Sunnudagspredikun: Biskupsbrek

Sigurbjörn_Einarsson biskup og antísemít

Sigurbjörn heitinn Einarsson, biskup íslensku þjóðkirkjunnar var afar vænn maður, segja mér flestir menn, og ekki ætla ég mér að rengja á nokkurn hátt.

Hann kom því m.a. verk að Passíusálmarnir yrðu lesnir í Ríkisútvarpinu á hverju ári.

"Gegnjúðskað"

Allir eiga menn sér bernskubrek og einnig óbarðir biskupar. Sigurbjörn lauk skólavist sinni i Menntaskólanum í Reykjavík árið 1931 með því að skrifa pistil í Skólablaðið, en svo hét einmitt skólablaðið Menntaskólanum. Þetta ritaði biskupsefnið:

Einn spakur maður, íslenskur, hefur talað um, hversu hið hvíta mannkyn væri gegnjúðskað orðið. Er það orð og að sönnu. - Íslendingar eru engir eftirbátar annara hvítra þjóða i þessu efni. Júðum þakka þeir bókmentir sínar,- bókmentirnar, "fjöregg þjóðarinnar". Það er ekkert sjaldgæft að Íslendingar þakki það hebreskum áhrifum að sögur voru ritaðar, Eddurnar geymdar - og rímur kveðnar. - Slík er þá frægð "söguþjóðarinnar". ...

Einhver voldugasta þjóð heimsins er Gyðingar. Hinar arísku þjóðir hafa gert Þá að kennifeðrum sínum svo mjög, að löggjöf sú, sem þeir Semítarnir sömdu fyrir nærfelt 3000 árum, má heita undirstaða allrar löggjafar hinna voldugustu og best mentu Þjóða af hinum aríska kynstofni. Og Gyðingur er Það, sem oftast er nefndur og þeirra manna heilagastur sem fæðst hafa, að dómi flestra Aria. - Fje heimsins er og mjög i höndum Gyðinga. Mestu fjárplógsmenn hins hvíta heims eru af Gyðingaættum og hafa sumar þjóðir fengið að kenna á því nú i seinni tíð, t.d. Þjóðverjar. Það liggur við að Aríarnir kafni undir nafni, (Aríar = herrar). - Einnig hjer á Íslandi er Júðinn vaxinn Íslendingum yfir höfuð. Og Íslendingar virðast aldrei fá nógsamlega þakkað þeim mönnum, sem því ollu upphaflega. Og þó ætti ekki að vera erfitt að skilja hverjum íslenskum manni, að það var tilræði við hið íslenska og norræna þjóðerni, tilræði, sem að ben gerðist. Hefur nú grafið og grasserað i því sári i nærfelt 1000 ár og seint mun ganga lækningin. Jeg fyrir mitt leyti er i engum vafa um það, að eina ráðið sje að uppræta þann hinn illa meiðinn, taka upp þráðinn aftur að fullu, þar sem hann var niður feldur - við tilkomu Kristninnar. (Lesið grein Sigurbjörns menntskælings í Skólablaðinu).

Þá var boðskapurinn hjá Sigurbirni ekki kærleikur líkt og síðar varð. Seinna gerðist hann félagi í Þjóðvarnarfélaginu. Hann hélt ræðu í Hafnarfirði sem fór fyrir brjóstið á Sjálfstæðismönnum. Einn þeirra manna í Hafnarfirði, sem hallur hafði verið undir Hitler fyrir 1940, klagaði ræðu guðfræðingsins í Ólaf Thors. Upp úr því var hálfgerður kommastimpill á Sigurbirni, sem víst aldrei tókst að hreinsa af honum, eins lofandi og hann hafði verið í skrifum sínum í Menntaskólanum í Reykjavík. 

Líkt og margir Íslendingar fyrr og síðar, úr öllu litrófi stjórnmálanna, var Sigurbjörn heltekinn af hatri í garð gyðinga - ekki ósvipað þeim mönnum sem í dag kenna George Soros um allar ófarir sínar og hins appelsínugula átrúnaðargoðs síns úti í heimi. Það gerir t.d. fólkið sem telur múslímahatur sitt vera aðgangskort að stuðningi við Ísrael. Ísrael er enginn stuðningur eða akkur í múslímahatri. Hatur sumra múslíma á gyðingum er alveg nóg, svo að öfgakristnir fari nú ekki að leika sama leikinn.

Hugsanlega gerir Þjóðkirkjan sér grein fyrir því að hatrið í hinum unga manni sem síðar varð biskup, skýri áhuga hans á Passíusálmunum, sem hann vitnaði einnig í í grein sinni í Skólablaðinu árið 1931. Ég efa það þó. Hinir hámenntuðu sérfræðingar HÍ í Hallgrími Péturssyni, sem ekki þekkja muninn á Glückstadt (þar sem Hallgrímur dvaldi) og Glücksburg, hafa þegar gert kreddu sína að öfgatrú.

Ég varpaði þessum boðskap Sigurbjörns frá 1931 inn á FB Illuga Jökulssonar í umræðuna um aðför Hannes Hólmsteins á Sólveigu Önnu Jónsdóttur. Þar greinid ég einnig frá því hjálparstarfi sem Hannes tekur þátt í, þegar samtök sem hann er limur í leggur blessun sína yfir að t.d. Eystrasaltsþjóðirnar Eistland, Lettland og Lithaugaland, og þar fyrir utan Úkraína geri á okkar tímum gyðingamorðingja sína í seinni heimsstyrjöld að þjóðhetjum.

Það eru víða svartar sorgarrendur undir nöglum manna, en skíturinn er oftast sá sami og ekki til kominn við vinnu í víngarði Drottins.

AMEN

P.s. eftir að ég setti upplýsingar um þessi bernskuskrif biskups á FB Illuga Jökuls, skrifaði mér óður maður og sagði mig vera að rugla Sigurbirni við nafna hans Sigurbjörn Ágúst Einarsson. Svo er ekki. Sá Sigurbjörn, kallaður Bjössi bakari, lærði bakaraiðn. Ég hengi ekki bakara fyrir biskup. En þá, sem hengja þjóð kraftaverkameistarans úr Passíusálmunum í snörur haturs síns, gef ég harla lítið fyrir.


Bloggfærslur 6. janúar 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband