Landnámskonur Íslands voru ekki kynlífsþrælar frá Bretlandseyjum!

dyflinarvitleysan.jpg

Nýjar rannsóknir Eriku Hagelberg prófessors í Osló og samstarfshóps hennar sýna greinilega, að íslenskar landnámskonur voru ekki sóttar af norskum körlum til Bretlandseyja, gagnstætt því sem DNA rannsóknir á vegum Íslenskrar Erfðagreiningar (deCODE) hafa talið okkur trú um í 14 ár (sjá hér). 

Hluti af sjálfstæðisbaráttu Íslendinga var leit af þjóðar- og /þjóðernisímynd, sem féll að kröfunni um fullveldi og sambandsslit frá Danmörku. Hinn íslenski "Kelti" varð þess vegna til á 20. öld sem hluti af þjóðarbyggingu (nation building) Íslendinga. Sumir fundu hjá sér þörf til að skapa þjóðarímynd og þjóðerni sem var allur öðruvísi en það sem maður sá í Skandínavíu, og sér í lagi Danmörku. Þannig var leitað til frásagna af írskum konungaafkomendum í Íslendingasögum og öðrum heimildum. Í stað norrænna konunga var nú reynt að skýra nýfundin séreinkenni Íslendinga með áhrifum frá landnámsmönnum af göfugum ættum sem jafnvel voru konungabörn frá Írlandi, þótt þeir hefðu komið sem þrælar og ambáttir til Íslands.

heim_til_dublin_1252228.jpg

Árið 1993 buðu Samvinnuferðir-Landsýn Íslendingum heim til Dublin.

Með uppblómstrun þjóðrembulíkamsmannfræði 20. aldar jókst þessi áhugi til muna. Vantrúaðri menn kölluðu þetta Kelta- eða Írafár. Þeir sem töldu sig hafa séð ljósið hófu dauðaleit að hinum íslenska Kelta. Blóðflokkafræðin reyndist í árdaga geta bent til uppruna Íslendinga á Bretlandseyjum, frekar en í Skandínavíu. Allar slíkar vangaveltur voru loks skotnar niður. Það varð mörgum manninum erfitt að kyngja, og áfram héldu þeir hörðustu að leita "keltneskra", gelískra og írskra áhrifa frá Bretlandseyjum í fornbókmenntum okkar. Mestur hluti slíkra fræða var raus og langsóttur andskoti. Gætu minni í frásögnum, nöfn og annað vera áhrif sem alveg eins gætu hafa borist til landsins á tólftu öld frekar en á þeirri tíundu.

Sumir rauðhærðir menn á Íslandi töldu sig vera ekta "Kelta", þótt rauða hárið á Írlandi og í Skotlandi sé óalgengara en t.d. á Jótlandi og Noregi, og hefur að öllum líkindum að ákveðnu marki skilið eftir sig lit á Bretlandseyjum vegna veru norrænna manna þar á síðasta hluta Járnaldar. Rautt hár er reyndar ekki bara erfðaþáttur. En rauða hárið tóku menn mjög alvarlega. Einstaka menn snerust til kaþólskrar trúar vegna litarhafts síns og nýfundins skyldleika við írska konunga. Eitt sinn heyrði ég frásögn af íslenskum lækni, sem lifði sig svo innilega inn í gelískt eðli sitt að hann réðst á búfræðing og líffræðing á veitingastað í Reykjavík, vegna þess eins að líffræðingurinn hafði leyft sér í grein að benda á að val gæti hafa orðið í blóðflokkakerfinu ABO á Íslandi í tengslum við farsóttir, þannig að O blóðflokkurinn, sem lengi var tengdur "keltakenningum", hafi orðið algengur, þar sem fólk með A og AB blóðflokka dó frekar í ákveðnum farsóttum sem herjuðu á Íslandi. "Írski" Íslendingurinn var á síðasta áratug 20. aldar nærri því að syngja sitt síðasta vers.

En þá kom Kári O'Clone Stefánsson og deCODE til sögunnar. Ein af þessu ósögulegum staðreyndum. Þó svo að greindustu líffræðingar Íslands væru í upphafi margir mjög gagnrýnir á Íslenska Erfðagreiningu, þá lokkaði fjármagn, frægð sem meðhöfundaréttur að innihaldslausum greinum suma unga menn og lélega tölfræðinga inn í hirð Kára Stefánssonar. Einn þeirra var Agnar Helgason. Ég kynntist Agnari lítillega árið 1998 þegar við sóttum báðir mannfræðiráðstefnu í Kaupmannahöfn og héldum þar báðir erindi, og var hann ekki svo lítið gagnrýninn á keltafárið í íslenskum mannfræðirannsóknum. Skömmu síðar (2001) birti hann hins vegar, ásamt öðrum, greinar þar sem niðurstaða samanburðarrannsóknar á erfðamengi núlifandi Íslendinga var borðið saman við þær upplýsingar sem menn höfðu safnað annars staðar.

"Iceland goes Mitochondrial"

Það voru sér í lagi niðurstöður á hvatberum (mitókondríum) Íslendinga, sem vöktu athygli. Agnar Helgason og Kári Stefánsson, sem eru báðir menn afar norrænir að útliti og atgervi, svo notuð séu fornar og ófræðilegar skilgreiningar, töldu nú víst, að flestar konur sem komu til Íslands í öndverðu hefðu verið ættaðar frá Bretlandseyjum og hefðu ekki á neinn hátt verið skyldar "norskum" mönnum sínum. Með öðrum orðum sagt, áttum við nú að trúa því að kynhungraðir norskir karlar hefðu allir sem einn brugðið sér í einhvers konar kynlífsferð til Bretlandseyja til að ná sér í konur, sem þeir drógu svo með sér til Íslands, stundum sem ambáttir en einnig af eigin og frjálsum vilja. Síðan hófu þeir að framleiða Íslendinga.

Með þessari kenningu Agnars Helgasonar um kynlífstúrismann innbyggðan í hið heilaga Landnám, fundu menn sem voru haldnir miklu keltafári til endurreisnar. Ferðir til Dyflinnar og Glasgow færðust aftur í aukana. Á sumum varð hárið aftur rautt og menn fóru að spila keltneska tónlist á öldurhúsum Reykjavíkur. Lopapeysuvíkingar urðu nú æ óvinsælli og þegar Jón Páll sprakk undir lóðunum var The Icelandic Viking, risavaxinn, misloðinn og skyldleikaræktaður maður með offituvandamál, nærri bráðkvaddur þar sem hann var upphaflega skapaður: Á auglýsingastofunum í Reykjavík. Íslendingar brugðu sér nú á Hálandaleikana og í á Keflavíkurflugvelli heyrði mann stundum ölóða íslendingar segja frændum sínum á Bretlandseyjum frá þessum örugga skyldleika sem nú hefði verið staðfestur í rannsóknarstofum eins af "óskabörnum" íslensku þjóðarinnar. Keltnesk mynstur sáust nú á lopapeysum. Menn töluðu um að nú væri kominn tími til að hætta við alla skandínavískukennslu í skólum og hefja kennslu í River dance og haggisgerð í staðinn.

Niðurstaða Agnars og teymis hans hefur vakið mikla athygli á Íslandi sem og erlendis. DeCode gat selt sig með þessari niðurstöðu og sjónvarpsefni frá Skandinavíu hvarf að mestu hjá RÚV. Hinn íslenski Kelti varð staðreynd. Allir töldu sig vita betur en t.d. þessi fornleifafræðingur, sem reyndi að benda mönnum á að ekkert í fornleifafræðinni eða hefðbundinni líkamsmannfræði gæti bent til þess sem Agnar og félagar hans héldu fram. DNA var framtíðin og það lá stundum við að menn héldu því að hin nýja, fagra veröld væri komin. Prófessor Gísli Pálson afreiddi alla aðra líkamsmannfræði nema DNA, sem nasisma.

Örfáir einstaklingar drógu eindregna niðurstöðu Agnars mjög í vafa og menn spurðu sig mjög hvert gott samanburðarefni Agnars var. Nær engar rannsóknir á erfðaefni einstaklinga frá þeim tíma sem landnámið átti sér stað var notað til samanburðar við hvatberana í frumum núlifandi Íslendinga.

Erika Hagelberg kemur til sögunnar

Nú er komin ný rannsókn, sem bráðvantaði, þegar kenningunni um keltnesku kynlífsþræla norsku víkinganna var fyrst sett fram. Prófessor Erika Hagelberg í Osló, sem mig minnir að hafi alist upp á Kúbu, hefur ásamt samstarfsfólki sínu rannsakað erfðaefni í beinum einstaklinga í gröfum í Noregi frá síðari hluta járnaldar og víkingaöld (söguöld). Með stærra samanburðarefni en Agnar hafði ásamt niðurstöðum hans, sem hann hefur látið í té, er nú ljóst að tilgátan eða réttara sagt alhæfingin um mikinn fjölda kvenna frá Bretlandseyjum meðal landnámsmann á Íslandi er fallin. Erika Hagelberg kom eitt sinn á ráðstefnu í Reykjavík sem Tannlæknafélagið bauð til, þar sem ég hélt einnig erindi. Það var árið 1995, löngu áður en Agnar var farinn að vinna með DNA. Þá varaði Hagelberg einmitt við ofurtrú á DNA rannsóknum og greindi frá hættum við mengun sýna af fornu DNA.

Með tilkomu rannsóknar Eriku Hagelbergs eru Landnáma og aðrar elstu ritheimildir okkar aftur orðnar áhugaverðar heimildir, skoði maður upplýsingar um uppruna landnámsmanna í þeim tölfræðilega. Það er auðvita ekki eina aðferðin frekar en DNA rannsóknir.

Niðurstöður Eriku Hagelberg (lesið einnig um þær hér í alþýðlegri skýringu) koma einnig mátulega heim og saman við niðurstöður Dr. Hans Christian Petersens, sem i samvinnu við mig rannsakaði og mældi elstu mannabeinin á Íslandi sem varðveitt eru á Þjóðminjasafni Íslands (sjá hér og hér). Mælingar á hlutföllum útlimabeina elstu Íslendinganna sýna í samanburði við mælingar á öðrum þjóðum frá þessum tímum, að landnámsmenn voru fyrst og fremst frá Noregi. 10-15% voru frá Bretlandseyjum og um það 10-15% voru að einhverju leyti og á stundum mjög svipaðir Sömum, frumbyggjum Skandinavíu.

Það ber að fagna rannsóknum Eriku Hagelberg og samstarfsmanna hennar. Þær er gott dæmi um hve skjótt veður geta skipast í lofti í erfðavísindunum. Aðalvandi þessarar greinar hefur lengi verið að menn hafa slegið of stórmannlega út tilgátum miðað við hvað litlar upplýsingar, lélega tölfræði og magurt samanburðarefni þeir höfðu undir höndum.

Nú þegar grein Agnars hefur verið gjaldfelld, og raðgreiningar hans orðnar lítils virði, er hinn káti íslenski Kelti á ný mestmegnis ímyndunarveiki misrauðhærðra manna og þeirra sem sem hafa gaman af að hlusta á Dubliners og að drekka Guinness á krá, kalla börnin sín Melkorku, Brján, Patrek eða Brendan eða eru í Whiskeyklúbbi og "draga" í keltapilsi (Kilti) án nærfata og horfa síðan á gamla skoska sjónvarpsþætti með Taggart þar sem hann tautaði í sífellu "mudder". En mikið er ég viss um, að mestur hluti slíkra Brjána og Helga Keltasona séu í raun afturhaldssamir Norðmenn innst inni við beinið.

melkorka-litil.jpg

Melkorka In Memoriam: Þannig sjá sumir Íslendingar hina konunglegu ambátt, Melkorku, sem nefnd er í Laxdælu. Mér finnst þessi vaxmynd af henni líkust norskri freyju með plokkaðar augnabrýr á botoxi. Flestar írskar konur eru dökkhærðar, jafnvel svarthærðar og grána fyrir þrítugt. Ég hef alltaf haldið að þær sem væru ljóshærðar og rauðhærðar á Írlandi væru afkomendur norrænna manna sem settust að á Írlandi. En hin rauðhærða stereótypa er vinsæl. Það er skrýtið þetta ör sem maður sér á hálsi Vax-Melkorku. Var hún viðbeinsbrotin blessunin, eða er þetta merki eftir kynlífsok norrænna fauta?

Ég er margoft búinn að lýsa gagnrýni skoðun minni og vantrú minni á tilgátu Agnars Helgasonar um kvenlegginn á Íslandi hér á Fornleifi. Síðast gerði ég það hér í nýlegri og forlangri grein sem var hörð gagnrýni á yfirreið Gísla Pálssonar félagsmannfræðings um ranghala íslenskrar líkamsmannfræði. Gísli hélt því ranglega og afar óheiðarlega fram, að íslensk líkamsmannfræði á 20. öld væri eins og hún lagði sig aukaafurð nasismans (þjóðernisstefnu). Það er einfaldlega ekki rétt. Hinn íslenski Kelti og DNA rannsóknirnar nútímans, þar sem menn álykta stórt án samanburðarefnis, er miklu frekar afurð öfgaþjóðernishyggju, ef nokkuð er.

Agnar Helgason, sem einnig hefur verið nemandi og samstarfsmaður Gísla Pálssonar, verður nú að skýra fyrir Íslendingum þann mun sem er á niðurstöðu hans og Eriku Hagelbergs. Það er mikill munur á, en vitaskuld er ekki við Agnar einn að sakast, þegar hann fór að telja öllum trú um að hinar fögru íslensku konur væru gelískar gellur. Hann vinnur með unga fræðigrein sem þróast mjög hratt og rannsókn og samanburður hans er barn síns tíma. Hann hafði svo að segja ekkert bitastætt samanburðarefni við rannsókn sína á nútímaíslending. Erfðaefni nútímaþjóðar er heldur ekki það besta til að rannsaka uppruna þjóða. Erfðaefni úr beinum frá fyrri tímum verður að rannsaka til að fá rétta mynd. Rannsókn Hagelbergs er örugglega heldur ekki það síðasta sem sagt verður um samsetningu landnámsmanna, en hún er skref í rétta átt.

paske_ya-hagelberg200_1252235.jpg

Hér má hlusta á Eriku Hagelberg flytja áhugaverðan fyrirlestur um þróun rannsókna á fornu DNA. Fyrir rúmum áratug varð Erika enn og aftur fræg sem konan sem sökkti Kon-Tiki. Hún sýndi með rannsókn á erfðaefni fram á að tilgátur Thors Heyerdals um uppruna fólks í Suður-Ameríku og á Páskaeyjum, ættu ekki við rök að styðjast.

Kristján Eldjárn hafði mikla óbeit á Kelta- og Írafári sumra Íslendinga. Hann hefði orðið ánægður að heyra um niðurstöður Hagelbergs og samstarfsmanna hennar. Eldjárn var mikill andstæðingur Íra- og Keltafársins meðal sumra manna á Íslandi, enda sá hann vitanlega að fornleifar studdu ekkert slíka þanka og tilgátur.  Brekán, grjúpán, Kjaran og Brekkan og önnur orð með "gelískar" rætur gætu hæglega hafa komið með þrælum sem Íslendingar náðu sér í á þrælamörkuðum Dyflinnar. Þeir einstaklingar sem þar fengust skýra hugsanlega ýmsa þætti sem má sjá í erfðamengi Íslendinga og við mælingar hlutfalla í útlimabeinum manna. Þeir þættir eru þó ekki nægilega afgerandi til þess að halda því fram að formæður Íslendinga hafi verið írskar og skoskar lassies. Það var tálsýn.
sassy_lassie_adult_costume.jpg

Good bye you sassy, Icelandic Landnam-Lassie


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Fyrst talarðu um efasemdar vegna gamals DNA og svo vitnarðu í rannsóknir á gömlu DBA máli þínu til stuðning. 

Samkv. DNA rannsóknum komu íslenskir landnámsmenn fyrst og fremst frá Noregi. Landnámskonurnar komu hins vegar margar frá Bretlandseyjum. Meirihluti þeirra kvenna voru þrælar og/eða ambáttir. Áttu í vandræðum með að viðurkenna þetta?

Dæmigerð norsk vísitölufjölskylda á leið yfir hafið frá Noregi til Íslands, hvernig leit hún út? Maður, kona, 1-2 börn? Hversu margir voru um borð í dæmigerðum knerri? 10-15 manns? Hve stórt hlutfall fólskins var herfang frá Bretlandseyjum? 60-70% fólksins?

Hvaðan hefur þú það að  "rauða hárið á Írlandi og í Skotlandi sé óalgengara en t.d. á Jótlandi og Noregi,..."

"Rautt hár er algengast í heiminum í Skotlandi ( 13% )og þar hefur um 40% fólks rauða genið í sér. Írland er í 2. sæti með um 10% rauðhærðra en 46% hafa arfberann í sér."

Svo segir wikipedia.  Ég veit að það getur verið varasamt að vitna í hana, en ég vitna þó í eitthvað um þetta, ólíkt þér.

Gunnar Th. Gunnarsson, 5.1.2015 kl. 11:12

2 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Gunnar, þú getur lesið grein mína um rautt hár http://postdoc.blog.is/blog/postdoc/entry/637608/ . Rautt hár er ekki algengast í heiminum á Skotlandi. Þessar rannsóknir, sem þú nærð í á Wikipedia eru ekki marktækar fyrir fólk fyrir 1100 árum.  En þú veist kannski að Norðmenn settust að í stórum stíl á Skotlandi???????

Gunnar, ég vitna í grein Eriku Hagelberg. Um hennar rannsóknir fjallar grein mín fyrst og fremst.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 5.1.2015 kl. 11:47

3 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

 Ef þú lest greinina á Wikipeda, Gunnar, er í tilvísuninni til Skotland ekki vitnað í neina fræðilega rannsókn á háralit Skota. BBC er ekki fræðistofnun. Sá sem ritar greinina á Wikipedia tala um 13% rauðhausa á Skotlandi en í BBC greininni er talað um 10%. Rauða hárið á Skotlandi er líkast til afleiðing þeirrar stóru búsetu norrænna manna sem átti sér stað á 9. og 10. öld. En Breytingin á litningi 16 er ekki nauðsynlega "stabíll" erfðaþáttur eins og genin í hvatberum (mítóchondríum), sem ekkert breytast.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 5.1.2015 kl. 12:01

4 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Áhugavert. Nú hef ég ekki kynnt mér rannsókn ÍE utan þess sem fram kom í fjölmiðlum, en veit að í öllum slíkum rannsóknum verða lífsýnin að vera í lagi. Úrtakið skiptir gífurlegu máli og þá ekki síður viðmiðunarhópurinn. 

En það skemmtilega við vísindarannsóknir er að í allri þessari vinnu er erfit að finna endapunkt. Kenningar koma og fara. Stundum í órofa keðju en stundum getur ein skökk niðurstaða leitt fjölmarga inn á vegvillu vísindageimsins. 

Ragnhildur Kolka, 5.1.2015 kl. 15:06

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

En þá aftur að uppruna Íslendinga. Er það rangt að meirihluti Íslendinga er kominn af þrælum og ambáttum frá norðurhluta Bretlandseyja? 

Er ekki hægt að gefa sér að landsnámsmennirnir sjálfir hafi að mestu verið frá Noregi og þ.a.l. hefur norska menningin, lífsstíllinn og tækniþekkingin verið þaðan, en fylgifiskarnir (60-70%) frá N-Bretlandi?

Gunnar Th. Gunnarsson, 5.1.2015 kl. 15:07

6 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Þér er margt vel gefið, nafni, ekki síst ritfærnin. Sjálfur hef ég alltaf verið lítið hrifinn af „Írafárinu“, en þó er það staðreynd, að landnámsmenn komu mjög margir, ef ekki flestir hingað eftir viðstöðu á Írlandi eða skosku eyjunum. Það er nánast óhugsandi annað en að eitthvað af kvenfólki þeirra hafi verið þaðan ættað. Hins vegar hefur það verið lenska, eins og þú bendir á, að margfalda fjölda þeira með tiu eða hundrað. 

Eitt enn, sem alltaf gleymist. Hér voru danskir valdamenn og kaupmenn viðloðandi frá því um 1400 fram á 20. öld ásamt þjónum sínum. Íslenskar konur hafa alltaf verið veikar fyrir útlendingum, en af hverju er aldrei talað um það mikla magn af dönsku blóði, sem hlýtur að renna í æðum allra Íslendinga?

Vilhjálmur Eyþórsson, 5.1.2015 kl. 15:15

7 Smámynd: FORNLEIFUR

Það tel ég ólíklegt Gunnar. Mælingar Hans Christians Petersens(sem hlekkur er í greininni minni), sem hafa tölfræðilega betra úrtak en t.d. rannsóknir Hagelbergs og betra samanburðarefni en rannsóknir Agnars Helgasonar, sýna að 60-70% elstu einstaklinganna sem varðveittir eru á Þjóðminjasafni séu frá Noregi og 10-15% ofan í séu sama "kyns" og Samar nútímans. Þá sem eftir er er hægt að skýra jafnt sem afkomendur þræla eða kvenna frá Bretlandseyjum sem Norrænir menn tóku sér sem konur (kvæntust). Um 15 % elstu Íslendinganna hafa einkenni sem sýna að þeir eigi ættir að rekja til Bretlandseyja. Frá því verður örugglega ekki vikið.

Ragnehiður, jú það er gaman af þróun nýrra aðferða. Nær alltaf þarf að "fínpússa" þær, og stundum varpa menn þeim fyrir róða. Ef þú hlustar á erindi Eriku Hagelberg sem hlekkur er í í greininni, við myndina af henni, getur þú heyrt hana lýsa öllum fæðingarvandamálunum við rannsóknir á gömlu erfðaefni. Þetta er mjög vandmeðfarin fræðigrein eins og þú veist.

FORNLEIFUR, 5.1.2015 kl. 15:28

8 Smámynd: FORNLEIFUR

Góð spurning, Vilhjálmur. Á 3. norrænu líkamsmannfræðiráðstefnunni sem haldin var í Kaupmannahöfn árið 1998, sem ég sat með Agnari Helgasyni, sýndi ég til gamans skyggnu með gamansömu yfirliti mínu á öllum þeim hópum sem til Íslands hafa komið fyrir utan Landnámsmenn. Ég varpaði einmitt fram spurningu þeirri sem þú setur hér fram. Ég ætla að reyna að grafa upp myndina og setja hana hér inn.

Ég get hins vegar ekki svarað þér almennilega, en mig grunar, að vegna Keltaáhugans hafi menn mestmegnis einblínt á þann þátt. Öruggur er ég hins vegar á því, að menn geti í genunum fundið ýmislegt um veru Breta, Baska, Dana, Norðmanna, Hollendinga, Spánverja, Fransmanna, Þjóðverja og annarra.

Vegna kjánalegra framsetningar erfðafræðirannsókna á Íslandi, þar sem íslenskri sögu er í raun nauðgað af þekkingarleysi, þá vita erlendir sérfræðingar ekki mikið um alla þá hópa útlendinga sem hafa haft samskipti og samfarir við Íslendinga. Eins og þú bendir réttilega á, þá settu aðrir hópar sem komu eftir landnám, í lengri eða skemmri tíma, örugglega mark sitt á erfðamengi Íslendinga. Ef ekki, væri í landinu illa skyldleikaræktaður hópur hálfvita. Sumir segjast stundum sjá slíkt lið, en ég held að það séu önnur heilkenni.

FORNLEIFUR, 5.1.2015 kl. 15:42

9 identicon

Hér er verið að ræða um tvo ólíka hluti. Í fyrsta lagi um hvaðan komu hinir svokölluðu landnámsmenn og konur. Hins vegar um okkur, afkomendur þeirra.

Það gæti vel verið að mælingar sýni að flestar líkamsleifar landnámsmanna sýni Skandinavíksan uppruna þeirra. Það gæti líka vel verið að Keltneskir þrælar hafi stundað öðruvísi greftrunarvenjur en skandinavarnir, t.d. líkbræðslu. og finnist þar af leiðandi síður. En það er annað mál.

Hitt málið er af hverjum við séum komin. DNA mælingar á núlifandi Íslendingum sýna um 70% Keltneskan uppruna kvennleggs landans samkvæmt greininni. Einhverstaðar komu þessi gen frá. Engar heimildir eru um heimsóknir skipsfarma af Írskum fiskveiðikonum til landsins sem skyldu eftir sig smábörn hjá Íslenskum feðrum. Uppruni genana hlýtur því að vera um landnám. Ef þessi gen voru bara um 15%, þá er möguleikkn t.d. að keltnesk gen verjist betur ýmsum farsóttum og hafi því lifað af frekar en þau Skandinavísku. Í raun skitir það engu máli hér hvaða hlutfall Skandinava eða Kelta hafi komið til landssins upphaflega. Það sem skiptir máli er hvaða gen lifðu af sem segir okkur hverjir séu afkomendur okkar.

Guðjón (IP-tala skráð) 5.1.2015 kl. 18:25

10 Smámynd: FORNLEIFUR

Sæll Guðjón, "Líkbræðslu" þekki ég ekki. Hef aldrei heyrt um slíkt. Líkbrennslu stunduðu kristnir ekki og voru Írar kristnir. Við finnum ekki með vissu kristnar grafir þeirra þræla sem eiga samkvæmt sumum að hafa komið með landnámsmönnum. Vart hafa þeir fengið að hafa sinn sið.

DNA 70% núlifandi íslendinga hafa verið túlkaðar þannig að þeir væru af keltneskum/írskum uppruna. En eins og greinin eftir Hagelberg og félaga hennar sýnir, þá var það rangtúlkun. Íslendingar fyrr og nú eru ekki afkomendur kvenna sem flestar voru frá Bretlandseyjum. 

Val eins og þú stingur upp á er út í hött og það skiptir vissulega öllu hvað hlutfall Skandínava miðað við fólk frá Bretlandseyjum var í upphafi búsetu á Íslandi. Það er nú einu sinn það sem við viljum vita. Það hefur Hagelberg rannsakað á vitrænan hátt í Noregi og það hefur Dr. Hans Christian Petersen rannsakað með því að rannsaka lengdarvísitölu útlimabeina eftir nýjustu aðferðum. Þessar tvær rannsóknir á "frumheimildum" sýnir annað en það sem Agnar Helgason ímyndaði sér - og þá fyrst og fremst vegna þess að Agnar ályktaði um of út frá ónógu samanburðarefni.

FORNLEIFUR, 5.1.2015 kl. 19:06

11 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég hef náttúrlega ekki hundsvit á þessu en skiptir það nokkru máli hver er erfðafræðilegur uppruni Íslendinga fyrir nútíma Íslendinga? Og ekki skil ég að það væri eitthvað fínna að við værum komnir af Keltum fremur en Norðmönnum og Sömum. Líst samt vel á Samana en nokkurn vegin sama um hitt.

Sigurður Þór Guðjónsson, 23.1.2015 kl. 12:45

12 identicon

Stórmerkilegt allt saman og gaman að lesa. Og gleymum ekki Geirmundi heljarskinni þegar kemur að uppruna Íslendinga. Á hann ekki 2 % af genum landans? Ég hef alltaf glaðst yfir því að eiga sameiginlega forfeður með Ara Alexander og Kjuregei móður hans. En hafi Fornleifur rétt fyrir sér, og Agnar Helgason rangt, þá er líklega búið að skjóta í kaf hina skemmtilegu kenningu um írsku ljóðagenin.

Össur Skarphéðinsson (IP-tala skráð) 24.1.2015 kl. 02:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband