Kosningasvindl og kosningasvik

Umslag Ólafs Ragnarssonar

Lýðræðið er afar vandmeðfarin stærð. Sumir fatta aldrei hvað lýðæði er - jafnvel heilu ríkin. Lengi hefur verið vitað að kosningarloforð eru flest brotin. Stjórnmálamenn segja eitt en gera oftast annað. Lýðræði breytir ekki endilega eðli mannsins, en samt sættum við okkur við lygara í löggjafarþingi landsins. Ætt hellisbúans, sem fyrstur laug, hefur haldið völdum æ síðan að fyrstu ósannindin flugu yfir hlóðareldinn.

Þótt kosningasvik séu örugglega ólíkleg á Íslandi, er samt til fólk sem býst við því versta í öðrum; t.d. stjórnmálamenn sem telja 7 kosningaseðla mun á flokkum geta verið svik eða handvömm þeirra sem vinna við talningu.

Endurtalning í Suðurkjördæmi leiddi sem betur fer annað í ljós. En þjófar halda hvern mann stela er gömul en góð greining.

Meðferð á kjörgögnum er lýst í lögum, en samt virðist ærið erfitt fyrir kjörstjórnir að fylgja þessum lögum. Það þarf ekki að vera tilraun til kosningasvika, heldur gamall og gildur slóðaskapur og afdalaháttur.

Fyrir nokkrum árum var allt í einu hægt að kaupa 30-40 ára gömul umslög utan af utankjörstaðaatkvæðaseðlum Íslendinga erlendis á Frímerkjasölum erlendis (Sjá hér). Slíkum gögnum átti fyrir löngu að hafa verið eytt.

Í grein minni um málið og umslögin sem ég keypti sum, velti ég fyrir mér hugsanlegum atburðarrásum. Sama hvað gerðist, þá brugðust kosningastjórnir og þau embætti sem sáu um kosningar fyrr á tímum. Einhver frímerkjasafnararotta komst í umslög sem tilheyrðu kjósendum. Rottan kom þeim í verð. Eða var atburðarrásin öðruvísi?

Umslag Matthildar Steinsdóttur 1991

Á eitt af umslögunum (sjá efst), sem ég keypti, sem hafði verið sent af íslenskum farmanni, sem var staddur í Aþenu, því hann sigldi á erlendu skipi. Einhver hjá Kjörstjórninni hefur skrifað bókstafinn D með blýanti á bakhlið ysta umslagsins sem sent var frá Aþenu. Líklegt er að starfsmaður kjörstjórnar sem opnaði umslagið á Íslandi hafi forflokkað atkvæðin eftir að hann hafði opnað innra umslagið með kosningaseðlinum.

En hvernig stóð á því að starfsmaður kjörstjórnar fór með umslög heim og setti þau í sölu?  Það er er illa skiljanlegt, nema ef stórir brestir hafi verið í starfsemi kjörstjórnanna og sýslumannsembættanna. Lýðræðið er vandmeðfarið í landi, þar sem lög eru stundum lítils virði.

Yfirvaldið á Íslandi á okkar tímum hefur ekki talið ástæðu til að rannsaka eða tjá sig um fund minn á kjörumslögum sem til sölu voru (og eru) á erlendum frímerkjasölum, enda kosningarnar sem um ræðir um garð gengnar fyrir löngu. En þau umslög sýna, að brotalamir hafa verið á túlkun kosningalaga á Íslandi.

Fussusvei.


Bloggfærslur 28. september 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband