Var Danmörk hnattvædd á bronsöld ?

kul_perler_884837y.jpg
 

Danmark var globaliseret i oldtiden - Danmörk var hnattvædd á fornöld. Svo hljóðar fyrirsögn greinar í danska dagblaðinu Politiken i dag sem fjallar um ca 3500 ára gamlar perlur ættaðar frá Egyptalandi, Sýrlandi og Írak. Danskir höfðingjar báru þessar framandi perlur er þeir voru heygðir á bronsöld.

Ungur og föngulegur fornleifafræðingur, Jeanette Varberg, sem vinnur við forngripasafnið á herragarðinum Moesgård í útjaðri Áróss í Danmörku, og þar sem ritstjóri Fornleifs hlaut menntun sína í forneskju, fann perlur í gamalli öskju í kjallara safnsins áður en safnið flutti í nýjar og glæsilegar byggingar. Þessar og aðrar perlur, fundnar í bronsaldarsamhengi í Danmörku, lét Varberg efnagreina með leysitækni á Þjóðminjasafni Dana og Orleans í Frakklandi. Niðurstaðan sýnir á mjög afgerandi hátt, að perlurnar eru úr gleri sem unnið var í löndum við botn Miðjarðarhafs. Sumar perlurnar sýndu til að mynda sömu efnagreiningu og turkísblátt gler í gullgrímu Tutankhamuns.

ancient_egyptian_pharaoh_92s_mask.gif

Af 293 perlum sem greindar voru, og sem fundist hafa í eikarkistum eða í duftkerjum í 51 haugum í núverandi Danmörku og Slésvík-Holstein, reyndust þó aðeins 23 vera það sem Varberg og Politiken kalla perlur frá Miðausturlöndum sem sýna eiga "hnattvæðingu á bronsöld".

Hnattvæðing er nú einu sinni allt annað fyrirbæri en frumstæð vöruskipaverslun, og þegar fornleifafræðingar nota slík orð eru þeir komnir með of sterk, ný gleraugu, sem líklegast eru búin til úr plasti en ekki eðalgleri. Perlurnar í Danmörku sýna fyrst og verslunarleiðir og hvernig framandi gripir gátu endrum og eins borist mjög langt. Fólk sem byggði Danmörku á bronsöld gat boðið upp á raf sem barst jafnvel til Egyptalands og fengu í staðinn perlur frá framandi löndum. Hvar slík vöruskipti hafa átt sér stað er ómögulegt að vita. Perlurnar gætu hafa borist mann frá manni og milliliðirnir gætu hafa verið töluvert margir.

Við vitum einnig að gler frá Egyptalandi var verslunarvara sem siglt var með til t.d. Litlu-Asíu (núverandi Tyrklands) á 14. öld fyrir Krists burð. Flak skips með dýrindis farm hefur fundist undan suðurströnd Tyrklands. Skipið sem fornleifafræðingar kalla Ulu Burun hefur líklega siglt frá Ugarit í Kanaanslandi, hafnarborg sem var þar sem nú kallast Sýrland eða síðar meir "IS-land". Meðal varningsins var hrágler sömu tegundar og glerið í sumum hinna 23 framandi perlna sem greindar hafa verið í Danmörku. Perlurnar gætu því alveg eins vel hafa verið búnar til í Litlu-Asíu.

4951989205_8543de50d2_z.jpg
Gler"gjall" frá Sýrlandi frá þeim tíma að þar var sumar og sól.
 

En suma fornleifafræðinga dreymir meira en aðra. T.d. Flemming Kaul, sem einnig er nefndur til sögunnar í greininni í Politiken í dag. Hann er sérfræðingur út í trúarbrögð í Danmörku á bronsöld. Hann hefur bent á mikil líkindi á milli sólskipa Fornegypta og sólskipa sem þekkjast í bronsaldarlist Danmerkur sem oft sjást á mjög stílfærðu skreyti á rakhnífum. Kaul tengir perlurnar og sólskipin saman, en gleymir í hita leiksins að í Danmörku voru einnig til sólvagnar. Sólvagnatilbeiðendur voru líkast til villutrúarmenn og öfgamenn.

Ég lít vitaskuld öfundaraugum til þessarar merku uppgötvunar í danskri fornleifafræði, sem ég hefði þó túlkað á örlítið annan hátt. Fjölmiðlagleði sumra fornleifafræðinga getur leitt af sér undur og stórmerki. Við þekkjum það frá Íslandi.

Ég veit að grein um þessa merku uppgötvun átti innan skamms að birtast í ritinu SKALK í Danmörku, sem ég skrifa stundum fyrir. Ritstjóri ritsins var búinn að tjá mér, að mikið "skúp" væri í vændum í næsta tölublaði tímaritsins og að SKALK yrði fyrstur með fréttirnar. Hann vildi ekki segja mér hvað greinin fjallaði um, enda Fornleifur lausmælskur mjög

En nú er dagblaðið Politiken búið að hirða "skúpið" og líklega fyrir fjölmiðlagleði fornleifafræðingsins snoppufríða, sem lét greina perlurnar bláu og sem sér hnattvæðingu alls staðar líkt og kollegar hennar sem trúa því að dönsk stílfærð sólskip geti ekki hafa þróast nema fyrir bein áhrif frá egypskum musterisprestum sem hafa heimsótt danska flatneskju skreyttir bláum perlum.

Hlutir geta vitaskuld borist um langa vegu án þess að menn neyðist í frumleika sínum til að kalla það hnattvæðingu. Að lokum er hér mynd af hinum efnilega danska fornleifafræðingi Varberg, som gør dansk arkæologi dejligere (men måske ikke meget bedre end den har været):

forsker_jeanette_varberg.jpg

Fornleifafræði eða fjölmiðlafrygð, eða bara þjóðfélagið í dag?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Karl Snæbjörnsson

Skemmtileg lesning Fornleifur sem og fundur þessa föngulega danska fornleifafræðings. Já, greinilegt að þú speglar öfundsýki þína í þessari umfjöllun gagnvart þessum sæta danska fornleifafræðingi :-) En nóg um það.

Þú segir þetta frá Egyptalandi, Sýrlandi etc, en minnist ekki á þessa merku Minoan menningu sem var einmitt við lýði á þessum svæðum og voru þeir sennilega sterkastir verslunar- og sjómenn á þessu svæði Miðjarðarhafsins einmitt á þessum tíma.

Væri gaman að sjá vangaveltur þínar varðandi þennan merka fund við þá menningu

Guðmundur Karl Snæbjörnsson, 19.10.2014 kl. 13:48

2 Smámynd: FORNLEIFUR

Satt Guðmundur. Svona perlur eru líka til á Krít og hafa borist með Egyptum. Íbúar Krítar á bronsöld höfðu verslunartengsl við  Egypta og síðar við Fönikíumenn og aðra. Sjá t.d. http://www.reshafim.org.il/ad/egypt/trade/

Egypskar perlur úr leir með bláum glerjungi, hafa t.d. fundist í gröf á Írlandi í Gíslahaug (Mount of Hostages) í Tara (árið 1955). Sams konar perlur og ungi maðurinn í höfðingjagröfinni á Írlandi bar, bar Tutankhamun.  

Ekki er hægt að útiloka siglingar Egypta út úr Miðjarðarhafi, sem gætu hafa fært fjarlægum löndum perlur og trúarbrögð. En við höfum ekkert í höndunum um slíkt nema getgátur.

FORNLEIFUR, 19.10.2014 kl. 17:06

3 identicon

En nú væri fróðlegt að Fornleifur tjáði sig um víkingaaldarfundinn í Bretlandi á dögunum og gæfi oss óinnvígðum vísbendingar.

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 19.10.2014 kl. 20:30

4 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Vonandi nóg að gera hjá fornleifafræðingum og verði fræðin kennd um aldir alda.Datt það í hug því einn lítill gutti barnabarn mitt ætlar að verða fornleifafræðingur.Hann er að verða 10 ára og hefur fengið frá mér á hverjum afmælisdegi,myndabækur um risaeðlur og síðan með fræðandi efni um hvar þær lifðu og á hverju osfv.,,auk allra plasteftirlíkinga af þeim. Ég sagði að nú fengi hann ekki meira af Finngálkn,Grameðlum og Hyrnum frá mér. Ég hefði gaman af að vita hvort þessi áhugi endist hjá honum,næ því aðeins verði ég virkilega forn. Mb.Kv.

Helga Kristjánsdóttir, 20.10.2014 kl. 00:01

5 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Danmörk er stórveldi. England og Þýskaland og öll Norður-Evrópuríkin byggja á Danmöru, oog þeim menningargrunni sem þaðan er kominnn.Sama er með Niðurlönd, Ástralíu og löndin þar í kring.

Sigurgeir Jónsson, 20.10.2014 kl. 00:30

6 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Danmörk er elsta ríki norrænna manna.

Sigurgeir Jónsson, 20.10.2014 kl. 00:35

7 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Danska ríkjasambandið er í dag stærsta ríki Evrópu. Ekki er vitað til þess að það breytist.

Sigurgeir Jónsson, 20.10.2014 kl. 00:43

8 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Sá menningar grunnur sem íslenskt þjóðskipulag byggir á er allur kominn frá Danmörku.´Það sjá flestir nema kannski íslendingar.

Sigurgeir Jónsson, 20.10.2014 kl. 00:50

9 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Á fyrri hluta tuutugstu aldar þá lánuðu danskir,beskir, norskir  bankar íslendingum, stanslaaust fé.Mest af því kom til baka. Þannig byggðist þetta upp.Sem betur fer er eitthvað af vondum orðstír að nást til baka.

Sigurgeir Jónsson, 20.10.2014 kl. 01:01

10 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eru í farabroddi hvað snertiir að íslendingar standa við lánasamninga.

Sigurgeir Jónsson, 20.10.2014 kl. 01:05

11 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

lánshæfi íslasnds fer eftir því hvað bankar gefa út.Allir bankar sem gefa íslenskum sjávarútvegi einkunn er AAAA+.

Sigurgeir Jónsson, 20.10.2014 kl. 01:12

12 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Englendingar eru danir.Frægt er þegar liðsmenn Nelsson spurðu afhverju er ekki skotið.Nelson á að hafa svarað, við skjótum ekki á England.

Sigurgeir Jónsson, 20.10.2014 kl. 06:01

13 identicon

Sæll Fornleifur.

Orðavalið sjálft 'hnattvæðing Danmerkur' er rökleysa
og félagsfræðilegt ef ekki sálfræðilegt úrlausnarefni
hvað liggur að baki því að menn taki þannig til orða.

Dæmi um svipaða villu er orðið 'möttulstrókur' í stað
þess að orðið möttull segir allt sem segja þarf.

Húsari. (IP-tala skráð) 20.10.2014 kl. 09:31

14 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Ég hafði gaman að pistlinum, Fornleifur, og auðvitað er langt seilst í getgátum hjá fjölmiðlaglaða fornleifafræðingnum fagurskapaða.

Hvort orðavalið "hnattvæðing Danmerkur" sé rökleysa ... altént eiga þau ekki við á bronsöld. En möttulstrókar eru jarðfræðilegt fyrirbæri og finnast í möttlinum - sem strókar möttulefnis, t.d. undir Bárðarbungu en sá strókur er nokkuð vel kortlagður.

Brynjólfur Þorvarðsson, 20.10.2014 kl. 11:34

15 identicon

Sæll Fornleifur.

Orðið 'möttulstrókur' kemur fyrst fram í
Árbók Ferðafélagsins 1974 á bls 20.

Það er nú illu heilli orðið að tískuorði.

Orðin 'möttull' og 'strókur' eru fullkomnar
andstæður miðað við það sem best er vitað í jarðfræði
og óþarft með öllu og reyndar verra en ekkert enda önnur
betri orð fyrir hendi.

Orðið 'hnattvæðing' er einng tískuorð og í raun merkingarlaust.

'Hnattvæðing Danmerkur,' gefur til kynna í strangasta skilningi
að Danmörk hafi verið nær því að snúast út af jarðarkringlunni
en samt einhver von enn að afstýra því.

Orðasambandið má einnig líta á sem einstaka og nær óþekkta tegund
útþenslustefnu (imperialism) þar sem markmiðið fælist í því að
Danmörk yrði að lokum eina ríki jarðarinnar og yfirtæki hana alla.

Er ekki gott að búa í Danaveldi, Fornleifur?!

Húsari. (IP-tala skráð) 20.10.2014 kl. 13:45

16 identicon

Hefur Sigurgeir Jónsson Briem að ættarnafni?

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 25.10.2014 kl. 21:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband