Samsætið á Mjóna var hjá Mini - ef það var þar

a_porta.jpg

Um daginn frétti ég af áhugaverðri grein í Morgunblaðinu um fund 32 Íslendinga með Joseph Paul Gaimard lækni, sem m.a. er þekktur fyrir stórverk sitt um Ísland. Nú er ég búinn að verða mér út um þessa góðu grein í Helgarmogganum, en hún er eftir vin minn Guðmund Magnússon sagnfræðing, blaðamann m.m.

Hinir 32 Íslendingar héldu samsætið fyrir Gaimard. Þetta gerðist þann 16. janúar árið 1839. Grein Guðmundar er mjög áhugaverð, en eitt skyggir á til þess að ég geti leyft mér að kalla hana frábæra:

Á upphafssíðu greinarinnar er mynd af veitingastaðnum Café a Porta eins og hann leit út fyrir nokkrum árum (sjá efst). Guðmundur heldur því fram (eða er með vangaveltur um) að samsætið hafi verið haldið á Café a Porta, en það fær ekki staðist. Undir myndinni upplýsir Guðmundur:

"Veitingastaðurinn Cafe a Porta í Kaupmannahöfn. Íslendingar sóttu hann mikið á 19. öld og kölluðu þá staðinn mjóna. Ekki er kunnugt hvar samsætið til heiðurs Gaimard var haldið 1839, en vel má vera að það hafi verið þarna"

Rangfærsla um samsæti

Þarna var samsætið fyrir Gaimard ekki, því innréttingin er í Jugendstíl og þar að auki í húsi sem ekki var byggt fyrr en árið 1857.

Saga Café a Porta og þess staðar, sem Íslendingar kölluð Mjóna, eða réttara sagt hjá Mjóna er þessi:

Árið 1792 opnaði Svisslendingur, Johan Soltani að nafni, kaffihús í gömlu húsi á horni Lille Kongensgade 1-3 og Kongens Nytorv 17. Þetta var tvílyft hús líklega frá fyrri hluta 18. aldar. Það er húsið, þar sem sem Íslendingarnir héldu Gaimard samsæti árið 1839. Þegar þeir gerðu það var húsið í eigu Jacobs Minis eldra, sem einnig var ættaður frá Sviss. Hann kallaði kaffihúsið Kaffehus for galante Folk, þ.e.a.s. kaffihús fyrir fólk eins og mig og Guðmund Mangnússon, eða þá sem rumpulýðurinn kalla Latte lepjandi 101 lið. En venjulega var staðurinn kenndur við Mini.

Nafnið Mjóni er greinilega dregið af nafni Jabobs Minis (Mini/Mjóni). Sonur Minis, Jacob Mini yngri, var einnig mjög þekktur í kaffihúsa- og veitingastaðabransanum í Kaupmannahöfn um miðbik 19. aldar og stofnaði m.a. hinn þekkta stað Divan í Tivoli, Síðar stóð fjölskyldan í innflutningi á líkjörum og víni.

Viðbót 7.5.2015: Jacob Mini var ítalskrar ættar og kom frá Graubünden í Sviss. Hann opnaði Kaffehus for Galante Folk. Árið 1802 opnaði í sama húsi Svissneskt kaffihús (Schweizercafé) sem rekið var af Geremia Mini (sem líklegast var ættingi Jacobs Minis en hugsanlega sami maður og Jacob), Lorenzo Gianelli, Tomaso Lardelli og Carlo Palmani. Geremia Mini rak staðinn síðastur, áður en hann var seldur Stephan a Porta (Viðbótar upplýsingar frá Københavns Museum). Samkvæmt annarri heimild áreiðanlegri kölluðu Íslendingar Jacob Mini Mjóna, og Gianelli kölluðu þeir Njál. Á 18. og 19. öld var retorómanska algengasta tungumálið í Graubünden, alpakantónunni sem Mjóni og félagar komu frá. Kantónan heitir á heitir Grischun á retórómönsku og upp á ítölsku Grigioni, sem úttalast næstum því eins og Grísajóni.

Löngu eftir samsæti Íslendinga fyrir Gaimard árið 1839, eða árið 1857, opnaði annar Svisslendingur, Stephan A Porta, kaffihús og kökuhús (Konditori) á sama stað og Mini eldri hafði veitt heiðursfólki þjónustu sína.

Það vakti mikla athygli þegar A Porta opnaði og dagblaðið Fædrelandet skrifaði:

"Endelig har hovedstaden fået en Café så smagfuld og rigt udstyret, at den ikke behøver stå tilbage for de eleganteste i Europa."

A Porta keypti kaffihús "Mjóna" og lét umsvifalaust rífa bygginguna og byggði stórt múrteinshús sem enn stendur.

Salur sá sem Guðmunur birtir mynd af er hins vegar ekki innréttaður fyrr en á 20. öld og er í Júgendstíl. (Viðbót: Frekari vefrannsókn leiddi í ljós, að McDoanld nauðgaði jugend-innréttingunni).

Var það svo hjá Mjóna, að fundurinn var haldinn? Það vitum við ekki með vissu. En miðað við hve rómaður sá staður var meðal Íslendinga, þá er það alls ekki ólíklegt, og held ég að Guðmundur Magnússon sé ekki fjarri sannleikanum hvað það varðar.

mcdoni_a_kgs_nytorv.jpg

McDóni við Kgs. Nytorv er nú enginn Mjóni.

Mjóni verður að borgarabúllu

Nú heitir staðurinn McDonald. Mikil mótmæli urðu fyrir ca. 3-4 árum, þegar að það fréttist að Café a Porta eða Porta sem staðurinn hét þá ætti að víkja fyrir McDonald. McDonald frændi gerðist mjög menningarlegur og gaf út þetta rit í tilefni af ómenningalegum hryðjuverkaáformum sínum á Kongens Nytorv. Ekki borða ég oft á McDonalds og hef ekki komið á þennan stað til að athuga hvort Jugendstíll ræður þar ríkjum eða einhver lágkultúrleg plastinnrétting frá villimannþjóðfélaginu í Vestri.

Það verður ljótt, þegar þeir fornvinirnir Guðmundur Magnússon og Ögmundur Skarphéðinsson bókasafnari biðja um að fá skilti á McDonalds til að minnast fundar 32 Íslendinga með Gaimard. I wouldn´t be loving it. Þeir Guðmundur og Ögmundur mega heldur ekki við því að fá sér borgara á þessum stað. En þeir gætu yfir kaffitári og salati látið hugann reika aftur til hrákalds janúardags árið 1839, þegar aðrir menningarlegir Íslendingar sátu í öðru húsi, hugsanlega á sama stað, og drukku kaffi og borðuðu flan með Monsieur Joseph Paul Gaimard. Ég kem og fæ mér Mjónu-borgara þeim til samlætis.

Hvað hefðu Jónas og Jón gert?

Ekki er ég viss um að Jónas Hall eða Jón Sigurðsson þæðu að samsætast okkur á McDóna. En stutt er yfir á Hvids Vinstue þegar viðskiptum við ameríska bautabóndann er lokið. Við mætum þar allir í bláum tvíhnepptum rykfrökkum með gyllta hnappa.

Viðbót 1. desember 2019 - Samsætið var á Ferrini!

Vangaveltur Guðmundar Magnússonar um að samsætið hafi verið á Mjóna (kaffihúsi Mini), eiga alls ekki við rök að styðjast, líkt og mig grunaði er ég rýndi í grein hans. Í nýrri bók Árna Snævarr um Gaimard, sem bert titilinn Maðurinn sem Ísland elskaði, er gátan leyst. Árni sýnir fram á að samsætið hafi verið á Ferrini. Og það er allt annar handleggur.
 
Mini, sem eftir 1857 var orðið að enn fínna kaffi- og kökuhúsi og þá kallað Cafe a Porta (þá var eigandi Stefano Porta), var til húsa á Kongens Nytorv 17, en Ferrini var til húsa á Kongens Nytorv 5. Eigandinn þar var sonur skóara sem settist að í Kaupmannahöfn á 19. öld. Hann var að öllum líkindum ekki Ítali, þrátt fyrir suðrænt nafnið.
 
Ég sé á Mediastream-Aviser, þar sem menn geta lesið gömul dönsk dagblöð, að samsætið til heiðurs Gaimard er tengt við Ferrini eins og Árni Snævarr segir réttilega í bók sinni. Hann bætir við að restaurant Ferrini hafi verið á Slotsholmen en það er hins vegar leið villa sem er ættuð úr bók eftir Pál Valsson. Á Slotsholmen voru engar krár að því er ég best veit. Á Ferrini var H.C. Andersen fastagestur. McDonalds var sem betur fer ekki til í þá daga. H.C. hefði hlaupið í spik og aldrei skrifað neitt almennilegt.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gott hjá þér! Það er ein villa þarna. Þú skrifar 1939 (en á auðvitað að vera 1839).

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 8.5.2015 kl. 06:17

2 Smámynd: FORNLEIFUR

Það og annað hefur verið leiðrétt. Ekki er einu sinni víst hvort samsætið hafi verið á þessum stað - en þó líklegt.

FORNLEIFUR, 8.5.2015 kl. 07:34

3 identicon

Er ekki verið að loka Hviid? Hvað verður þá um Jackie og börn...myndina hans Örlygs? Hún er þjóðargersemi og verður að varðveitast. Kannski á Skinnbrókinni?

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 8.5.2015 kl. 19:49

4 Smámynd: FORNLEIFUR

Jú, Þorvaldur, ég tel mig hafa lesið það nýlega. Kannski er búið að loka. Ég kem þangað 5. hvert ár og þá með Íslendingi.

FORNLEIFUR, 9.5.2015 kl. 07:49

5 identicon

KAUPMANNAHAFNARBÓKIN Borgin við Sundið er að sjálfsögðu endurskoðuð frá grunni, FORNLEIFUR. M.a. fer ég í sumana á öllum upplýsingum um fyrirtæki og stofnanir, hótel og veitingahús og rek ég sorglega sögu síðustu örlaga Mjóna. Hins vegar hef ég það frá fyrstu hendi, að ekki er verið að loka Hviids Vinstue. 

Tryggvi Gíslason (IP-tala skráð) 10.5.2015 kl. 19:27

6 Smámynd: FORNLEIFUR

Sæll Tryggvi, ég kaupi bókina þegar hún kemur endurskoðuð. Hviids Vinstue var þarna ennþá um daginn, þegar ég átti leið um. Ég fór þó ekkert inn til að athuga hvort íslensk stórlist hefði horfið af veggjum. McDóninn á Mjóna er greinilega subbulegur sóðastaður, og ruslið þaðan fýkur um allt fyrir framan þessa bandarísku brasknæpu.

FORNLEIFUR, 14.5.2015 kl. 12:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband