Netlusaga

56945.jpg

Mikill áhugamaður um fræ, frjókorn, ofnæmi og alls kyns undarleg grös sendi mér upplýsingu um skemmtilega sögu af Dr. Ágústi H. Bjarnasyni grasafræðingi. Ágúst er mikill áhugamaður um netlur og leitaði fyrir fáeinum árum til Þjóðminjasafns og skráði símtal sitt eins og lærðum mönnum einum er lagið:

"Símtal við Þjóðminjasafn:

Fyrir nokkrum árum var eg að kynna mér brenninetlu (Urtica dioica L.), útbreiðslu hennar, notkun og náttúru. (Því miður hef eg ekki lokið enn við það verk; en það er önnur saga.) Meðal annars vissi eg um dúka og klæði, sem voru ofin úr netlu-þráðum, eins og algengt var annars staðar í Evrópu og er reyndar farið að tíðka víða að nýju.

Mér datt þá í hug að hringja í Þjóðminjasafnið og spyrja, hvort netludúkar hefðu fundizt við uppgröft á Íslandi. Kvenmaður svaraði, og eg bar upp erindið. „Andartak,“ anzaði hún. Þá heyrði eg hana kalla: „Margrét, hafa fundizt netludúkar við uppgröft?“ – „Hver er að spyrja um það,“ heyrði eg úr fjarska. „Það er einhver kall,“ svaraði símadaman. Síðan hljómaði hátt eftir örstutta bið: „Segðu nei.“

Konan sneri sér síðan aftur að símtólinu og sagði við mig mjög háttprúð í tali: „Nei, því miður, þeir hafa aldrei fundizt, því miður.“ – Og þar með þakkaði eg fyrir og kvaddi."

Já, Ég hef í mörg ár reynt að segja Þjóðminjasafninu að símarnir þar séu mjög næmir. Það er bókstaflega hægt að hlera það sem fólk segir.

Nú tel ég víst að "Magga" sú sem heyrðist í hafi strax litið niður í Sarp sinn, enn svo heitir skráningarkerfi safna á Íslandi - og fullvissað sig um að netludúkar væru þar ekki nefndir. En ég myndi nú ekki treysta þeirri skrá, meðan að gler er skráð sem postulín á Þjóðminjasafninu. Vona ég þó að fornleifafræðingar á Íslandi finni brátt netludúka handa Ágústi.

Reyndar hafa fundist netlufræ við rannsóknir á Bergþórshvoli, en hvar þau eru niður komin nú veit ég ekki. Ég reyndi eitt sinn á 9. áratug síðustu aldar að hafa upp á þeim en fann ekkert á Þjóðminjasafni. Þar er hins vegar varðveittar leifar af skyri frá Bergþórshvoli. Hér er góð framsóknargrein um netlur. Sigmundur Davíð er örugglega mikill áhugamaður um netluplástra.

Brenninetlur er hægt að verka eins og lín (hör) og ég hef séð netlubuxur. Í Hollandi og á Englandi hef ég fengið netluost og oft sötrað brenninetlusúpu með káli hér í Danmörku. Ég á þó ekki netludúk, en er annars mikið fyrir brenninetlur, og vona svo að Íslendingar fari ekki að kasta því leiða sulli roundup, eða öðru eiturkyns á þær, eins og þeir kasta á allt lífrænt sem stingur og særir hina rósbleiku, silkimjúku ofnæmishúð Íslendinga. Slíka húð verður að herða með netlum, mýbiti og húðstrýkingum, því ekki á að nota húðina í leðursófasett, er það nokkuð?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband