Sagnfræðileg perla komin úr skel fyrir Vestan

Erlendur Landshornalydur

Ritdómur:

Vestur á Súðavík býr tiltölulega ungur maður sem lengi hefur helgað sig sögu útlendinga og þeirra sem ekki voru velkomnir á Íslandi. Þetta er Snorri G. Bergsson sagnfræðingur. Bók hans Erlendur Landshornalýður? er nýkomin í bókaverslanir og kjörbúðir. Með þessu góða og breiða verki hefur Snorri gefið íslensku þjóðinni perlu og nýtt grundvallarverk, sem ætti að vera skyldulesning í menntaskólum.

Íslendingar eru að mínu viti enn upp til hópa útlendingahatarar eða haldnir óþoli eða öfund gagnvart útlendu fólki, jafnvel þeir sem bjóða til landsins ferðamönnum í þúsunda tali. Útlistingar og yfirlit yfir skoðanir Íslendinga á útlendingum á 18. og 19. öld er því kærkominn fengur til að skilja þessa bölvuðu áráttu margra á Íslandi, að kenna útlendingum um allt illt og líta á tilflutt fólk sem 2. flokks fólk.

Ég er enn að lesa bók Snorra, og mjög margt nýtt sem kemur á óvart og annað vissi ég, enda vitnar Snorri óspart í mig og mín fræði. Nú er gott að fá þessa sögu í bók. Við erum mörg sem lengi höfum beðið eftir þessum opus Snorra um gyðinga og útlendinga. Við vitum að hann hefur unnið að þessu lengi og það ber bókin vott um. Hún er vel skrifuð, yfirveguð og læsileg.

Fyrir utan það sem ljóst var, að Hermann Jónasson væri andstyggilegur gyðingahatari og að slíkar kenndir hafi fylgt flokknum hans lengi, tel ég nú víst að Snorri hafi séð ljósið og viti nú að slíkar kenndir voru einnig að finna meðal annarra flokka, t.d. meðal sjálfstæðismanna og krata. Snorri gefur dæmi um útlendingahatur Vilmundar Jónssonar landlæknis. Það kemur mér ekki á óvart. Ég á afrit af skjali sem ég rakst á hér í Kaupmannahöfn, frá Vilmundi, þar sem hann skrifar til danskra yfirvalda um hætturnar sem stafa af því ef kaþólskir menn, erlendir, fái að reisa spítala á Íslandi.

Þar sem bók Snorra nær því miður aðeins til 1940, fá lesendur ekki upplýsingar um gyðingahatur sem gerjaði á Íslandi eftir síðara stríð og sem framleitt var og dreift af flokksbundnum krata og þingmanni um tíma, Jónasi Guðmundssyni (sjá t.d. hér).

Annað markvert í bókinni, og þar er margt, er að Snorri gefur sterklega í skyn að höfuðskáld þjóðarinnar og nóbelsverðlaunahafi, Halldór Laxness hafa verið gyðingahatari og hefur fundið texta þar sem hann talar af óvirðingu um fórnarlömb nasista og jafnaði gyðingaofsóknum við hundahatur.  Af hverju voru Hannes (sem ég finn því miður ekki í nafnaskrá bókar Snorra) og Halldór ekki með það í bókum sínum? Halldór skrifaði í Parísarbréfi sínu í Þjóðviljanum árið, þ. 31. október 1948:

Morðíngi Evrópu dró þessa umkomulausu flóttamenn sína hér uppi vorið 1940 [við hernám Frakklands]. Ég atti nokkra kunningja í hópi þeirra. Þeir voru pólskir. Mér er sagt að þeir hafi verið drepnir. Þeir hafa sjálfsagt verið fluttir austur til fángabúðanna í Ásvits (Oswiekim, Auschwitz) þar sem Hitler lét myrða fimm milljónir kommúnista og grunaðra kommúnista á árunum 1940-1945, jú og auðvitað „gyðínga“.

Ég tel að greining Snorra á þessum ósóma í Laxness sé fullkomlega hárrétt. Ég er þakklátur Snorra fyrir að hafa þorað að minnast á þetta, en ég tel að afgreiðsla Laxness á veru sinni í Berlín 1936 hafi einnig sýnt hugarfar hans í garð gyðinga, fólks sem hann kynntist ekki neitt. Ég skrifaði um þær, m.a. hér og fékk Hannes Hólmsteinn það m.a. að láni í aðra bók sína um Laxness. 

output_Bnlww8

Þessa myndin af Laxness (án mottu og kollu) er að finna í bók Snorra. Eftir að hafa lesið kaflann um skoðanir hans á gyðingum gat ég ekki staðist mátið og brugðið á leik. Svipur er óneitanlega með þeim arísku frændum, Hjalta litla og Dóra. Enda var Laxi velkominn til Berlínar árið 1936.


Nú er spurningin til allra þeirra sem þekkja og unna Laxness, og sumir meira en aðrir. Hverjir voru þessi pólsku vinir hans? Hann átti líka að eigin sögn gyðingavini sem sköffuðu honum miða á nasísku ólympíuleikana í Berlín? Er ekki kominn tími til þess að gera sér grein fyrir því, að þó Laxness hafi verið mikið skáld og hafi fengið merk verðlaun, að hann líka á stundum það sem siðmenntaðar angló-saxískar þjóðir kalla "full of shit" - en fyrst og fremst var hann afsprengi þjóðfélags þar sem hræðslan við útlendinga var gífurleg. Slíkt gerist oft í fámennum þjóðfélögum og á einangruðum eyjum.

Mig langar að setja spurningarmerki við eina greiningu Snorra á Vilhjálmi Finsen ritstjóra Morgunblaðsins. Í frásögn sinni af Þjóðverjanum Obenhaupt sem Finsen taldi vera gyðing en var það ekki (sjá hér), ályktar Snorri að Vilhjálmur hafi lítið þótt til gyðinga koma. Það held ég að sé röng greining, því er Þjóðverjar höfðu hrakið Finsen, sem starfaði í danska sendiráðinu í Osló, til Stokkhólms árið 1940, var hann beðinn um að hjálpa gyðingum í Noregi vegna góðra tengsla við stjórnmálamenn og áhrifafólk í Noregi. Eftir stríð hlaut hann bæði heiðurspening sænska Rauða Krossins og Sct. Ólafsorðuna  fyrir framgang sinn við að hjálpa flóttamönnum frá Noregi í Svíþjóð. Margir þeirra voru einmitt gyðingar.

Fjöldi gyðinga sótti um landvist á Íslandi en var hafnað skriflega

Snorri Bergsson birtir í bók sinni margar góðar upplýsingar úr íslenskum skjalasöfnum um gyðinga sem reynda að komast til Ísland með því að hafa samband bréfleiðis við íslensk yfirvöld. Fæst þessa fólk komst til Íslands. En einstaklingarnir voru miklu fleiri eins og kemur fram á bls. 187 og 252, því enn meiri fjöldi skrifaði til Sendiráðs Dana í Berlín og ræðismanna. Dönsk yfirvöld höfðu samband við sendiráðið í Kaupmannahöfn sem varð að vísa öllum beiðnum frá gyðingum frá vegna stefnu Hermanns Jónassonar og félaga á Íslandi. Menn reyndu alla möguleika. Flestir þeir sem skrifuðu og leituðu ásjár íslenska yfirvalda enduðu líf sitt í útrýmingarbúðum nasista.

Í þessu samhengi ber að hafa í huga, að það virðist ekki hafa hjálpað mönnum á Íslandi að afneita trú sínum eða uppruna. Þegar Edelstein hjónin komu til Íslands voru þau búin að taka kaþólska trú. Charlotte Edelstein bar t.d. kross á passamynd sinni. Þau lentu í mikilli baráttu við öfl Hermanns Jónassonar. Fjölskylda Róberts Abrahams (Ottóssonar) hafði tekið kristna trú þegar á 19. öld og lagði hann mikið kapp á að koma dönskum yfirvöldum í skilning um það áður en hann fékk vinnu á Íslandi. Allt kom fyrir ekkert, hann fékk ekki að dvelja í Danmörku til frambúðar, því yfirvöld í Danmörku og á Íslandi fylgdu og virtu Nürnberg-lög nasista. Hann var ávallt stimplaður sem gyðingur á Íslandi. Trúskipti gyðinga í gettóum sem nasistar lokuðu þá í hjálpuðu einnig afar fáum. Gyðingahatrið hafði fengið "líffræðilegan" vinkil þar sem trúin skipti engu heldur "blóðið".

Bókin Erlendur Landshornalýður? ætti eins og áður segir að vera skyldulesning í lærðum skólum. Hún gæti jafnvel orðið gagnlegt lyf gegn útlendingahatri sem enn geisar á Íslandi. Bókin væri einnig holl lesning þeim sem telja sig forsvarsmenn flóttamanna á Íslandi í dag, sem einn daginn vaða í tárum yfir meðferð þeirra, en eru í óhemju fávisku sinni með sótsvart gyðingahatur daginn eftir. Gyðingar eru sem betur fer ekki aðalefni bókar Snorra og því engin ástæða til að skýra Súðavík núverandi bústað Snorra á Júðavík. Argh, þessi var lélegur.

Eitt að lokum sem betur hefði mátt fara, en sem ekki getur skrifast á höfundinn. Pappírinn sem bókin er prentaður á er algjör sparnaðarpappír og er það leitt. Svo eru 14 síður aftast í bókinni sem eru alveg tómar og óskrifaðar. Grunar mig að þar hafi Snorri laumað inn stefnuskrá  Samfylkingarinnar eða "samfóista" sem er helsta "aversjón" Snorra svona dags daglega þarna fyrir vestan þar sem hann býr undir öllum snjónum. 

En farið nú að kaupa jólagjafirnar og munið að taka Erlendan Landshornalýð með. Bókin er t.d. tilvalin handa fúlum frændum eða frænkum sem hafa útlendinga á hornum sér. Ekkert spurningamerki.

Erlendur Landshornalýður? Flóttamenn og framandi útlendingar á Íslandi, 1853-1940. Almenna Bókafélagið 2017, ISBN 978-9935-486-28-8

Bókin fær 6 grafskeiðar og hér er ekki hægt að fá fleiri:

6_grafskei_ar_1180436_1260958


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vilhjálmur, líttu í Alþýðubókina, greinina BÆKUR: 5. kafla. Þar ryður H.K.Laxness úr sér svæsnu Gyðingahatri. Hann er þá farinn að hafana kristindóminum, og ræðst á hann einmitt fyrir gyðinglegar rætur hans.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 24.11.2017 kl. 22:03

2 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Þakka þér Ingibjörg fyrir ábendinguna. Ég á ekki Alþýðubókina en panta hana frá bókasafni til að geta lesið þetta nánar.  Mig langar í þessu samhengi að taka fram að ég tel ekki Laxness vera meiri gyðingahatara en meirihluta manna í Evrópu á þessum tíma. En hann skipaði sér því miður ekki í flokk með þeim andans mönnum sem harðast réðust gegn Hitler eða tóku hanskann upp fyrir gyðingum. Þess vegna er það víst örugglega sögufölsun þegar maður í nýlegri alþjóðlegri kvikmynd sér ungan Laxness (í túlkun Benedikts Erlingssonar) á PEN ráðstefnunni í Buenos Aires standa upp fyrstan til stuðnings fórnalömbum nasismans og fasismans. Um þessa kvikmynd skrifaði ég nýlega: http://fornleifur.blog.is/blog/fornleifur/entry/2203127/

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 25.11.2017 kl. 15:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband