Algjörlega ófalsað málverk frá Íslandi undir hamarinn hjá Bruun Rasmussen í dag

Þúfnakot


Í dag verður boðið upp málverk hjá uppboðsfyrirtækinu Bruun Rasmussen. Sá hluti uppboðsins, þar er seld eru málverk, hefst klukkan 16 að staðartíma í Kaupmannahöfn. Þá er klukkan þrjú og rok og rassgat í Reykjavík. Málverkið sem hér sést er númer 119 á uppboðsskrá.

Nú vill svo til að Bruun Rasmussen er með algjörlega ósvikna vöru frá Íslandi. Engin brögð eru í tafli og Ólafur forvörður og sjálfcertifíseraður falsarabani þarf líklega ekki að setja gæðastimpil sinn á málverkið.

Um er að ræða olíumálverk á striga sem er 40  x  58 sm að stærð, sem sýnir kot í nágrenni Reykjavíkur árið 1847. Þá var málarinn Carl Ludvig Petersen á ferð á Íslandi með öðrum og meiri meistara, Vilhelm Melbye. Carl Ludvig Petersen teiknaði fjölda skyssa og teikninga frá dvöl sinni. Ein teikninganna er varðveitt í Þjóðminjasafni og hinar í Listasafni Íslands (sjá hér).

Þúfnakot 3

Teikning sú sem Þjóðminjasafn Íslands varðveitir fyrir íslensku þjóðina, er af sama mótífinu (sama bæ) og málverkið sem selt verður síðar í dag. Málverkið hefur Carl Ludvig Petersen að öllum líkindum málað við heimkomuna til Danmerkur, því hún er tímasett til 1848.

Þúfnakot 2

Nærmynd. Mér datt eitt andartak í hug, að málverkið sýndi kot á Seltjarnarnesi.

Ánægjulegt væri ef annað hvort Þjóðminjasafn Íslands eða Listasafnið hnepptu þetta málverk, sem danska uppboðsfyrirtækið metur á 40.000 hvítþvegnjar, danskar krónur. Það verð er þó nokkuð í hærri kantinum að mínu mati miðað við "gæði" myndarinnar. En áksjónaríus Bruun Rasmussen hafa fyrir löngu fundið fyrir því að málverkafæð Íslendinga á 19. öldunni hækkar verð og eykur áhugann á slíkir metravöru hjá nýríkum svindlurum frá Íslandi sem betrekkja stofur sínar með menningu sem þeir hafa ekkert vit á. Líklegast þarf fyrirtækið á því að halda, eftir að annað hvert 20. aldarmálverk sem þeir hafa undir höndum reynist falsað samkvæmt Ólafi konservator.

Ég skoðaði málverkið í dag ásamt góðum vini mínum, hinum 79 ára meistara Erik Bing Henriques. Við ákváðum ekki að bjóða í myndina, til að gefa fátækum söfnum á Íslandi tækifæri til að ná í hana. Og hver vill annars nú orðið eiga nokkurt málverk frá Íslandi. Menn eiga á hættu að allt þaðan sé stolið, logið, snuðað eða svikið.

O TEMPORA! O MORES!


Bloggfærslur 26. nóvember 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband