Sjóræningjaleikur í sandkassa: Gullskipið fundið

het_wapen_van.jpg

Fáeinir fullorðnir menn á Íslandi ætla í sjóræningjaleik í sumar. Þeir eru meira að segja búnir að fá til þess leyfi frá Minjastofnun Íslands, sem hins vegar bannar á stundum fornleifafræðingum að rannsaka menningararfinn.

Leyfið til sjóræningjanna gengur út á að svífa yfir sanda með mælitæki til að finna gull og geimsteina. Fornleifafræðingur verður að vera með í sandkassaleiknum segir í leyfinu. Sá aumi félagi úr íslenskri fornleifafræðingastétt sem tekur slíka róluvallaleiki að sér verður sér til ævarandi skammar og háðungar. Hann verður þó líklega sá eini sem græðir á ævintýrinu, ef honum verður yfirleitt borgað. Það verður þó aldrei greiðsla í gulli, geimsteinum, demöntum eða perlum.

Minjastofnun hefur leyft fyrirtæki ævintýramanna undir stjórn Gísla nokkurs Gíslasonar að leita að "Gullskipinu" margfræga, sem er betur þekkt annars staðar en á Íslandi sem Het Wapen van Amsterdam. Síðast er leitað var að flaki þessa skips sem strandaði við Ísland árið 1667, fundu menn þýskan togara sem strandaði árið 1903. Hafa sumir greinilega ekkert lært af því. Þessi greindartregða virðist lama allt á Íslandi. Þetta er eins og með hrunið. Það var rétt um garð gengið þegar menn byrjuðu aftur sama leikinn og rotnir pólitíkusar taka ólmir þátt í græðgisorgíunni.

Leitið og þér munið finna

Stofnað hefur verið sjóræningjafyrirtæki sem kallar sig Anno Domini 1667. Sjóræningjarnir eiga sér einkunnarorð. Það er vitaskuld stolið, og það úr sjálfri Biblíunni: "Leitið og þér munið finna." Þeir rita það á bréfsefni fyrirtækisins á latínu. Afar furðulegt þykir mér, að menn sem eru svo vel sigldir í fleygum setningum á latínu geti ekki lesið sér heimildir um skipið Het Wapen van Amsterdam sér til gagns.

Sjóræningjarnir gera sér von um, samkvæmt því sem þeir upplýsa, að finna 1827 tonn af perlum. Vandamálið er bara að farmskrár skipanna, sem Het Wapen van Amsterdam var í samfloti við þegar það strandaði við Íslandsstrendur, upplýsa ekkert um 1827 tonn af "ýmis konar perlum", heldur um 1,827 tonn af perlum sem voru ekki nauðsynlega á Het Wapen van Amsterdam. Yfirsjóræninginn hjá 1667, Gísli Gíslason menntaðist víst í Verslunarskólanum, til að byrja með. Þar hélt ég að menn hefðu lært á vigt og mæli. Lítið hefur Gísli greinilega lært, því 1,827 tonn (þ.e. eitt komma átta tvö sjö tonn) verða að 1827 tonnum af perlum. Hvernig getur það verið að þessum talnasérfræðingi sé veitt leyfi af ríkisstofnum til að leika sjóræningja sem leitar að sandkorni í eyðimörkinni? Hvað halda landkrabbarnir í sjóræningjafélaginu að skipið hafi eiginlega verið stórt?

Slíka vitleysu höfum við séð áður í tengslum við leit að "Gullskipinu", þegar "fróðir menn" héldu því fram að rúm 49 tonn af kylfum og lurkum væru um borð (sjá hér). Á einhvern ævintýralegan hátt tókst einhverjum álfi að þýða orðið foelie sem kylfur.  Þetta var alröng þýðing eins og ég fræddi lesendur Fornleifs um fyrr á þessu ári, áður en að kunngert var að sjóræningjaleikur myndi fara fram aftur á Skeiðarársandi. Foelie er gamalt hollensk heiti fyrir múskatblóm, hýðið utan af múskathnetunni. Þetta krydd, sem hægt er að kaupa undir enska heitinu mace á Íslandi, var fyrrum gulls ígildi. Þó að það hafi verið um borð á Het Wapen van Amsterdam, er ég hræddur um að Matvælastofnum geti ekki leyft neyslu þess. Síðasti söludagur rann ugglaust út fyrir nokkrum öldum. Ef múskatblóma fyndist væri úr henni allur kraftur og hún væri frekar vatnsósa og ónýt til matargerðar.

Það verður að grípa í taumana. Sjóræningjar mega ekki ganga lausir á Íslandi. Einnig mætti ráða hæft fólk til Minjastofnunar. Mest að öllu vorkenni ég börnum íslensku sjóræningjanna sem eyða peningum fjölskyldna sinna sem ella gætu hafa runnið til barna og barnabarna mannanna, sem vonandi munu stíga meira í vitið en þeir. Öll vitum við að síðustu karlarnir með Asperger-heilkenni sem leituðu að "Gullskipinu" eins og að sandi í eyðimörkinni létu íslenska ríkið ganga í ábyrgð fyrir vitleysunni.

Mann grunar að menn eins og fyrrverandi sjálfkrýndur "forleifaráðherrann", Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hefði verið til í svona sjóræningjaleik. Vonandi hefur hann nú ekki skrifað undir gruggugan sjóræningjasamning hjá 1667 sem skattgreiðendur verða svo að borga á endanum eins og allar aðrar vitleysur í íslensku þjóðfélagi. Legg ég hér með til að sjóræningjarnir fari frekar og hjálpi kollegum sínum, íslensku stórþjófunum og skattskvikurunum við að grafa upp gull þeirra og geimsteina í heitum sandinum á Tortólu, og skili sköttum og gjöldum af því fé í sameiginlega sjóði landsins. Það væri þjóðþrifamál á við nokkur gullskip.

Myndin efst

er hluti af stærra málverki eftir hollenska meistarann Aelbert Cuyp. Þarna sjást tvö skip VOC (Vereenigde Oost-Indische Compagnie/Sameinaða Austur-indíska Verslunarfélagsins) í Batavíu um 1660. Batavía var helsta höfn Hollendinga í Indónesíu. Í dag heitir borgin á þessum stað Jakarta. Ef vel er af gáð, sjá menn kannski að skipið til hægri ber skjaldamerki Amsterdamborgar.

Hugsanlega er þetta skipið sem menn eru að leita að á Íslandi. Einhver annar en listamaðurinn Cuyp hefur skrifað 'Banda' á skut skipsins. Banda var ekki nafn þessa skips heldur höfnin á samnefndri eyju á Malaccasundi, þar sem múskattréð óx upphaflega. Höfnin í Banda var heimahöfn múskatsskipsins Het Wapen van Amsterdam, sem sigldi með mörg tonn af því verðmæta kryddi í síðustu för sinni. Menn mega trúa mér eða ekki. Ef ekki, mega þeir trúa ævintýramanninum Old Red Gísli Gold sem hér sýnir innistæðulaust sjóræningjakort nútímans, með leyfi Minjastofnunar Íslands til að leita uppi vitleysuna endalausu. Það kalla menn víst ævintýri.

0aaba8bfd1812b33b5fc646681a5c432.jpg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Vaeri fródlegt ad fá upplýst hvort einhverskonar ábyrgd frá hinu opinbera, hafi fengist í thetta verkefni. Thad vaeri svosem eftir ödru, í theim Hrunadansi sem nú virdist vera ad ná takti ad nýju.

Gódar stundir, med kvedju ad sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 24.4.2016 kl. 06:38

2 Smámynd: FORNLEIFUR

Sæll ævinlega Halldór, mig grunar að minnsta kosti, að það séu til fleiri ævintýramenn á Íslandi en Gísli Gíslason. Vona ég að ríkiskassinn sér með fleiri lása nú en þegar togarinn fannst.

FORNLEIFUR, 24.4.2016 kl. 06:48

3 Smámynd: FORNLEIFUR

Þessa góðu athugasemd fékk ég á FB minni og verð að deila með lesendum Fornleifs:

Kjartan Pétur Sigurðsson

Kjartan Pétur Sigurðsson Man vel eftir þegar Kristinn í Björgun keypti sér fis til að fljúga yfir sandanna með segulmælitæki. Rakst á þessa skemmtilegu grein á Mbl þegar ég fór að skoða málið betur http://www.mbl.is/greinasafn/grein/667079/
Sé að sjálfur Árni Johnsen hefur ritað um málið í ævisögu Kristins.
Ég átti nokkur flug þarna um sandanna 2009. Fann fyrir tilviljun fullt af skipsflökum, jafnvel langt inni á landi. Spurning hvort að ég hafi rampað á sjálft Gullskipið án þess að hafa vitað af því!
Ekkert af þessum skipum var á 20m dýpi eins og togarinn Albert var á. Því mætti alveg eins reikna með að sjálft Gullskipið væri á 40m dýpi!
Þarna er greinilega mikil saga sem væri gaman fyrir mann eins og þig Vilhjálmur að taka saman.
Spurning hver er sagan á bak við þennan bát:
http://www.photo.is/09/08/5/index_10.html http://www.photo.is/09/08/5/index_13.html og svo þennan bát http://www.photo.is/09/08/5/index_14.html
og svo þennan bát
http://www.photo.is/09/08/5/index_16.html
og svo þennan bát
http://www.photo.is/09/08/5/index_24.html
og svo þennan bát
http://www.photo.is/09/08/6/pages/kps06099357.html
og þennan bát
http://www.photo.is/09/08/6/pages/kps06099359.html
og þennan bát
http://www.photo.is/09/08/6/pages/kps06099368.html
og þennan bát
http://www.photo.is/09/08/6/pages/kps06099388.html
og þennan bát
http://www.photo.is/09/08/6/pages/kps06099391.html

eða um 10 bátar á svæðinu frá Jökulsárlóni að Hjörleifshöfða.
Þetta var nú það litla sem að ég rak augun í á flugi mínu um þetta svæði. Lenti hjá sumum og varð ekki var við neinar sandbleytur. Annars er margt flott að sjá á þessari leið eins og sjá má á myndunum. Þarna eru neyðarskýli, selur, hvalir m.m.
Tjónið á öllum þessum bátum/skipum fyrir utan hugsanleg manntjón er auðvita dropi í hafið miða við þann kostnað sem Gísli er að fara að leggja út í sér og öðrum til skemmtunna. Það er auðvita í tísku núna að leita af gósi eins og á Tortólu og víða, eins og þú kemur svo skemmtilega inn á í greininni.
Annars hafa orðið nokkrir mannfrekir sjóskaðar á þessu söndum sökum hafnleysis.
1843 sátu 10 ekkjur með föðurlaus börn með sárt ennið á Mýrunum í litlu 170 manna samfélagi. Þá fórust 14 manns á 7 árabátum í aftakaveðri.

KRISTINN í Björgun, eins og Kristinn Guðbrandsson var nefndur, er dæmi um goðsögn í lifanda lífi.

mbl.is

FORNLEIFUR, 24.4.2016 kl. 10:23

4 Smámynd: FORNLEIFUR

Á myndum Kjartans úr fisinu má vel sjá hve 100 ára og yngri járnskip eyðast. Halda menn að eyðing eikarskipa sé minni? Við sjáum einnig hve mikil hreyfing er í sandinum. Straumar og kraftar sandanna voru rannsakaðir af rannsóknarstofu Bandaríska Flotans í Maryland, sem ritaði mikla skýrslu um hugsanleg varðveisluskilyrði á söndunum. Þeirra niðurstöður voru að vart gæti nokkuð verið eftir af Het Wapen van Amsterdamm eða í nokkru samhengi, vegna þeirra krafta sem í sandinum eru. Skýrslan er til á Þjóðminjasafni Íslands og hefur að því er ég best veit aldrei verið gefin út.

FORNLEIFUR, 24.4.2016 kl. 10:34

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Man þegar við virum við tökur austur við vestrahorn austur á Höfn þá var þar í fjörunni við Stokksnes nokkuð heillegt stálskip sem hafði farið þarna upp í sandinn einu eða tveim árum áður. Nokkrum árum síðar kom ég þarna aftur var ekkert eftir af skipinu nema einhver ryðguð smábrot. Sjórinn hafði mulið það niður. Það er nefnilega þannig að skip sem situr í sandi gefur ekkert undan svo afl sjávar nýtur sín til fullnustu og tommuþykkt stál rifnar eins og kókdós. Ég hef enga trú á að tréskip hafi enst nema nokkra mánuði í besta falli.

Jón Steinar Ragnarsson, 25.4.2016 kl. 00:34

6 identicon

Strákar - róa sig.

Þetta er bara ævintýri sem verður að fullu fjármagnað af þeim sem standa að því.  Ekki verður farið fram á neina styrki.

Hvort að einhver verðmæti verði í skipinu ef það á annað borð finnst, er ekki aðalatriðið, en það væri óneitanlega gaman.

Þetta verkefni ætti ekki að þurfa að trufla neinn - en sumir hafa allt á hornum sér og sjá eingöngu bara hið neikvæða, þannig er það bara, en mikið afskaplega er nú skemmtilegra að vakna jákvæður á morgnana.

Fyrst að ekki hefur tekist að finna skipið (sem sannanlega strandaði við strendur Íslands), þá er bara best að reyna aldrei aftur..... eða taka bara þátt í smá ævintýri og reyna aftur.

Góðar stundir.

Gísli Gíslason (IP-tala skráð) 26.4.2016 kl. 00:06

7 Smámynd: FORNLEIFUR

Sæll Gísli Gíslason, hér hripar bara einn strákur, hann Fornleifur, sem er alter ego óforbetranlegs ævintýramanns sem safnar hornum í frístundum sínum. Við tveir óskum ykkur alls hins besta yfir og undir sandinum og munum fylgjast vel með. Við höldum fast í hornin. Úti er ævintýri. Ef ekkert finnst spólum við yfir ykkur á heimildageitinni.

med_allt_a_hornum_ser.jpg

FORNLEIFUR, 26.4.2016 kl. 12:01

8 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Mig langar að taka fram, að gefnu tilefni, að Fornleifur hefur enga heimild til að gera sínar skoðanir að mínum. Ég er mikill áhugamaður um demanta og perlur, eins og frúin á Bessastöðum getur vottað fyrir. Gull hefur hins vegar hríðlækkað í verði eftir síðasta gull-æðið. Fornleifur er, tel ég mig vita, lítið gefinn fyrir krydd. Ég er hins vegar kominn af kryddkaupmönnum langt aftur í ættir og fagna því ef krydd finnist. Þó það sé ekki nema kryddilmurinn.  Maður getur sjaldan fengið nóg af perlum, nema vitaskuld Fornleifur, sem kastar þeim oftast fyrir svín.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 26.4.2016 kl. 12:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband