Hvað fær maður fyrir silfur sitt ?

Mid 3 Þór Magnússon

Væntanlegar er í verslanir tveggja binda verk Þórs Magnússonar fyrrverandi Þjóðminjavarðar um silfur fyrr á öldum. Þetta verður örugglega kærkomin viðbót við það litla kver, Silfur í Þjóðminjasafni, sem Þór lét fara frá sér árið 1996 og gárungarnir héldu að væri afrakstur þess dæmalausa starfsleyfis sem hann var settur í á tvöföldum launum við að skrifa um silfur Íslands fyrir Iðnsögu Íslands.

ÞMSifur Í Þjóðminjasafni

Eftir þá vinnu og þar að auki langa vist á kvistinum á Þjóðminjasafninu, eftir að hann var settur af sem þjóðminjavörður fyrir að hafa litla sem enga yfirsýn yfir skotsilfur stofnunarinnar, kemur loks afraksturinn af silfurrannsóknum Þórs. Það gerir rit eins og þessa ritgjörð úrelta, en hún er eftir Ole Villumsen Krog, danskan kennara og áhugaljósmyndara, sem vegna áhuga síns á silfri og umgangs við det Royale hefur hlotnast næstum óraunverulegu titlar: Hendes Majestæt Dronningens sølvregistrator, Det kongelige Sølvkammers kurator, direktør i internationale relationer. En þessi með afbrigðum snobbaði Jóti, sem menn á Íslandi kölluðu jafnan Krókinn, er sá maður sem við getum þakkað fyrir að koma Þór á bragðið í silfurrannsóknunum. Þór var aðeins með einhvern minniháttarpappír í þjóðháttafræði upp á vasann er hann var gerður að Þjóðminjaverði, og hefur enga fína titla eins og Krog, þó hann sé mikill vinur ókrýndrar drottningar okkar, Vigdísar Finnboga. Á Krókurinn danski því bestar þakkir fyrir.

Eins gott og yfirlit yfir silfurmeistara íslenska í Kaupmannahöfn og smiði síðari alda og silfurstimpla verður ugglaust í bókinni, þá grunar Fornleif, að yfirlit Þórs yfir silfur á söguöld verði frekar handahófskennt, og ekki býst ég heldur við miklum fræðilegum viðbótum við silfur miðalda, sem Þór hefur veigrað sér að tjá sig og tala um er leikir hafa beðið hann að halda fyrirlestra. Fyrir fáeinum árum vildi hann ekki tjá sig um elstu kaleikana á Íslandi og miðað við það sem hann skrifaði fólki sem báðu hann um það, virtist sem hann hefði litla þekkingu á þeim. Ég tók að mér það verk og mun síðar í ár greina frá niðurstöðum mínum á þeim rannsóknum hér á blogginu.

Silfur finnst sjaldan í jörðu á Íslandi meðan gull hefur greinilega ekki verið grafið niður í sjóðum á Íslandi eins og í sumum nágrannalöndum okkar.

Margir hafa spurt mig hvað þeir fái fyrir sinn snúð á Þjóðminjasafninu eða úr ríkissjóði ef þeir finna fornan sjóð og skila honum til réttra aðila.

Ég svara nú ekki fyrir Þjóðminjasafnið eða hálftóman ríkiskassann, en bæti þó venjulega við að finnendur fái fyrst og fremst heiðurinn, og enn fremur að þeim sé borgað dagsverðið á silfri út frá þyngd sjóðsins og 10% af útreiknuðu heildarverð í ofanálag. Má vera að fundarlaunin hafi hækkað síðan þessi fundarlaun sem ég þekki voru við lýði. En undir öllum kringumstæðum ber að skila fornum sjóðum til Þjóðminjasafnsins um leið og þeir finnast, annars brjóta menn lög.

Menn þurfa ekkert að vera að pússa hann upp úr Goddard fægilegi eða neinu slíku nýmóðins drullumalli, þegar miklu betri mold finnst rétt við bæjardyrnar á Egilstöðum.

Óánægja með fundarlaun 

Menn hafa ekki alltaf verið ánægðir með fundarlaun sín, og skilur maður það á vissan hátt, en það verð sveiflast eftir kapítalístískum reglum sem sumir kapítalistar skilja ekki einu sinni sjálfir. 

Hér skal sagt frá greiðslum sem inntar voru af hendi fyrir margfrægan silfursjóð sem síðast fannst austur á landi árið 1980. Þó svo að yfirmenn fornleifamála þess tíma hafi svarið og sárt við lagt að allar upplýsingar hafi komið fram um fund sjóðs og sögu hans, er það nú ekki raunin og hefur t.d. verið bent á það hér. Þau gögn sem hér birtast í þessari grein sem þið lesið nú, voru ekki lögð fram við rannsóknir tengdum sjóðnum.

Finnendur silfursjóðsins á Miðhúsum spurðu fljótt eftir fundarlaunum og þau fengu þau einnig fljótt. Þeim var skipt á milli eiganda og finnanda. Hver þeirra fékk greiddar 107.828 kr. (Sjá hér og hér) fyrir myntbreytingu þá sem varð um áramótin 1980/81 er tvö núll voru fjarlægð aftan af krónunni. Þetta urðu því 10.782, 80 í 1981 krónum, sem voru auðvitað miklu meira virði en jafnmargar krónur í dag, en auðvitað ekki neinn happadrættisvinningur fyrir blessað fólkið sem fann þennan óáfallna sjóð. 

Fundarlaunin voru rífleg

Ég er þó hræddur um að silfurverðið hafi verið reiknað ríflega af þjóðminjaverði sem gaf 300 kr. fyrir grammið, sem hann sagði vera silfurverðið grammið, með 10% í ofanálag samkvæmt lögum. 

Silfurverð náði miklum hæðum á fyrri hluta árs 1980, og fór eitt sinn mest upp í 130 Bandaríkjadali únsan, en hélt sér, þegar það var mest virði, í tæpum 49 $. Þegar silfrið á Miðhúsum fannst var verðið aftur komið í mun eðlilegra horf, eða um 11 $ únsan, sem er um 0,388 $ á grammið. Samkvæmt sölugengi Bandaríkjadals á Íslandi þ. 16 september 1980 var dalurinn seldur á 513,10 kr., 0,388 dalir voru því rúmar 199 kr. 1. gramm af silfri samkvæmt heimsmarkaðsverði kostaði 199 kr. og með 10% uppbót hefði Þór Magnússon aðeins átt að greiða finnendum um 219 kr fyrir grammið: Sjóðurinn sem vegur 653,5 gr. hefði með 10% ábót átt að færa finnanda og landeiganda 130.046 kr. í aðra hönd (65.023 á sitt hvorn), en Þór Magnússon bætti við samanlagt 85.610 í fyrirmyntbreytingarkrónum, sem verður að teljast frekar rausnarlegt. Líklegt þykir mér að Þór hafi notast við heildsöluverð þess sterlingssilfurs sem selt var gullsmiðum á Íslandi.

Silfurverð árið 1980

Silfurverð 1980

Þar að auki fékk landeigandi greiddan fararkostnað til að fara frá Reykjavík þar sem hann var staddur er sjóðurinn fannst. Það gerðu 63.200 að auki. Þetta held ég að hafi verið verð á báðum leiðum. En reikningurinn sem sendur var dagsettur meira en mánuði eftir að ferðin var farin (sjá hér). Ekkert af þessu kom reyndar fram í skýrslum um silfursjóðinn, hvorki í Árbók hins Íslenzka Fornleifafélags né í skýrslu sem unnin var upp úr skýrslu Danska Þjóðminjasafnsins, sem fengið var til að rannsaka sjóðinn að hluta til þar sem menn sættu sig ekki við síðari niðurstöður rannsóknar bresks sérfræðings í víkingaaldarsilfri, Prófessors James Graham Campbells, á eðli sjóðsins.

Finnendur kvörtuðu enn í bréfi til Þjóðminjasafnsins árið 1995 yfir því hve lítið þeir fengu fyrir sjóðinn, er þeir höfðu verið spurðir um fundaraðstæður 1980. 

Eitt er víst að þau lög hvetja að okkar áliti ekki þá sem finna fornminjar til að láta yfirvöld vita um slíkan fund. Við myndum að minsta kosti hugsa okkur tvisvar um að tilkynna slíkan fund ef við findum svona sjóð í dag. Það er rétt að það komi fram, að það fyrsta sem Hlyn datt í hug þegar hann sá hvað þetta var að hér væri komið tilvalið smíðaefni, og því best að láta kyrrt lyggja. Við vissum ekki  í byrjun hver hvert við ættum að tilkynna þetta, (höfðum ekki einu sinni leitt hugan á því að svona gæti gerst) en það var Hilmar Bjarnason á Eskifirði sem hvatti okkur til að hringja í Þór Magnússon Þjóðminjavörð [sic].

Ég hefði líka hugsað mig tvisvar um að afhenda sjóð sem fundist hefði óáfallinn í jörðu. Slíkt er einstakt í sögunni.

Meira fengu svo finnendur fyrir sinn snúð löngu síðar eftir að Þjóðminjasafninu og mér hafði verið stefnt vegna vafa sem breskur sérfræðingur hafði látið í ljós og niðurstöðu Þjóðminjasafns Dana sem greindi frá þvi að hluti sjóðsins væri frá því eftir Iðnbyltingu eftir rannsókn sem Þjóðminjasafnið, Þjóðminjavörður (Guðmundur Magnússon) og Þjóðminjaráð létu breska sérfræðinginn James Graham Campbell framkvæma. 

Fundarlaunin á hreinu en margt er enn á huldu

Þjóðminjasafnið hefur til dæmis enn ekki tekið afstöðu til álits dr. Susan Kruse, fremsta sérfræðings Breta í efnagreiningum á silfrinu frá Miðhúsum. Kruse lýsti því yfir árið 1995 að efnagreining Þjóðminjasafns Dana væri til einskis nýt eins og hún var unnin og lögð fram, en því hefur Þjóðminjasöfnin í Kaupmanganhöfn og Reykjavík náttúrulega ekki viljað svara. Danska þjóðminjasafnið hefur þó margoft sagt og ritað að sjóðurinn sé ekki allur frá Víkingaöld.

Þeim tveimur aðilum var fengið það hlutverk að sjóða upp úr dönsku skýrslunni endanlega og ásættanlega skýrslu á íslensku, þar sem reyndar er vitnað rangt í skýrslu Danska Þjóðminjasafnsins. Danska skýrslan var gerð af fólki sem fékk ónógar upplýsingar. T.d. vissu þeir ekki að silfrið hafði fundist óáfallið í jörðu. Fornt silfur finnst ekki óáfallið í jörðu! Rannsóknarskýrsla, sem ekki upplýsir allt  og sem leynir öðru er náttúrulega ekki nein venjuleg rannsóknarskýrsla. Menn töluðu mikið um að sjóðurinn væri falsaður eftir að niðurstaða Breska sérfræðingsins var þekkt. En mér er öllu nær að halda að rannsóknarskýrsla íslensku nefndarinnar sé fölsun. Þeir sem skrifuðu hana mættu t.d. skýra út hvernig silfrið fannst óáfallið og hvað þeim þykir um skoðun Susan Kruse. Einn nefndarmanna, sem er prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, vill ekki tjá sig og hefur vísað á Þjóðminjasafn Íslands. ´

Annar nefndarmanna, Lilja Árnadóttir, lét taka jarðvegssýni á Miðhúsum, en þeim hefur, þrátt fyrir að allt sem á Þjóðminjasafninu er sé skráð og varðveitt, verið hent. Þjóðminjasafnið neitar að gefa skýringar á því háttalagi. Barnabarn Jónasar frá Hriflu sem vinnur við Háskóla Íslands fékk líka mold frá Miðhúsum, en upplýsir ekkert. Við vitum því enn ekki hvort eitthvað var í jarðvegnum á Miðhúsum sem gerði að sjóðurinn fannst gljáandi í jörðu, svo óáfallið að Kristjáni Eldjárn þótti það lygilegt.

Miðhús Mogginn 2 sept 1980

Ég vona ekki, eftir þessa góðu auglýsingu mína fyrir silfurrit Þórs Magnússonar, að ég hafi nú latt menn til skila af sér fornu silfri og öðrum eðalmálmum til Þjóðminjasafnsins eins og lög gera ráð fyrir að menn geri. En nú líður reyndar langur tími á milli þess að slíkir fundir finnast, svo ekkert er í hættunni.

En gleymið nú ekki að sjá til þess að fallið hafi á silfrið sem þið finnið, svo einhverir ómerkilegir fræðingar fari ekki að spyrja óþarfa spurninga, t.d. um landeiganda sem lært hafði silfursmíðar í Svíþjóð og keypt málmsmíðaverkfæri til Eiðaskóla (sjá hér). Héraðsdómar dæma slík ummæli ómerk.

Myndin efst sýnir Þór Magnússon fyrrv. þjóðminjavörð leita að silfri á Miðhúsum árið 1980. Miðað við aðstæður og markaðsverð á silfri gerði Þór mjög vel við finnendur silfursins. Vonandi gerir hann silfrinu vel skil í bókum sínum tveimur, en eitthvað segir mér að hann ræði ekki silfursjóðinn á Miðhúsum eins náið og ég geri hér.

 

Mikilvæg neðanmálsathugasemd:

Gögn um Miðhúsasjóðinn sem hér birtast í pdf-skjölum, líkt og önnur skjöl sem áður hafa verið birt um þann sjóð hér á Fornleifi, gleymdist að birta eins og margt annað sem átti samkvæmt fyrirskipun ráðuneytis að birta í tengslum við rannsóknir á silfursjóðnum frá Miðhúsum árið 1995. Sú gleymska að mikilvæg gögn voru ekki birt, þó því væri lofað, var ekki vegna þess að pdf-ið hafði ekki verið fundið upp á þeim tíma. Það var vegna þess að skýrsla Þjóðminjasafns Íslands var ófullkomin og hlutdræg og innihélt þar að auki  vísvitandi rangfærslur. Skýrslan ber þar að auki vott um afar lélegan dönskuskilning þeirra sem skrifuðu hana. Meira um það síðar og t.d. mótsagnir um fundaraðstæður silfursjóðsins frá Miðhúsum.

583A[1] 

Takið eftir: Sunnudaginn 14. apríl (2013) kl. 14-16 er almenningi boðið að koma með eigin gripi í greiningu til sérfræðinga Þjóðminjasafnsins. Sérstök áhersla er lögð á silfurgripi að þessu sinni.

Greiningin er ókeypis en fólk er beðið að taka númer í afgreiðslu safnsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband