Stolnir gripir og rangar upplýsingar

Stolen from Iceland in NM Copenhagen

Í framhaldi af færslu minni í gær, sem fjallaði um algjört umkomuleysi og aumingjahátt íslenskrar minjavörslu og ráðuneyti hennar er Unnur Brá Konráðsdóttir bað menntamálaráðherra um svar um fornminjar frá Íslandi í erlendum söfnum, langar mig að upplýsa, að sumt þeirra gripa sem nú er að finna á Þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn var hreinlega stolið á Íslandi

Það á til dæmis við um ljósahjálminn (NM D 8073) úr Hvammskirkju (sjá t.d. hér) sem Daniel Bruun seldi Þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn fyrir 300  krónur árið 1912. Það gat hann ekki samkvæmt íslenskum fornleifalögum frá 1907, sem sögðu til um að Forngripasafnið í Reykjavík hefði forkaupsrétt af öllum forngripum. Kapteinn Bruun rændi því forngripum á Íslandi og seldi Þjóðminjasafni Dana, sjálfum sér til vinnings.

Þegar þetta kom til umtals á milli mín, Olaf Olsens fyrrverandi þjóðminjavarðar og Þórs Magnússonar á þingi Þjóðminjavarða Norðurlandanna árið 1995, og ég sagði frá áformum Guðmundar Magnússonar setts þjóðminjavarðar að reyna að fá þennan og aðra gripi til Íslands, þá lýsti Þór Magnússon Guðmundi sem öfgamanni og taldi það af og frá að við ættum að biðja Dani um íslenska gripi í Kaupmannahöfn. Danski þjóðminjavörðurinn varð mjög undrandi á Þór, en vildi náttúrulega ekki missa íslensku gripina, þótt stolnir væru.

Svör Þjóðminjasafns Íslands eru fyrir neðan allar hellur

Ekki er var nóg með að þegar Unnur Brá Konráðsdóttir bað um upplýsingarnar, að hún fengi þær ónógar og aðeins það sem Matthías Þórðarson fyrrv. Þjóðminjavörður skráði þegar í byrjun 20. aldar(sjá hér). Nokkrir íslenskir gripir í Kaupmannahöfn fóru fram hjá Matthíasi og ég hef skrifað um þrjá þeirra í Árbók hins Íslenska Fornleifafélags árið 1984. Í skránni Sarpi er þess hvergi getið og þar tekur heiðurinn skrásetjarinn, Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir, en Matthías Þórðarson er sagður skrá hina gripina frá Íslandi í Sarpi. Matthías dó árið 1961, alllöngu áður en að Sarpur kom til.

Af hverju var ekki getið þess manns sem fann þá íslensku gripi sem Matthías fann ekki 70 árum fyrr?

innsigli Steinmóðs Ábóta
Ég uppgatvaði snemma á 9. áratug síðustu aldar, að á Þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn væru til innsigli Jóns Arasonar prests (síðar biskups) og Steinmóðs ábóta í Viðey, sem hér sést.
 

Maðurinn, sem ekki má nefna í Sarpi, og sem uppgötvaði gripi frá Íslandi í Kaupmannahöfn sem höfðu farið framhjá glöggu auga Matthíasar, þarf hins vegar að bíða í marga daga eftir því að fá upplýsingar um einn einasta grip í Sarpi, því starfsmenn þjóðminjasafnsins álíta greinilega Sarp sína einkaeign. En hugsanlega er þessi ófullkomna og greinilega mjög svo ranga skrá bara síðasta vígi stofnanakarlakerfisins, sem á Þjóðminjasafninu verður víst að kalla stofnanakerlingakerfi vegna kynjahlutfallsins þar.

Það myndi létta öllum vinnuna, ef Sarpur yrði gefinn frjáls. Þessi skrá, sama hve ófullkomin og full af rangfærslum hún er, er eign þjóðarinnar, en ekki ódugandi starfsmanna Þjóðminjasafns Íslands, sem geta ekki veitt þær upplýsingar sem þeim ber að veita, þótt það ætti ekki að vera mikið mál.

Þess ber að geta, að Margrét Hallgrímsdóttir var ekki að biðja um stolna ljósahjálminn eða aðra illa fengna gripi á Nationalmuseet í Kaupmannahöfn, þegar hún var þar um síðustu mánaðamót.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Les greinar þínar (blogg) með áfergju.Fátt skemmtilegra og meira ekta.

khs (IP-tala skráð) 13.3.2013 kl. 18:12

2 Smámynd: FORNLEIFUR

Þakka þér fyrri það KHS, maður fer bara alveg hjá sér.

FORNLEIFUR, 13.3.2013 kl. 18:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband