Er kryppa Ríkharðs III fundin ?

Richard_III_earliest_surviving_portrait
 

Flestir þekkja krypplinginn, geðsjúklinginn og óþokkann Ríkharð III frá samnefndu leikriti Williams Shakespeares frá 1591. Við þekkjum einnig mörg hvernig Laurence Olivier gerði honum skil í kvikmyndaútgáfu leikritsins frá árinu 1955.

Ekki vilja allir Bretar sætta sig við Ríkharð III í meðferð Shakespeares og ýmissa leikara sem vildu sýna okkur hve góðir þeir voru að leika óþokka. Stofnaður hefur verið sjóður, The Richard the III Foundation, Inc. sem efla á rannsóknir á sögu Ríkharðs III. Meðal annars til að rétt við ímynd konungsins. Þessi sjóður hefur félaga í Bretlandi, í Bandaríkjunum og örugglega víðar. Hver vill ekki vera góður við krypplinga í dag. Það sem við þekkjum um Ríkharð hefur líka verið skrifað af andstæðingum hans, Tudor-ættinni, og sá hún sér akk í því að gera hið versta fól úr Ríkharði.

Nú fara fram fornleifarannsóknir í Leicester á Englandi, sem m.a. eru styrktar af sjóð þessum. Rannsóknirnar fara fram á bílastæði, þar sem hann er talinn hafa verið greftraður eftir orrustuna við Bosworth Akra árið 1485. Á bílastæðinu í Leicester hafa fornleifafræðingar grafið síðan í ágúst, en undir bílastæðinu stóð áður sú klausturkirkja sem maður veit að Ríkharður III var greftraður í.

Viti menn, þegar á fyrstu vikum rannsóknarinnar, sem stýrt er af fornleifafræðingum við háskólann í Leicester, hafa menn fundið beinagrind manns með kryppu (sjúka hryggjaliði) og örvarodd í höfuðkúpunni. Gröfin fannstí í kór kirkjurústarinnar.

fundarstadur

Örin sýnir hvað bein krypplingsins fundust í Leicester

Konungaáhugi Breta eru auðvitað svo gífurlegur, að fyrir löngu er búið að finna afkomendur Ríkharðs III. Þá er að finna í Kanada. Þangað flutti bresk kona fyrir mörgum árum og giftist einhverjum Ibsen. Sonur hennar Michael Ibsen, 55 ára, sem fluttist til London og er þar húsgagnasmiður, hefur nú verið beðinn um að gefa DNA sýni úr sjálfum sér til að bera saman við DNA-ið úr beinagrindinni í Leicester. Ef hægt verður að sýna að móðurgen (mítókondríal gen) Ibsens séu þau sömu og í beinagrindinni er hægt að færa sterkar líkur að því að krypplingurinn undir bílstæðinu í Leicester sé Ríkharður III. En svo er aldrei að vita, kannski er Ibsen alls ekki kominn af Ríkharði, og getur þá beinagrindin samt sem áður verið af Ríkharði. Það verður kannski erfitt að sanna. Svo þarf erfðaefnið í beinagrindinni líka að henta til rannsóknanna, og það er enn óvíst.

Ibsen sýni

Michael Ibsen tekur DNA sýni úr sjálfum sér fyrir framan fjölmiðlana. He looks a bit Royale with a lollipop!

Haskoli eda mediasirkus 

Fjölmiðlasirkus í Leicester, nú spyrja menn sig hvort leggja eigi beinin til hinstu hvílu í Westminster Abbey, ef þau "reynast úr Ríkharði"

Maður leyfir sér þó að efast, og undrast að fornleifafræðingar taki þátt í svona fjölmiðlasirkus. En stundum er fornleifafræðin hundheppin líkt og óþokkinn.

Laurence-Olivier-Richard-001
Olivier í hlutverki Ríkharðs III

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Rikki var varla neitt góðmenni, en hann lét sem kunnugt er drepa tvo barnunga bróðursyni sína í Tower. Á hitt ber þó að líta, að saga hans er skrifuð af þeim sem komu honum fyrir kattrnef, nefnilega Tudor- ættinni, sem Shakespeare þjónaði, en afi Elísabetar, Hinrik VII sigraði við Bosworth þar sem Rikki féll. Ríkharður var ekki „krypplingur“ sakvæmt samtímaheimildum, heldur afar sterkbyggður maður sem mjög tók þátt í burtreiðum, sem þá voru í hátísku. Hann var hins vegar með mikla hryggskekkju þannig að önnur öxlin var hærri en hin og samkvæmt heimildum var annar handleggur miklu sterklegri en hinn. Hann var þannig vissulega nokkuð fatlaður, þótt hann væri ekki með kryppu.

Vilhjálmur Eyþórsson, 13.9.2012 kl. 13:59

2 Smámynd: FORNLEIFUR

Sæll nafni, beinagrindin sem fannst Leicester er með einkenni scoliosis (hryggskekkju), sem í verstu tilfellum getur framkallað kryppu eða herðakistil. Örugglega hefur maðurinn þar að auki verið með brjósklos og mikla bakverki. Kannski hefur persónan sem nú er fundin í Leicester verið kroppinbakur? En enn er ekki búið að sýna fram á þarna sé fundinn Ríkharður III.

Lengi var talið að elsta málverkið af honum sýndi hann með kryppu, en menn eru horfnir frá þeirri skoðun.

Láttu mig vita hvaða sannanir þú hefur fyrir því að Ri Rex IIIus hafi verið hreystimenni hið mesta. Hvaðan hefur þú þetta með kylfuhandlegginn?

FORNLEIFUR, 13.9.2012 kl. 15:18

3 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Þó skömm sé frá að segja hef ég þetta með handlegginn eftir breskum sjónvarpsþætti, eða raunar þáttaröð um bresku konungana, sem sýnd var að mig minnir annað hvort á Discovery eða History Channel, en það þarf ekki að vera verra fyrir því. Eins og þú nefnir reyndar eru margir, einkum í York og nágrenni óánægðir með það orðspor sem Tudor- menn með Shakespeare í fararbroddi hafa komið á laggirnar um Rikka heitinn, og vilja nú endurreisa mannorð hans, sem kann að vera nokkuð erfitt verk, ekki síst vegna barnamorðanna sem eru óumdeild. Prinsarnir tveir týndust í Tower, en einhverjum öldum síðar mun hafa fundist beinagrindur, ein eða tvær, en ég man því miður ekki í smáatriðum hver fann beinin eða hvenær.

Vilhjálmur Eyþórsson, 13.9.2012 kl. 15:33

4 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Ég sé á Wikipediu að beinin fundust þegar verið var að gera við stiga í Tower 1674 og var síðan komið fyrir í Westminster Abbey. Þó er ósannað að þau séu af prinsunum (annar var í raun hinn rétti konungur, Edward V, 12 ára og yngri bróðir hans Richard, níu ára). Ríkharður hafði raunar nokkru áður látið búa til sönnunargögn  um að hjónaband bróður síns af ekki verið löglegt og prinsarnir því óskilgetnir.

Vilhjálmur Eyþórsson, 13.9.2012 kl. 16:23

5 Smámynd: FORNLEIFUR

Hef ekkert á móti krypplingum, en ég er hins vegar á þeirri skoðun að Ríkharður hafi verið frekar rotinn karakter.

Mikið held ég að Shakespeare hefði hlegið ef hann hefði upplifað uppgröft á beinum Ríkharðs og séð afkomanda hans afhenda sýni úr vitum sér til að sýna fram á tengsl við konunginn sem hann gaf herfilega útreið í bókmenntunum.

FORNLEIFUR, 13.9.2012 kl. 17:06

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mali leikur sér að því að skjóta upp kryppu en er samt einstakt ljúf-og göfugketti.

Sigurður Þór Guðjónsson, 13.9.2012 kl. 20:35

7 Smámynd: P.Valdimar Guðjónsson

Fróðlegar pælingar. En oft eru nú vonbrigði samfara DNA prófum. Forvitnilegt hver niðurstaðan verður hér.

P.Valdimar Guðjónsson, 14.9.2012 kl. 06:01

8 Smámynd: FORNLEIFUR

Já, Sigurður enda kominn af köttum faraós í beinan fresslegg. En sleppir þú honum út, þá snýst þessi malandi pelshúfa í óargadýr sem étur friðardúfur og músalimi. Kettir eru líka mín uppáhaldsdýr.

FORNLEIFUR, 14.9.2012 kl. 06:05

9 Smámynd: FORNLEIFUR

P. Valdimar, DNA fór mjög í tísku hér um árið í fornum fræðum. Það hefur hins vegar sýnt sig, að það eru margar hindranir og gryfjur sem slíkar rannsóknir falla í og um, og að menn voru of yfirlýsingarglaðir. T.d. á Íslandi, þar sem menn töldu sig geta sagt til um samsetningu landnámsmanna með blóðprufum úr Blóðbankanum.  Sú stúdía á eftir að sýna sig sem eitt versta rugl síðari tíma. Það er ekki hægt að segja til um samsetningu "þjóðar" fyrir 1000 árum, með blóðprufum úr nútímanum einum saman, nema að maður þekki áhrif flöskuhálsa, s.s. sjúkdómsfaraldra. 

Á tímabili vildu menn ætla, að Neanderdhal og Cro Magnon hafi átt í ástarsambandi. Nú eru fram komnar niðurstöður sem draga það í efa. Ég gat trúað Neanderthalsættum upp á Dani, en sjaldan hef ég séð Neanderthalsmann á Íslandi, ekki einu sinni á meðal talsmanna bankanna.

Á tímabili töldu nokkrir DNA-sérfræðingar á grundvelli rannsókna á örfáum beinagrindum, að mikið hefði verið af aröbum og fólki austur úr Asíu í Danmörku á járnöld og víkingaöld. Beinin sýndu engin mælanleg einkenni sem bent gætu til hins sama.  U7 genatýpan fannst í DNA úr fornum beinum, og það fékk menn til að álykta að menn austan úr Samarkand hefðu komið til Danmerkur. Með auknum rannsóknum á genatypum á nútímafólki í Evrópu, kemur í ljós að U7 (líka kölluð Ulana) er genatýpa sem lengi hefur verið til á meðal ýmissa Evrópuþjóða, í einstaklingum þar sem ekki er vitað um neina forfeður eða -mæður austan úr mið-Asíu, þar sem sú genatýpa er algengust. Ég er nær viss um að einhverjir gangi um á Íslandi með U7 genatýpu án þess að það hafi verið uppgötvað og að þeir beri hana eins og forfeður þeirra löngu áður en þeir komu til Íslands.

FORNLEIFUR, 14.9.2012 kl. 06:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband