Færsluflokkur: Gamlar myndir frá Íslandi

Sur une croisière

Lafayette 1930 c

Ritstjóri Fornríms þjónaði sem ungur piltur farþegum af ferðamannaskipum sem vörpuðu akkerum á ytri höfninni sunnan Engeyjar.

Eftir að hafa verið sendill nokkur sumur hjá Ríkisútvarpinu við Skúlagötu, útvegaði afi minn mér nýja vinnu. Hann var besti atvinnumiðlari sem ég hef þekkt.

Nýja sumarstarfið var líkamlega meira krefjandi vinna hjá Reykjavíkurhöfn (sem í dag heitir Faxaflóahafnir). Vinnan var afar fjölbreytileg: Skurðagröftur, málningarvinna, vegagerð, sandblástur, hreinsun á baujum, hreingerningar í Hafnarhúsinu, rif á gömlum bryggjum, steypuvinna alls konar, holræsagerð, aðstoð við trésmiði og bryggjusmiði og bíltúrar með Reyni heitnum Kristinssyni um Reykjavík til að kaupa langloku, kók og horfa á stelpur. Annar bílstjóri vann þarna en hann var mest fyrir stráka. Sem sagt afar fjölbreyttur og nútímalegur vinnustaður. Ég glápti þó ekki á ókunnar stúlkur á ferð í appelsínugulum Kassabenz Reynis, enda fyrir löngu búinn að setja radarinn á eina útvalda, sem ég þó missti ugglaust af vegna algjörrar draumværu. Og "sú útvalda" náði líklega aldrei radarsendingum úr höfði fábjánans - c´est la vie.

Hjá Reykjavíkurhöfn var maður kominn út í hið óvægna líf fullorðinsáranna. Fólk var jafnvel rekið fyrir að neita að vinna við gerð eldhúsinnréttingar heima hjá Hafnarstjóranum í Reykjavík. Stjórinn, sem aldrei lét sjá sig, lét bæjarstarfsmenn einnig þvo bílinn sinn, enda kominn af velmegandi og siðlausu fólki. Við vorum þó heppnir unglingarnir sem þarna höfðum góða vinnu og ágæt laun upp úr krafsinu og vorum tilbúnir að líta til hliðar þegar sjálftaka yfirmanna var annars vega.  Margir gamlir og sumir skemmtilegir karlar unnu þarna með okkur, þar á meðal gamlir sjóarar, einstaka fyllibytta og uppgjafabændur og við lærðum ýmislegt um sögu þessara manna og hvað varast ætti í lífinu. T.d. kenndi Árni gamli, maður um áttrætt, sem var ættaður úr Flóanum, hávaxinn og dökkur eins og Berbi, okkur hvernig við ættum að sýnast vera að vinna, þó við værum ekkert að því - þegar verkstjórann bar að. Þetta trikk Árna gamla reyndist mér þó aldrei gott, enda var eg lengi vel ákafamaður til allrar vinnu, ef ég má sjálfur segja frá.

Stefán Sigmundsson (1912-2006) hét yfirverkstjórinn í bækistöðvum vinnandi manna við Reykjavíkurhöfn. Stebbi var hinn vænsti karl, ættaður frá Neskaupstað ef ég man rétt, en frekar uppstökkur eins og þeir geta verið fyrir austan. Líklegast eru það frönsku genin. Hann var líka stríðinn á sinn undarlega máta. Stefán verkstjóri taldi mig vera vel lesinn og prúðan menntskæling, svo hann setti mig oft í starf sem ég hafði dálítið lúmskt gaman að. Ég var af og til útnefndur gæslumaður án kaskeitis við eystri Verbúðarbryggjuna skáhöllu við Suðurbugt, sem þar voru áður en flotbryggjurnar voru byggðar þar. Enn austar hafði staðið sams konar hallabryggja, hin margfræga Loftsbryggja sem var rifin 1973 og aðrar enn austar (t.d. Grófarbryggja). Upp Loftsbryggju gengu ýmsir frægir menn sem sigldu til Íslands á 20 öld. Hinir hvítu léttabátar sem sigldu fram og til baka með ferðamenn úr ferðamannaskipum sem ekki gátu lagst að í Sundahöfn, lögðust eftir 1973 að við eystri Verbúðarbryggjuna, en lóðsbátar lágu þar við megnið úr árinu þegar engin ferðamannaskip voru á höfninni. Nokkrum árum áður hafði maður stundum farið með vinum í strætó niður í bæ til að dorga við bryggjurnar við Suðurbugt.

Screenshot_2020-10-08 Sarpur is - Bátur, Bíll, Bryggja, Búningur, Karlmað

Sænskum farþegum hjálpað í land árið 1960 við eystri bryggjuna við Suðurbugt, þar sem ég stráði sandi forðum mestmegnis undir þýsk gamalmenni. Mér sýnist að sandari án kaskeitis hafi starfað hjá Reykjavíkurhöfn á undan mér, því það er greinilega sandur á bryggjunni. En hann er þó ekki hvítur. Ægisgarður til vinstri. Ljósmynd Ingimundar Magnússonar sem er varðveitt á Þjóðminjsafni Íslands.

Fyrir neðan eru listagóð mynd sem Vilborg Harðardóttir tók og þar sem sést í sporðinn á bryggjunni sem ég sandaði á sínum tíma. Sú ljósmynd er í vörslu Þjóðminjasafns, sem líkt og Borgarminjasafn hefur ekki sett sig nægilega vel inn í innviði hafnarinnar, nöfn og þess háttar. Eins mikið og ég elskaði þetta svæði á yngri árum, hata ég það álíka mikið í dag, þegar það er orðið að stórri okursölubúllubyggð sem sendir menn slippa og snauða heim eftir heimsókn. Aðeins ein af sölubúllunum þarna og nú við Ægisgarð og vestur úr út á Granda er í sérflokki. Það er bíll, sem úr er seldur Fish and Chips. Afgreiðslumaðurinn þar ber orðið remúlaði fram með einstaklega smekklegum pólskum hreim - og fiskurinn er líka 100%. Það er langt á milli góðra búlla í gömlu Reykjavík.

Screenshot_2020-10-09 Sarpur is - Bátur, Bryggja, Hús, Höfn, Karlmaður, S

Þar sem eystri Verbúðarbryggjan gat verið mjög hál þegar fjaraði út, varð maður að skafa hana alla og strá á hana hvítum skeljasandi sem var tiltækur í tunnu inni í skúr efst á bryggjunni. Þetta stráaldur var bráðnauðsynlegt svo að gamlingjarnir sem komu í land með hvítu léttabátunum dyttu ekki og slösuðu sig. Þarna í gráum skúr gat maður svo að loknum skylduverkum setið og lesið og virt fyrir sér og jafnvel talað við sjóarana af Ferðamannaskipunum sem oft voru Ítalir, Portúgalar og stundum frá Norður-Afríku, Túnis eða Egyptalandi.

Þar sem flestir farþegar sem komu með bátunum í land voru Þjóðverjar og Austurríkismenn, vissi maður að einhver hluti þeirra hafði ugglaust hrifist af Hitler og jafnvel barist og myrt fyrir foringjann. Þegar ég var búinn að strá undir þetta lið hvítum Saga-sandi, sat ég makindalega og starði á þýsku kallana þegar þeir gengu í land á Saga-Insel; Sumir þeirra illa lemstraðir úr stríðinu og margir enn í gamla stílnum í grænum Lodenfrökkum og með svarta Brimarhatta á kollinum.

Fyrsti eyjaskegginn sem þeir sáu svo leit ekki beint út eins og arísku illmennin sem þeir sjálfir voru á yngri árum, og hann hafði fyrir sið að hlaupa fyrir þá og strá sandi undir þá og hrópa að þeim Achtung, Rutschgefähr!

Lafayette á Ytri höfninni

Lafayette á Ytri höfninni. Ljósmynd úr safni French Line. Fyrirtækið upplýsir hins vegar ranglega, að myndin sé tekin í Noregi.

Lafayette

Lafayette 1930 b

Steríoskyggnumynd (gler) úr ferð Lafayette á til Norðurhafa árið 1930.

Það getur verið ansi hált á þiljum minninganna, og nú er ég án þess að vita hvað tímanum leið kominn aftur á 8. áratug síðustu aldar í lystiskipaminningunum. Eiginlega ætlaði ég bara að hafa örlítinn kafla um franska farþegaskipið Lafayette, sem kom nokkru sinnum til Reykjavíkur á 4. áratug síðustu aldar. Í fyrsta sinn  árið 1930, en það ár var skipinu hleypt af stokkunum.

FL006054_web1Steríó (Stereo)-skyggnumyndin efst(sem er hægt að skoða betur hér fyrir ofan) er tekin í þeirri ferð. Ég keypti hana í Þessaloniki í Grikklandi. Skipafélagið franska C.G.T - Compagnie Générale Transatlantique (einnig kallað French Line) sem gerði út Lafayette sendi ávallt ljósmyndara með skipum sínum í ferðirnar (sjá mynd af einum þeirra hér til vinstri) og ljósmyndastúdíó var um borð á skipunum. Farþegar gátu keypt myndir af sjálfum sér og myndir voru teknar fyrir auglýsingavinnu.

Lafayette03

Í ferðinni til Íslands 1930 voru teknar steríóskyggnur og þær skoðaðar í þar til gerðu tæki um borð á Lafayette, þar sem menn fengu einhvers konar þrívíddartilfinningu. Nokkrar myndanna hafa fyrir einhverjar sakir lent á Grikklandi. Enginn veit af hverju; Kannski var hægt að kaupa slíkar myndir.

Á myndinni efst sem tekin var úr turni Landakotskirkju, má sjá ýmislegt áhugavert. Þarna sér maður út yfir Hólavallakirkjugarð, Melavöllinn, Loftskeytastöðina, Grímsstaðaholtið og Skerjafjörðinn. Allt er á sínum stað en Háskólinn var bara kálgarður, eins og hann er víst enn. Nær má sjá Sólvalla-, Ásvalla- og Brávallagötur og hluta af elliheimilinu Grund. Hávallagata virðist ekki vera til þegar myndin var tekin enda nafn hennar ekki samþykkt fyrr en 1934.

FL008225_web Mr Henri yfirbryti á Lafayette

Monsieur Henri var bryti um borð á Lafayette. Með nefið

niður í hvers manns koppi.

FL016433_web

Hárgreiðslustofa Monsieurs Fleury um borð á Lafayatte.

FL016447_web

Skurðstofan á Lafayette.

Lafayette, sem var langt frá því að vera glæsilegasta fley C.G.T. skipafélagsins, varð ekki langlíft skip. Það brann og bókstaflega í brotajárn í höfninni í Le Havre árið 1938.

Notið svo fyrir mig grímuna eins og Kári leggur til. Það er einfaldlega ekki of mikið til af Íslendingum í heiminum.

Kveðja Forngrímur.


Nesti, te og nýir skór

Ný mynd úr leiðangri Burnetts og Trevelyans lille

Ljósmyndafornleifarannsóknir eru örugglega meðal hreinlegri fornleifarannsókna sem þekkjast. Hér skal sagt frá nýjustu uppgötvun Fornleifssafns í þeirri grein.

Í safnauka Fornleifssafns á pestarárinu 2020 er þessi ljósmynd frá 1883 (eða 1886). Forstöðumaður ljósmyndadeildar safnsins þiggur allar haldgóðar upplýsingar um hvar mennirnir sitja og snæða nestið sitt. Það verður víst aðeins ráðið af fjallinu í bakgrunninum.

nærmynd a

Myndin var tekin í einum af veiðiferðum Maitland James Burnetts (1844-1918) og Walter H. Trevelyans (1840-1884) til Ísland. Líklegast má telja að myndin sé tekin í leiðangri austur fyrir fjall sem hófst 31. júlí 1883.

Íslandsferðum Burnetts og Trevelyans hafa verið gerð góð skil í frábærri bók Frank heitins Ponzis, Ísland fyrir aldamótin (1993) Ponzi var mikill grúskari og safnaði ýmsu. Árið 1987 komst hann yfir óvenju merkilegt myndaalbúm á fornbókasölu í London. Hann leitaði svo uppi dagbók Burnetts í einkasafni og byggði bók sína á ljósmyndunum og dagbókinni. Og úr varð sagnfræðileg perla Bandaríkjamanns sem settist að á Íslandi - því glöggt er gests augað eins og allir vita nema heimalingarnir sem vita allt.

nærmynd b

Fimm gerðir af höttum

Fornleifur á aðrar myndir sem tengjast leiðöngrum Burnetts og Trevelyans, sem bent gætu til þess að sumar myndanna í albúminu sem Frank Ponzi hafði upp á hafi verið teknar af Sigfúsi Eymundssyni. Hægt er að lesa um það hér í fyrstu úttekt Fornleifs á Laterna Magica skyggnum sínum sem sýna Ísland.

Nú, skemmst er frá því að segja að ljósmyndin hér efst er ekki með í bók Ponzis. Það útilokar þó ekki að hún sé ekki með í albúminu sem hann fann. Ég er búinn að senda skilaboð til Tómasar Ponzi tómataplantekrueiganda, geirlauksbónda og kaffilistamanns m.m. í Mosfellsbæ, en er ekki búinn að fá svar. Líklegt þykir mér þó að ljósmyndin í Fornleifssafni sé ekki í albúmi Brúarmanna á Tómatabúgarðinum í Mosfellsbæ.

Á pappagrunn sem mynd Fornleifssafns er límd á hefur verið ritað Our Encampment for Lunch. Iceland. Það er ekki rithönd Burnetts sem við þekkjum úr dagbókinni sem Frank Ponzi hafði upp á. Sá sem skrifar var hins vegar örugglega með á myndinni, sem Burnett tók.

Út frá rannsóknum Frank heitins Ponzi, getum við upplýst lesendur örlítið um kallpeninginn á myndinni. Íslenskir lóðsar útlendinganna sitja alveg sér til vinstri. Það eru þeir Þórður og Einar Zoëga og einnig maður sem nefndur er til sögunnar í bók Ponzis sem Jóhannes. Þeir eru allir frekar óskýrir á mynd Burnetts og hafa líklega allir verið á iði vegna ljósmyndatökunnar.

Skotarnir og Bretarnir sitja hins vegar í andakt kringum tinkassa sem á stendur RAMMAYAN TEA MANCHESTER. Þessi forláta tekassi leiðangursmanna sést einnig á mynd 37 í albúminu sem Ponzi fann (sjá hér að neðan), þar sem veiðimennirnir eru líka að fá sér í gogginn. Allt eru þetta sömu mennirnir í sömu fötunum. Ponzi taldi hugsanlegt að skeggjaði maðurinn sem horfir undan við myndatökuna gæti hafa verið William Gilbert Spence Paterson (1854-1898) breski ræðismaðurinn á Íslandi. Sami maður horfir niður í tebollann eða samloku sína á mynd Fornleifssafns, svo ekki verða þær ráðgátur, hvor þetta sé hann eða að myndin sé frá 1883 eða 1886, leystar í þessu sinni, að því er forstöðumaður ljósmynddeildar Fornleifssafns telur.

Tea for Three

Tea for three, and some milk for the Icelanders, please! 

Þar sem fyrrgreind mynd, númer 37 (sjá hér fyrir neðan), er sögð tekin á fyrsta áningarstað hópsins á leið hans frá Reykjavík til Þingvalla, er mynd Fornleifssafns sennilega úr einhverjum síðari hádegisverð nær Þingvöllum. Það gæti hjálpað staðkunnugum við að staðsetja myndina fyrir Ljósmyndadeild Fornleifssafns - með fyrirfram þökkum.

Mynd 37 Ponzi


Algjörlega ófalsað málverk frá Íslandi undir hamarinn hjá Bruun Rasmussen í dag

Þúfnakot


Í dag verður boðið upp málverk hjá uppboðsfyrirtækinu Bruun Rasmussen. Sá hluti uppboðsins, þar er seld eru málverk, hefst klukkan 16 að staðartíma í Kaupmannahöfn. Þá er klukkan þrjú og rok og rassgat í Reykjavík. Málverkið sem hér sést er númer 119 á uppboðsskrá.

Nú vill svo til að Bruun Rasmussen er með algjörlega ósvikna vöru frá Íslandi. Engin brögð eru í tafli og Ólafur forvörður og sjálfcertifíseraður falsarabani þarf líklega ekki að setja gæðastimpil sinn á málverkið.

Um er að ræða olíumálverk á striga sem er 40  x  58 sm að stærð, sem sýnir kot í nágrenni Reykjavíkur árið 1847. Þá var málarinn Carl Ludvig Petersen á ferð á Íslandi með öðrum og meiri meistara, Vilhelm Melbye. Carl Ludvig Petersen teiknaði fjölda skyssa og teikninga frá dvöl sinni. Ein teikninganna er varðveitt í Þjóðminjasafni og hinar í Listasafni Íslands (sjá hér).

Þúfnakot 3

Teikning sú sem Þjóðminjasafn Íslands varðveitir fyrir íslensku þjóðina, er af sama mótífinu (sama bæ) og málverkið sem selt verður síðar í dag. Málverkið hefur Carl Ludvig Petersen að öllum líkindum málað við heimkomuna til Danmerkur, því hún er tímasett til 1848.

Þúfnakot 2

Nærmynd. Mér datt eitt andartak í hug, að málverkið sýndi kot á Seltjarnarnesi.

Ánægjulegt væri ef annað hvort Þjóðminjasafn Íslands eða Listasafnið hnepptu þetta málverk, sem danska uppboðsfyrirtækið metur á 40.000 hvítþvegnjar, danskar krónur. Það verð er þó nokkuð í hærri kantinum að mínu mati miðað við "gæði" myndarinnar. En áksjónaríus Bruun Rasmussen hafa fyrir löngu fundið fyrir því að málverkafæð Íslendinga á 19. öldunni hækkar verð og eykur áhugann á slíkir metravöru hjá nýríkum svindlurum frá Íslandi sem betrekkja stofur sínar með menningu sem þeir hafa ekkert vit á. Líklegast þarf fyrirtækið á því að halda, eftir að annað hvert 20. aldarmálverk sem þeir hafa undir höndum reynist falsað samkvæmt Ólafi konservator.

Ég skoðaði málverkið í dag ásamt góðum vini mínum, hinum 79 ára meistara Erik Bing Henriques. Við ákváðum ekki að bjóða í myndina, til að gefa fátækum söfnum á Íslandi tækifæri til að ná í hana. Og hver vill annars nú orðið eiga nokkurt málverk frá Íslandi. Menn eiga á hættu að allt þaðan sé stolið, logið, snuðað eða svikið.

O TEMPORA! O MORES!


Þá var stíll yfir heimsborginni við sundin blá

Löggan 1926Í sumar var ég staddur í tvær vikur á Íslandi með syni mínum. Eitt af því ljótasta sem ég sá, fyrir utan eyðileggingu arkitekta á miðbænum, voru lufsulegir verðir laganna.

Ég hafði boðið syni mínum á ágæta hamborgaraholu nærri húsakynnum RÚV, þar sem við höfðu borðað einu sinni áður árið 2017. Við vorum þar einir gestir fram að framreiðslu borgaranna, en allt í einu slengdust þar inn tveir lögreglumenn, ungir menn á besta aldri. Það hékk svo mikið af vopnum, verjum og drasli framan á þeim og um þá miðja, að halda mætti að þetta væru haldnir offituvanda. En þegar betur var að gáð, hékk þarna á þeim skammbyssa, rafbyssa, vasaljós, blýantur, teikniblokk, vídeómyndavél, kylfa, handjárn, hamar, sigð, skrúfujárn, töfrasproti og vitaskuld pínku sminktaska. Aumingja mennirnir sliguðust undan þessu, og því var kannski ekki nema vona að finna þá þarna étandi kolvetnis og fituríkt fæði í heimsborgaraholu Tómasar [ég tek fram að ég fæ ekki grænan eyri fyrir þessa auglýsingu].

En mikið hefði nú verið góður heimur, ef íslenska löggan hefði haldið frönsku pottlokunum frá 1926, þegar 7, 8 og 9 á stöðinni smæluðu framan í bandaríska kvikmyndagerðarmanninn og heimsferðalanginn Burton Holmes (1870-1958) í einni mynd í stuttmyndaröð hans Film Reels of Travel.

Í Austurstræti brosti löggan og þurfti ekki allt þetta ameríska aukadrasl sem löggan hefur hangandi utan á sér í dag. Hugsið ykkur ef löggurnar væru í svona múnderingu í Aðalstrætinu í dag og fengu sér í rólegheitunum sterkt kaffi og croissant, kannski patat frites á París og heilsuðu fólki með onnör og brostu keltnesku brosi. Er ekki hægt að macrónísera lögguliðið í næstu uppfærslu og gefa greyjunum betri frakka líkt og starfsbræðurnir báru árið 1926?

Síðar á 20. öldinni lagði löggan meira upp úr hæð manna en greind eins og kemur ljóslega fram á þessari ljósmynd sem þýskur nasisti, njósnari og flagari, Paul Burkert, tók í Reykjavík á 4. áratugnum og birti í bókinni Island, Erforscht, Erbaut, Erlebt (1936). En nú eru aðrir tímar...

Germönsk fífl10 árum síðar vou eintómir risar í löggunni, nema löreglustjórinn - hann var jafnan lítilfjörlegur nasisti: "Reykjaviks Polizeimannschaft. Der gröste 202 cm, der kleinste 196 cm."

Tourists in Rkv 1926Ferðamenn í Reykjavík 1926 á sætsýn á bestu rútunni í Reykjavík.

Horfið hér á kvikmynd Burton Holmes frá Reykjavík árið 1926. Mikið hefur breyst, ekki bara löggan. Síðla í myndinni er hægt að sjá Icelandic man to man wrestling sem glímumenn sýndu um borð á ferðamannaskipinu sumum ferðalöngum til mikillar ánægju. Það var víst næst því að komast á Café Babalú í dag.


Blingið hennar Hólmfríðar Þorvaldsdóttur

DH021688 2

Önnur tilraun og fræðilegri:

Því betra er að hafa það sem sannara reynist.

Um daginn fór ég heldur betur kvennavillt og ályktaðir rangt um mynd þessa. Þessar hefðarkonur, sem stóðu og sátu fyrir á ljósmynd í Reykjavík árið 1860, eru móðir, ein dætra hennar og uppeldisdóttir. Ljósmyndarinn upplýsti að þær væru kona og dætur "forsetans" (president of Reykjavík), sem var Jón Guðmundsson forseti Alþingis, einnig þekktur sem Jón ritstjóri (1807-1875).

Þær eru blessaðar, með fúlustu fyrirsætum Íslands sem ég hef séð - en gætu þó vel hafa verið óttaslegnar við þennan undarlega áhuga útlendinga á þeim. En þrátt fyrir óróa ungu kvennanna og illt augnaráð móðurinnar tókst sem betur fór að ná einni af elstu hópljósmyndum sem er til af Íslendingum. Myndin var tekin þann 25. ágúst árið 1860.

DH021688

Mér þótti í fyrstu tilraun líklegt að konan, sem situr og heldur á bókinni, væri Sigríður Bogadóttir (1818-1903) kona Pétur Péturssonar síðar biskups. Mér varð þar heldur betur á í messuvíninu og var mér vinsamlegast bent á það. 

Myndin er hins vegar með vissu af Hólmfríði Þorvaldsdóttur (1812-1876) dóttur hennar Kristínu Jónsdóttir og uppeldisdóttur, Hólmfríði Björnsdóttur, sem var bróðurdóttir Hólmfríðar Þorvaldsdóttur. Hafði gamall samstarfsmaður minn á Þjóðminjasafni Íslands, Halldór Jónsson, skrifað um konurnar og Einar heitinn Laxness, sem kenndi mér eins konar dönsku í MH fyrir 43 árum síðan, hafði skrifað grein í Lesbók Morgunblaðsins árið 1997 um myndina og meira.

Fox-leiðangurinn 1860

Árið 1860 í ágústmánuði, heimsótti leiðangur manna Ísland, eftir dvöl á Grænlandi. Ferðinni var fyrst og fremst heitið til Grænlands, en komið var við í Færeyjum og á Íslandi á bakaleiðinni. Tilgangurinn með Grænlandsleiðangrinum var hin endalausa leit að örlögum Sir John Franklins og leiðangurs hans á tveimur skipum, HMS Terror og Erebus, en þau fórust með mönnum og mús við Grænland árið 1845. 

Fjöldi leiðangra hafa verið gerðir til að leita uppi skip Franklins og rannsaka örlög skipsverja. Þeim leiðöngrum lauk væntanlega endanlega árið 2016 er flök skipanna fundust. Flak HMS Terror reyndist vel varðveitt á 25 metra dýpi. Leitarleiðangurinn árið 1860 var einn af mörgum sem var kostaður af ekkju John Franklins og var fley leitarmanna Fox og kapteinn um borð var þekktur flotaforingi, Allen Young (1827-1915)að nafni. Fox-leiðangrinum 1859-60, voru gerð ágæt skil af danska flotaforingjanum Theodor von Zeilau í bók sem út kom í Kaupmannahöfn árið 1861 og bar titilinn Fox-Ekspeditionen 1860.

Þegar leiðangursmenn á Fox, sem var gufuskip, kom við í Reykjavík síðsumars 1860 voru teknar ljósmyndir og eru nokkrar þeirra varðveittar sem stereómyndir, sem seldar voru þeim sem höfðu áhuga á því að fá dálitla dýpt í myndaskoðun sína á konum, sem var með öðrum hætti og menn skoða myndir í dag - verður víst að segja.

Ljósmyndarinn var kaþólski paterinn Julian Edmund Tenison-Woods (1832-1889), og eru nokkrar mynda hans frá Íslandi varðveittar (sjá t.d. eina þeirra hér). 

Tau-kross Hólmfríðar Þorvaldsdóttur

Fornleifur borar hér fyrst og fremst í eitt atriði. Það er smáatriði á spaðafaldsbúningi frú Hólmfríðar. Um háls hennar hangir festi með Tau-krossi (borið fram Tá, sem er gríska heitið fyrir t). Tau-kross er einnig kallaður Sankti Andrésarkross, því hann munn hafa verið krossfestur á T-laga krossi. Krossinn, sem Hólmfríður ber um hálsinn, er að öllum líkindum frá fyrri hluta 16. aldar eða lokum 15. aldar. Neðan úr krossinum hanga þrjú A með þverstriki yfir (líkt og A-in voru oft sýnd í epígrafíu (áletrunum) á 15. öld) og tvö A að auki héngu neðan úr þvertrénu. Þessi 5 A voru að öllum líkindum vísun til nafns heilags Andrésar.

Þannig var nú blingið á 16. og 15. öldinni og sumar af þessum þungu festum urðu ættargripir hjá velmegandi fjölskyldum.

DH021688 4

Sannast sagna minnir mig að ég hafi séð slíkan grip á Þjóminjasafninu þegar ég var á unga aldri (8-12 ára), en það var ég eins og grár köttur. Í þá daga var öllu búningasilfri slengt í tvö sýningarpúlt inni í bændasalnum. Mig minnir að þar hafi legið svona T-kross, en er ekki lengur viss. Þrátt fyrir nokkra leit hef ég ekkert fundið því til stuðnings á Sarpi. Kannski er ekki búið að melta gripinn nógu vel í Sarpi og ef til vill er ekki til mynd af honum á Þjóðminjasafninu. Ef það er tilfellið, er safnið beðið um að bæta úr því.

Hoffifyrrisæta

Til var í einkaeigu teikning eftir Sigurð Guðmundsson málara af Hólmfríði, en sú mynd eyðilagðist því miður í bruna árið 1934. Ljósmyndir höfðu hins vegar varðveist af teikningu Sigurðar Málara, einni þeirri bestu frá hans hendi, og þar má glögglega sjá Tau-kross Hólmfríðar.

Sigridur Bogadottir

Upphaflega hélt Fornleifur í fljótfærniskasti, að konan á ljósmynd Tennison-Woods væri Sigríður Bogadóttir. Myndin hér til hægri var tekin af henni árið 1903, sem var árið sem hún andaðist í Kaupmannahöfn. Líklegast voru margar konur nokkuð þungbrýndar á þessum árum í Reykjavík.

Annar möguleiki er sá, að þetta listaverk um hálsinn á fýldri maddömunni hafi verið brætt og málmurinn endurnotaður. Og svo er alltaf sá möguleiki að þetta djásn, sem fer Lady T í Reykjavík svo vel, hafi gengið í arf og sé Téið enn notað af langalangalangaömmubarni hennar, plötusnúðnum Alli T. Maður leyfir sér að dreyma og vona. En vonin er samt afar lítil.

Látið nú Fornleifi í té aðstoð yðar.

gettyimages-980067388-2048x2048 b

Mynd þessi, sýnir dóttur Hólmfríðar Þorvaldsdóttur, Kristínu Jónsdóttur og Hólmfríði Björnsdóttur, sem var bróðurdóttur Hólmfríðar Þorvaldsdóttur. Ljósmyndin var tekin á sama stað og myndin efst, og var einnig tekin af pater Tenison-Woods og hefur hann merkt hana "21. ágúst 1860 kl. 5 síðdegis". Frummyndin er varðveitt hjá Royal Geographic Society í London. Ljósmyndin er líklega tekin til norðurs við horn Aðalstrætis og Kirkjustrætis. Skugginn passar vel við að klukkan sé 5, 21. ágúst.

gettyimages-980067388-2048x2048 c


Myndarlegir menn - töffarar fyrir sinn tíma

Þorvaldur og Vilhelm Copyright Kaldal--Fornleifur

Um þessa menn hef ég skrifað áður hér á blogginu og bendi fólki á að lesa það (sjá hér). Afi minn, Vilhelm [Árni Ingimar] Kristinsson, er þarna á myndinni. Hann er ungi maðurinn til hægri. Hávaxnari vinur hans og félagi til sjós hét Þorvaldur Ögmundsson. Hann tók út af skipi við austurströnd Bandaríkjanna og drukknaði fáeinum árum eftir að myndin var tekin.

Þrátt fyrir að ég hafi skrifað um myndina sem þjóðminjasafnið á og sent safninu upplýsingar um hana árið 2016, hafa menn það enn ekki fært upplýsingar mínar inn í skráningarkerfið á sarpur.is. Þar er enn lítið að finna um upplýsingar um myndina.

Ég fékk eiginlega helst á tilfinninguna að safnið tryði ekki upplýsingum mínum um að afi minn væri á myndinni; vegna þess að hún var tekin í Flensborgarskóla, þar sem afi minn stundaði ekki nám eins og ég upplýsti safnið skilmerkileg um. Hins vegar var skólameistarinn í Flensborg faðir Þorvalds vinar afa. Þorvaldur trassaði óskir föður síns, Ögmundar Sigurðssonar, um að hann færi menntaveginn. Þorvaldur fór í staðinn á sjóinn, sem var sá vegur sem hélt lífi í íslensku þjóðinni, sem ekki voru óðalsbændur.

Hann nýtti sér þann möguleika að fá teknar myndir af sér ásamt vini sínum þegar Kaldal kom og tók ljósmyndir af nemendum Flensborgarskóla, þar sem hvorugur þeirra stundaði nám. Vonandi skilur Þjóðminjasafnið þetta. Afi var eins og svo margir aðrir einfaldlega of fátækur til að geta lagt stund á nám, þó hann hefði gjarnan viljað það. Slíkt skilur sjálftökufólkið ekki í dag.

Þorvaldur og Vilhelm 2 Copyright Kaldal--Fornleifur

Síðastliðið haust, þegar ég leit eina kvöldstund í fjölmörg myndaalbúm móður minnar rakst ég á tvær aðrar myndir frá sömu upptökunni af Vilhelm afa og Þorvaldi í Flensborgarskóla, þar sem afi minn stundaði reyndar ekki nám, en þar sem myndin var nú samt tekin. Ég ljósmyndaði myndirnar sem móðir mín varðveitir. Myndir Þjóðminjasafnsins getið þið séð hér og hér.

Þjóðminjasafninu er því nú orðið alveg óhætt að bæta við og vitna í upplýsingar á Fornleifi á Sarpi og nefna afa minn, en ekki aðeins skrifa um skólastjórasoninn í Flensborgarskóla sem Jón Kaldal tók mynd af - með afa mínum. Afi minn var sonur verkamanns sem bar kolasekki við Reykjavíkurhöfn og varð loks undir einum slíkum sem féll niður á hann úr miklum stakki sem hrundi. Hann hálsbrotnaði. Enn er ekki finna nafn afa míns á Sarpi við þessa mynd, tveimur árum eftir að Þjóðminjasafnið fékk þær upplýsingar að hann væri á henni. Kannski hafa menn þar á bæ ekki áhuga á öðrum en heldri manna piltum? Ég tel það reyndar öruggt.

Ég geri mér vitaskuld grein fyrir því að það vinnur orðið svo fátt, sérmenntað starfsfólk á Þjóðminjasafninu. Þar vinna flestir nú orðið við einhvern krambúðarkassa, við gæslu, í fatahengi og kaffistofu (sjá hér), meðan að yfirmaðurinn gerir sér enn drauma um að verða prófessor án þess að hafa nokkuð fyrir því, annað en að vinna fyrir hið pólitíska viðundur Sigmund Davíð sem og í ígripavinnu við að reka fólk á öðrum stofnunum. Myndir segja svo margt (sjá hér), en þegar ljósmyndadeild Þjóðminjasafns Íslands er fyrirmunað að skrá upplýsingar um myndir sínar, þegar enn er til fólk sem getur sagt söguna, þá er illt í efni. Reyndar á þetta líka við um aðra muni en ljósmyndir. Þjóðminjasafnið er sannast sagna ekki orðið annað en frekar þreyttar sýningar sem engum breytingum taka og sem veita fjöldann allan af röngum upplýsingum.

Mig langar til gamans að upplýsa, að afi minn var með Þorvaldi á nokkru vertíðum á bátum og togurum frá Siglufirði. Afi þótti listakokkur og sinnti því starfi lengst af þegar hann var sjónum. Hann kom oft til Akureyrar, því honum þótti gott að fara á ball og á kaffihús. Gefinn var hann fyrir kökur, karlinn.


Swiss Misses

Kerlingar við kirkju small FORNLEIFUR copyright
Fornleifur horfir heldur til mikið á konur á netinu. Þetta tómstundagaman hans hefur færst í aukana frekar en hitt. Hans yfirsjón og perversjón eru gamlar boldangskonur, helst kappklæddar og hann kaupir þær ef þær eru falar.  Íslenskar kerlingar eru í miklu uppáhaldi hjá honum. Í tölvu hans finnst töluvert magn af alls kyns myndum af peysufatakerlingum, upphluts-Unum, faldbúninga-Siggum svo eitthvað sé talið. 

Slíkum myndum hefur hann sankað að sér, keypt á netinu og fundið hjá skransölum í þremur heimsálfum. Hann hefur mikla unum af því að skoða þessar konur og sýna öðrum hvað margar konur eru í haremsfjósi hans. Hann telur, að íslenskar konur séu allar fædd módel; Ávallt til í tuskið og hafi viljugastar hoppað í fínu fötin í hvert skipti sem útlendingur birtist með myndavél eða bara blýant og blokk.

Stundum finnur hann fegurðardísir sínar og módel á furðulegustu stöðum. Nú síðast festi hann kaup á tveimur boldangskonum í sunnudagsfötunum, þar sem þær stilla sér upp við kirkju undir fjallshlíð. Myndin er að öllum líkindum frá 3. eða fjórða áratug síðust aldar, og er glerskyggna fyrir töfralampa (magica laterna).  Myndin er líklega tekin af ensku ferðalangi, þó ekki sé hægt að útiloka aðra, en myndin var til fals á Englandi.

Hvort þessar konur reyndu að villa á sér heimildir skal ósagt látið, en þær voru seldar sem konur frá Swiss á eBay. Þær bjuggu hjá skransala í Beccles í Suffolk og fengust fyrir slikk, því að skransalinn hélt að þær væru jóðlandi alparósir, sem auðvitað er nóg til af og þær því ekki í háum kúrs á kjötmarkaði fortíðarinnar.

Fornleifur vill komast í nánari kynni við þessar konur og er ólmur eftir því að vita hvar þær bjuggu, hvað þær hétu og hverra manna þær voru.  Kirkjan þeirra er undir hlíð, kórinn er stór, fjallshlíðin er steind. Svona konur hljóta að hafa verið vel giftar og átt marga afkomendur sem muna þær og hafa margar upplýsingar á takteinum um þær. 

Fornleifur bíður spenntur eftir því að fá upplýsingar um þessi vel þroskuðu módel.

Fyrir hönd Fornleifs, sem er of upptekinn yfir maddömunum til að geta skrifað nokkur að viti.

Vilhjálmur ritstjóri


Fríða Sveins, þröstur minn góður!, það var stúlkan hans Xaviers

BR 3

MalfridurÞessi franska litógrafía er varðveitt í geymslum Fornleifssafns sem er aðeins opið almenningi á Fornleifsbloggi, þegar Fornleifaverði hentar. Myndin er einstaklega áhugaverð. Líklegast hefði einhver Íslendingur mótmælt henni, ef hún hefði komið fyrir sjónir þeirra.  Af einhverjum ástæðum sem ekki koma fram í textanum hafa höfundarnir valið að setja Ísland með í kaflann um Svíþjóð sem han kallaði Suede, Islande et Laponie: Costumes et usage populaires.

Íslenska konan á myndinni  hefur lent í bás með frumbyggjum og fólki sem á 19. öld var stundum talið frumstæðra en aðrir Evrópumenn, þegar lærðir menn fóru að draga menn í dilka á síðari hluta aldarinnar út frá líkamsbyggingu og höfuðlagi og jafnvel neflagi.  Myndin er úr heftaröð um búninga og siði manna í Evrópu  sem gefið var út í  París á tímabilinu 1877 - 1888 . Verk þetta var eftir M. A.  Racinet og birtist þessi mynd í 6. hefti ritraðarinnar,  sem bar heitið  "Le Costume historiqueLe costume historique : cinq cents planches, trois cents en couleurs, or et argent, deux cent en camaieu, types principaux du vêtement et de la parure, rapprochés de ceux de l´intérieur de l´habitation dans tous les temps et chez tous les peuples.... VI. Planches et notices 401 à 500  .  etc. etc.

Málfríður Sveinsdóttir hét fyrirsætan

Malfridur hans XaviersSteinprent eftir teikningu Auguste Mayers

Hið undurfagra fljóð á myndinni efst, lengst til hægri, er vitaskuld unnin á grundvelli teikningar Auguste Mayers, samferðamanns Paul Gaimards á Ísland, af prúðbúinni konu með spaðafald. Konan á myndin er Máfríður Sveinsdóttir í Reykjavík, sem fæddist árið 1815. Hún var jafnan kölluð Fríða Sveins. Fríða var dóttir Sveins Ólafssonar á Arnarhóli. Hún sleit barnsskónum í mikilli fátækt í Arnarhólsbænum. Kotið var rifið árið 1828. Fríða var framreiðslustúlka á klúbbnum þegar Gaimards-leiðangurinn var í Reykjavík og virðist svo sem þeim Frökkunum hafi litist nokkuð vel á hana.

Ekki veit ég hvort Fríða hafi verið sleip í frönsku, en það hindraði ekki náin kynni hennar við einn Fransmanninn. 26 ára franskur stúdent, Xavier Marmier að nafni, sem með var í föruneyti Gaimards, eignaðist barn með Fríðu. Ávöxtur þess sambands kom í heiminn árið 1837 og var það drengur sem kallaður var Sveinn Xavier. — Þegar Sveinn Ólafsson, faðir Fríðu, varð að flytja frá Arnarhóli, reisti hann sér bæ, er hann kallaði Þingvöll, þar sem nú er Skólastræti.

Afdrif Fríðu voru þau að hún fluttist til Danmerkur, þar sem hún giftist skósmið. Fornleifur hefur grafið það upp að hann hét Peter Adolph Jensen (f. 1818). Hann er skráður árið 1845 sem skomagersvend til heimilis að Ny Kongensgade 233, sem er Ny Kongensgade númer 7 í dag. Jensen deyr og giftist þá Málfríður aftur árið 1853, þá 38 ára gömul, Carl Johan Fagerstrøm skósmið sem var 31 árs. Líklegast er hægt að finna meira um örlög Málfríðar, en til þess hef ég ekki tíma eins og er.

Ny-Kongensgade-7-5

Í þessu húsi, á jarðhæð, bjó Málfríður með fyrri dönskum manni sínum, Peter Adolph Jensen.

Pétur Pétursson þulur taldi að sonur Málfríðar, Sveinn Xavier, hafi ekki orðið gamall. Um Xavier Marmier, stúdentinn sem elskaði Fríðu, hefur Elín Pálmadóttir síðan skrifað frábæra grein um í Morgunblaðið árið 1993 og um ástarævintýri Marmiers (þau voru fleiri en eitt) unga  í Reykjavík, sem ég hvet menn til að lesa (sjá hér) Þar fór Elín Pálma á flug með hjálp hjónanna Giselle Jonsson og Sigurðar Jónssonar. Í greininni kemur fram hvaða litir hafa verið í búningi þeim sem ungfrú Málfríður var í þegar hún var teiknuð í Reykjavík. Malfríður var Belle de Reykjavík, aðalskvísan í bænum.

Marmier var sæmilega frægt skáld, rithöfundur og prófessor í Rennes. Hann var sömuleiðis meðlimur í Académie française. Jónas Hallgrímsson gerði lítið úr Xavier í skrifum sínum líkt og kemur fram í grein Elínar. Blái frakkinn og gullknapparnir hans Jónasar hafa væntanlega ekki gengið eins í augun á Fríðu, eins og ekta Fransmaður sem hvíslaði hlý orð af ástríðu í eyru ungmeyja í Reykjavík. 

Marmier,_Xavier,_par_Truchelut,_BNF_Gallica

Maðurinn sem elskaði Fríðu Sveins í Reykjavík - um stund - en einnig margar aðrar meyjar. Xavier Marmier (1788-1892) var það sem í dag kallast einarður raðflagari. Hann hætti fyrst þeirri iðju sinni frekar seint á ævinni, eða er hann missti son sinn og eiginkonu með stuttu millibili.

Kannski var hún Fríða Sveins sett á myndina efst með fjarskyldum ættingjum sínum, Sömunum, af hreinni tilviljun. Til dæmis er menn uppgötvuðu á síðustu stundu fyrir útgáfu, að þeir væru búnir að gleyma Íslandi. En ástæðan gæti þó verið önnur. Nokkrir ferðalangar sem til Íslands komu líktu litarhafti Íslendinga við litarhaft Sama. Þóttu sumum ferðalöngum báðar þjóðirnar eitthvað grámyglulegar og líkar í fasi. Sólarleysi gæti verið skýringin, en einnig erfðir. Þær hafa hafa leikið suma Íslendinga grátt, en Málfríður gerði sitt besta til að bæta úr. Já kvennasagan er mjög vanrækt grein.


Síðustu hreindýrin á Suðvesturlandi

Auguste Mayer 1838 c
Man einhver lesenda Fornleifs eftir því að hafa heyrt ættingja sína segja frá hreindýrum þeim sem kúrðu á Hengilssvæðinu fram til 1930? Kannski vill svo vel til að
einhver eigi í fórum sínum ljósmyndir af síðustu dýrunum, eða t.d. málverk.

Síðast hreindýrið Suðvestanlands var fangað skömmu fyrir 1930 á Bolavöllum sunnan við Húsmúlarétt, nærri Kolviðarhól.

Myndin, steinprentið, hér af ofan af hreindýrum sem urðu á leið leiðangursmanna Gaimards milli Reykjavíkur og Þingvalla er að finna í stór verki Paul Gaimards um Ísland frá 1838. Ég man ekki eftir því að nokkur hafi notað þessa mynd í bækur eða greinar um íslensk hreindýr. En þarna eru þau nú blessuð, svört á hvítu.

Hvar eru hreindýrin nákvæmlega stödd á myndinni í verki Gaimards? Kannast einhver við kennileiti á steinprenti Jolys og Bayots eftir teikningu meistara Auguste Mayers?


Byltingarbifreiðin Moskvitch

Logo-mzma

Nei, Fornleifur er ekki hrokkinn upp af enn, Gleðilegt ár!

Fyrstu minningar yfirritstjóra Fornleifs af bifreiðum eru annars vegar af bílum afa míns, en hins vegar úr leigubílum Bifreiðastöðvar Steindórs, sem ilmuðu af Wunderbaum-kortum með myndum af léttklæddum blondínum í strápilsum með kókoshnetubrjóstahöld. Ég ók af og til í leigubíl með föður mínum og móður áður en þau festu kaup á eigin bíl, þó strætisvagnar SVR væru nú lengst af þarfasti þjónn fjölskyldunnar.

Faðir minn og móðir tóku ekki ökupróf fyrr en 1968, þegar foreldrar mínir keypti sér Cortínu. Faðir minn kom frá landi þar sem bílar þóttu ekki nauðsynlegir og hjól voru aðalfararskjótinn. Í hollenska hernum hafði honum ekki tekist betur til í bílprófi sem hann átti að taka, að hann bakkaði á og braut grindverk og lenti ofan í skurði, en þá var hann reyndar að taka próf á hertrukk. Því tel ég útilokað að hann hafi fengið ökuskírteini þá, og var hann settur í skrifstofustörf með hann gegndi herskyldu.

Moskvitch

Fyrsti fjölskyldubíllinn sem mér var ekið í svo ég viti til, var Moskvitch móðurafa míns, Vilhelms Kristinssonar. Hann átti tvo, Moskvitch M-402, þriggja gíra, sem hann keypti árið 1956 og Moskvitch M-407 (fjögurra gíra) sem hann keypti ca. 1962, þegar sú gerð kom fram.

Þetta voru frekar ódýrir bílar, en óþéttir og harðir, en þeir voru ágætir í vetrarhörkum, þegar annað á hjólum fraus. Þá komst þessi Síberíuchevy leiðar sinnar, hvert sem var. Veit ég lítið um viðhaldskostnað við þessa bíla, en afi hrósaði þeim miðað við enskar druslur sem hann átti síðar.

2558118556_34c06f5651_b

Moskvitchinn var eitthvað seldur á Bretlandseyjum og man ég eftir því að ég rakst á einn gamlan þegar ég bjó og stundaði nám í Durham 1988-89. Þess má geta að einnig var framleidd gerð sem kölluð var M-410 sem var með drif á öllum hjólum. Var hægt að nota hana sem dráttarvél.

Moskvitchinn var framleiddur af MZMA verksmiðjunni í MoskvuMZMA er skammstöfun fyrir Moskovsky Zavod Malolitrazhnykh Avtomobiley, sem á íslensku útleggst Smábílaverksmiðja Moskvuborgar. Moskvitch þýðir einfaldlega Moskvubúi.

Afi var enginn efnamaður, og alla tíð flokksbundinn Krati, sem jafnvel keypti Alþýðublaðið eftir að þá hvarf. Þó hann hefði haft ráð á dýrari bíl, mátti maður sem krati ekki berast á og mér er sagt að hann hafi átt þennan bíl með öðrum um tíma, en það tel ég nú frekar hafa verið Austin-bifreið sem afi átti fyrr með fjarskyldum frænda ömmu minnar. Sá maður varð frægur fyrir að koma of seint í 100 metra hlaup í keppni í tugþraut á Ólympíuleikunum árið 1936. Hann fékk að hlaupa einn, þrátt fyrir að hafa móðgað foringjann.

Ný gerð af Moskvitch var til sýnis í KR-heimilinu árið 1956

Afi sagði mér á sínum tíma, að hann hefði farið að skoða M-420 módelið af Moskvitch í KR heimilinu og séð þar áróðurskvikmynd um ágæti hans. Nokkrum dögum síðar festi hann kaup á eintaki og ekki sakaði að frændi hans (líklegast of fjarskyldur til þess að ég geti kallað hann frænda) átti Bifreiðar og Landbúnaðarvélar, sem fluttu inn þessa eðalkagga, en þá var B&L á Ægisgötu 10, þar sem kollega minn Bjarni F. Einarsson hefur lengi verið með Fornleifastofuna sína.

Moskvitch í Mogganum

Mér þótti alltaf gott að aka með afa í Moskvitchinum, eða Mosaskítnum, eins og ég kallaði M-407 módelið, því ég man nú mest lítið eftir M-402 gerðinni. Eitt situr enn eftir í minningunni. En það var sérstök lyktin (en sumir kölluðu þetta fýlu) í Moskvitch, sem ég hef líka fundið í Volgum sem ekki var reykt í og Lödunni minni hér um árið, sem afi fjármagnaði að einhverju leyti. Hvernig þessi ilmur var búinn til veit ég ekki, en ég hef síðar kallað þetta byltingarilm.

Ég man eftir mörgum ferðum með afa og samstarfsmanni hans, Þórði, er ég fór með þeim á 7. áratugnum í skíðagöngur til heilsubótar uppi í Hveradal. Moskvitchinn komst allt (ef logið skal eins og Rússi), og man ég eftir því að afi var að draga frjálshyggjubíla í gang á Heiðinni, sem ekkert þoldu og dóu í vetrarhörkum.

Rauðhólar 1956 Moskwitch

Móðir mín þykist hér aka í Moskvitch M-402, sem bar númeraplötuna R 385, en það númer fékk hann þegar á 4. áratugnum er hann keypti sinn fyrsta bíl. Hægt er að stækka myndina með því að klikka á hana með músinni.

Myndin hér fyrir ofan er tekin stuttu eftir að afi keypti fyrsta Moskvitchinn sinn. Fjölskyldan fór í bíltúr upp að Rauðhólum og móðir mín fékk allranáðugast að prófa bílinn. Hefur líklega þótt öruggast að gera slíkt í Rauðhólum, þar sem yfirvöld sáu ekki til. Móðir mín situr við stýrið, en amma mín sýnist mér að sé hálfsmeyk í farþegasætinu. Faðir minnt tók myndina í vetrarhörkunni í Rauðhólum: Myndin er að mínu mati hálfgert meistarastykki og hefði sæmt sér vel sem auglýsing fyrir Moskvitch bíla og hefði vafalítið kætt fólk austan járntjaldsins, nú þegar það var farið að venjast því að vera laust við Stalín og framtíðin öll virtist ljósari en fyrr.

Stjarna allra bílanna í fjölskyldunni, og þar á meðal má nefna Austin, Skoda, Mercury Maverick, Wartburg, Honda, Skoda Fabia, Rolls Roys (?), Cortínur, Hyundai og líklega eitthvað japanskt rusl, er óneitanlega Moskvitcharnir hans afa. Það er einfaldlega ekki hægt að kaupa slíka bíla í dag... Þeir eru löngu komnir á söfn og því alls ekki úr vegi að nefna þá á Fornleifi.

Москвич_407

Sjáið línurnar. En allt var þetta "design" stolið. Ljósmynd: Sergey Korovkin
 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband