Fjölskyldur í felum

Ruben og Felix

Fæstir Íslendinga vita, hvað það er að vera í felum undan samtökum sem vilja myrða mann.

Fornleifur sér allt í sögulegu samhengi, einnig mál Kehdr fjölskyldunnar sem er komin af menningarþjóð sem byggði pýramída, um það leyti sem erfðaefnið í Íslendingum var enn á flakki hér og þar um Evrasíu og forfeðurnir að brjóta bein til mergjar í hellisskútum í Svartaskógi eða á enn myrkari stöðum.

Þegar Íslendingar vísuðu Rottberger fjölskyldunni úr landi árið 1937 var ástæðan sú að fjölskyldan voru gyðingar. Sumum Íslendingum, jafnvel vel stæðum, stóð stuggur af þessum fátæku gyðingahjónum og börnum þeirra. Þeir töldu hjónin vera  hættulega samkeppnisaðila. En gyðingahatrið var líka til á Íslandi og því miður faldi enginn Rottberger fjölskylduna. Lesið um sögu gyðingahatursins á Íslandi hér í bókinni Antisemitism in the North. (hér er beinn tengill í greinina/Sænska rannsóknarráðið gerði ykkur mögulegt að lesa)Kempner.lille

Vísað úr landi: Robert Kempner (1914-1975). Myndin er úr bók minni Medaljens Bagside (2005). Efst má sjá Felix Rottberger, fyrsta gyðingur sem fæddist á Íslandi, þar sem hann bregður á leik við son minn Ruben á heimili okkar.

Felix Rottberger, sem þið sjáið á efstu myndinni, í eitt þeirra skipta sem hann hefur heimsótt mig, var fyrsti gyðingurinn sem fæddist á Íslandi - í landi sem í dag fer á hausinn ef ekki koma nógu margir útlendingar til landsins. Ekki var hægt að umskera drenginn, því enginn kunni það á Íslandi. Læknar við Landspítalan voru meira uppteknir við að að koma lækni af gyðingaættum úr landi.

Íslendingar vísuðu einnig Robert Kempner úr landi. Hann naut heldur ekki náungakærleika Íslendinga, sem hann leitaði ásjár hjá. Enginn þeirra gyðinga sem vísað var úr landi á Íslandi var öfgamaður, sem hafði fengið þá flugu í hausinn að þeir hefðu heilagan rétt frá Guði almáttugum til að útrýma nágrannaþjóð sinni.

Öfgamennirnir voru nefnilega Íslendingar og margir þeirra kölluðu sig Framsóknarmenn.

Örlögin, tilviljanir og gott fólk leiddi svo sem betur fer til þess að þessir einstaklingar voru ekki sendir af Dönum til Þýskalands, þó svo að til væru Danir sem höfðu sama hugsunarhátt og og margir íslenskir stjórnmálamenn sem hræddust efnahagsleg örlög þjóðarinnar. En á Íslandi hræddust menn einnig örlög íslenska "kynstofnsins", og meint hreinleika hans, vegna örfárra fjölskyldna sem flýðu ógnarveldi nasismans.

62214(1)

Hér er mynd af ungum hollenskum gyðingi á leið í felur. Hann var svo óheppinn að vera stöðvaður af Þjóðverjum á Damrak í Amsterdam, en svo heppinn að vera ljós yfirlitum, með fölsuð skilríki og vera falinn af þremur fjölskyldum á Fríslandi fram í stríðslok. Bara eitt dæmi um að náungakærleikurinn er mikilvægasta veganesti mannsins.

Enn er til fólk á Íslandi sem vafalaust, sumt hvert, saknar "hreinleika nasismans" og enn annað segist vera svo kristið að það vilji ekki heiðingja í kringum sig.

Lítið fer þó fyrir náungakærleikanum hjá hinum sannkristnu sem vilja losna við egypsku fjölskylduna Khedr sem fyrst. 

Nú reynir á gamla góða náungakærleikann

Hjón með þrjú börn eru í felum undan íslenskum yfirvöldum, sem vilja senda þau til Egyptalands.

Þó svo að fjölskyldufaðirinn tilheyri ógnarsamtökum, sem hvatt hafa til morða á sama fólkinu og Íslendingar vildu losa sig við á 40. áratug 20. aldar, er um að gera að sýna sama góðviljann og t.d. marghrjáðir Palestínumenn verða aðnjótandi á Íslandi, einir þjóða. En þó að nú séu til alþjóðasáttmálar sem eru hagstæðir þeim sem vilja:

A) halda Íslandi hreinu

B) koma í veg fyrir efnahagshrun vegna flóttafólks

C) fylgja lögum þó líf geti verið í hættu

þá er eru til lög sem eru ofar þessum þremur tálmum í vegi einhvers hluta íslensku þjóðarinnar. Það er hinn mannlegi þáttur; kærleikurinn við þá sem minna mega sín og eiga um sárt að binda. Maður sparkar ekki í þá sem liggja.

Sumt af því fólki sem vinnur fyrir Kehdr hjónin frá Egyptalandi, án vafa af manngæsku einni saman, hefur falið fjölskylduna undan lögum og hinu gamla óþoli við útlendinga á Íslandi. Sumt af þessu velviljaða fólki tel ég að geti einnig bætt sjálf sig. Það fer fremst í flokki kona sem fyrir áratug síðan líkti Ísraelsmönnum (gyðingum) við SS-sveitir Þjóðverja. Hún er nú að hjálpa manni sem er á flótta vegna þess að hann vill drepa fólk á sama hátt og SS útrýmdi fólki. Sama kona hélt því fram að það væri lýðræði á Tyrklandi.

Ég vona, vegna þess að ég var nýlega kallaður "blettur á sögu Skandinavíu" af einhverjum frumstæðum, dönskum nasista, sem gerði athugasemd við stutta grein mína frá hjartanu um hinn mikla forhúðaróróa sem nú geisar í Danmörku (sjá hér), að Khedr fjölskyldunni verði veitt hæli á Íslandi. Annað væri slys og álitshnekkir fyrir Íslendinga.

Til eru Íslendingar sem eru miklu verr ferjandi en þessi egypska fjölskylda og við sitjum uppi með fangelsin full af þeim og jafnvel nokkra á hinum háa Alþingi. Ísland fer ekki á hausinn út af 5 manna fjölskyldu.

Það er miklu líklegra að alíslenskur bankastjóri grandi þjóðinni en egypsk fjölskylda.

Við getum í ofanálag vonað að fjölskyldufaðirinn verði við það að fá landvist að betri manni sem ekki hyggur á útrýmingar á nágrannaþjóð Egyptalands.

Ég hvet lögreglumenn á Íslandi að neita að aðstoða við brottvísun fimm manna fjölskyldu frá Íslandi sem ekkert hefur gert af sér sem varðar við íslensk lög. Ég bið presta, imama og rabbínan góða, sem landið getur nú státað af, að taka höndum saman og krefjast griða fyrir Kehdr fjölskylduna.

Ég bið heiðvirtan forsætisráðherra landsins að stöðva brottvísunina -  ja, annars kýs ég helv... Samfylkinguna í næstu kosningum og við vitum hvað slíkt óðagot getur haft í för með sér.


Bloggfærslur 23. september 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband