Færsluflokkur: Greftrunarsiður

Gröf Davíðs konungs

Davids Tomb

Mynd þessa keypti ég nýlega. Þetta er laterna magica skyggna frá því á síðasta áratugi 19. aldar og ljósmyndin er líklega tekin um 1890 - í morgunsólinni sýnist mér.

Myndin er af svæði í gömlu Jerúsalem sem gegnum tíðina hefur stjórnast af mörgum herrum, Gyðingum, Rómverjum, múslímum og kristnum.

Þarna töldu kristnir sig finna gröf sjálfs Davíðs konungs. Deildir úr þremur trúarbrögðum hafa síðan trúað að svo sé. Ekkert er því til sönnunar og menn halda aðeins í hefðina.

Í dag er gröfin undir umsjá hóps heittrúaðra þjóðernissinna sem fylgja gyðingdómi. Fyrir nokkrum árum síðan braut brjálæðingur fornar flísar frá þeim tíma er þarna var moska. Skemmdarverkið var unnið í því húsi sem gröf Davíðs er talin vera í. Margt gæti hins vegar bent til þess að bygging sú sem hýsir meinta gröf Davíðs hafi verið samkunduhús gyðinga á 2. og 3. öld e.Kr.

Takið eftir gröfunum í forgrunninum. Þær eru margar horfnar nú, því kristnir menn ákváðu í byrjun aldarinnar að byggja þarna á svæðinu nýtt klaustur og kirkju í byrjun 20. aldar. Það olli ekki öfgum og óeirðum, líkt og þegar hróflað er við grafreitum múslíma í dag. En virðingarleysi hefur oft verið mikið á Zíonsfjalli sem er nafn sem notað um þessa hæð í suðurhluta gömlu Jerúsalemborgar.

Til samanburðar set ég hér að lokum ljósmynd eftir franska stórljósmyndarann Felix Bonfils sem tekin var árið 1865.

Souvenirs_d'Orient,_1878_by_Félix_Bonfils_0130-2


Beinaflutningur í Skagafirði - fyrir 1104

tæmdar grafir Stöng

Þrátt fyrir vonir um að finna beinagrindur að Seylu í Skagafirði, grípa fornleifafræðingar nú í tómt. 

Merkar fornleifarannsóknir fara nú fram undir stjórn Guðnýjar Zoëga á Stóru-Seylu eða Seylu, sem er bær og gamalt höfuðból á Langholti í Skagafirði. Þar var áður þingstaður Seyluhrepps, sem var kenndur við bæinn. Bærinn hét upphaflega Seyla, en eftir að hjáleigan Litla-Seyla byggðist úr landi jarðarinnar, var hann kallaður Stóra-Seyla. Nafni Litlu-Seylu var breytt í Brautarholt árið 1915 og eftir það er gamli bærinn yfirleitt aðeins nefndur Seyla þótt formlega heitið sé Stóra-Seyla. Nafnið Seyla er talið merkja kelda.

Fornleifarannsóknin á Stóru Seylu er hluti af hinni merku Skagfirsku Kirkjurannsókn sem hefur verið undir stjórn Guðnýjar Zoëga og Guðmundar St. Sigurðssonar (sjá hér). Skitnar tvær milljónir króna fengust til rannsókna á fornum kirkjugarði á Stóru-Seylu á Langholti í sumar. Samkvæmt umsögn með styrkveitingu var „ætlunin er að grafa garðinn að fullu en þannig fást einstakar heimildir um lífsviðurværi þeirra sem bjuggu í Seylu á 11. öld, gerð kirkju og kirkjugarðs og greftrunarsiði." Nú virðist hins vegar sem fornleifafræðingum ætli ekki að verða að ósk sinni. Upp er komið "lagalegt" vandamál.

Kirkja var á Seylu á miðöldumm eins og kemur fram í Sturlungu, þar sem segir frá því að árið 1255, eftir að Oddur Þórarinsson var veginn í Geldingaholti, að lík hans var fært að Seylu, þar sem annars var ekki grafreitur. Var Oddur grafinn inn undir kirkjugarðsvegg. Þetta var gert vegna þess að Oddur dó í  banni og mátti í raun ekki liggja í vígðri mold.

Kirkjugarður sá sem Oddur var grafinn í, er líklega sá garður sem fannst við jarðsjármælingar á Stóruseylu árið 2008, og er hann ofar í landinu, eða réttara sagt suðvestan við eldri kirkjugarðinn (sjá yfirlitskort hér að neðan). Hins vegar er kirkjugarðurinn sem rannsakaður er í sumar við gamalt bæjarstæði á Seylu, sem talið er hafa verið í notkun fyrir 1104. Það meta menn út frá því að gjóskan úr Heklugosi árið 1104 liggur óhreyfð yfir þeim rústum, sem og eldri kirkjugarðinum.

 

Engar beinagrindur finnast að Seylu 

Það bregður hins vegar svo við, að í sumar finnast engin mannabein í eldri kirkjugarðinum á Seylu.  Svo virðist sem beinaflutningur hafi farið fram á Seylu. Í umsókn til Fornleifasjóðs hafði hins vegar verið upplýst að við nánari könnun hafi komið  „í ljós að garðurinn hefur verið nánast fullur þegar að hætt var að grafa í hann", einhvern tímann skömmu fyrir aldamótin 1100.

Það vakti því furðu mína er mér bárust af því fréttir í gæra,  á því forna fyrirbæri á facebook, frá einum af fornleifafræðingunum sem vinna við rannsóknir, að menn teldu að ábúendur á Seylu hafi farið að lögum á 11. öld og að fram hefði farið beinaflutningur á Seylu - líkt og gerðist á Stöng í Þjórsárdal eins og lýst er m.a. hérhér, hér og hér.

Fyrstu ákvæði um beinaflutning er að finna í Kristinna laga þætti Grágásar. Ef trúa má Ara Þorgilssyni hinum fróða var farið að setja saman Grágás árið 1117. Ef menn hafa fylgt lögum um beinaflutning fyrir þann tíma, hefur lagahefðin sem safnað var í Grágás þegar verið til á 11. öld, rituð eða í munnlegri geymd. En hvað segir Grágás?

Kirkja hver skal standa í sama stað sem vígð er, ef það má fyrir skriðum eða vatnagangi eða eldsgangi eða ofviðri, eða héruð eyði af úr afdölum eða útströndum. Það er rétt að færa kirkju ef þeir atburðir verða. Þar er rétt að færa kirkju ef biskup lofar. Ef kirkja er upp tekin mánuði fyrir vetur eða lestist hún svo að hún er ónýt, og skulu lík og bein færð á braut þaðan fyrir veturnætur hinar næstu. Til þeirrar kirkju skal færa lík og bein færa sem biskup lofar gröft að.

Þar er maður vill bein færa, og skal landeigandi kveðja til búa níu og húskarla þeirra, svo sem til skipsdráttar, að færa bein. Þeir skulu hafa með sér pála og rekur. Hann skal sjálfur fá húðir til að bera bein í, og eyki til að færa. Þá búa skal kveðja er næstir eru þeim stað er bein skal upp grafa, og hafa kvatt sjö nóttum fyrr enn til þarf að koma, eða meira mæli. Þeir skulu koma til í miðjan morgun. Búandi á að fara og húskarlar hans þeir er heilindi hafa til, allir nema smalamaður. Þeir skulu hefja gröft upp í kirkjugarði utanverðum, og leita svo beina sem þeir mundu fjár ef von væri í garðinum. Prestur er skyldur að fara til að vígja vatn og syngja yfir beinum, sá er bændur er til. Til þeirrar kirkju skal bein færa sem biskup lofar gröft að. Það er rétt hvort vill að gera eina gröf að beinum eða fleiri...(Byggt á Grágásarútgáfu Vilhjálms Finsens 1852).

Seyla í Skagafirði

Rústir að Seylu á Langholti í Skagafirði. . Nyrst við bæjarstæðið sem talið er eldra en 1104 er nú verið að grafa upp tómar grafir við elstu kirkjurústina að Seylu. Kirkjurústin ofan við mælistikuna liggur á svokölluðum Kirkjuhóli og hefur hún uppgötvast með jarðsjá bandarískra fornleifafræðinga. Sjá myndina neðar. Eftir Árbók hin íslenzka Fornleifafélags.

Ekki er Fornleifi alveg ljóst, af hverju menn fluttu bein úr eldri kirkjugarðinum á Seylu. Voru þau flutt í fjöldagröf í yngri garðinum, þegar kirkjan var flutt um set og voru ákvæði til um slíkt, áður en Grágás var rituð? Urðu hamfarir eða ofsaveður til þess arna, eða er elsti grafreiturinn heiðinn grafreitur og hafa beinin verið flutt í kirkjugarð? Margar spurningar vakna, og líklega verður ekki hægt að rannsaka og fá „einstakar heimildir um lífsviðurværi þeirra sem bjuggu í Seylu á 11. öld" eins og ætlunin var.

Seyla

Rannsóknin er unnin í samstarfi við hóp bandarískra sérfræðinga sem hafa unnið að jarðsjár- og fornleifarannsóknum í Skagafirði undanfarin 10 ár. Jarðsjármyndin er af 11. aldar kirkjugarði að Stóru-Seylu á Langholti. Eftir nokkurra ára þróun hugbúnaðar og aðferðafræði hefur tekist að ná fram einstaklega skýrum og athyglisverðum myndum af jarðlægum minjum, sem flestar eru ósjáanlegar á yfirborði).  Myndin er, af því er talið er, af yngri kirkjugarði og rúst yngri kirkju á Seylu þar sem heitir Kirkjuhóll. Eftir siðbót var þarna bænhús og því var breytt í hesthús.  Mælt hefur Dr. Brian Damiata SASS (Skagafjörður Archaeological Settlemenets Survey).

Ég hef áður skrifað um Stóru-Seylu og hnaut þá um menningalega fávisku þeirra bandarísku fornleifafræðinga sem taka þátt í rannsókninni þar. Þeir eru mest uppteknir af tæknidellu, sem getur reyndar verið ágæt til ýmissa hluta. Töldu John Steinberg frá University of Massachusetts Boston og Anton Holt starfsmaður í Seðlabankanum í Reykjavík, sem oft er leitað til er finnast peningar í jörðu, að koparhlutur sem fannst á Seylu væri dönsk mynt frá 11. öld. Ekki var þetta þó danskur peningur, því Danir slógu ekki annað en silfurmynt á 11. öld. Danskur myntsérfræðingur á Þjóðminjasafni Dana, Jørgen-Steen Jensen hefur staðfest það við mig og hefur hann skrifað um kingur eins og þá sem fannst á Stóru Seylu í fræðirit. Það sem fannst á Seilu var þunn kinga úr koparblöndu með skreyti, þar sem líkt hefur verið eftir myndum á myntum í skreytinu.

John Steinberg lét hafa eftir sér þessi fleygu orð á Seylu árið 2008:We can see what we are going to find, before we find it" og vitnaði þar í getu tækjakosts síns. Ég ráðlagði honum hins vegar eftirfarandi, vegna vankunnáttu á myntir þess menningarheims sem hann stundaði rannsóknir í: „But you sure aint goin' to discover what you find, if you don't make an effort to know what it is."

Tæki bandarísku samverkamanna fornleifafræðinganna í Skagafirði sáu það þó ekki fyrir, að í eldri kirkjugarðinum á Seylu hefðu bein verið flutt á braut, og það þótt góðar jarðsjár geti nú hæglega átt að sjá slíkt. Líklega hafa Kanarnir bara verið með eitthvað cheap scrap á Seylu.

Myndin efst sýnir grafir á Stöng í Þjórsárdal, sem tæmdar voru á 12. öld, meðal annars sökum eldgoss í Heklu árið 1104. Kirkjan í miðjum kirkjugarðinum á Stöng var síðan notuð til annars en helgihalds og mannvistarlög mynduðust ofan á kirkjugarðinum. Í gröfunum á Stöng fundust einstöku kjúkur og hnéskeljar og heillegri bein þar sem þeir er fluttu beinin hafa ekki munað eftir leiðum, t.d. bein sem ýtt hafði verið til hliðar er tekin var nýrri gröf á 11. öld. Myndin hér fyrir neðan sýnir útlimabein, sem ýtt hafði verið til hliðar. Hafði neðri kjálka einhvers Stangarbúans, hugsanlega þess sem ýtt hafði verið til hliðar, verið komið fyrri við lærlegginn. Áður en að tæmdar grafir fundust á stöng, fannst stök mannstönn og kjálkabrot með einum jaxli í fyllingu yfir gröfunum (sjá hér). Flutningur beina átti sér stað á Stöng á 12. öld, en allt bendir nú til þess að lagaákvæði þau sem fest voru á bókfell í Grágás á 12. öld hafi einnig verið við lýði á 11. öld, enda virðing fyrir jarðneskum leifum forfeðrana mikilvæg í elstu kristni og er gamall kristinn-gyðinglegur siður (sjá frekar hér).

Stöng gleymd bein

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband