Felix hefur alls ekki gleymt Íslandi

felix_der_islander.jpg

.. en hefur Ísland gleymt honum?

Síðla dags í gær ók ég suður á hina fallegu eyju Møn ásamt konu minni. Það var reyndar í fyrsta sinn sem við heimsóttum þá fögru eyju og kom hún okkur báðum á óvart. Erindið var að hitta gamlan og góðan vin, Felix Rottberger, fyrsta gyðinginn sem fæddist á Íslandi.

Foreldrar Felix komu til Íslands árið 1935 en var vísað úr landi árið 1938. Margir hafa ritað um afdrif fjölskyldunnar á Íslandi, þó mest hafi verið fært í skáldlegan búning, fyrst og fremst af Einari heitnum Heimissyni. Ég sagði hins vegar alla söguna þeirra, sem var betur skjalfest í Danmörku en á Íslandi. Einnig greindi ég frá afdrifum fjölskyldunnar í Danmörku eftir að þeim hafði verið vísað frá Íslandi. Um það má allt lesa í bók minni Medaljens Bagside (2005) sem hægt er að fá að láni á nokkrum góðum íslenskum bókasöfnum.

Liðin voru níu ár í gær síðan ég sá Felix og konu hans Heidi síðast, er þau gistu hjá okkur árið 2006 (sjá hér). Í gær (1.9. 2016) hélt hann fyrirlestur á safnaðarheimili í Magleby á Møn, þar sem hann gistir í sumarleyfinu hjá góðum vinum. Fjölmenni var og var fyrirlestur Felix afar áhugaverður og skemmtilegur því karlinn er fyndinn og góður sögumaður.

visad_ur_landi.jpg

Hann greindi stoltur frá því að hann hefði fæðst á Íslandi árið 1936, en sömuleiðis frá þeirri dapurlegu staðreynd að honum og fjölskyldu hans var vísað úr landi. Sjáið hér hvað skrifað var í Morgunblaðinu þann 28. apríl 1938 - Og þið sem hamist mest út af flóttamönnum nútímans: Gerið það nú fyrir mig og skammist ykkar örlítið, þó svo að ég geri mér fulla grein fyrir því að það er bæði óheiðarlegt og ómögulegt að líkja þessum tveimur tímum og flóttamannahópum eins og gyðingum  og múslímum saman, að minnsta kosti meðan að meirihluti múslíma heimsins hatast út í gyðinga.

felix_og_faninn.jpgFelix, sem brátt verður 80 ára, greindi einnig frá heimsókn sinni til Íslands árið 1993. Hann hefur mikla reynslu af því í Þýskalandi að miðla af lífsreynslu sinni og sögu fjölskyldu sinnar.

Er hann heldur fyrirlestra hefur hann ávallt með sér skjalatösku fulla af minningum, blöðum og bókum, þar sem um hann hefur verið skrifað. Hann hefur einnig þrjá fána með sér í töskunni. Þann danska, þann íslenska og þann ísraelska. Danmörk, Ísland og Ísrael eru ríki sem eru honum afar hugleikin, þó svo að hann líti á sig sem Þjóðverja. Enda hefur fjölskylda hans búið í Þýskalandi síðan að foreldra hans fluttu þangað árið 1955 eftir langa þrautargöngu í Danmörku, þar sem oft var lítil sæla að vera flóttamaður af gyðingaættum ef maður hafði komið til landsins fyrir stríð. Fordómarnir og smámunasemin lifði þar áfram og vilja margir Danir sem minnst um þá tíma heyra.

See you in Iceland, Felix smile

img_3223b.jpg

Ljósmynd af ljósriti af áritaðri ljósmynd af Örnu Ýr Jónsdóttur: Arna Ýr hefur fengið sérstaka undanþágu til að birtast hér á þessu forngripa og steingervingabloggi Fornleifs. Ljósmyndarinn, Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, og fegurðardrottningin eiga það þó sameiginlegt að þau hafa stokkið á stöng; Hún sem frjálsíþróttarkona, en Vilhjálmur á Stöng í Þjórsárdal.

Felix var tíðrætt um Ísland í fyrirlestrinum í gær, líkast til vegna þess að ég hafði slegist með í för. Fagnaði hann árangri núverandi landsliðs síns (því íslenska) og sagði síðan frá nýlegum kynnum sínum af íslenskri fegurðardís, sem hann rakst á í sumar í skemmtigarðinum Europa Park, nærri Freiburg í Þýskalandi þar sem hann býr í húsi umsjónamanns grafreits gyðinga í bænum.

Felix hafði hitt Örnu Ýr Jónsdóttir, Ungfrú Ísland sem einnig hreppti titilinn Miss EM 2016 þarna í garðinum. Felix var þarna staddur með barnabörnum sínum og gerði sér lítið fyrir og gaf sig á tal við Örnu Ýr, þessa bráðhuggulega konu frá Íslandi, sem hann sjarmaði örugglega alveg upp úr háhæluðum skónum - og sagði síðan með glettni í auga eins og honum einum er lagið, að hann væri Íslendingur alveg eins og hún og spurði hana, hvort hún sæi það ekki. Arna hváði, og þá sýndi hann henni vegabréf sitt þar sem stendur að hann hafi fæðst í Reykjavík. Þegar hann upplýsti hana að hann yrði áttræður hér í september lét hún þau orð falla að hún myndi reyna það sem í hennar valdi stæði til að láta bjóða honum til Íslands! Hún áritaði fyrir hann mynd af sér í fullum skrúða.

Hvort fegurðardrottningunni frá Íslandi hefur fengið einhverju framgengt í því, sem ég vona að hún hafi, verð ég nú að upplýsa, en vona um leið að allir haldi því leyndu svo afmælisbarnið frétti ekkert um sinn, að þegar hann bauð mér í júlí sl. í afmæli sitt ákvað ég þegar að fara í veisluna. En um leið hóf ég sókn til þess að þessum Heiðursíslendingi yrði boðið til landsins meira en 78 árum eftir að honum var vísað úr landi vegna uppruna síns, trúar og nafns, sem ekki hentaði sumum Íslendingum.

Guðni Th. Jóhannesson lætur ekki á sér standa

Ekki stóð á Forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, sem þegar hefur sagt sig viljugan til að bjóða Felix til veislu á Bessastöðum ef stjórnvöld geta borgað fyrir formleg boð til Felix og nokkurra dag heimsókn hans og konu hans í Reykjavík. Felix á sér t.d. þá ósk heitasta að geta heimsótt gröf ömmu sinnar sem dó á Íslandi og móðurbróður síns, Hans Mann Jakobssonar, sem hann heimsótti árið 1993.

Bíð ég nú eftir svörum Lilju Daggar Alfreðsdóttur utanríkisráðherra og ríkisstjórnarinnar.

Vona ég svo sannarlega að stjórnvöld sjái sér fært að bjóða þessum sjarmerandi og síunga Íslendingi í heimsókn. Hann höfðar bæði til the beauty and the beast, þ.e.a.s. fegurðardísarinnar frá Íslandi og karlpungsins, bróður Fornleifs, sem er að sögn með ljótari mönnum, þegar hann skrifar þessar línur.

felix_og_heidi_rottberger.jpg

Felix og eiginkona hans Heidi, sem þýsk og upprunalega frá Berlín. Hún starfaði lengst af sem hjúkrunarkona. Hún sneri til gyðingdóms. Hér heldur hún á forsíðumynd af DV frá 1993 þegar þau hjónin og yngstu börn þeirra, Thorsten og Anja, heimsóttu Ísland. Felix gantast að gömlum vana. Ljósm. eins og aðrar við þetta blogg: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson.

Íslendingar hefðu mjög gott af því að kynnast Felix Rottberger aftur. Viss er ég um, að slíkt boð frá Íslandi væri besta gjöfin sem hægt væri að gefa Íslendingnum Felix Rottberger á 80 ára afmæli hans, og felur jafnframt í sér tækifæri til uppgjörs við dapurlega atburði í Íslandssögunni.

Sýnum að við höfum ekki gleymt honum og heldur ekki þeirri smámunasemi og fordómum sem urðu til brottvísunar hans og fjölskyldu hans árið 1938. Bjóðum honum nú sem þjóðhöfðingja og tökum á móti honum sem þeim Íslendingi sem hann er, þrátt fyrir þann fjandskap sem mætti fjölskyldu hans á 4. tug síðustu aldar.

Tímarnir breytast og mennirnir með


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það skiptir mig engu máli hvort fólk er hvítt eða gult eða svart, hvort það sé kristið, múslímskt, gyðingatrúar eða guðlaust, hver ofsóttur maður á samúð mína, hver sem ofsækir er ekki vinur minn. Ég er vegna fjölskylduhefðar gamall vinur gyðinga en það útilokar ekki að ég geti líka verið vinur múslíma.

Í nafni frjálslynds húmanisma.

Gísli Gunnarsson 

Gísli Gunnarsson (IP-tala skráð) 2.9.2016 kl. 20:35

2 Smámynd: FORNLEIFUR

 Sæll Gísli, mikið vildi ég að allir hugsuðu eins og þú. Hvar segi ég að ég sé samúðarlaus gangvart einhverjum? Þú ættir vinsamlegast ekki gera mér upp skoðanir til að hefja sjálfan þig upp.

Þú veist ósköp vel að forsendur fyrir flótta gyðinga var annar en flótti múslíma í dag. Gyðingar stóðu frammir fyrir hatri í öllum löndum Evrópu og sáu fram á að það hatur leiddi til blóðbaðs. Þeir sem gátu, komu sér undan, hinir voru myrtir. Enginn hefur fyrir stefnu að útrýma múslímum. En til eru múslímar sem hafa fyrir stefnu að útrýma öðrum og hafa verið að því síðastliðin 40 ár, eins og oft áður.

En það hugsa kannski ekki allir af jafn miklum húmanisma og þú, og því er frjálslyndur húmanismi, sem er reyndar mjög gyðinglegt fyrirbæri, ekki mjög algengur meðal hatursmanna gyðinga, sama hvort þeir eru hvítir, gulir, svartir eða blanda af öllu saman og án tillits til hvort þeir eru trúaðir, trúlausir eða einhvers staðar á sveimi. Liturinn skiptir engu máli, það gerir hins vegar hugarfarið.

Fólk sem þarf á aðstoð að halda ber að hjálpa. Aðeins á einn hátt getur það þakkað hjálpina, og það er að sýna ekki sjálft þá fyrirlitningu sem það hefur orðið fyrir.

Ég held aldrei að Íslendingar, með allan sinn ættgarð skráðann á Íslendingabók og Co., sama hvort þeir eru frjálslyndastir allra húmanista, munu nokkurn tíma skilja hvernig það er að eiga ekki fjölskyldu vegna þess að henni var útrýmt að mestu - og þaðan að síður hræðslu þeirra við nýjan heim sem notar sömu orðin, sömu athafnirnar og sama hatrið sem varð ættingjum þeirra að bana.

Það er ekki húmanismi að segja gyðingum nútímans að elska þá sem opinskátt og signt og heilagt segjast vilja útrýma þeim. Það er einfeldni og í besta falli misskilinn góðvild. Það er t.d. erfitt að elska fólk frá landi þar sem gyðingar voru merktir sérstaklega löngu áður en það tíðkaðist í Evrópu á miðöldum, sem ekkert gerði nema að gleðjast þegar stærsti gyðingagrafreitur heims í Damaskus, sem átti að standa til enda veraldar, var á nokkrum vikum ýtt í burtu er lagður var vegur til flugvallar "lýðveldisins" Sýrlands. Það er ekki aðeins bara IS/ISIS og SS ásamt öðrum morðsveitum sem fremja glæpina. Fólkið í löndum þessara sveita, sem ekkert gerir, er meðsekt. 

Húmanismi er því afar vandmeðfarið orð...

Því vona ég að hægt sé að bjóða Felix Rottberger sem Íslendingar hentu út á sínum tíma alveg eins og hægt er að senda spillta íslenska ráðherra til Gaza þar sem ráða samtök sem hefur fyrir stefnu að myrða gyðinga.

FORNLEIFUR, 2.9.2016 kl. 22:31

3 Smámynd: FORNLEIFUR

Langar mig að biðja Gísla, vin minn, Gunnarsson og annað góðhjartað fólk að blanda ekki stórpólitík inn í ósk um að bjóða Felix Rottberger til Íslands á 80 ára afmæli hans. Hann á að vera velkominn eins og aðrir og boð til hans er frábær leið til að sýna veginn fram og eyða hræðslunni. Fordómar ríkja á meðal allra, einnig þeirra sem hvarvetna telja sig betri en aðra, en hræðslan er verst og hún er systur hatursins.  Höldum okkur við það hér. Ósk um að Felix Rottberger verði boðið er hér til umræðu - ekki hver er bestur í kapphlaupinu um sérleyfi á réttar og bestar skoðanir.

FORNLEIFUR, 2.9.2016 kl. 22:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband