Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2012

Lev Samuilovich Klein

LSK1
 

Leo S. Kejn (f. 1927), eða Lev Samuilovich Klein eins og hann heitir í vegabréfum og opinberum sjölum, er einn merkasti fornleifafræðingur núlifandi. Ég ætla ekki að þylja upp áhugaverða ævisögu þess merka rússneska fornleifafræðings hér, heldur getið þið lesið hans eigin sögu og merkilegar athugasemdir við hana hér.

Eitt langar mig þó að nefna. Leo S. Klejn var sendur í Gúlag, úthýst úr samfélaginu eins og mörgum öðrum sem hugsa sjálfstætt eða gagnrýnið. Eftir að Klejn losnaði úr Gúlaginu, þangað sem sumir samstarfsmanna hans og KGB höfðu komið honum, hefur umheimurinn notið góðs af visku þessa merka manns í ríkum mæli.

Ég varð þess njótandi að hlusta á erindi með honum í Árósum í byrjum 10. áratugarins og síðar í Kaupmannahöfn, og ég hef lesið meginhluta ævisögu hans á þýsku. Á 9. áratugnum varð ég einnig vitni að því að deildin mín í Árósum hafði samstarf við fornleifafræðinga í Leníngrad. Sumir þeirra komu Klejn í Gúlagið. Forgangsmaður um það sovét-danska samstarf var Olaf Olsen þjóðminjavörður Dana, sem áður hafði verið prófessor deildar þeirrar við Árósaháskóla sem ég stundaði nám við frá 1980 til 1992. Olaf Olsen var um síðustu helgi afhjúpaður í Jyllands-Posten fyrir að hafa stundað njósnir fyrir Rússa í lok 5. áratugar síðustu aldar. Meira um það síðar.

Þegar Klejn kom í fyrirlestraferð til Kaupmannahafnar og ég bjó á Vandkunsten 6, beint á móti húsinu þar sem fornleifadeild háskólans í Kaupmannahöfn var, mættu afar fáir á fyrirlestur hans. Þessi auma mæting varð til þess að Olaf Olsen skammaðist út í stúdenta í stúdentablaði Hafnarháskóla. Hann kallaði það skandal að svo fáir hefðu komið til að hlýða á hinn merka manna. Þá var mér nú hugsað til þess samstarfs sem Olsen hafði haft við háskólann í Leníngrad, meðan Klejn sat í Gúlaginu.

LSK4a

Ég kynntist Leo S. Klejn örlítið, en honum þótti afar merkilegt að að ég gat þýtt nokkur orð fyrir hann í fyrirlestri. Orðið fyrir flugu á ensku var stolið úr honum í miðri setningu, í einhverri líkingu þar sem hann þurfti að nota flugu. Kleijn bað áheyrendur um hjálp og spurði hvor einhver þekkti enska orðið fyrir rússneska orðið myxa (borið fram múcha). Latínan hjálpaði mér. Musca er orðið fyrir flugu á latínu og munu orðin myxa og musca vera skyld málsifjalega. Klejn fór þá að tala við mig á rússnesku, en ég stöðvaði hann strax og upplýsti að ég hefði afar takmarkaða þekkingu á rússnesku og að ég hefði slegið fluguna í einu höggi vegna latínukunnáttu úr menntaskóla.

Oft hefur mig þó langað að kunna meiri rússnesku, til að mynda til að geta lesið verk Leo S. Klejn, eins merkasta fornleifafræðings sem uppi hefur verið, þótt hann hafi ekki grafið mikið. En eins og lesendur mínir vita, er ekki nóg að grafa. Menn verða líka að skilja hið stóra samhengi, og það grafa menn oftast ekki upp.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband