Þar misstu Íslendingar enn einu sinni af sögu sinni

Vasi

Fjölmiðlar einblína mikið á falsanir á málverkum íslenskra meistara sem endalaust eru boðnar upp í Danmörku. En þegar dýrgripir, sem eru mikilvægir fyrir sögu Íslands, eru boðnir upp, heyrist ekkert. Þá er enginn áhugi. Ríkisútvarpið gerði þó grein fyrir vasanum sem í gær var seldur fyrir 130.000 danskar krónur (2.8 milljónir íslenskar) hjá listaverka-uppboðsfyrirtækinu Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn. Fyrir minna verð en Skóda Fabia gátu Íslendingar hneppt mikilvæga heimild um Ísland. Vasinn fór líklega í staðinn til einhvers safnara í Þýskalandi, en að minnsta kosti ekki til Íslands. Það staðfesti Bruun Rasmussen nú rétt áðan.

Ekki eru mörg ár síðan að Íslendingar keyptu allt steininum léttara, og þyngra, í Danmörku, svona til að sýna að þeir væru orðnir þjóð sem taka ætti mark á. Þjóð með peninga. Ef það voru ekki hótel og dagblöð, þá voru það fasteignafyrirtæki, flugfélög og bjórverksmiður. Ég varð eitt sinn vitni að stórinnkaupum íslensks bubba á uppboði á Bruun Rasmussens. Þar var á ferðinni mikill og feitur víkingur, sem m.a. er þekktur fyrir að hafa tæmt sjóð sem frænka hans stofnaði í Ameríku, sem átti nota til að styðja listamenn. Sá maður á nú ekki bót fyrir rassinn á sér, er búinn að fá skuldafyrirgreiðslu í bankanum sínum. Hann kveikir líklegast upp í ofninum með Kjarvölum sem hann keypti fyrir peninga frænkunnar.

Bessastaðir

Sjáið myndina stærri með því að klikka á hana
 
Nú er öldin önnur, og ekki var það Íslendingur sem í gær keypti hinn forláta vasa með Íslandsmyndum frá 1836, sem þá var boðinn upp í Kaupmannahöfn. Vasinn fór á 2,8 milljónir (ísl.), sem hefðu verið smáaurar fyrir íslenska ríkið. Þennan vasa hefði átt að kaupa fyrir Þjóðminjasafnið.
 
Þessi svokallaði Delfín-vasi (Höfrungavasi) var hannaður af  C.F. Hetsch en ber mynd þýsk-danska listmálarans Frederiks Theodors Kloss (1802-1876) sem ferðaðist með Friðriki Danaprins (hann hét síðar Friðrik VII) til Íslands árið 1834. Lauritsz nokkur Lungbye málaði vasann. Vasinn var gerður í Den Kongelige Porcelainsfabrik árið 1836.
 
Vasinn, sem er 55 sm. að hæð, sýnir mynd af Bessastöðum og umhverfi. Þetta er svokallaður panoramavasi með mjög fallegri fjallasýn. Við sjáum Esjuna, Skarðsheiðina, Akrafjall, Hafnarfjall og Snæfellsjökul og við sjáum Reykjavík, Seltjarnarnes og Gálgahraun. Hugsanlega hefur vasi þessi upphaflega átt "bróður", og þar að auki voru tveir minni vasar með myndum frá Íslandsförinni. Friðrik VII konungur hinn barnlausi gaf aðalsfjölskyldunni Scheel þennan vasa og var hún í eigu einhvers fátæks afkomandans þangað til í gær, þegar hann fékk peninga fyrir hann, sem væntanlega fer í að borga upp í Skóda Fabíu.
Esjan og Reykjavík
Reykjavík, Esjan, Skarðsheiðin. Sjáið nærmynd með því að klikka nokkrum sinnum á myndina

Í aumingjaskap sínum misstu Íslendingar af þessum kostagrip og heimild, meðan þeir voru að rausa um rétt einhvers Kínverja uppi á Grímsstöðum. Í stað þess að Menntamálaráðuneytið friðar skúra í Skálholti, hefði það átt að senda mann til Kaupmannahafnar til að bjóða í þennan vasa. Þetta er ómissandi saga og heimild sem Íslendingar misstu hér af. 

Gálgahraun

Konungur kemur ríðandi með fylgdarliði um Gálgahraun, nokkuð meira úfið en það er í raun og veru.

Fyrr á árinu fór fyrir lítið lituð pennateikning eftir Frederik Theodor Kloss, sem sýndi kyssandi par á Þingvöllum árið 1834. Það fór á skitnar 4200 DKK (90.000 ISK), og örugglega ekki til Íslands (sjá myndina neðar). Árið 2009 fór málverk eftir Kloss, sem málað var í Reykjavík árið 1834 á 8000 DKK (172.000 ISK). Spottprísar, en var þetta keypt til Íslands? Nei, íslendingar vilja miklu frekar fá endurgerð "miðaldaflugskýli" í Skálholti og skemmur ofan á friðlýstar fornminjar. Verðmætamatið er brenglað.

Fyrirgefið mér að ég segið það. Margir Íslendingar eru menningarlegir óvitar, en nýi vasinn hans Helmuths fer örugglega vel við ísbjarnarteppið.

Viðbót: Helmuth borgaði 130.000 DKK fyrir vasann.

Akrafjall
Stækkið myndina og sjáið hvað þið misstuð
F.T.Kloss Par der kysser på Thingvellir
Þessi teikning var seld fyrr á árinu fyrir 4200 DKK

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Carlos Ari Ferrer

Manni fallast hendur yfir svona sofandahætti. Takk fyrir skrifin, félagi.

Carlos Ari Ferrer, 29.11.2011 kl. 12:53

2 Smámynd: FORNLEIFUR

Já Carlos, maður er agndofa yfir þessu. Ég komst ekki á uppboðið. En mig langaði til að sjá hver hafði síðasta boð. En það var staðfest, þegar ég hringdi í morgun, að vasinn hefði ekki farið til Íslands.

FORNLEIFUR, 29.11.2011 kl. 13:09

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það samræmist náttúrlega ekki uber-nationalisma Evrópusamsteypunnar að halda í þjóðararf og sögu í hallærislegum útnára. Slíkt verður að afmá með öllum ráðum svo við getum farið sem sviplausar gínur inn í nýja stórmaktsögu dreyminna Habsborgara undir stjörnumprýddri bláfánaborg.

Jón Steinar Ragnarsson, 30.11.2011 kl. 06:19

4 Smámynd: FORNLEIFUR

Maður gæti haldið það Jón Steinar. En þeim verður ekki að vilja sínum.

FORNLEIFUR, 30.11.2011 kl. 06:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband