Færsluflokkur: Saga íslenskrar fornleifafræði

Enn um Ólafíu - og Gordon Childe

_lafia_einardsdottir_1268676.jpgÓlafía Einarsdóttir var fyrsti menntaði fornleifafræðingur okkar Íslendinga og fyrsta íslenska konan sem lauk prófi í fornleifafræði. Það gerði hún árið 1948. Hún stundaði nám sitt í 4 ár við University College i Lundúnum og lauk þaðan B.A. prófi í fornleifafræði.

Hún starfaði þó mjög stutt sem fornleifafræðingur (1951-52) og sneri sér að öðrum verkefnum og fræðum, ekki minnst vegna þess að samstarfið við Kristján Eldjárn á Þjóðminjasafni Íslands, þar sem hún kom til starfa árið 1951, gekk ekki sem skyldi. Of mikill ágreiningur var á milli fornleifafræðingsins og Kristjáns Eldjárns þjóðminjavarðar, sem ekki hafði löglegan titil í fornleifafræði. Ólafía sagði upp starfi sínu árið 1952.

Bjarney Inga Sigurðardóttir skrifaði árið 2009 B.A. ritgerð í fornleifafræði um Ólafíu, þar sem má lesa um árekstra þeirra Kristjáns og Ólafíu, sem bæðu voru viljasterkar og menntaðar persónur. Mig langar að benda mönnum á að lesa ritgerð Bjarneyjar til að kynnast í fljótu bragði störfum Ólafíu, þó kannski sé of mikið gert úr kvenmannsleysinu í fornleifafræði í ritgerðinni, eins og það hafi verið eitthvað samsæri. Og hefur ekki úr ræst? Nú er nær allir fornleifafræðingar á Íslandi kvenmenn fyrir utan örfáa veikburða karla.

Ólafíu Einarsdóttur dvelur nú mög veik á elliheimili í Kaupmannahöfn og hefur eiginmaður hennar Bent Fuglede gefið gömlum nemanda hennar leyfi til að birta greinar og ritgerðir eftir hana á academia.edu og taka hluta af bókasafni Ólafíu í von um það gæti nýst einhverjum öðrum en Ólafíu. Hef ég og aðrir notið góðs af því örlæti, líkt og aðrir íslenskir fornleifafræðingar hafa notið góðs af örlæti Ólafíu á síðari árum, þegar hún með eigin fé hefur styrkt útgáfu tímaritsins Ólafíu, rits íslenskra fornleifafræðinema. Það sýnir örlæti og áhuga Ólafíu á sínu upphaflega fagi einna best.

Eitt af þeim verkum Ólafíu sem Jens Ulff-Møller hefur birt er licentiatsritgerð hennar frá háskólanum í Lundi, sem einnig fjallar um tímatal líkt og doktorsritgerð hennar frá 1964. Þessi Fil.lic. ritgerð frá Lundi er ekki nefnd í ritgerð Bjarneyjar Ingu um Ólafíu, enda hefur ritgerðin aldrei verið gefin út. En nú er hún aðgengileg. Hún er að ákveðnu marki athyglisverð, þó langur tími sé liðinn frá ritun hennar, en gaman er að skoða hana í tengslum við doktorsritgerð Ólafíu. Ég er viss um að einhverjum þyki gaman að henni.

sia2008-0228_1268678.jpgÍ minni vörslu er nú bók V(ere) Gordon Childes, Prehistoric Communitis of the British Isles, sem Ólafía Einarsdóttir las spjaldanna á milli og notaði í námi sínu í London. Bókin er full af athugasemdum og nótum BA-nemans Ólafíu.

Fyrir mjög mörgum árum síðan, þegar ég og kona mín fórum í mjög fínt kaffiboð hjá Ólafíu á Stúdentagörðum í Reykjavík, þar sem Ólafía hafði tekið íbúð á leigu meðan hún var stödd á Íslandi, talaði hún mikið og mjög innilega um Gordon Childe (1892-1957), sem hefur haft mikil áhrif á hana. Þegar Gordon Childe var komin á eftirlaun í London árið 1956 kom hann á þriðja Víkingafundinn sem haldinn var í Háskóla Íslands. Kristján Eldjárn sagði síðar svo frá, að þegar Childe hefði verið spurður, hvers vegna ekki fyndust minjar frá steinöld á Íslandi, hefði svar hans verið stutt og laggott: "Lélegir fornleifafræðingar". (Sjá Andrésson, K.E. (1966). Ísland hefur enga forsögu: viðtal við dr. Kristján Eldjárn þjóðminjavörð. Tímarit Máls og menningar, 27, 352-365). Líklega var þetta nú húmor einfarans Childes við kjánalegri spurningu - en hver veit ...

Nær hefði þó verið að heyra betur sögur Ólafíu af Childe, sem valdi til sín fáa nemendur sem hann hafið trú á, stundum ekki fleiri en 5-6 á önn. Ólafía, sem á fermingaraldri stóð í rigningunni í Þjórsárdal og horfði á fornleifafræðingana og féll fyrir fræðigrein sem hún aldrei fékk að starfa við, var ein þeirra útvöldu.

Ég hef áður skrifað um Ólafíu Einarsdóttur hérHér má lesa frásögu annars fornleifafræðings, Nancy Sandars, sem naut leiðsagnar Gordon Childes um svipað leyti og Ólafía, og allt ber að sama brunni. Aðdáunin á Childe skín út úr hverri setningu.

fig1_web.jpg

Þegar Childe kenndi Ólafíu var fornleifadeild University College í London í þessu húsi. St. John´s Lodge.


Skammarleg vinnubrögð

karen_milek_1264526.jpgOft er fljótlega hægt að sjá, hvort gæði fræðigreina eru ásættanleg með því einu að athuga, hvernig farið er með heimildir. Ég læt mér jafnvel stundum nægja að skoða hvernig fornleifafræðingar og aðrir vitna í ritverk mín ef þau koma við sögu í vinnu annarra.

Oftast gera menn það siðlega og eftir gildandi reglum. En því miður hef ég upplifað annað. Þegar ég uppgötva vankanta á vinnu annarra þegar að mér snýr, er ég ekkert smeykur við að segja frá því. Ég hef t.d. greint frá því hvernig ungprófessor í HÍ í samvinnu við aðra gerði sig sekan um fræðilega óásættanleg vinnubrögð í tilraun sinni og annarra að gera skoðanir og niðurstöður mínar um aldur byggðar í Þjórasárdal að sínum (sjá hér).

Tilvitnanafúsk - Cambridge style?

Árið 2012 birtist greinin "The Roles of Pit Houses and Gendered Spaces on Viking-Age Farmsteads in Iceland" í hinu virta tímariti Medival Archaeology (56:2012) (sjá greinina hér) Ef tímaritið hefur áhyggjur á copyright-rétti greinarinnar, bendi ég þeim á að hafa samband svo ég geti sagt þeim frá gæðum greinarinnar sem þeir birtu. Það geri ég gjarna opinberlega á ensku og öðrum tungumálum.

Höfundur greinarinnar er Karen Millen (sjá mynd) og fjallar greinin um jarðhýsi og notkun þeirra. Í þessari annars áhugaverðri, en samt mjög ófullnægjandi grein með of mörgum fyrirframákveðnum tesum og vanþekkingu á því hvar jarðhýsi hafa fundist á Norðurlöndum, uppgötvaði ég, að vitnað var í mig. Þótti mér þetta afar undarlegt, því ég hef ekki hreyft svo mikið við þeirri frumtilgátu minni, að hugsanlega hafi fundist hluti af jarðhýsi á Stöng í Þjórsárdal. Það kemur aðeins fram í einni áfangaskýrslu minni frá 9. áratug síðustu aldar, og svo ekki meir, því ekki hef ég haft tök á því að rannsaka málið frekar. Nei, ekki var það nú hugsanlegt jarðhýsi á Stöng sem Milek ritaði um er hún vitnaði í ritverk mín í grein sinni um jarðhýsi.

Karen Milek fornleifafræðingur frá Kanada, sem starfar sem ungprófessor við Háskólann í Aberdeen, og segist sérhæfa sig í Íslandi, vitnar í stutta, 35 síðna, ljósritaða rannsóknarskýrslu (sjá ljósmynd neðar) sem ég skrifaði fyrir Vísindaráð árið 1991, eftir að ég hafði látið gera AMS kolefnisaldursgreiningar við Háskólann í Uppsölum með stuðningi frá Vísindaráði. Skýrslan var gefin Þjóðminjasafni Íslands, en ekki til þess að menn væru að klæmast á niðurstöðum hennar í bresku tímariti.

skyrsla_vilhjalms_1991.jpgKaren Milek hefur m.a. fengið Ph.D. gráðu út á þessa grein sína við Háskólann í Cambridge. Slíka gráðu er hægt að fá þegar menn skrifa greinar sem innihalda gallaða og algjörlega innistæðulausa tilvísun í "upplýsingu" í skýrslu eftir mig sem ber heitið Kolefnisaldursgreiningar (AMS) á sýnum frá fornleifa- rannsóknum í Þjórsárdal.

Mér til mikillar furðu vitnar Karen Milek í atriði (sjá bls. 87) sem alls ekki er að finna í skýrslu minni sem hún þykist vitnar í. Hún er að fjalla um jarðhýsi að Gjáskógum í Þjórsárdal. Ég fjalla alls ekkert um þann stað í skýrslu þeirri sem hún vitnar í. Milek láist einnig að greina frá því, að ritverk mitt sé ljósrituð skýrsla til Vísindaráðs og tileinkar hana ranglega Þjóðminjasafni Íslands (sjá heimildaskrá í grein Mileks, bls. 129). Þetta síðasta atriði sýnir mér, að annað hvort hefur Milek aldrei haft skýrslu mína á milli handanna, eða að hún kann alfarið ekki með rétt mál að fara.

Ekki er nóg með að rangt sé vitnað í eitthvað sem alls ekki stendur í skýrslunni, sem höfundur þykist vitna í; Einnig er sagt að skýrslan mín sé frá 1989. Umrædd skýrsla er frá 1991 og kemur það mjög greinilega fram á kápu skýrslunnar innanverðri, sem og af fylgiskjölum sem birt eru í skýrslunni.

Þetta eru einstaklega sóðaleg og óvandvirk vinnubrögð, höfundi og háskóla hennar til lítils sóma. Vona ég að Karen Milek biðjist formlega og opinberlega afsökunar á þessu í athugasemdum hér fyrir neðan, sem verða opnar í 50 daga frá birtingu greinar minnar.

Það er einfaldlega ekki rétt með farið hjá kanadíska fornleifafræðingnum Karen Beatrice Milek. Í téðri skýrslu eftir mig, sem Milek hefur greinilega aldrei lesið, þar sem hún getur ugglaust ekki lesið íslensku eða önnur Norðurlandamál sér til gagns, stendur ekkert um Gjáskóga eða aldursgreiningu á 1104 laginu. En það segist hún vitna í. Hvernig hún leyfir sér að halda því fram í ritgerð sem hefur verið dæmd hæf sem hluti af Ph.D. gráðu, er mér óskiljanlegt. Það er vitaskuld vandamal háskólans í Cambridge, en fyrst og fremst vandamál Mileks og þeirra fornleifafræðinga á Íslandi sem fóðra hana með röngum upplýsingum í algjöru ólæsi hennar á íslenska menningarsögu og fornleifarannsóknir.

Eða bara íslenskar aðferðir?

Mig grunar auðvitað, hvaðan þessi meinloka hjá Karen Milek er komin og kann engan annan að nefna sem heimildamann hennar en Orra Vésteinsson, sem Milek hefur starfað með. Meðal annarra þakkar hún Orra fyrir aðstoð við gerð ritgerðar sinnar í Medieval Archaeology. Prófessor Orri hefur einmitt framið sams konar heimildamisnotkun á því sem ég hef ritað.

Milek gæti vitaskuld einnig hafa gert þessa villu án nokkurrar hjálpar. Margir aðrir Íslendingar hafa lesið greinina yfir og lánað í hana efni. Enginn þeirra hefur séð þessa yfirlýsingargleði fornleifafræðingsins og tilvitnun í grein sem ekki inniheldur upplýsinguna sem vitnað er í. Það er neyðarlegt.

Grein Mileks má vel vera hin besta smíð, fyrir utan soralega yfirreið á niðurstöðum mínum. Hún heldur því t.d. fram jarðhýsin hafi verið "dyngjur" kvenna, þar sem konur sátu og ófu og unnu með ull - þótt ekki vilji ég útiloka að karlar hafi einnig unnið slík störf. En í doktorsritsmíðum vitnar maður ekki í eitthvað sem ekki hefur verið skrifað, og heldur ekki rangt í það sem hefur verið skrifað. Ef það eru munnlega upplýsingar, ellegar bréf sem maður vitnar í, eru til reglur fyrir slíkar tilvitnanir.

Siðareglur

Að lokum leyfi ég mér að vitna í "siðareglur" Félags Íslenskra Fornleifafræðinga, sem ég er ekki meðlimur í m.a. vegna þess að siðareglurnar hafa verið brotnar svo oft gegn mér og öðrum, að ég tel þær vera tvískinnung og yfirskin fyrir siðleysi sem viðhefst í íslenskri fornleifafræði :

  1. Fornleifafræðingum ber að sýna vinnu annarra fornleifafræðinga tilhlýðilega virðingu og mega ekki eigna sér verk þeirra eða hugmyndir.
  2. Fornleifafræðingar skulu í starfi sínu forðast óheiðarleika og rangfærslur. Ekki skulu þeir vísvitandi leggja nafn sitt við neinar athafnir af því tagi og ekki heldur umbera þær hjá starfsfélögum sínum.

Vonandi munu erlendir fornleifafræðingar sem vinna á Íslandi, og sér í lagi þeir sem ekki eru læsir á íslensku, kynna sér þessar reglur og læra. Því þær eru ágætar ef maður heldur þær. Margir Íslendingar hafa víst aðeins lög til að brjóta þau (sjá hér hvernig prófessor brýtur siðareglur fornleifafræðinga).

Erlendir fornleifafræðingar á Íslandi

En verri dæmi eru til um siðleysi erlendra fornleifafræðinga á Íslandi. Eitt sinn börðust bandarískir fornleifafræðingar sem leyft hafði verið að vinna á Íslandi innbyrðis líkt og hafin væri ný Sturlungaöld. Heimtufrekur stóramerískur imperíalisti, Thomas McGovern að nafni, sem síendurtekið braut fornleifalög á Íslandi reyndi t.d. allt sem hann gat til að bola öðrum bandarískum fornleifafræðingum, t.d. Kevin Smith, burt úr rannsóknum á Íslandi. "Iceland was not big enough for other American Archaeologists than Tom McGovern" virtist vera mottóið.

Íslendingar sem hann taldi í vegi sínum fengu líka að kenna á miskunnarlausum redneck-aðferðum prófessors McGoverns við Hunter College, City University New York (CUNY). Ég var einn þeirra "heppnu" sem lenti í einelti McGoverns, eftir að ég uppgötvaði galla hans og atferli. Hann sagðist mundu sjá til þess að allir bandarískir styrkir sem færu í rannsóknir á Íslandi myndu verða sendir "to the Soviets". Það er önnur saga og verri en heimildafúsk. Meira og nánar um það síðar.


Embættismannafornleifarannsóknarferðar- skandallinn 1987

hraunthufa87_1263577.jpg

Í ágúst 1987 hélt hópur íslenskra embættismanna og eiginkvenna þeirra í helgarferð að Hraunþúfuklaustri í Vesturdal í Skagafirði.

Þór Magnússon þjóðminjavörður gaf út rannsóknarleyfi til fornleifafræðings eins með sænskt pungapróf í fornleifafræði, og bauð svo vinum hans og kunningjum í helgarrannsókn norður í land til að grafa nokkrar holur í rústirnar í Vesturdal. Þátttakendur í helgarrannsókninni töldu m.a. sendiherra, fyrrverandi Þjóðleikhússtjóra, deildastjóra og hjúkrunarforstjóra. Þetta glæsilega lið klæddist bláum æfingagöllum líkt og að ferðinni væri heitið á diskótek. Aldrei áður hafði farið fram fornleifarannsókn á Íslandi sem um leið var tískusýning fyrir forljótan útilegufatnað.

Hvorki meira né minna en hálft tonn af hafurtaski blýantsnagaranna var flutt norður að Gilhaga í Skagafirði og þar beið þyrla Landhelgisgæslunnar eins og auðmjúkir þjónar embættismannanna og flutti pjönkur þeirra síðasta spölinn inn að Hraunþúfuklaustri. Hljómsveit Rúnars Gunnarssonar, Geimsteinn, hjálpaði einnig með að flytja pinkla og drykkjarföng ferðalanga í Skagafjörð. Rúnar heitinn var alltaf sami öðlingurinn.

Næstu tvo daganna gróf þetta fína fólk eins og það hefði etið óðs manns skít og árangurinn lét vitaskuld heldur ekki leyna á sér. Í Lesbók Morgunblaðsins birtist árið eftir hin ýtarlegasta ferðalýsing eftir Hrafn Pálsson deildarstjóra í heilbrigðisráðuneytinu. Þar eru góðar myndir að aðförunum og lýsandi mynd þar sem Þór Magnússon er sagður útskýra stein sem búið er að finna - En hvenær fær almenningur og skattborgarinn sem borgaði þyrluflugið útskýringar?

Niðurstöður?

Þetta gerðist allt meðan fornleifar frá rannsókninni á Stóru Borg eyðilögðust á Þjóðminjasafni Íslands vegna vanrækslu og áhugaleysis helgarfornleifafræðingsins Þórs Magnússonar. Annað eyðilagðist einnig (sjá hér).

Hvað kom svo út úr þessu helgarkrukki skrifstofublókanna? Svarið er: EKKERT. Engin skýrsla hefur birst og engin gögn virðast hafa verið skráð frá þessu helgarverkefni í ágústmánuði árið 1987. Engin sýni hafa verið tekin til kolefnisaldursgreininga, þó svo að grafið hafi verið niður á fornt eldstæði.

Reyndar hafði Þór Magnússon farið þarna um áður. Það var í ágúst 1973. Afraksturinn var líka rýr í það skiptið. Til að mynda tók Þór með sér í bæinn nokkra leggi og bein og túlkaði herðablað bein úr kind sem mannabein (sjá hér). Það eru þau greinilega ekki, og hefur sá sem skráði beinin einnig átt erfitt að leyna fyrirlitningu sinni á ruglinu er hann skrifaði þetta í aðfangabók Þjóðminjasafnsins:

Mannabein úr Hraunþúfuklaustri. Minjar sem Þór Magnússon þjóðminjavörður afhenti 29/8 1973 sem fundust  við rannsókn þar. Herðablað og tveir beinhlutar. Fannst í rúst 1, skála. Mér sýnist þetta nú vera herðablað úr stórgrip, líklega nautgrip. Beinið neðst fyrir miðju er fjærendi af lærlegg líklega af kind/geit og beinið lengst til vinstri er líklega fjærendi af sveif úr kind/geit.

Fáeinar ljósmyndir, vitagagnlausar, frá rannsóknum Þórs á Hraunþúfuklaustri árið 1973 eru síðan skráðar á Sarpi. Sannast sagna er mestur fengur af vísu Kristjáns bónda Stefánssonar í Gilhaga um hina grafandi embættismenn.

Fornar götur gengið, riðið

geyst er stefnt í hlað.

Þannig herjar Henson-liðið

helgan klausturstað.

hraunthufa87b.jpg

Sigurður Þórarinsson hafði einnig grafið holur í rústir á Hraunþúfuklaustri árið 1972. Holur jarðfræðinga gefa hins vegar mjög takmarkaðar upplýsingar um jarðlagaafstöðu sem fornleifafræðingar sækjast eftir, en Sigurður greindi þó frá því að hann í botni einni holunnar hafi fundið ljósa gjóskulagið úr Heklugosi árið 1104 yfir gólflagi. Fyrst var greint frá því í Morgunblaðinu árið 1972 (sjá hér).

Kristján Eldjárn ritaði síðan ágætt yfirlit, Punktar um Hraunþúfuklaustur, í Árbók fornleifafélagsins árið 1973, þar sem hann fer yfir rannsóknarsögu rústa og tilgátur um eðli rústanna að Hraunþúfuklaustri í Vesturdal.

Embættismannahelgarsportgröfturinn árið 1987 bætti engu við þá sögu, nema því að embættismenn gátu farið í helgarfornleifarannsókn í Henson-göllum í boði þjóðminjavarðar til að raska rústum engum til gagns og ánægju nema sér sjálfum.

Quo vadis?

Nú er öldin önnur. Jarðsjá, radarar og jafnvel vinsældalistar fréttastofa eru notaðir til að finna klaustur nú á dögum, og þau voru greinilega stærri á Íslandi en víðast hvar á Ítalíu, ef trúa má nýjustu niðurstöðum frá Þykkvabæjarklaustri. Ef rétt verður haldið á spöðum og skeiðum finnst líklega embættismaður í bláum Henson-galla á Hraunþúfuklaustri, sem er vel á við "fílamann" og tvær eskimóakonur að Skriðuklaustri, þó þau hafi blessunin reynst vera frekar þunnur þrettándi þegar upp úr holunni var staðið.

En ef aldursgreining Sigurðar Þórarinssonar sumarið 1972 voru réttar hefur nú vart verið klaustur í Vesturdal og líklegast hafa rústirnar dregið nafn sitt af þeim lokaða (Lat. claustrum) dal sem bæjarstæðið er í.

hraunthufa87c.jpg

Auxiliator archaeologorum


Rannsökum nasistana í Sjálfstæðisflokknum!

nasistarreykjavik.jpg

"Það hefur verið farið með stjórnmálastarfsemi hinna íslenzku þjóðernisinna sem feimnismál og enginn virðist hafa haft áhuga á því að fara nánar ofan í tengsl manna hér á Íslandi við Þýzkaland á þessum árum."

Svo skrifaði Styrmir Gunnarsson á bloggi sínu í dag. Ekki held ég að þetta sé alls endis rétt hjá Styrmi. Þór Whitehead hafur skrifað býsnin öll og líka um íslenska nasista, en mest hefur hann skrifað sína styrjaldasögu út frá íslenskum, breskum og bandarískum heimildum. Jökulssynirnir, þeir Hrafn og Illugi hafi skrifað góða bók um Íslenska nasista (meðlimi Flokks Þjóðernissinna) án þess þó að geta heimilda, og  Ásgeir Guðmundsson hafi velt fyrir sér íslenskum nasistum í grein og bók sinni Berlínarblús, en einnig með takmarkaðri komu í erlend skjalasöfn.

9a8b3490ed04f8484e3918dc0f291e25.jpg

ec700bccc3e330886e39722353c0b752.jpg

78487821_10157164795676843_8128157480908750848_oHver varð að lokum "móðurflokkur" þessara manna? Draumkennd áadýrkun og ást á brjóstvöðvum 1942. Sólkrossinn á skildinum, sem t.d. norskir nasistar notuðu, sómdi sér nýlega á einkaþotu Björgólfs Thors.

Ekki tel ég þó að þessir aðilar og aðrir sem hafa skrifað hér og þar um íslenska nasista hafi ekki misst af svo miklu í Þýskalandi. Þar er ekki um auðugan garð að gresja þegar kemur að upplýsingar um áhuga þýskra nasista og yfirvalda á Íslandi eftir 1933. Margt eyðilagðist kannski í stríðinu og tengsl íslenskra manna við flokk og foringja í Þýskalandi voru líka takmörkuð. Það er ekki eins og rjómi þjóðarinnar hafi verið meðlimir í Flokki þjóðernissinna á Íslandi. Sumir af þessum körlum voru ótíndir tukthúslimir og innbrotsþjófar. Afi Jón Geralds Sullenbergers, Gunnar Jóelsson, var t.d. einn þessara manna og með honum í slarkinu var Haukur Mortens. Þeir félagar reyndu eitt sinn lukkuna með því að gerast laumufarþegar (sjá hér og hér).

nazi-march-reykjavik-iceland.jpgÞað voru helst menningarlega þenkjandi Þjóðverjar, og margir þeirra nasistar, sem höfðu áhuga á Íslandi. Íslendingum sem tengdust félaginu Germaníu eða sem meiri eða minni nasistar gengu í Nordisches Gesellschaft var boðið til Þýskalands, þættu þeir nógu áhugaverðir. En Þýskaland sem lagði kapp á að byggja upp hernaðaráform sín vörðu takmörkuðu fé í Ísland og settu t.d. lok á fyrirhugaðar rannsóknir á Íslandi á vegum Ahnenerbe-SS sumarið 1939.

Þjóðverjar búsettir á Íslandi voru vitanlega margir hverjir gargandi nasistasvín, en þó ekki í betri samböndum við Das Vaterland en íslensku nasistarnir.

Sem bein tengsl við Þýskaland má nefna ferðir sem ýmsum Íslendingum var boðið í. Gunnar Gunnarsson hitti Hitler. Öðrum sem boðið var var María Markan, Stefán Islandi, Jóns Leifs, Guðmundur Kamban (sjá greinar mínar Kamban er ekki hægt að sýkna og Kamban og Kalkúnninn). Guðmundar frá Miðdal, rektorar HÍ Alexander Jóhannesson rektor og Níels Dungal og fleiri aðdáendur þýskrar menningar. 

Því er haldið fram að þetta fólk hafi ekki verið nasistar, en það hreifs með að mikilli áfergju. Matthías Þórðarson þjóðminjavörður og þingmaður fékk sent mikið magn af alls kyns áróðursefni frá Berlín. Því var vísvitandi eytt af Þór Magnússyni hér um árið þegar tekið var til í skjalasafni Matthíasar (sjá grein mína Þegar Matthíasi var hent á haugana). Mér tókst að bjarga örlitlu broti af nasistableðlunum sem Matthías fékk. Það verður að leita á öskuhaugunum til að finna restina.

Hvað varðar tengsl flokksbundinna íslenskra nasista við móðurflokkinn er ljóst, að hinn kynlegi kvistur Eiður Kvaran fékk einhvern stuðning frá móðurapparatinu í Þýskalandi fyrir "vísindastörf" sín (sjá niðurstöður rannsókna minna á sögu hans og félaga hans í greininni Heil Hitler og Hari Krishna). Einstaka nasisti var einnig betur gefinn en meirihlutinn í flokknum. Nasistinn Davíð Ólafsson er sagður hafa stundað nám í hagfræði í Þýskalandi, en því lauk hann aldrei, þótt því sé haldið fram af vefsíðu hins háa Alþingis (sjá grein mína Próf seðlabankastjóra, alþingismanns og nasista).

davi_lafsson_og_flaskan.jpg

Davíð kyssir bokkur með félögum úr áður en hann hélt til Þýskalands til "náms".

Hann hafði þó aldrei fyrir því að segja okkur um samskipti sín við nasista í Þýskalandi. Þeir gáfu honum ekki einu sinni titil á pappír fyrir heimsóknina.

"Foringinn" og Þýskaland

Gísli Sigurbjörnsson í Ási (einnig kenndur við Grund), einn af foringjum íslenskra nasista, skrifaði örugglega einhver bréf til kollega sinna í fyrirheitna landinu, en hvar þau eru niður komin er engin leið að vita. Sjálfur brenndi hann bréfasafn sitt frá þessu tíma líkt og flestir flokksbræður hans og stuðningsmenn. Þýska utanríkisþjónustan hefur ekkert um hann og heldur ekki Bundesarchiv. Ég hef heldur ekkert fundið sem vísað gæti til skrifa Knúts Arngrímssonar við yfirvöld í Þýskalandi. Ég hef leitað.

litli_ariinn.jpg

Árið 1938 útvegaði Gísli í gegnum sambönd sín við Þýskaland, þjálfara fyrir Knattspyrnulið Víkings.

En er ekki fremur hlægilegt að fyrrverandi ritstjóri blaðs sem birti minningargreinar um Gísla í Ási sé að biðja um rannsókn á tengslum hans við Þriðja ríkið, þegar ekkert kom fram um nasisma Gísla í minningargreinum um hann í Mogganum árið 1994. Afneitunin var algjör. Hvað veldur áhuganum nú? Er Styrmir að reyna að skaffa ríkisstyrk handa einhverjum ættingja til að stunda "rannsóknir" við HÍ?

Guðbrandur "Bralli" Jónsson

bralli.jpgMenn eins prófessor Guðbrandur Jónsson, sem ekki voru flokksbundnir, en heilluðust af Hitler, voru líklegar beintengdari við Þýskaland en pörupiltarnir og slagsbræðurnir í Þjóðernissinnaflokk Íslands sem síðar urðu margir hverjir góðir Sjálfstæðismenn. "Bralli", sem af einhverjum furðulegum ástæðum taldi sig vera krata, var einn þeirra sem dreymdi um að gera þýskan prins og nasista að konungi Íslands.

Var Guðbrandur óspart notaður til Þýskalandstengsla, t.d. þegar vinur hans Hermann Jónasson vildi varpa gyðingum úr landi. Þá þýddi Guðbrandur bréf yfir á þýsku, þar sem dönskum lögregluyfirvöldum var sagt hvað þau ættu að gera við gyðingana ef Danir vildu ekki sjá þá (Sjá bók mína Medaljens Bagside (2005) sem má fá að láni á íslenskum bókasöfnum sunnan og norðan heiða). Guðbrandur hafði fyrr á öldinni starfað fyrir utanríkisþjónustu Þjóðverja. Stærra idjód hefur víst aldrei fengið prófessorsnafnbót á Íslandi fyrir ekkert annað en að vera sonur föður síns. Stórmenntaður gyðingur, Ottó Weg (Ottó Arnaldur Magnússon) fékk hins vegar aldrei vinnu við neina menntastofnun á Íslandi (Sjá grein mín Gyðingar í hverju húsi).

Í skjalsöfnum Danska utanríkisráðuneytisins má sjá hvernig Danir fylgdust grannt með Íslendingum, sem utanríkisþjónustunni þótti hafa of náin sambönd við nasista. Það hef ég skrifað um á bloggum mínum. En í skjalsöfnum í Kaupmannahöfn eru ekki heimildir finna um íslenska flokksbundna nasista nema Gísla í Ási (Grund).

Styrmir telur Ísland nafla alheimsins líkt og margur landinn

Mig grunar að Styrmir Gunnarsson falli í vangaveltum sínum í þann hyl sem margir Íslendingar eiga það til að drukkna í í heimalningshugsunarhætti sínum. Þeir halda að Íslandi hafi veið eins konar nafli alheimsins sem allir höfðu og hafa áhuga á.

Vissulega höfðu Þjóðverjar og sjálfur Hitler áhuga á Íslandi, hernaðarlega séð, en ekki fyrr en mjög seint (sjá hér). Í dönskum skjalasöfnum hef ég fundið upplýsingar um að enginn áhugi hafi verið hjá Þjóðverjum þegar ruglaður Íslendingur í Kaupmannahöfn bauð Þjóðverjum bóxítnámur og hernaðaraðstöðu á Íslandi (sjá hér), en Þjóðverjar töldu manninn snarruglaðan. Danir ákváðu að ákæra Íslendinginn ekki þó hann hefði oft gengið á fund þýsks njósnara sem þeir dæmdu til fangelsisvistar, manns sem ég hef sýnt fram á að hafi viðurkennt það árið 1945 að hafa myrt Karl Liebknecht árið 1919 (sjá neðarlega í þessari grein)

Guðmundur Kamban, sem naut góðs af nasistaapparatinu, þó hann væri ekki skráður í flokkinn svo vitað sé. Hann elskuðu Þjóðverjar vegna þess að hann var menningarfrömuður sem Þjóðverjar elskuðu að sýna sem vini nasismans. Kamban gerðist líka aðalsérfræðingur Flokksins í miðaldakalkúnum (sjá sjá greinar mínar Kamban er ekki hægt að sýkna og Kamban og Kalkúnninn). Reis þar líklegast hæst virðuleiki Íslendinga í Þriðja ríkinu, fyrir utan ferð Gunnars Gunnarsson til Þýskalands og Hitlers árið 1940.

gunnar_hittir_hitler_1a_lille_1172715_1260921.jpg

Þessa mynd og aðrar af Gunnari í ferð sinni fyrir nasistaflokkinn í Þýskalandi vill Gunnarstofa á Skriðuklaustri ekki sýna gestum sínum, og heldur ekki FB síðan Gamlar Ljósmyndir, sem stjórnað er af gömlum harðlínustalínista og mönnum sem komnir eru af karlinum sem seldi Gunnari Skriðu. Allir afneita því að Gunnar hafi verið nasisti. Það er sjúkleg afneitun.

Nasistar eru að kjarna til mjög hlægilegt lið. Ekki ósvipað ISIS og baklandi þeirra morðingja í dag. En hlægilegt fólk getur vissulega líka verið hættulegt, eins og mörg dæma sanna.

En þegar stór hluti Flokks Þjóðernissinna var ósendibréfsfær hópur götustráka með drykkjuvandamál, og einstakra sona velmegandi Dana á Íslandi og íslenskra kvenna þeirra, er líklegast ekki um auðugan garð að gresja fyrir þá sögu sem Styrmir vill sjá og hvetur Illuga Gunnarsson til að veita fé í.

Eins og Illugi sé ekki búinn að gera í nóg í buxurnar með dauðanum í moskunni Feneyjum. Margt gott hefur þegar verið skrifað um íslenska nasista af leikum sem lærðum, og heyri undan mér að á Íslandi sé blaðamaður að skrifa ekki meira né minna en 800 síðna verk um stríðárin. Kannski verður það betra en það sem sagnfræðingar hafa boðið upp á. Hann leitar samt grimmt í smiðju sérfræðinga og heimtar að fá efni hjá þeim lærðu sér að kostnaðarlausu. Ég hef látið hann hafa efni, en sé eftir því, því ugglaust þakkar hann ekki fyrir stafkrók af þeim upplýsingum eða þær myndir sem ég hef látið honum í té.

Nasistar og Sjálfstæðisflokkurinn

En Styrmir gerir á bloggi sínu einfaldlega of mikið úr þessum drulludelum sem þrömmuðu um götur Reykjavíkur á 4. áratugnum, en urðu síðar góðir þegnar í Sjálfstæðisflokkunum.

Nær væri fyrir Sjálfstæðisflokkinn, ef prófessor Hannes Hólmsteinn Gissurarson gerir það ekki af sjálfsdáðum, að flokkurinn veitti eigið fé í að skoða sögu áhrifa nasistanna í Sjálfstæðisflokknum og gera upp við þá fortíð sína, þegar gyðingahatarar, ofstopamenn og jafnvel svikahrappar gengu í flokkinn; Að það verði með rannsóknum skýrt hvernig "fyrrverandi" nasistar gátu orðið að flugmálastjórum, bankastjórum og lögregluyfirvaldi.

Ég man svo heldur ekki betur en að nasistar sjálfir hafi haldið því fram að Gísli Sigurbjörnsson hafi stofnað nasistaflokkinn í bróðurlegu samstarfi við Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins (sjá hér). Ætli til séu heimildir um það í Valhöll? Eða ríkir þar líka afneitunin ein líkt og hjá mörgum íslenskum kommum?


Fornleifafræðingar ásakaðir um eyðileggingar

amb_snaefellsnes-5.jpg

Haraldur Sigurðsson jarðfræðingur birtir í dag (23.12. 2014) athyglisverða og líkast til réttmæta skammarræðu á vinsælu bloggi sínu, þar sem hann segir frá röskun fornleifa að Gufuskálum, sem má rekja til slælegs frágang fornleifafræðinga á rústum sem þeir hafa verið að rannsaka þar á síðastliðnum árum.

Fornleifur gerði eftirfarandi athugasemdir við blogg Haralds, sem vitnaði í grein í Fréttablaðinu 22.12.2013 (bls. 2), en blogg Haralds skýrði málið enn frekar en Fréttablaðið. Hér er athugasemd mín:

Ekki held ég að meginþorri íslenskra fornleifafræðinga verðskuldi kaldar kveðjur þínar, Haraldur, hér á Þorláksmessu.

Rannsóknin að Gufuskálum er gerð af Fornleifastofnun Íslands, sem þrátt fyrir hið fína "opinbera nafn" er sjálfseignarfyrirtæki. Rannsóknin var unnin í samvinnu við NABO, sem eru samtök sem stofnuð voru af bandarískum fornleifafræðingi, Thomas H. McGovern, sem gengið hefur uppi með ofstopa í öðrum löndum en BNA, til að halda uppi deild sinni við CUNY. McGovern þessi skrifaði mér einu sinni og hótaði mér að sjá til þess að ég yrði útilokaður frá íslenskri fornleifafræði og að allir peningar frá Bandaríkjunum sem hefðu annars farið í rannsóknir á Íslandi yrðu sendir "to the Soviets". Þessi maður og lið hans byrjaði eitt sinn rannsóknir á Ströndum, án þess að hafa tilskilin leyfi til þess. Þá vann ég með honum, en ákvað þegar að hætta er ég uppgötvaði hvernig hluti rannsóknarliðsins hunsaði íslensk lög. Í kjölfarið fékk ég bréf, þar sem mér var hótað og þegar ég kom til starfa á Þjóðminjasafni Íslands árið 1993, sendi McGovern bréf til setts Þjóðminjavarðar Guðmundar Magnússonar, þar sem ég var illilega rægður.

Þess vegna undrar frágangurinn á rannsökuðum minjum að Gufuskálum mig ekki. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem NABO og Fornleifastofnun Íslands skilja minjar eftir sig í lamasessi og óvarðar, eftir að þeir hafa framið strandhögg fyrir fornleifa-bissness sinn.

Í skýrslu Fornleifastofnunar yfir skráningar á fornleifum að Gufuskálum, er vitaskuld ekki minnst á þetta rask.

Ljóst er að yfirvöld verða að grípa inn og láta aðra rannsaka á Gufuskálum til bjarga því sem bjargað verður.

Árið 2007 skrifaði ég einnig um aðfarir Fornleifastofnunar Íslands að fornleifum í Hringsdal við Arnarfjörð árið 2007. Lítið var gert, en eigendur fyrirtækisins Fornleifastofnunar Íslands æstu sig víst mikið út af gagnrýninni við alla aðra en mig, þó ég hefði afhjúpað slæleg vinnubrögð þeirra í grein sem ég kallaði Kumlarask.

Myndin efst er frá heimsókn fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Luis E. Arreaga, hjá fornleifafræðingum að Gufuskálum. Sendiherrann skrifaði þetta á blog sitt: The archeological dig at Gufuskálar is a great example of the longstanding partnership between American and Icelandic premiere scientific institutions (Sjá hér). Sendiherrann hefur vonandi ekki vitað af eyðileggingu og lögleysu þeirri sem á stundum hefur fylgt verkefnum NABO-hópsins og "premier institutions".


Furðufréttavertíðinni bjargað

herjolfsbaer_vefur.jpg

 

Ég var að verða alveg vonlaus eftir furðufréttum úr fornleifafræðinni árið 2014. Sigmundur Davíð hefur víst svelt allar fornleifarannsóknir eftir að hann gerðist yfirfornvörður landsins með hjálp einhverjar framsóknarpíu af Þjóðminjasafninu.

En í haustbyrjun var skemmtanariðnaðinum bjargað. Steinunn Kristjánsdóttir, sem hefur skemmt okkur mikið gegnum árin með "eskimóum" og "fílamönnum" sem hún hélt um tíma fram að hefðu verið sjúklingar á Skriðuklaustri, sagði nýlega frá "hálfgerðum þorpum" við klaustur á Íslandi. Þar hafa líklega búið hálfgerðir þorparar, eins og oft síðar á Íslandi.

50_thorp.jpg


Nú bætir Bjarni Einarsson um betur, þegar hann heldur því fram að hann hafni niðurstöðu Margrétar Hermanns-Auðardóttur um að byggð hafi hafist í Vestmannaheyjum á sjöundu öld. Hann er reyndar ekki sá fyrsti sem það gerir.

Bjarni segir. " Áður hafa verið leiddar að því líkur að fólk hafi búið í Vestmannaeyjum á tímabilinu 600-800, meðal annars svokallaðir papar, sem voru írskir og skoskir munkar." Þetta er ekki alveg rétt eftir Margréti Hermanns-Auðardóttur haft.

Bjarni segist hins vegar sjálfur með aðstoð jarðsjár og Ármanns Höskuldssonar eldfjallafræðings geta sagt að byggð hafi hafist örlítið fyrr í Herjólfsdal en um 871. 

Það þarf ekki veðurbarinn jarðfræðing með sandpappírsbarka og jarðsjá til að sjá það. Um það hefur þegar verið ritað. Sjá t.d.  hér.  En gaman er að fleiri rústir hafi fundist umhverfis tætturnar sem Margrét rannsakaði í Herjólfsdal (sjá efst) á sínum tíma. Hún hefði örugglega líka fundið þær hefði hún haft aðgang að jarðsjá og yfirlýsingaglöðum sargbarka úr jarðfræðingastétt.

Afætuháttur íslenskra fornleifafræðinga er orðinn afar leiðgjarn. Geta menn ekki gert neitt frumlegt?


Heil Hitler og Hari Krishna

gestur_3bb.jpg 

Eiður S. Kvaran og Wolf Helmuth Wolf-Rottkay tengjast sögu íslenskrar fornleifafræði óbeint. Árið 1936 námu þeir ólöglega á brott mannabein úr miðaldakirkjugarðinum að Skeljastöðum í Þjórsárdal (sem sést hér á myndinni fyrir ofan sem var tekin er miðaldabærinn á Skeljastöðum var rannsakaður árið 1939). Beinin fóru þeir með af landi brott. Þau átti að nota í rannsóknir á Greifswalder Institut für menschliche Erblehre und Eugenik, stofnun fyrir mannerfðafræði og mannkynbætur við háskólann í Greifswald. Rasísk mannerfðafræði var grundvallargrein í nasismanum og spratt upp fjöldi háskóladeilda um allt Þýskaland, sem starfaði eftir kynþáttastefnu nasistaflokksins.

Kvaran

Árið 1936 kom til sumardvalar á Íslandi Eiður Sigurðsson Kvaran (1909-1939), sem stundað hafði nám í sagnfræði í Þýskalandi og fengið þar doktorsnafnbót í þýskri kynbótamannfræði sem var reyndar ekki meira virði en pappírinn sem örstutt ritgerð hans var prentuð á. Ritgerðin bar hið hjákátlega nafn: Sippengefühl und Sippenpflege im alten Island im Lichte erbbiologischer Betrachtungsweise (sem ef til vill má útleggja sem: Ættartilfinning og frændsemi á Íslandi að fornu í ljósi erfðafræðilegar nálgunar).

ei_ur_kvaran_b.jpg

Eiður S. Kvaran var heittrúaður nasisti og einnig dyggur liðsmaður í Þjóðernishreyfingu Íslendinga. Það er engum vafa undirorpið um eldmóð Eiðs í nasismanum eða um áhuga hans á nasískri erfðafræði, kynbótastefnu sem og kynþáttastefnu. Hann byrjaði að stunda rasistafræðin eftir dvöl á heilsuhæli í Sviss haustið 1930, en þessi kvistur af Kvaransættinni gekk ekki heill til skógar á þeim árum sem hann dýrkaði nasismann.

Næstu skólaárin dvaldi hann í München  og sótti fyrirlestra hjá vafasömum fræðimönnum í mannfræði og kynbótastefnu, eins og þjóðarmorðingjanum Theodor Mollison (sem var lærifaðir Auschwitzlæknisins Josefs Mengele) og Fritz A. Lenz

Í bréfi til háskólans í Greifswald dags. 11. janúar 1934 upplýsir Eiður Kvaran um stjórnmálastarfsemi sína á Íslandi, m.a. um að hann hafi á fyrri hluta árs 1933 verið ritstjóri málgagns Þjóðernishreyfingar Íslendinga, nasistaritsins Íslenskrar Endurreisnar. Hann upplýsti einnig að borgaralegir flokkar á Íslandi hefðu horft þegjandi og hljóðalaust á uppkomu marxismans á Íslandi og að hann sjái því það sem skyldu sína að berjast gegn honum. Hann upplýsir einnig háskólayfirvöld í Greifswald um, að hann sé með verk í vinnslu um nauðsyn kynbótaráðstafana (rassenhygienischer Maßnahmen) á Íslandi. 

dd2d098c86.jpg
Nasistar í Hátíðarsal háskólans í Greifswald.

Með Eiði til landsins kom eins og fyrr segir annar nasisti, ungur þýskukennari og norrænufræðinemi Wolf Helmuth Wolf-Rottkay frá Greifswald. Eiður Kvaran hafði kennt honum íslensku við háskólann í Greifswald. Þeir héldu í Þjórsárdalinn og rótuðu þar upp beinum í kirkjugarðinum við Skeljastaði. Talið er að Eiður og Wolf-Rottkay hafi tekið með sér um 30-35 beinagrindur til Þýskalands, en líklegast voru það aðeins höfuðkúpur sem þeir fluttu úr landi.

rottkay.jpg
Wolf Helmuth Wolf-Rottkay, gerðist meðlimur í NSDAP árið 1933 og Algemeine SS árið 1938. Mynd sem birtist í Morgunblaðinu.

 

Hvorki Eiður né Wolf Helmuth höfðu nokkrar fræðilegar forsendur til að "rannsaka", eða hvað þá heldur heimild til að ræna jarðneskum leifum fornra Íslendinga. Þeir félagar fóru í Þjórsárdal með því markmiði að fá sér þar beinagrindur/höfuðkúpur til mannfræðirannsókna. Ætlun þeirra var fara með þessi bein á nasíska mannfræðistofnun, Greifswalder Institut für menschliche Erblehre, sem var undir stjórn prófessors Günther Just, sem veitti Eiði doktorsgráðu sína. Just starfaði upphaflega fyrir og síðar í samvinnu við Rassenpolitisches Amt sem var hluti af NSDAP, þýska nasistaflokknum. 

Söguna af þessari beinatínslu Eiðs Kvarans, Wolf Hellmut Wolf-Rottkays og nokkurra íslenskra nasista sagði Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur frá í útvarpserindi árið 1964. Síðar kom frásögnin út í ágætri grein í Árbók Hins Íslenzka Fornleifafélags árið 1967 (sjá hér) sem bar heitið Beinagrindur og bókarspennsli.

Áður en Sigurður heitinn Þórarinsson birti grein sína um rannsókn Eiðs og Rottkays, hafði Kristján Eldjárn þjóðminjavörður samband við Rottkay, þar sem hann var kennari í þýsku og germönskum fræðum á Salamanca á Spáni. Rottkay skrifaði Eldjárn:

„Mér þykir ákaflega leitt, að ég get varla orðið yður að miklu liði í beinagrindamáli þessu, sem þér nefnið, en sem von er eftir því næst þrjátíu ár stríðs, tjóns og endurreisnar man ég heldur lítið um ferð okkar Eiðs til Skeljastaða. Ég get því ekki einu sinni sagt með fullri vissu, hvort ferðin hafi verið farin til Skeljastaða, eða hvort beinagrindurnar eða heldur mannabein þessi hafi fundizt þar eða á einhverjum öðrum stað í þeirri ferð, eða hve mörg mundi hafa verið. Beinin munu síðan hafa verið flutt til Þýzkalands, helzt til Greifswald, en ekki man ég hvort þau voru á skipinu á ferð okkar frá Íslandi þetta ár eða um örlög þeirra í Greifswald. Væri þó hugsandi, að próf. Just, sem þá var prófessor i mannfræði og erfðafræði í Greifswald, gæti sagt meira um þetta efni. Hann er sagður fyrir nokkrum árum kominn til Tübingen. Spennslið, sem þér skrifið um í bréfinu, hlýtur að hafa verið með eignum Eiðs Kvarans í Greifswald, þegar hann dó. Þær voru geymdar af bæjarstjórninni eftir andlát hans, en eins og þér vitið skall stríðið á fáum vikum eftir dauða hans. Virðist mér efasamt, hvort hlutirnir hafi nokkru sinni komizt til Íslands, þar sem landshornið þetta var hertekið af Rússum 1945". Kristján Eldjárn bætti svo við eftirfarandi athugasemd sem ritstjóri Árbókarinnar: "Eftir þetta svar virðist vonlitið að fá fyllri svör frá Þýzkalandi um Skeljastaðaferðina 1935. Ritstj."

gestur_8b.jpg
Kirkjugarðurinn í Þjórsárdal sumarið 1939.
 
img_0023bb.jpg
Beinagrind í kirkjugarðinum að Skeljastöðum.

 

Wolf-Rottkay

Ferill Wolf Helmuth Wolf-Rottkay var afar einkennilegur. Hann var argur nasisti líkt og Eiður Kvaran. Eiður Kvaran sá þó aldrei "bestu ár" helstefnu þeirrar sem hann fylgdi, því hann lést úr berklum í Greifswald árið 1939. 

ei_urverstarb.jpg

 Margar tilkynningar um dauða Eiðs voru birtar í dagblöðum í Greifswald.

wolfminnisteids.jpg

Wolf Hellmuth Wolf-Rottkay fæddist í Berlín, sonur leutnants í þýska hernum. Hann ólst að hluta til upp í Oberstgau í Allgäu í SV-Þýskalandi. Þar sem hann fékk einkakennslu eftir barnaskóla, en tók síðar gagnfræðapróf í bænum Kempten. Fjöskyldan flutti síðan til Garmisch-Partenkirchen, þar sem hann hann fékk einnig einkakennslu. Vegna þrálát lungnakrankleika var pilturinn sendur til Davos í Sviss, þar sem hann tók stúdentspróf. 1930-1931 stundaði hann nám í enskum málvísindum við háskólann í Rostock og München. 1931-32 stundaði hann nám og lauk prófi í ensku við túlkadeild verslunarháskólans í Mannheim. Hann vildi samkvæmt upplýsingum sem hann gaf háskólanum í Greifswald halda áfram námi í ensku en einnig í norrænum málvísindum sem og "Rassen- und Vererbungslehre", en vegna fjárskorts settist hann ekki á skólabekk eftir prófið í Mannheim, en hélt til Svíþjóðar, þar sem hann var gestur sænsk vinar síns. 

1. janúar 1933 gekk Wolf-Rottkay í Þýska nasistaflokkinn, NSDAP, og varð félagi númer 433014. Þá vænkaði hagur hans í háskólakerfinu. Eftir sumardvöl í Svíþjóð og Danmörku 1933, stundaði hann nám við Háskólann í Frankfurt í enskum og norrænum málvísindum. Á vorönn 1934 sat hann fjórar annir í sömu greinum og þar að auki Vererberungswissenschaft við háskólann í Greifswald. Hann framfleytti sér m.a. við málakennslu og þýðingar. M.a. þýddi hann úr sænsku yfir á þýsku. Árin 1935, 1936 og 1937 dvaldi hann samanlagt 10. mánuði á Íslandi, þar sem hann stundaði m.a heimildasöfnun og eins og fyrr greinir beinasöfnun, eða öllu heldur beinaþjófnað, í Þjórsárdal.

Í byrjun júlí 1938 kvæntist hann vísindateiknaranum Ursulu Wilczek, sem mest vann við að teikna landakort og mála nái í Greifswald, og vann hún lengstum fyrir sér fyrir teikningar sínar af líkum sem birtst hafa í mörgum líffærafræðibókum læknanema um allan heim. Í september 1939 var hann formlega útnefndur sendikennari í þýsku við Háskóla Íslands af Reichsminiser der Auswartiges (utanríkisráðherra, sem þá var Joachim Ribbentrop), og rektor háskóla Íslands, Níels P. Dungal. Wolf-Rottkay kenndi þýsku tvo tíma í viku, en hélt einnig marga opinbera fyrirlestra um þýska tungu, um sögu Þýskalands, hin mörgu héruð landsins en fyrst og fremst hið "nýja Þýskaland", oft með skyggnumyndasýningum (skuggamyndum eins og fjölmiðlar kölluðu það þá).

Morgunblaðið lýsir einum slíkum fyrirlestri með mikilli hrifningu, og urðu margir frá að hverfa, því aðsókn að fyrirlestrinum var mikil.  Hann hélt einnig þýskunámskeið í félaginu Germaníu, sem á þeim árum var ekkert annað en nasistasamunda. Ljóst má vera að Rottkay starfað fyrri áróðursöfl í Þýskalandi. Þann 4. apríl 1939 hélt hann "háskólafyrirlestur með ljósmyndum um hina nýju bílvegi í Þýskalandi („Reichsautobahnen")" Hann hélt af landi brott með konu sinnu Ursulu Wolf-Rottkay, sem komið hafði til landsins árið 1938 í lok apríl með Dettifossi.

Á stríðárunum vann W.H. Wolf-Rottkayh um tíma fyrir áróðursstofnun í Þýskalandi, Deutsche Informationsstelle, undir utanríkisráðuneytinu Þýska og gaf út andgyðinglega bók um menntakerfið á Bretlandseyjum [Wolf-Rottkay, Wolf Helmuth: Der Aufstieg der Reichen. — Berlin: Dt. Informationsstelle 1940]. Árið 1938 hafði hann gerst meðlimur í SS. Það hefur ugglaust létt fyrirgreiðslu um að hann fékk styrk til kennslunnar frá þýska utanríkiráðuneytinu.

"Prússi" í Salamanca

Eftir stríð kenndi W.H. Wolf-Rottkay um hríð við háskólann í München. Síðar gerðist hann þýskulektor við háskólann í Salamanca á Spáni. Þar þótti nemendum hans hann dularfullur og lýstu "prússnesku göngulagi hans" en hann var samt talinn þokkaleg persóna þrátt fyrir að vera ekki kaþólikki. Í Salamanca vann hann m.a. undir verndarhendi stórfasistans Antonios Tovar Llorente, latínuláka sem hafi verið útvarpsstjóri fasistastjórnarinnar á 4. áratugnum og aðstoðaráróðursráðherra undir Franco í síðari heimsstyrjöld. Meðan Tovar Llorente gegndi þeirri stöðu hafði hann náin samskipti við Paul-Otto Schmidt foringja fjölmiðladeildar þýska Utanríkisráðuneytisins sem var einn helsti túlkur Hitlers. Í ráðherrastöðu sinni hafði Tovar Llorente Tovar Llorente, sem hafði fengið heiðursdoktorsnafnbót gefins frá Franco fyrir lítið, fengið að hitta Hitler árið 1940. Þessi rektor og smánarblettur háskólans í Salamanca (sem þó er farið að dýrka á Spáni á ný) gaf út eitt vinsælusta áróðursrit fasista í síðara stríði á Spáni. El Imperio de Espana, þar sem hann hann lýsti því yfir að framtíðin tilheyrði sterkum þjóðum og að Spánverjar væru þjóð sem ætti þeirri gæfu að fagna að vera valin til að stjórna í náinni framtíð þar sem "all fiction of freedom for the tiny national states are going to dissapear."

Árið 1955 greindi Prófessor Halldór Halldórsson frá ráðstefnu um germönsk fræði í Feneyjum á Ítalíu sem hann sótti:  Í viðtalsgrein í Þjóðviljanum sagði hann frá Wolf-Rottkay, sem einnig var staddur á ráðstefnunni með konu sinni Ursulu:

"En einn daginn vék sér að mér maður og ávarpaði mig á lýtalausri íslenzku. Þessi maður er prófessor Wolf-Rottkay í Salamanca á Spáni, en hann var þýzkur sendikennari hér við háskólann um skeið fyrir stríð. Þá dvaldist kona hans hér einnig stuttan tíma, en síðan er hún svo mikill Íslendingur að hún hefur heimþrá til Íslands."

Wolf Helmuth Wolf-Rottkay gaf út ýmis rit og greinar um málfræði og málsifjafræði og meðal annars út bókina Altnordisch-isländisches Lesebuch.

 

Til Bandaríkjanna og undir annan hakakross

 

220pxhinduswastika_svg.png

 

Árið 1966 leggja hjónin Wolf H. Wolf-Rottkay, kona hans Ursula og tvö börn land undir fót og setjast að í Los Angeles í Kaliforníu. Hann virðist ekki hafa haft neina fasta stöðu í nýja landinu en var skráður sem lektor (associate professor) við University of Southern California 1969-70.

Skömmu síðar var hann greinilega aftur kominn á fullt flug í kukli og hindurvitnum. Hann var í byrjun 8. áratugarins orðinn fyglismaður Hari Krishna hreyfingarinnar og á næstu árum er hann í miklum bréfaskrifum við aðalgúrú þess safnaðar Srila Prabhupada, öðru nafni A. C. Bhaktivedanta Swami Prabhupada (1896-1977).

800px-prabhupada_on_a_morning_walk_with_baron_von_durkheim_in_frankfurt.jpg

Gamlir nasistar heilluðust greinilega mjög af Hari Krishna, eða kannski Hari Krishna liðar að nasistum. Hér sést Karlfried barón von Dürckheim (1896-1988) með gúrú Srila Prabhupada (sem er gamli maðurinn með gula pokann) árið 1974. Dürckheim var aðstoðarmaður Ribbentrops og komst til áhrifa í þýska nasistaflokkunum og í embættiskerfinu, en þegar í ljós kom að hann var afkomandi bankaættanna Oppenheim og Rotschild og "blendingur af annarri gráðu" eins og nasistar kölluðu slíka menn, var hann sendur til Japan sem embættismaður, þar sem hann heillaðist af búddisma. 

Nasistinn Wolf H. Wolf-Rottkay virðist hafa talið Hari Khrisna-söfnuðinum trú um að hann væri mikill vísindamaður sem flúið hafði frá Þýskalandi nasismans. Hann kemur oft fyrir í ritum þeirra, þar sem hann er sagður hafa verið spurull, aldraður fræðimaður, sem hafði áhuga á hreyfingunni. Að lokum fengu heilaþvegnir fylgismenn í Hari Krishna hreyfingunni þó nóg af Dr. Wolf-Rottkay:

"In the following weeks, we had several heated discussions, and when Dr. Wolf saw that I was not prepared to change Prabhupada´s words just because a description didn´t fit his conception, he began to question Prabhupada´s position. Having fled Nazi Germany, he felt that our vision of Prabhupada´s authority was dangerously similar to the inflated image of Hitler in the 1930s. Finally he stopped coming. But he sent me a letter explaining his stand on the way our books should be presented. He mailed a copy to Prabhupada, who replied to him as follows." (Sjá hér).

Kona hans, Ursula,  gerði sér einnig far um að gefa fólki í BNA ranga mynd af uppruna sínum og bakgrunni. Hún var undir það síðasta farin að gefa sig út fyrir að vera gyðingur og tók þátt í listasýningum aldraðra gyðinga í Kaliforníu. Myndir hennar, sem ekki voru af líkum, hafa verið til sýnis á Platt & Borstein listasafninu við The American Jewish University i Los Angeles. Hjónin virðast hafa lifað fátæklega í lítilli íbúð og lifað á anatómískum teikningum hennar.

Samstarfsmaður Rottkays við University of Southern Californa, Robert Kaplan, lýsti honum m.a. þannig í tölvupósti þ. 27.5.2014:

"In the late 1960, the Department of German (the core administrative unit  at USC for work in linguistics) was relatively small; its chair at the time, Professor Harold Von Hofe, was a friend and colleague. He introduced me to Wolf-Rottkay at some point in those years, and in preparation for the introduction, he had explained to me that Wolf-Rottkay was a Nazi and had been an officer in the SS in the 1930s. Harold was sensitive to the reality that I have a Jewish name (although I am in actuality an atheist), and he was carefully intent on maintaining peace in his department. For the duration of W-R´s employment at USC, I was aware of his presence and, from time to time, was aware of faculty gossip about him as I was of other more recent staff additions. One of my mentors in those early years had been John Waterman, who had been chair of the German Department before Harold. Indeed, I was in fairly regular communication with the small number of faculty who taught linguistics. (Many of those colleagues have since retired, some have died.) I´m not certain about the number of years that W-R taught at USC...
 
... W-R was not well-liked by the students. He was at USC during a period of student unrest. The Vietnam War (1956 to 1975) was a decade of great social unrest, and a decade of strong anti-communist feeling. In the US (and indeed in the Western world generally) a large anti-Vietnam War movement developed -- this movement was both part of the larger counterculture of the 1960s and also fed into it. W-R´s somewhat militant posture was not welcome among students. In addition, he taught in an academic area (historical and comparative Germanic) that could hardly have been seen as sympathetic in that time frame. World War II had ended formally in 1945 — only 15 years earlier; many of the fathers of the 1960s student generation were veterans of that war. Anti-German feeling still lingered in popular opinion. (My own experience covers both World War II and the Korean war, of which I am a veteran.) Thus, W-R became symbolic of what, by definition, was despised by the student population of his time. W-R never publicly spoke of or in any way revealed his affiliation with the Nazi ideology, but his background made it impossible to hide completely his militaristic stance. Gradually, over his time at USC, his new affiliation with the Hari Krishna movement [The International Society for Krishna Consciousness] became known. As I understand it, the movement, founded in 1966, was an attempt to "bring back Vedic culture so that people may be happy" [a quotation from a contemporary brochure]. Those of us who were at all familiar with W-R were somewhat surprised that he was interested in such a concept which seemed at variance with W-R´s background; we tended to see his involvement as an attempt to obscure what he really believed. But, except for finding it odd, no one had any reservations about his activities.
 
While W-R was unpopular with the students, he was not considered "friendly" by his colleagues. As I recall, he lived at some distance from the University campus and spent a great deal of time commuting to and from his classes. He was perceived as essentially a "loner," an isolated individual who neither sought not needed collegiate relationships. As far as most of us knew, he had no social life, but he was so rarely among us that we admitted we had no reason to know anything about his private life. Unlike the other members of the German-speaking faculty who often gathered after classes and in evenings for opportunities to speak German (in a dominantly English-speaking population), W-R was rarely (if ever) included.
In general, I think W-R made a very small ripple in life at the University,... "

 

Wolf Helmuth Wolf-Rottkay andaðist í Los Angeles árið 1991, kona hans lést árið 1977.

Enn er beina Þjórsdæla leitað

Eftir grein Sigðurðar Þórarinssonar um beinakrukk Kvarans og Wolf-Rottkays, gleymdu menn þessum beinum. Mér var hins vegar í tengslum við kandídatsritgerð mína í Árósum (1986), og síðar í tengslum við doktorsnám mitt, mikið hugsað til beinanna sem Kvaran og Wolf-Rottkay stálu árið 1936. Ekki var ég eins vondaufur og Kristján Eldjárn.

Fyrst þegar ég hafði samband við mektarmenn í DDR árið 1985, upplýsti prófessor Frau Dr. Zengel við Staatliche Museen zu Berlin Hauptstadt der DDR mér í bréfi dags. 3.10.1985:

Herr Dr. Rottkay dürfte als Informationquelle kaum in Frage Kommen, da er nach Ihrer Aussage nach dem Kriege nicht mehr in der DDR war und daher keine kompetenten Aussagen treffen kann. ... Unsere Sammlung war zwar bis 1958 zur sichere Aufbewahrung in der Sowjetunionen, soweit sie von dem kämfenden Truppe an ihren Auslagerungsorten gerettet wereden konnte, wude aber in ihren gut gepflegtem Zustand und nachdem die größten Kriegszertörungen auf unserer Museumsinsel beseitigt waren, mit genauer Auflistung wieder an die Statlichen Museen zu Berlin / DDR übergeben.

staatliche_museen.jpg

Nú voru beinin frá Skeljastöðum aldrei í Berlín, en mér hafði verið tjáð í Greifswald, að þau gætu verið þar.  Eftir að Berlínarmúrinn hrundi hef ég einnig í þrígang haft samband við nýja menn við háskólann í Greifswald, og nú er komið ljós, samkvæmt prófessor Thomas Koppe, yfirmanni safnsins sem nú heyrir und Institut für Anatomie und Zellbiologie, að seðlasafnið yfir beinasafnið í Greifswald týndist í

800px-greifswald_friedrich-loeffler-stra_e_23c.jpg
Beinasafnið er í dag í sömu byggingu og á 4. áratug 20. aldar, þegar nasistar og pseudóvísindamenn réðu lögum og lofum. Nú er öldin önnur.

stríðinu. Hauskúpusafnið við Institut für Anatomie und Zellbiologie, sem nasistar bættu mikið við af beinum fólks sem t.d. var tekið af lífi í nafni kynbótaráðstafana Þriðja ríkisins, er vart hægt að nota til nokkurs, þar sem lítið er vitað um uppruna stærsta hluta safnkostsins. Erfitt virðist fyrir starfsmennina að greina á milli jarðfundinna höfuðkúpa og þeirra sem safnast hafa á annan hátt.

Ég hef beðið forsvarsmenn safnsins við háskólann í Greifswald að hafa augun opin fyrir einstaklingum með torus mandibularis og palatinus, sem voru einkenni sem algeng voru í Þjórsdælum (sjá hér og hér). Ég hef sömuleiðis áform um að fara til Greifswald með dönskum líkamsmannfræðingi, Hans Christian Petersen, sem manna best þekkir bein Þjórsdælinga og hefur mælt þau gaumgæfilega. Við ætlum að reyna að leita að beinunum. Innan um þúsundir hauskúpur safnsins liggja kúpur Þjórsdæla hinna fornu. Spurningin er bara hvar?

_jorsardalur_tori_1234595.jpg
Kjálkar með Torus Mandibularis fundnir á þremur mismunandi stöðum í Þjórsárdal. Sjá hér.

 

Höfundur: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 2014

Þakkir

Þakkir fyrir aðstoð fá:

Dr. Dirk Alvermann, Leiter des Universitätsarchivs, Greifswald.

Robert Kaplan prófessor og fyrrum Director of the English Communications Program for Foreign Students við University/later the American Language Institute of Southern California (USC).

 

Heimildir

Prentaðar heimildir og skýrslur:

 

Eberle, Henrik  (2015). "Ein wertvolles Instrument": Die Universität Greifswald im Nationalsozialismus. Böhlau Verlag, Köln (bls. 388) sem vitnar í Fornleif (sjá hér). [Þetta er viðbót sett inn 15.12. 2016].

Petersen, Hans Christian (1993). Redegørelse for projektet ISLÆNDINGENES OPRINDELSE på grundlag af undersøgerlser foretaget på Islands Nationalmuseum sommeren 1993. Bordeaux [Skýrsla].

Vilhjálmsson, Vilhjálmur Örn (1986). Þjórsárdalur-bygdens ødelæggelse. 263 sider + bilag.  [Kandidatsspeciale Aarhus Universitet; ikke trykt/udgivet].

Vilhjálmsson, Vilhjálmur Örn (1990), Archaeological Retrospect on Physical Anthropology in Iceland. In: Elisabeth Iregren & Rune Liljekvist (eds.) Populations of the Nordic countries Human population biology from the present to the Mesolithic. [Proceedings of the Second Seminar of Nordic Physical Anthropology, Lund 1990]. Report Series from the Archaeological Institute, University of Lund No. 46 (1990), 198-214. Sjá hér.

Vilhjálmsson, Vilhjálmur Örn (2013) Einn á kjammann. Grein á blogginu Fornleifi

Þórarinsson, Sigurður (1968). Beinagrindur og bókarspennsli. Árbók Hins íslenzka Fornleifafélags 1966, 50-58. (Sjá hér).

Heimildir í skjalasöfnum: 

UAG: Akten des Universitätsarchivs Greifswald (Skjalasafn Háskólans í Greifswald):

1) (UAG, PA 1775) Personal-Akten der Wolf Helmuth Wolf-Rottkay.

2) (UAG, Altes Rektorat, R 845) Dánartilkynningar og umfjöllun um Eið S. Kvaran í dagblöðum í Greifswald. [ACTA der Ernst-Moritz-Arndt-Universität Greifswald betreffend Ableben von hierigen Universitäts-Angehörigen (Professoren, Dozenten u. Beamte), Angefangen Nov. 1936. Abgeschlossen: 28. Juli 1941].

3) (UAG Kurator K 633) Registratur des Universitäts-Kuratoriums Greifswald; Besondere Akten betreffend Verb. Isländische Institut; Abteilung C, Nummer 685.

Persónulegar upplýsingar:

Robert B. Kaplan, sem var prófessor í málvísindum við University of Southern California, sem var vann á sömu deild og Wolf Helmuth Wolf-Rottkay í lok 7. áratugar 20. aldar].

P.s.

Árið 1988 mátti í DV og Morgunblaðinu lesa mjög háttstemmdar deilur um Eið S. Kvaran í kjölfarið á að Páll Vilhjálmsson blaðamaður ritaði ritdóm um bók Illuga og Hrafns Jökulssona Íslenskir Nasistar. Sjá hér, hér og hér (neðst). Einn ættingi Eiðs taldi að æru Eiðs S. Kvarans vegið. Ekki ætla ég að setjast í dómarasæti um það, en lesendur mínir geta sjálfir dæmt út frá þeim heimildum sem sumar hafa verið lagðar hér fram í fyrsta sinn. Ég tel hins vegar, að maður sem lærði sömu gervivísindi og Josef Mengele og við sama háskóla og sá þjóðarmorðingi, hafi verið, og verði, vafasamur pappír.

Ég ritaði ekki alls fyrir löngu um glaða konu sem lét ljósmynda sig með beinum í kirkjugarðinum að Skeljastöðum árið 1939 (sjá hér). Fyrir það uppskar ég því miður hótanir og skítast frá einhverri konu "úti í bæ"sem reyndist skyld einum nasistanna íslensku sem fóru með Kvaran og Wolf-Rottkay að ræna mannabeinum og fornleifum í Þjórsárdal sumarið 1936. Af máli konunnar mátti halda að ættingjar íslenskra nasista hefðu mátt þola verri hörmungar en t.d. gyðingar. Nasismi ættingjanna og beinaþjófnaður er því enn vandamál sem sumir Íslendingar takast á við út um borg og bý. Vona ég því að með þessari grein séu öll spil lögð á borðið, svo menn vefjist ekki lengur í vafa um hvers eðlis "rannsóknir" Eiðs Kvarans og Wolfs Helmuths Wolf-Rottkays voru.

Beinin heilla 3bb

Samráðsfundur með fornleifafræðingum

 

sitelogo.png


Þar sem fleiri lesa Fornleif en heimasíðu Minjastofnunar Íslands (sem upphaflega var á pólsku), leyfi ég mér að minna á mikilvægan fund, sem er á morgun í Þjóðminjasafninu, en sem fyrst var auglýstur á vefsíðu Minjastofnunar Íslands í gær, 2. apríl. Tveggja daga fyrirvari, íslensk stjórnsýsla lætur ekki að sér hæðast. Líklega hefur skrifstofustjóri Menningararfsskrifstofu forsætisráðherrans fyrirskipað mönnum að gleyma ekki þessum fundi, nú þegar skorið verður við nögl í fornleifamálum.

Minjastofnun Íslands og Þjóðminjasafn Íslands boða til samráðsfundar með fornleifafræðingum. Fundurinn verður haldinn þann 4. apríl kl. 10-12 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins. Meðal þess sem fjallað verður um er: Reglur um veitingu leyfa til fornleifarannsókna, leiðbeiningar um umhirðu gripa á vettvangi, og reglur Þjóðminjasafns Íslands um afhendingu gagna og gripa. Gagnlegt er að efna til samtals um þessi mál til að tryggja sem bestan árangur og varðveislu þeirrar þekkingar sem fornleifarannsóknir skapa. Við hvetjum alla hagsmunaaðila til að taka þátt.

Ég ætla að vona að þessi mál séu komin í lag. Þjóðminjasafnið eyðilagði eitt sinn forngripi frá Stöng í Þjórsárdal, svo ég ber ekki allt of mikið traust til safnsins (sjá hér). Forstöðumaður Minjastofnunar Íslands, sem átti sem starfsmaður Þjóðminjasafnsins að sjá um forvörslu gripanna frá Stöng, vill nú ólm byggja stórhýsi fyrir 700.000.000 króna yfir rústirnar á Stöng, þó slíkt stangist á við lög. Fornleifarannsóknum er nefnilega ekki lokið á Stöng, þó svo að þeir sem eigi að verja menningararfinn dreymi um nærri milljarða króna framkvæmdir. 

Hér er önnur saga af forvörslu á Þjóðminjasafninu.

Bók:

Hringavitleysingasaga: Um léleg vinnubrögð og fræðilegt misferli í fornleifafræðinni á Íslandi

II

Hér skal greint frá þeim mönnum sem halda, og trúa því meira að segja, að hringlaga kirkjugarðar kringum fornar kirkjur sé arfleifð frá Bretlandseyjum. Þeir ganga sumir frekar langt til að telja öðrum trú um það. Einnig skal vikið að þeim, sem án nokkurra haldbærra raka halda því fram að torf- og steinkirkjur Íslendinga séu hefð frá Bretlandseyjum, meðan að timburkirkjur, þ.e. stafkirkjur, sem einnig voru þekktar á Íslandi, séu hefð ættuð úr Skandínavíu.  

Í sumar hafði samband við mig lærður maður sem var að skrifa bók á ensku um uppruna íslenskrar kirkju. Leitaði hann eftir leyfi mínu til að birta grunnmynd af kirkjurústinni á Stöng í Þjórsárdal, og tilgátuteikningu sem ég hef teiknað og birt til að sýna hugsýn mína af því, hvernig ég ætla að kirkjan hafi litið út. Hann hafði séð teikningarnar í grein eftir mig í norsku riti (sjá hér).

 
Kirkja á StöngStangarkirkja Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson b 
Tvær hugmyndir að útliti einkakirkjunnar á Stöng í Þjórsárdal.
Myndin efst sýnir grunnmynd kirkjurústarinnar á Stöng. Teikningar Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson.  
 

Þar sem rithöfundurinn upplýsti mig um titilinn á fyrirhugaðri bók sinni á ensku, The Westward Movement of Insular Culture and Christianity in the Middle Ages, gat það bent til þess að hann teldi hugsanlegt að íslenskar torfkirkjubyggingar væri hefð, sem ættuð væri frá Bretlandseyjum, og að Kristnin hefði komið þaðan að mestu. Staldraði ég aðeins við og spurðist fyrir um efnið í bókinni og notkun umbeðinna mynda. Mikið rétt, eins og mér datt í hug var skoðun mannsins sú, að kirkjubyggingar á Íslandi úr torfi og steini væri hefð er borist hefði frá Bretlandseyjum. Ekki var þetta tilgáta mannsins sjálfs, og gat hann vitnað í  fornleifafræðinga máli sínu til stuðnings.

3
Kirkja ofan á smiðju Stöng 3
Teikning og ljósmynd sem sýnir uppgraftarstöðu og byggingaskeið, er helmingur kirkjunnar á Stöng (A) hafðu verið fjarlægður til að rannsaka rústina fyrir neðan sem er smiðja (B). Gulu útlínurnar sýna grunnmynd kirkjunnar. Grafirnar umhverfis kirkjuna (einnig merkt A) hafa verið grafnar í gegnum gólf sem tilheyrir enn eldra byggingaskeiði (C), skála sem hefur verið í notkun um 900 e.Kr. Teikning og ljósmynd. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson.
 

Steinunnar þáttur Kristjánsdóttur 

Þessi kenning, um að uppruna íslenskra torfkirkna sé að finna á Bretlandseyjum, er að mínu mati afar einkennileg meinloka og þunnur misskilningur sem slæðst hefur inn meðal nokkurra fornleifafræðinga á síðari árum, sérstaklega meðal þeirra sem menntaðir eru við háskóla, þar sem kennsla í fornleifafræði er meira hengd upp á þeóríu frekar en staðreyndir, heimildir og greiningu fornleifanna sem maður finnur. Þeir sem sett hafa þessar skoðanir fram eru ekki menntaðir í miðaldafornleifafræði né í kirkjufornleifafræði, og það sést vel í öllum skrifum þeirra. Fylgismenn þessarar kenningar eiga það einnig sameiginlegt, að álíta og trúa, að Kristnitaka og iðkun Kristindóms á Íslandi hafi hafist fyrr en ritaðar heimildir greina frá og fornleifar staðfesta.

Rithöfundurinn sem vildi fá leyfi til að birta myndir af rúst litlu torfkirkjunni á Stöng, sem ég og aðstoðarfólk mitt rannsökuðum að hluta til í lok síðustu aldar, hafði lesið þann "sannleika", að torfkirkjur á Íslandi væri hefð ættuð frá Bretlandseyjum, meðan að stafkirkjur, sem einnig voru reistar á Íslandi, væru hefð frá Skandinavíu. Þetta hafði hann lesið í doktorsritgerð Steinunnar Kristjánsdóttur frá Gautaborgaháskóla sem hún varði árið 2004 og sem ber titilinn: The Awakening of Christianity in Iceland. Discovery of timber Church and Graveyard at Þórarinsstaðir in Seyðisfjörður.

Steinunn er, eins og kunnugt er, mjög virk í tilgátusmíð, en oft standast ekki blessaðar tilgáturnar og hið frjóa ímyndunarafl hennar, sem hleypur iðulega með hana í gönur. Því miður verða nokkrar þeirra þó að meiru en tilgátum í hennar meðförum og annarra. Fólk heyrir og les ævintýralega fréttir í fjölmiðlum, og svo er orðið altalað að fílamaður, eskimóakonur og annað gott fólk hafi eytt ævikvöldinu í austjarðarvelferðarþjóðfélaginu á Skriðuklaustri. Menn byrja að alhæfa, og loks verður hugdettan að kreddu (dogmu). Þannig fornleifafræði er afar hvimleið. En þessi merkistíðindi að austan hafa öll reynst vera tóm tjara þegar upp var staðið. Síðast fór Steinunn með ólögulegan móbergshnullung frá Seyðisfirðið á sýningu í Paderborn í Þýskalandi og kallar hann kross frá Bremen eða Hamborg. Það eru engin haldbær rök fyrir því að þetta sé yfirleitt kross og hvað þá að hann sé eða sýni einhver tengsl við Bremen eða Hamborg (sjá hér)

Stone-cross616642
Kross Steinunnar Kristjánsdóttur er sagður vera úr móbergi, en er greinilega úr setlögum. Ljósm. Þjóðminjasafn Íslands.

Nú er það einu sinni svo, að engar torfkirkjur hafa fundist á Bretlandseyjum. Litlar kirkjur og kapellur hafa reyndar fundist við bæi norrænna manna á Hjaltlandi og á Orkneyjum, sem byggðar voru að hluta til af þurrum steinvegg, ólímdum, sem var gömul byggingarhefð á Bretlandseyjum. Engar slíkar kirkjur hafa verið reistar á Íslandi svo vitað sé. 

Christians þáttur Kellers

Norskur fornleifafræðingur, Christian Keller, hefur einnig, án mikillar rökhugsunar eða rökstuðnings, komist að þeirri niðurstöðu, sem hann komst að í doktorsritgerð árið 1989, að elstu kirkjubyggingarnar á Íslandi og á Grænlandi byggðu á hefð frá Bretlandseyjum. Hann notar afar furðuleg hringsnúningarök er hann segir lesendum sínum frá því að 50 órannsakaðar rústir torfkirkna í Noregi gætu vel sýnt sams konar áhrif í Noregi, þ.e. hefð frá Bretlandseyjum. Engin þessara 50 rústa hafa verið rannsakaðar. Hvernig getur lærður maður sett fram slíka bábilju í doktorsritgerð?

En hvers vegna skyldu kirkjur úr torfi og steini í Noregi, þar sem önnur hús voru reist úr því efni, að vera undir áhrifum frá hefðum frá Bretlandseyjum, þegar Norðmenn og aðrir norrænir menn höfðu byggt slík hús í aldaraðir, og sér í lagi þegar engin kirkjurúst rannsökuð á Bretlandseyjum hefur verið reist með veggjum úr torfi og ótilhöggnum steinum? Það er mér algjörlega óskiljanlegt.

Christian Keller, sem og Steinunn Kristjánsdóttir, sem hugsanlega hefur komist að óundirbyggðri skoðun sinni á byggingarhefð á Íslandi með því að lesa tilgátur Kellers, vaða í villu þegar þau telja að það séu aðeins hefðir sem valda byggingarlagi.

Stór þáttur í því hvernig ákveðin bygging lítur úr, er einnig notkun þess byggingarefnis sem fyrir hendi er. Menn byggðu oftast úr því efnið sem þeir höfðu innan handa í nágrenninu. Þó menn væru ættaðir úr trjáríkum héruðum Noregs, neyddust þeir eftir 2. alda ofbeit, uppblástur og vegna trjáleysis til stórra bygginga að reisa flest hús sín á Íslandi úr öðru efni en einvörðungu timbri.  Í Noregi, þar sem nægt timbur var að fá, reistu menn einnig hús úr torfi og steini, því þau einangruðu betur en hús úr timbri. Nokkrar kirkjur og önnur hús á Íslandi voru reist úr rekaviði, en þegar mikið var lagt í var timbur í helg hús flutt um langa vegu frá Noregi til Íslands. Minni höfðingjar, eða þeir sem ekki höfðu beinan aðgang að reka, létu sér hins vegar nægja torfkirkjur. Ekki ber að gleyma að innan í skelinni af torfi og steinum var lítil og nett stafkirkja.

Sagan af Steffen Stummann Hansen

Út fyrir allan þjófabálk er meðferð danska forleifafræðingsins Steffens Stummanns Hansens á torfkirkjum í löndum Norðuratlandshafs. Stummann Hansen, sem býr í Færeyjum, hefur einnig fengið þá flugu í höfuðið,  ásamt írska fornleifafræðingnum John Sheehan frá Cork University á Írlandi, að kirkjur í Færeyjum væru byggðar eftir hefðum frá Bretlandseyjum. Til að undirbyggja þá skoðun sína skrifar hann m.a., að órannsökuð rúst í Leirvík á Eysturoy sé byggð á þannig hefðum. Í grein eftir Stummann Hansen og John Sheehan í Archaeologia Islandica, sem þeir kalla 'The Leirvik 'Bønhustoftin' and the Early Christianity of the Faroe Islands, and beyond' er vitnað rangt og falslega í grein eftir mig.

Stummann Hansen og Sheehan gera kirkjuna á Stöng í Þjórsárdal að kirkju sem byggir á hefð frá Bretlandseyjum með því að vitna rangt í málsgrein í grein minni. Stummann Hansen, sem ber ábyrgð á þessu, segir mig skrifa um kirkjuna á Stöng: "much indicates that the churchyard had a circular form or a circular enclosure ..." (Sjá s. 36 í greininni).

En ég skrifa ekki aðeins það. Það sem er sýnt með rauðu letri hér fyrir neðan, vinsar Stummann Hansen út og vitnar rangt í, en það sem er með bláu vitnar hann alls ekki í. Þetta er ekkert annað en heimildafölsun og fræðilegur subbuskapur sem John Sheehan, meðhöfundur Stummanns Hansens, ber vitanlega enga ábyrgð á, því hann les ekki dönsku:

"Kirkegården på Stöng er kun delvist udgravet. Vi kender endnu ikke dens størrelse eller form, og der er indtil videre fundet 11 grave. Plateauet, hvorpå kirken har stået, har fysiske afgrænsninger og kirkegården har derfor ikke haft en større diameter end ca. 20 m. Meget kunne tyde på, at den har haft en cirkulær form eller en cirkulær indhegning, lige som så mange kirkegårde i f.eks. Grønland, elle som ved nabokriken på Skeljastaðir i Þjórsárdalur."

Þarna fjarlægir Stummann Hansen vísvitandi úr skýringu minni til að láta lesendur sína trúa því að ég telji að hringlaga kirkjugarður byggður á hefð sé umhverfis kirkjugarðinn á Stöng. Þar að auki greinir Stummann Hansen ekki frá gagnrýni minni í sömu grein frá 1996, á þá fornleifafræðinga sem telja stafkirkjuhefð norræna og torfkirkjur ættaðar frá Bretlandseyjum. Ég færi einnig rök fyrir því í sömu grein, að hringlaga kirkjugarðar séu ekki endilega hefð, heldur oftar lausn vegna landslags kringum kirkjugarðana eða þess byggingarefnis sem til taks er, sem og að lagið sé ekki keltneskt eða írskt, og hvað þá heldur fyrirbæri sem aðeins finnst á Bretlandseyjum og á eyjum í Norður-Atlantshafi. En því gleymir Stummann Hansen að segja lesendum sínum frá. Þessi vinnubrögð eru óheyrð. 

Hringlaga garður er líklega kringum meinta kirkjurúst í Leirvík í Færeyjum, ef trúa má Stummann Hansen. En hans túlkun á hring er greinilega ekki sú sama og mín. Ég á afar erfitt við að sjá, hvernig Stummann  Hansen sér hringlaga gerði í Leirvík. Enginn veit heldur, hvort bænhúsrústin í Leirvík er rúst kirkju eða bænhúss. Er er gerðið kringum "bænhúsið" í Leirvík yfirleitt hringlaga? Kannski er ég með sjónskekkju, því mér sýnist garðurinn í Leirvík alls ekki vera hringur

 Leirvík

Bænhústóft með hringlanga kirkjugarðsgerði. Mér sýnist nú frekast að gerðið hafi verið lagað eftir lækjunum sem renna vestan og austan við tóftina sem enginn veit hvort er Bænhústóft eða eitthvað allt annað. Lengi, líklega aðeins síðan á 19. öld, var talað um hring mikinn í túninu fyrir ofan Forna-Reyni í Mýrdal sem kirkjugarð. Hringurinn var fullkomlega hringlaga, með sama radíus allan hringinn, og veglegur. Fornleifarannsókn hefur hins vegar sýnt, að þetta er ekki kirkjugarður heldur náttúrulegt fyrirbæri. Engar grafir voru innan "garðsins" og engin kirkja. Myndin að hér fyrir ofan er úr grein Stummanns Hansens og Johns Sheehans. Myndin hér fyrir neðan er af "kirkjugarðinum" að Forna-Reyni í Reynishverfi. Ljósm. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson.
 
Forni Reyni 1982 2 b
 
Knud Krogh 2
Þjóðhildarkirkja í Eiríksfirði (Tunulliarfik) á Grænlandi hefur lengi verið talin hafa haft hringlaga kirkjugarð. Svo er þó ekki. Lega grafanna réðst af landslaginu, miklum halla í landslaginu sunnan og austan við kirkjuna, sem ég sýni með grænum lit á teikningu fornleifafræðingsins sem rannsakaði kirkjuna. Leifar hugsanlegs torfveggs vestan við kirkjuna (sem ég lita með gulum lit) sýnir ekki með vissu að kirkjugarðsgerði hafi verið hringlaga. Hins vegar er endurgerð Þjóðhildarkirkju þeirrar  sem byggingarmeistarinn að Þorláksbúð, Árni Johnsen hefur einnig komið að (mynd fyrir neðan), búin að koma því inn hjá almenningi að í fornu hafi verið veggur úr torfi og steini umhverfis torfkirkju Þjóðhildar. Það er álíka mikið út í hött og Þorláksbúð hin nýja í Skálholti. Teikning Knud Krogh.
 
 Þjóðhildarkirkja

 

Vinnubrögð Stummann Hansens í grein hans í Archaeologia Islandica eru vítaverð og ég verð að lýsa fordæmingu minni á þessari heimildafölsun og tilvitnunarfúski danska fornleifafræðingsins í Færeyjum. Menn vitna einfaldlega ekki rangt í kollega sína til að undirbyggja draumóratilgátur. Það er til ágæt skilgreining á slíku á dönsku: Videnskabelig uredelighed (Fræðilegt misferli).

Ég býst náttúrulega við því að þeir sem gefa út ritröðina Archaeologia Islandica taki afstöðu til slíkra vinnubragða og birti afsökunarbeiðni í næsta hefti. 

Fornleifastofnun Íslands gaf vitleysuna út

Hverjir gáfu svo út grein Stummann Hansens og Sheeans í tímaritinu Archaeologia Islandica? Það gerði  sjálfseignarstofnunin sem það sem fornleifafræðingar í bisness tóku sér hið ríkislega nafn Fornleifastofnun Íslands. Í stjórn fyrirtækisins, sem gefur út Archaeologia Islandica, situr meðal annars dr. Orri Vésteinsson sagnfræðingur, sem gegnir stöðu prófessors í fornleifafræði við Háskóla Íslands. Orri hefur sjálfur verið tekinn í svipuðum óvönduðum vinnubrögðum og Steffen Stummann Hansen, (dæmi hér og hér).

Ég verð að lýsa áhyggjum mínum af ritstjórnargetu þeirra sem sjá um fræðiritið Archaeologia Islandica, þegar þeim yfirsést að Steffen Stummann níðist á því sem ég hef ritað. Það er reyndar ekki nýtt vandamál. Orri Vésteinsson fór eitt sem með Steffen Stummann Hansen að grafa í Þjórsárdal. Þeir grófu í rúst í Skallakoti, sem fyrst var rannsökuð árið 1939. Viti menn, eins og ég hafði þegar haldið fram frá 1983, og síðar sannað mörgum til ama, þá fór byggð ekki í eyði í Þjórsárdal fyrr en eftir 1104. Í torfi skálarústarinnar í Skallakoti var að finna gjósku úr Heklugosi frá árinu 1104 (H 1 gjóskuna svokölluðu). Ekki var í rannsóknarskýrslu Stummanns  Hanasen og Orra Vésteinssonar vitnað í svo mikið sem í eina grein eða stafkrók eftir mig, þó ég hefði sýnt fram á að aldursgreining endalok byggðar í Þjórsárdal til 1104, setta fram af  Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðingi, byggði á misskilningi, misskilningi sem einnig leiðréttist með endurrannsókninni á Skallakoti, sem og nýjum aldursgreiningum sem nýlega hafa verið gerðar á leifum frá Skeljastöðum í Þjórsárdal.

Svona útilokunarvinnubrögð minna á aðferðir sumra fornleifafræðinga í Sovétríkjunum sálugu, sem útrýmdu kollegum sínum úr umræðunni, eftir að þeir höfðu komið þeim sem átti að gleyma í Gúlagið (sjá hér). Slík vinnubrögð eru greinilega ekki framandi í HÍ. Það er dapurlegt.

Meira böl og fleiri klámhögg 

í grein sem Steinunn Kristjánsdóttir birti í ráðstefnuriti fyrir 16. Víkingaráðstefnuna, sem haldin var í Reykjavík árið 2009, er heil röð af röngum tilvitnunum: Grein Steinunnar, þar sem hún kemur inn á  "klassíkerinn", kirkjurústina á Stöng, kom út árið 2011 og bar titilinn: The Vikings as a Diaspora - Cultural and Religious Identities in Early Medival Iceland: Texti Steinunnar um Stöng fylgir hér, og það sem er með rauðu letri er einfaldlega rangt vitnað í texta eftir mig:

Of course, it is useful to use the church found at the farm Stöng in Þjórsárdalur as a representative example of the turf churches. The church was discovered during an excavation that was performed there in periods in 1986 and 1992-1993. This particular building was first excavated in 1939 and interpreted as a smithy (Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 1996, p. 119-139). The church at Stöng was built of turf and stones, and its interior measured 2.5 meters wide and 5 metres long. A choir was added to the east side of the church, which had an east west orientation (Fig. 2) Several graves were exhumed. A fragmented stone cross of Irish origin was also found during hte excavation of the church. The excavator suggest that the farm at Stöng was established in the 10th century; radiocarbon results date the church to the early 11th century (Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 1996, p. 129f).

Leiðrétti ég hér með:
 

  • Kirkjurústina,sem Kristján Eldjárn og aðrir sveinar danska arkitektsins Aage Roussell komu niður á með hroðvirknislegum rannsóknarskurðum árið 1939 var þá ekki túlkuð sem smiðja. Þetta ættu allir að vita sem lesið hafa Forntida Gårdar i Island (Kaupmannahöfn 1943), þar sem niðurstöðurnar rannsóknanna í Þjórsárdal 1939 voru gefnar út árið 1943. Smiðja fannst hins vegar á Stöng árið 1939 um 20 metra austan við kirkjuna. Beint undir kirkjurústinni á Stöng er aftur á móti eldri smiðja (sem fannst 1993), forveri smiðjunnar sem rannsökuð var 1939.
  • Kór var ekki bætt við austurhluta kirkjunnar. Hann var þar frá upphafi er kirkjan var byggð. Þarf að nefna að kirkjan hafi legið í austvestur? Engar grafir voru grafnar upp. Þær voru rannsakaðar og í ljós koma að beinaflutningur í líkingu við það sem Kristinna laga þáttur í Grágas nefnir hefur átt sér stað - bein höfðu verið grafin upp á 12. öld og greftruð við aðra kirkju.
  • Skilgreiningin "exhumation of graves", það er fjarlægin líka, er mjög einkennileg, þegar tillit er tekið til þess að Steinunn Kristjánsdóttir hlýtur að vita, ef hún hefur lesið greinina sem hún vitnar í, að grafirnar á Stöng voru tómar. Bein höfðu í flestum tilvikum verið fjarlægð (sjá t.d. hér).
  • Brot af steinkrossi af írskum uppruna hefur aldrei fundist á Stöng og stendur ekkert um það í þeirri grein sem sem Steinunn Kristjánsdóttir vitnar í.(Sjá enn fremur hérna).
  • Ég hef hvergi ritað eða haldið því fram, að geislakolsaldursgreiningar á kirkjunni sýni aldur til byrjunar 11. aldar. Út frá upplýsingum frá afstöðu jarðlaga og mannvistarlaga, aldri gripa sem fundust í smiðjunni undir kirkjunni sem og út frá vitnisburði gjóskulaga, er ljóst að kirkjan hafi ekki verið reist fyrr en ca árið 1000 e. Kr.
Steinunn-distortion
 
Aldrei var torfgafl til vesturs á kirkjunni á Stöng. Hér hefur Steinunn blandað saman kirkjurústinni og smiðjurústinni sem liggur undir. Myndin úr Viking Settlements & Viking Society; Papers from the Proceedings of the Sixteenth Viking Congress í Reykjvík 2009 (2011). Mér þykir Steinunn hafa skrumskælt niðurstöður rannsóknanna á Stöng með þessari "skrípateikningu" sinni.
 

Hvernig það er hægt fyrir kennara í fornleifafræði við HÍ að níðast svo á texta og rannsóknarniðurstöðum annarra, er mér algjörlega fyrirmunað að skilja. Til hvers þarf Steinunn Kristjánsdóttir að birta viðvaningslega skematíska teikningu af rústinni á Stöng, þegar til eru nákvæmar uppmæling á kirkjunni? Verst er þó, að þeir sem ritstýrt hafa ráðstefnuriti 16. Víkingaráðstefnunnar í Reykjavík, á vegum Hins íslenzka Fornleifafélags og Háskóla Íslands, hafa ekki haft til þess nokkra burði.

Réttast væri að kæra þessi viðvaningslegu vinnubrögð til siðanefnda í Háskóla Íslands og ráðuneyta sem bera ábyrgð á þeim stöðum og stofnunum sem Steinunn vinnur við. En ósk mín er að fólk læri þegar þeim er bent á ruglið í sér og vinni ekki á eins hroðvirknislegan hátt í framtíðinni. Mikið af efni Fornleifs eru misjafnlega mjúk gagnrýni á léleg vinnubrögð og fljótfærnisvillur í íslenskir fornleifafræði. En líklegast lesa þeir sem baunað er á ekki gagnrýnina. Þeir eru kannski yfir hana hafnir.

Ef menn geta ekki lesið sér texta til gangs, er háskólaumhverfi kannski ekki rétti staðurinn að eyða kröftum sínum og starfsævi. Afsökunarbeiðni mega þeir sem skömmina bera setja hér í athugasemdirnar, ef menn hafa einhverja æru í skrokknum.

*

Ég gaf auðvitað manninum lærða, sem lesið hafði og trúað skrifum Steinunnar, leyfi til að nota myndir sem ég hef birt úr rannsóknum á Stöng. Rannsóknirnar á Stöng voru styrktar af almannafé, og þó ég hafi unnið mest með efnið á mínum eigin tíma, þá tel ég allar rannsóknarniðurstöður vera almannaeign þegar þær hafa verið birtar, en menn skulu nota þær með virðingu og án þess að skrumskæla það sem niðurstöðurnar sýna í raun eða það sem vísindamaðurinn hefur skrifað. Að vitna rangt í heimild er misnotkun. Meðferð Steffen Stummanns Hansens á texta mínum er skammarleg heimildafölsun og meðferð Steinunnar ætti ekki að sæma akademískum borgara í HÍ. En þegar menn eru komnir út í vafasama kenningasmíð sem mest líkist trúarbrögðum eru rökin, vísindin og fræðimennskan eftir því. 


Fortíðarsyndir á 150 ára afmælinu

Týndur hlutur er ekki alltaf glataður
 

Nýverið var hér á blogginu greint frá því hvernig Þjóðminjasafnið vill koma skikki á varðveislumál sín og afhendingu fornleifa sem finnast við fornleifarannsóknir til safnsins (sjá hér og hér). Kannski var líka kominn tími til þess á 150 ára afmæli safnsins? Sumir telja hins vegar að Þjóðminjasafnið sé að fara inn á starfssvið nýrrar stofnunar, Minjastofnunar Íslands, en ekki ætla ég að dæma um það.

Í sambandi við tillögur að drögum að nýjum reglum sem Þjóðminjasafnið vinnur að um afhendingu gripa til safnsins hafði ég samband við Þjóðminjavörð með skoðanir mínar. Þjóðminjasafnið leitaði til fornleifafræðinga um tillögur. En um leið og ég gaf álit bað ég einnig um skýringar á því hvað varð um forngripi úr járni sem fundust við rannsóknir á Stöng í Þjórsárdal sem afhentir voru Þjóðminjasafni Íslands til forvörslu árið 1984. Sjá enn fremur hér.

Ég hef margoft bent á, að hvarf gripa og sýna er staðreynd á Þjóðminjasafni Íslands (sjá t.d. hér), og víst er að þar á bæ vilja menn sem minnst ræða um það mál. Sérstaklega nú á 150 ára afmælinu. Safn sem glatar og týnir einhverju er vitaskuld ekki gott safn. Söfn eiga að varðveita. Það liggur í orðinu. Lilja Árnadóttir safnvörður, sem týnt hefur sýni sem hún sjálf lét taka við mikilvæga rannsókn á varðveisluskilyrðum silfurs á Íslandi, vill ekki einu sinni svara fyrirspurnum um það hvað varð um sýnið. Því verð ég víst að biðja Menntamálaráðuneyti um að sækja svör fyrir mig. Hver veit, kannski þarf rannsóknarlögregluna í málið?

Stöng 1984
Frá rannsóknum á Stöng í ágústmánuði 1984. Þá var fór fram mjög vönduð rannsókn fyrir fjárveitingu úr Þjóðhátíðarsjóði, en Þjóðminjasafnið eyðilagði rannsóknarniðurstöður. Safninu var ekki treystandi. Nú vilja menn hvorki ræða um fyrri tíma vanda né viðurkenna hann.
 

Alls fundust 50 gripir við tveggja vikna rannsókn á Stöng í Þjórsárdal sem fór fram 11. ágúst til  og með 2. september 1984. 33 gripanna voru úr járni. Árið 1993, er ég hóf störf á Þjóðminjasafni Íslands, uppgötvaði ég mér til mikils hryllings að járngripirnir sem fundust á Stöng árið 1984 lágu allir undir skemmdum. Ég fann aðeins ryðguð brot og járnryk í kössunum. Kristín Sigurðardóttir, núverandi yfirmaður Minjastofnunar Íslands (einnig kallað pólska spilavítið), sem ber ábyrgð á því að svo kölluð Þorláksbúð hefur verið reist í Skálholti og sem ætlar sér að fara að reisa suðræna villu ofan á órannsökuðum rústum á Stöng í Þjórsárdal, hafði ekki gert neitt við forngripina. Árið 1984 var hún forvörður á Þjóðminjasafni Íslands og tók að sér að forverja gripina 50 sem fundust.

40-1984 Stöng

Hnífur þessi með leifum af tréskafti fannst þann 22.8. 1984 í svæði SC, í torfvegg skálans sem er undir rústinni sem nú liggur undir skemmdum vegna aðgerðaleysis Þjóðminjasafns, Fornleifaverndar Ríkisins og Minjastofnunar Íslands síðan 1996. Hvernig ætli  fundur Stöng84:40 líti út í dag? Ljósmynd Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 1984.

Úr skýrslu 1984

Teikningar af forngripum í rannsóknarskýrslu frá 1984. Teikn. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 1984.

Fyrir rannsóknarskýrslu fyrir rannsóknina, sem ég sendi þjóðminjasafninu, hafði ég teiknað og ljósmyndað suma járngripina og eru það einu heimildirnar, fyrir utan fundarstað og mælingu á þeim og lýsingu, sem til eru í dag um þá fornmuni sem látnir voru grotna niður á Þjóðminjasafni Íslands. Ekki teiknaði ég alla gripi eða ljósmyndaði. Þá var maður ekki með stafrænar myndavélar eða skanna og maður nýtti tímann frá því að maður lauk rannsókninni þar til maður fór af landi brott til náms mjög vel og teiknaði það sem maður gat og ljósmyndaði. Forverðirnir og Þjóðminjasafnið stóðu hins vegar ekki við skyldur sínar. En rannsóknarleyfið fyrir rannsókninni á Stöng hafði Þjóðminjavörður gefið og þar með skyldað rannsakendur til að afhenda forngripi að rannsókn lokinni.(þetta var fyrir daga fornleifanefndar) og skuldbatt safnið sig til að forverja gripina.

Ég hef beðið Þjóðminjavörð um skýringar á þessu, en hún svarar engu um þetta mál. Hún trúir nefnilega á hugskeyti, því þegar ég minnti hana um daginn á erindið, þá segist hún hafa fengið hugskeyti, en hún svaraði samt ekki spurningum. Ég sendi reyndar ekki hugskeyti, mér að vitandi, og hef ekki móttakara fyrir slíkar sendingar frá öðrum. Reynið ekki einu sinni. Veffangið er öruggara vilhjalmur@mailme.dk

Ég hef einnig beðið Þjóðminjavörð um að leita skýringa hjá Kristínu Sigurðardóttur á því sem hún var að gera árið 1984. Skýringar hef ég enn ekki fengið. Bið ég hér með opinberlega forstöðumanns Minjastofnunar Íslands að skýra af hverju hún lét forngripi frá Stöng í Þjórsárdal grotna niður og eyðileggjast árið 1984. Ætlar hún að sýna ferðamönnum þetta afrek sitt í 700.000.000 kr. yfirbyggingu á Stöng sem hún ætlar að reisa yfir frekjulega valdníðslu sína án þess að hafa nokkra samvinnu við þann fornleifafræðing sem rannsakað hefur á Stöng í Þjórsárdal? Það held ég. Því hann hefur ekkert heyrt.

150 ára
"Týndur hlutur er ekki alltaf glataður" (Þór Magnússon 1988)

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband