson var fjármálasnillingur. En Róbert Jóhannsson fréttamaður á RÚV heldur því fram að Morgenstern hafi verið listaverkasali. Því er einnig haldið fram í grein þeirri sem Róbert skrifar á vef RÚV, að verk Hitler hafi verið seld auðugum gyðingum. Þetta er líka fölsun á staðreyndum. Síðan er því haldið fram að Samuel Morgenstern hafi lenti í þrælabúðunum í Lodz og látist þar. Í Lodz var gettó, eitt af 1150 slíkum um alla Evrópu sem Þjóðverjar fyrirskipuðu, til að létta sér smölun gyðinga í fanga-, þræla- og útrýmingarbúðir sínar.

hitler_vatslitamynd.jpgGyðingurinn Morgenstern hafði hafði ekki "trú á Hitler." Hann keypti aðeins myndir hans til að selja fólki sem hafði áhuga á frekar gerilsneyddri borgaralegri list sem leit vel út í glerramma. Einn kaupenda var t.d. lögfræðingur af gyðingaættum.  Landslagsmyndin við fréttina um uppboð á klunnalegri blómamynd eftir Hitler í Los Angeles, er reyndar með þeim betri "póstkortum" með hendi Hitlers sem ég hef séð. En ekki er heldur hægt að sjá að myndin sé merkt Hitler. Þegar betur er að gáð, þá hefur Róbert Jóhannsson lyft myndinni af myndvef EPA, þar sem kemur mjög greinilega fram, að ekkert sanni að þessi landslagsmynd sé eftir Hitler:

"epa00827356 This is one of a collection of 21 watercolours attributed to Adolf Hitler which are to be sold at auction in Cornwall, England Tuesday 26th September 2006. They are judged to be authentic because they are similar to other known work by the Nazi dictator. They are believed to have been painted between 1915 and 1918 on the border of France and Belgium. This one is a landscape in Le Flaquet. EPA/HO"

Er ekki lágmarkskrafa að fréttamenn á RÚV séu gæddir lágmarks heimildarýni? Greinilega ekki.

0_16023331_303_00.jpg

Heimildarýni RÚV hefði hentað vel í 3. Ríkinu.

Hin ósmekklega fyrirsögn Róberts Jóhanssonar lýsir dómgreindarleysi og heimsku hans eða prófarkalesara RÚV. Ákveðna greininn á "Gyðingurinn" í fyrirsögn greinarinnar má skilja þannig að gyðingar almennt hafi haft trú á Hitler. Ef fréttamaðurinn á RÚV hefði kunnað íslensku hefði hann skrifað "Gyðingurinn sem hafði trú á listamanninum Hitler". Morgenstern hafði vitaskuld ekki minnstu hugmynd um að "listamaðurinn" yrði skrímsli 20-30 árum síðar.

Rammasalinn Morgenstern seldi myndir líkt og rammasalar gera, og það er oftast ekki mikil list. Menn þurftu ekki að vera í nánu sambandi við þá sem maður selur list eftir.


Altaristaflan í Miklaholti

miklaholt2_1249368.jpg

Flestir Íslendingar kannast við Vor Frelsers Kirke, Kirkju Frelsara Vors á Kristjánshöfn í Kaupmannahöfn. Sumir hafa jafnvel gengið upp í turnspíruna á henni, eins og ég gerði með föður mínu sumarið 1971. Maður gengur upp tröppur utan á turnspírunni. Síðan þá hef ég þjáðst af mikilli og ólæknandi lofthræðslu og dreymir stundum enn um það þegar ég þurfti að setjast niður á koparþrepin þegar einhverjir plássfrekir þýskir túristar og sænskar fyllibyttur gengu framhjá okkur utan á helv... spírunni.

Kirkja Frelsara Vors var reist á árunum 1682-1696 eftir teikningum norsks byggingarmeistara af hollenskum ættum. Hann hét Lamberts van Haven. Kirkjan var ekki upphaflega hugsuð með þann turn og turnspíru sem við þekkjum í dag. Spíran var fyrst vígð árið 1752 og var gerð eftir teikningum danska arkitektsins Lauritz de Thurah.

kbh-300705-159-001-600x387.jpg

Vor Frelsers Kirke á 18. öld.

6754180-26magdetgamlekbenhavnjpg.jpg

Kirkjan í lok 19. aldar.

Þegar skrifað var um kirkjuna í stórverkinu Danmarks Kirker í byrjun 7. áratugar síðustu aldar, kannaðist listfræðingurinn Jan Steensberg (1901-1971), sem um kirkjuna fjallaði, vitaskuld ekki við altaristöfluna í Miklaholtskirkju i Fáskrúðabakkasókn á Snæfellsnesi. Hefði hann gert það, hefði löng greinargerð hans um kirkjuna orðið öðruvísi en sú sem má lesa (sjá hér). Nú vitum við, hvernig turn kirkjunnar var, áður en hann var hækkaður til  muna um 1740 og áður en spíran sem nú er kirkjunni var loks reist. Þetta var dæmigerð hollensk kirkja, líkust Nýju kirkju (Nieuwe Kerk) í den Haag í Hollandi, enda byggð af hinum hollenskættaða Norðmanni van Haven.

lambert_van_haven.jpg

Lambert van Haven, byggingarmeistarinn.

vor_frelsers_kirke_copenhagen_portal_west_2_1249371.jpg

Prestur gefur ljósmynd

Af einhverjum ástæðum mér ókunnugum kom séra Jónas Gíslason (1926-1998) með ljósmynd af altaristöflunni á Þjóðminjasafns Dana árið 1967 og gaf safninu. Jónas var þá prestur Íslendinga í Kaupmannahöfn, en síðar var hann útnefndur prófessor í trúarbragðasögu við guðfræðideild Háskóla Íslands, og enn síðar vígslubiskup í Skálholti. Engar upplýsingar hafa Danir um þessa ljósmynd sem þeir fengu. Myndin varð hins vegar til þess að ég hóf dauðaleit af töflunni. Leitin stóð yfir í um það bil sólarhring. Ég fullvissaði mig um að taflan, sem ekki er nefnd í Kirkjum Íslands, væri heldur ekki á Þjóðminjasafni Íslands. Loks kom í ljós að hún hafði lengst af verið í kirkjunni eftir að hún fékk andlitslyftingu hjá Frank heitnum Ponzi listfræðingi fyrir mörgum árum síðan.

Mönnum þótti kirkjan í Miklaholti orðin mjög hrörleg á seinni hluta 20. aldar og var ákveðið að endurbyggja hana og enn var bætt við árið 1961. Fáskrúðabakkakirkja var sömuleiðis gerð að sóknarkirkju í stað Miklaholtskirkju. Það var gert þegar árið 1936. Ýmir gripir í gömlu kirkjunni fóru í aðrar kirkjur t.d. í nýju sóknarkirkjuna. Fáskrúðarbakkakirkju. En ekkert hefur farið á Þjóðminjasafn Íslands. Kurt Zier, Þjóðverji sem hafði verið í útlegð á Íslandi á stríðsárunum, og sem síðar hafði snúið aftur frá Þýskalandi til Íslands árið 1961 til að stýra Myndlista- og Handíðaskólanum Reykjavík, var fenginn til að mála nýja altaristöflu fyrir Miklaholtskirkju.

Gamla altaristaflan var hins vegar send til viðgerðar hjá Frank Ponzi og kostaði Guðríður heitin Magnúsdóttir, dóttir Magnúsar Sigurðssonar í Miklaholti það, en Magnús bjó í Miklaholti fram til 1939. Við jörðinni tók Valgeir Elíasson og kona hans Guðlaug Jónsdóttir. Núverandi ábúandi í Miklaholti, Gyða Valgeirsdóttir, sem séra Páll Ágúst Ólafsson benti mér á að hafa samband við, sagði mér hvar altaristaflan væri niður komin. Taflan kom aftur úr viðgerðinni og hefur síðan þá hangið yfir kirkjudyrum, þar sem fáir veita henni athygli, því aðeins er messað í kirkjunni einu sinnu á ári, á Nýársdag.

Afkáraleg altaritafla?

Myndin á altaristöflunni úr Miklaholti er líklega gerð árið 1728 líkt og fram kemur á töflunni, Hún er kannski ekki mikið listaverk, en í einfaldleika sínum er hún að mínu viti bæði falleg og einlæg. 

engill_1249373.jpgengill.jpg

Í kirknaskrá sinni skrifaði Matthías Þórðarson þetta árið 1911 er hann heimsótti kirkjuna: 7.VII.1911.              Kirkjan orðin gamalleg og fúin, fremur lítilfjörlegt hús. Altaristafla afkáraleg, ofantekin, stendur frammi í horni. Umgjörðin með allmiklu verki, máluð með ýmsum litum. Myndin sjálf sýnir kirkju, fyrir framan er Kristur með flokk postula, Jóhannes skírari og ýmislegt fólk, sem flest baðar höndunum út í loptið. Fyrir ofan er letrað: „Johannes og Johannis Babtistæ Kirkia epter honum so køllud.“ Fyrir neðan myndina stendur á sjerstökum fleti: Hr. Peder Einersen: M.[:] Christin Siverdsda[a]tter. Ao 1728. "

Altaristöfluna gömlu í Miklaholti gaf séra Pétur Einarsson (1694-1778) sem alla tíð var prestur í Miklaholti. Hann fór utan eftir nám í Hólaskóla 1720. Árið eftir fékk hann brauð í Miklaholti og hefur líklega pantað þessa þessa töflu af Vor Frelsers Kirke og beðið um að nafn sitt og konu sinnar yrði sett á hana. Myndin er þó þess leg að ekki verður útilokað að íslenskur maður hafi gert hana, einhver nákvæmur naívisti, en þar verða þó aðeins vangaveltur.

Þegar efst á myndina er ritað að kirkjan fái nafn sitt eftir Jóhannesi og Jóhannesi skýrara er vitanlega átt við kirkjuna í Miklaholti sem taflan var gefin. Þar var kirkja allt frá því á miðöldum helguð Jóhannesi skírara.

Matthías Þórðarson greinir myndmál myndarinnar rangt. Þarna er margt að gerast. Skegglausi engillinn með geislabauginn er enginn annar en Gabríel, og fólk baðar út höndum því Biblían greinir frá því að allir menn, t.d. María mey og Zakarías hræddust Gabríel er þau sáu hann. Jesús og lærisveinarnir horfa á. Gabríel var boðunarengill þegar í Gyðingdómi. Einnig má greina á málverkinu mann með hjálm, sem snýr baki í okkur, en það er hundraðshöfðinginn Kornelíus. Honum birtist engillinn Gabríel líka.

Ef einhver fróður maður getur skýrt út fyrir mér, hvernig stóð á því að séra Jónas Gíslason fór með ljósmynd af altaristöflu frá Íslandi á Þjóðminjasafn Dana, væri mér mikil akkur í að fá upplýsingar um það. Ég held að hann hafi kannski leitað upplýsinga fyrir Frank Ponzi og að Frank hafi tekið myndina. Hef ég því haft samband við Tómas, son Franks Ponzi, sem var nokkurn veginn samtíma mér í Menntaskólanum við Hamrahlíð.

Taflan sem hafði staðið í friði og spekt yfir altari í Miklaholti síðan um 1728, var reyndar orðin hornkerling árið 1911. Hún er þó sannarlega þess virði að minnst sé á hana því hún leysir ráðgátu um byggingasögu einnar merkilegustu kirkju Kaupmannahafnar, borgar sem í eina tíð var höfuðborg Íslands. Í Vor Frelsers Kirke hangir til dæmis ljósahjálmur sem Íslandskaupmaðurinn Jacob Nielsen gaf árið 1695.

Ritið Fornleifi á fornleifur@mailme.dk ef þið hafið frekari upplýsingar um altaristöfluna í Miklaholtskirkju.

frelser_spir.jpg


Afar sérstakur saksóknari

malverkin_tvo.jpg

Ég ritaði hér um daginn um nýja málverkafölsunarmálið, þar sem tvö málverk eftir Svavar Guðnason voru tekin í hald lögreglunnar í Kaupmannahöfn sama dag og bjóða átti upp málverkin hjá uppboðsfyrirtækinu Bruun Rasmussen.

Það sem Bruun Rasmussen var ekki tjáð nákvæmlega hvaðan ákæran kæmi, samkvæmt upplýsingum Niels Raben yfirmanni uppboða nútímalistar, og eigandi eins málverksins K.O. hefur heldur ekki fengið upplýsingar um hver hafi sett fram ákæruna, hafði ég samband við Ríkislögregluna á Íslandi. Þar sagði mér lögfræðingur, að Embætti sérstaks saksóknar að Skúlagötu 17 í Reykjavík væri það embætti sem sæi um þetta mál og hefði sett fram kæruna sem leiddi til þess að lögreglan í Kaupmannahöfn lagði hald á tvö málverk.

Er ég hafði samband við Sérstakan saksóknara í dag var mér tjáð að Ólafur Þór sérstakur saksóknari sæi um þetta fölsunarmál ásamt embættismanni hjá embættinu sem heitir Sveinn. Þeir voru fara á fund og gátu því ekki svarað erindi mínu, sem ég býst við að þeir svari skriflega og hafa þeir fengið erindið.

Spurning mín til embættisins er einfaldlega sú: Hvernig ákæra frá forverði við Listasafn Íslands, sem séð hefur málverk á netinu og slær því fyrirvaralaust út að það sé falsað, verði mál sem sérstakur saksóknari og Lista Sveinn starfsmaður hans taka að sér að kæra í og krefja lögregluyfirvöld í Danmörku gegnum NORPOL að gera upptæk. Ég fæ alls ekki séð af lögum nr. 135/2008, að það sé í verkahring Sérstaks saksóknara að rannsaka meintar málverkafalsanir. Sjá hér.

Hvað kalla menn rannsókn ?

Samkvæmt nýjum lögum (2014) um ráðstafanir gegn málverkafölsunum hefur Alþingi ályktað að fela "mennta- og menningarmálaráðherra að setja á laggirnar starfshóp skipaðan fulltrúum Listasafns Íslands, Myndstefs, Bandalags íslenskra listamanna, Sambands íslenskra myndlistarmanna, embættis sérstaks saksóknara, sem fer með efnahagsbrot, og mennta- og menningarmálaráðuneytis sem geri tillögur að ráðstöfunum gegn málverkafölsunum og skilgreiningu á ábyrgð hins opinbera í lögum gagnvart varðveislu þessa hluta menningararfsins. Þá fái hið opinbera frumkvæðisskyldu til að rannsaka og eftir atvikum kæra málverkafalsanir."

Þess ber að geta að slíkur starfshópur hefur ekki komið saman. Hins vegar hljóp embætti Saksóknara til nú eins og að verk látins íslensks listamanns væru í verðflokknum Picasso plus, og sala á meintri fölsun á verki hans (sem dæmt var falsað eftir að Ólafur Ingi Jónsson forvörður sá það á netinu/það var ranbsókn) væri brot sem setti efnahag Íslands í vanda. Það er eins dæmalaust vitlaust og þegar Bretar settu Íslendinga á hryðjuverkalistann. Vita menn hvað áætlað verð var á málverkinu á uppboði Bruun Rasmussen sem K.O. á Jótlandi setti á uppboð? Það eru skitnar 5350 € (40.000 DKK/825.000 ISK) Er ekki mikilvægara fyrir sérstakan saksóknara að setja bankafalsarana og bankaellurnar undir lás og slá?

Hvað haldið þið lesendur góðir? Er rétt að nota embætti sérstaks saksóknara til að eltast við hugsanlega fölsun í Danmörku, þegar embættinu ber fyrst og fremst að lögsækja menn sem settu Ísland á hausinn? Verk í eigu manns á Jótlandi, sem erfði verkið eftir foreldra sína sem voru þekktir listaverkasafnarar, sem keyptu málverkið árið 1994, getur vart hafa sett Ísland á hausinn árið 2008. En hvað veit ég?

Hvenær endar hin sér íslenska vitleysa? Vonandi verður sérstakur saksóknari eins duglegur við að lögsækja bankabófana og hann hefur verið í þessu nýupptekna fölsunarmáli. Fyrir nokkrum árum síðan var málverkafölsunarmálið talið eitt mesta og dýrasta mál landsins. Nú eru slík mál bara peanuts bæði hvað varðar stærð og kostnað.

bf6c200b165df26bf08deb3f0725afad.jpg

Tvær falsanir af 900 ?

766301.jpg

Fyrr í ár var samþykkt þingsályktunartillaga um ráðstafanir gegn málverkafölsunum. Ég skrifaði skömmu áður lítillega um málið hér á Fornleifi.

Í fyrradag kom svo upp enn eitt fölsunarmálið. Forvörðurinn Ólafur Ingi Jónsson hafði frétt af tveimur málverkum eftir Svavar Guðnason á uppboði hjá uppboðsfyrirtækinu Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn. Hann taldi sig þegar sjá, að um falsanir væri að ræða. Hann sendi um það greinargerð eða eitthvað þvíumlíkt til embættis Ríkissaksóknara, sem svo glæsilega tókst að klúðra fyrri fölsunarmálum með lagatæknilegu rugli. En nú átti greinilega að sýna röggsemi svo embættið sendi lögreglunni í Kaupmannhöfn tafarlaust beiðni um að koma í veg fyrir sölu málverkanna, því þau voru talin fölsuð.

Að morgni þess dags sem uppboðið átti að vera hafði lögreglan í Kaupmannahöfn samband við uppboðsfyrirtækið sem tók myndirnar af skrá, allt fyrir orð sérfræðings sem aðeins hafði séð ljósmyndir af málverkunum en ekki skoðað þær hjá uppboðsfyrirtækinu eða rannsakað. Þess verður þó að geta, að danska lögreglan vildi ekki gefa Bruun Rasmussen upp, hverjir hefði kært í málinu og hver héldi því fram að málverkin væru fölsuð. 

_lafur_forvor_u.jpg
Ólafur Ingi Jónsson forvörður Listasafns Íslands.

 

Íslenskir fjölmiðlar hafa nokkrir greint frá málinu og út frá þeim fréttaflutningi má ætla að málverkin séu m.a. talin fölsuð, þar sem þau eru máluð með alkyd litum (akryl) og er því haldið fram í fjölmiðlum að slík málning hafi ekki verið framleidd fyrr en eftir dauða listamannsins, Svavars Guðnasonar (1934-1988).  Í fyrri málum hefur einnig verið haldið fram að undirskriftin, signatúrinn, sé ekki Svavars sjálfs og að myndirnar séu viðvaningslegar. Þar að auki var því fleygt fram í fjölmiðlum nú að málverkin sem síðast voru á uppboði Bruun Rasmussens væru líklega máluð eftir fyrirmyndum.

Málverkin keypt árið 1994

Af uppboðsgögnum, sem því miður voru dregin til baka, má sjá úr hvaða safni ein myndanna var. Það voru hjón á Jótlandi sem voru þekkt fyrir listaverkasafn sitt. Dönsk listasöfn höfðu haldið sér sýningar á hlutum þess safns.  Sonur þeirra erfði öll listaverkin að þeim látnum. Eins og einn sýnandi verka foreldra hans sagði, þá var hann dreginn með á sýningar og listasöfn allan sinn barndóm, settur á baksætið í bílnum með bunka af Andrés Andarblöðum, meðan foreldrarnir keyptu inn listaverk og þræddi öll listsöfn hins siðmenntaða heims með hann á aftursætinu. Hann selur nú þessi verk sem hann hefur engan persónulegan áhuga á.  

Ég hafði samband við K.O. son hjónanna og hann var undrandi að heyra að mynd hans hefði verið tekin af uppboðinu og að hún væri nú í vörslu lögreglunnar í Kaupmannahöfn. Hann á kvittun fyrir kaupum málverkanna og voru þau keypt af foreldrum hans af galleríi í Grønnegade í Árósum 1994.

Vilhjálmur Bjarnason veit eitthvað sem Bruun Rasmussen veit ekki

Vilhjálmur Bjarnarson alþingismaður, einn þeirra sem setti fram þingsályktunartillöguna sem fyrr er nefnd, hélt því fram við RÚV í gær (24.9.2014) að honum væri "kunnugt um það að Bruun Rasmussen hafði vísbendingar um það áður að verkin væru fölsuð. Þannig að það var ósköp einfalt að leita þessara leiða. " Þetta bar ég í morgun undir Niels Raben hjá Bruun Rasmussen, sem sagði það af og frá. Hann hefði ekki vitað né haft neinar vísbendingar um að verkin væru hugsanlega fölsuð fyrr en hann fékk erindi frá Kaupmannahafnarlögreglunni, sem ekki vildi gefa upp hver á Íslandi kærði myndirnar sem falsanir.

Vilhjálmur Bjarnarson verður að skýra þessi orð sín, og nú er líklega komið að því að framkvæma aðrar "rannsóknir" en að dæma út frá ljósmyndum á vefsíðum. Það stenst einfaldlega ekki fræðilega og maður leyfir sér að lýsa furðu á vinnubrögðum Ríkissaksóknara, þó það sé greinilega komið í tísku af öðrum sökum.

Þáttur Ríkissaksóknara

Ég á mjög erfitt með að skilja, hvernig hægt er að fá Ríkissaksóknara að aðhafast nokkuð í máli nema að fyrir liggi einhvers konar rannsókn, t.d. ferð Ólafs Inga til Uppboðshúss Bruun Rasmussens í Bredgade í Kóngsins Kaupmannahöfn, þar sem hann hefð getað skoðað myndirnar gaumgæfilega. En það eru greinilega ekki venjulegar aðferðir Ólafs Inga eða stofnunar þeirrar sem hann vinnur fyrir. Eins má furðu sæta, að sú deild lögreglunnar í Kaupmannahöfn sem gerði verkin upptæk sl. þriðjudag hafi ekki viljað upplýsa hver hafi sett fram ákæru og á hvaða grundvelli. Þar með hefur danska lögreglan líklegast brotið dönsk lög segir mér lögfróður vinur minn.

Lesendur Fornleifs muna kannski eftir furðumyndunum 24 sem Ólafur Ingi sagði hollenskar og frá 17. öld. Þær voru nú ekki hollenskar og eru frá 18. öld og eru líklegast málaðar af Sæmundi Hólm, fyrsta Íslendingnum sem gekk á listaakademíu. Ólafur hélt meira að segja lærðan fyrirlestur á Listasafni Íslands um hollensku málverkin áður en ég sýndi fram á annað og meira, sjá hér og hér.

Enn er ég ekki búinn að sjá neinn rökstuðning frá Ólafi Inga Jónssyni fyrir yfirlýsingum hans um að 900 falsanir séu í umferð. Vissulega hafa verið falsanir í umferð á Íslandi, og dreg ég það ekki í vafa, en það gefur mönnum ekki "veiðileyfi" á listaverkasala og uppboðshús ef haldbærar sannanir liggja ekki fyrir. Enn hef ég ekki séð efnagreiningar eða lærðar greinar eftir Ólaf forvörð. Er ekki komin tími til fyrir Listasafn Íslands að gefa það út?  Er hægt að tjá sig um málverkafalsanir án þess? Er nóg að mæta með sjónvarpsmenn í gallerí, eins og Ólafur hefur gert í Reykjavík, og heimta að fá að rannsaka verk í beinni útsendingu. Hvað varð um hinn undirbyggða grun, svo ekki sé talað um grunninn?


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband