Fullveldisöldin stendur í hálsinum á RÚV og fræðimönnum

Veit ekkiFullveldisöldin heitir þáttaröð í tíu hlutum sem nú er sýnd í Ríkissjónvarpinu. Mér var heldur brugðið eftir þrjá fyrstu þættina. Fyrsta þættinum var hleypt af stokkunum með mynd af Kristjáni IX, sem þulan kallaði Kristján X. Vinur minn einn sagði mér frá þessu og þótti ekki mikið til koma. Ekki uppgötvaðist þessi vitleysa fyrir sýningu þáttanna.

Varla Fullveldi

Mynd frá 1908 sem notuð er í fyrst þætti "Fullveldisaldar" við frásögn af hræðslu Íslendinga við að skipakomur yrðu fáar sem engar vegna stríðsátaka árið 1917.

Fyrst hélt ég, líkt og vinur minn sem sagði mér frá ruglinu á Kristjánunum, að það væri líklega einsdæmi og ergileg byrjunarmistök. En þegar ég hlustaði og horfði á fyrstu þrjá þættina fannst mér slysin harla mörg.

Myndir pössuðu t.d. ekki allar við tímann sem talað var um. Í frásögn um hernað í Evrópu og ótta Íslendinga við að þeir fengu ekki nægilegar nauðsynjar til landsins árið 1917 vegna kafbátahernaðar, er birt mynd (3 mínútur og 7 sekúndur inni í fyrsta þættinum). Myndin er hins vegar ekki frá 1917, heldur er hún tekin af mannfjölda á fundi um sambandslög við Miðbæjarskólann 2. júní árið 1908. Myndin sýnir undrandi og jafnvel áhyggjufullan mann. En maðurinn á myndinni var vitaskuld ekkert að hugsa um stríð eða skipakomur árið 1908. Slík handvömm í meðferð heimilda er kannski heldur ekki neitt stórmál, en það versta er að alls kyns meinloka og kredda læðist inn í annan hvern kapítula, þegar menn reyna að líkja fullveldisferlinu við nútímann á frekar billegan hátt í stað þess að lýsa honum út frá þeim tíma sem samningurinn varð til á. Ef það hefði verið gert hefði kannski ekki þurft nema þrjá eða fjóra þætti til að gera "Fullveldisöldinni" skil.

Guðmundur Hálfdánarson sagnfræðingur tekur fram í þriðja þætti, að Íslendingar hafi lengi litið á sögu sína sem umsátur erlendra manna. Þetta er vitaskuld rétt ályktun, en ekki er alveg sama hvernig maður notar það mat. Hann hafði vart sleppt orðinu fyrr en þáttagerðarmenn gerðu þetta að samlíkingu við nokkuð margt, þó enginn skyldleiki væri. Síðar í þættinum var hoppað fram í nútímann og því haldið fram að slík hræðsla, nánar tiltekið útlendingahræðsla og þjóðerniskennd væri skoðun sem ríkti meðal þeirra sem andsnúnir eru ESB. Þessir þættir eru eins og gott skólabókadæmi um það sem á ensku er kallað "the blaming game", sem er óþolandi fyrirbæri að Vestan (en jafnvel einnig alíslenskt). Það tröllríður mörgum fræðigreinum í nútímanum en ekki bara brjálaða forsetanum í BNA.

Ég man nú ekki betur en að tilraunir til að láta alla Íslendinga borga fyrir afhroð einstaklinga, glæpamanna í bankaleik, hafi sér í lagi orðið til þess að Íslendingar urðu fráhverfir ESB. ESB-sinnar á Íslandi var að finna í mörgum flokkum, en áhuginn meðal flestra flokka nema Samfylkingarinnar minnkaði þegar Íslendingum varð ljóst með hvaða hætti ESB ætlaði sér að rúa okkur til blóðs. Ef Ísland hefði þegar verið komið í þessi samtök fyrir hrun, hefðu landið ekki farið eins vel út úr hruninu og það gerði í raun, t.d. með hjálp Alþjóðarbankans og sumra nágrannaþjóða okkar, sem sumum Íslendingum þótti algjörlega andsnúir okkar þjóð - Því er haldið fram í þættinum að svo hafi verið. Atburðarrásin var vitaskuld ekki svo svart-hvít. Á 10 árum tókst mönnum að mistúlka hrunið. Því er kannski ekki mjög einkennilegt að Fullveldið standi í mönnum. En þurftu þurftu starfsmenn RÚV að blanda hruninu árið 2008 við Fullveldið árið 1918?

Leitt er að sjá slík vinnubrögð, og þó sagnfræðingar séu innan handa fyrir þá sem búa þessa þáttaröð til, er greinilegt að þeim hefur ekki tekist að bjarga þáttarhöfundum frá hættuna af að nota kjánalegar samlíkingar (anológíur) milli alls og jafnvel einskis, því í flestum tilfellum eiga þær samlíkingar sem ég hef séð í þáttunum engan rétt á sér. Þær eru rugl vegna þess að menn eru með of þykk samtímagleraugu á nefinu.

Vitaskuld hafa margar hættur ógnað Íslendingum á síðustu 100 árum fullveldisins, en flestar hafa þær nú verið að völdum Íslendinga sjálfra. Hrunið var algjörlega íslenskt, mennirnir sem ollu því víkingar, konurnar þeirra sætar og vatnið tært. Þessum "fríða hópi" hafði tekist að fullvissað sig um að hann hefði hlutverk á meðal þjóðanna og væri í fremstu röð. Menn keppast enn við að setja hrunið í samhengi við erlenda atburði og  einstaka menn, jafnvel gyðinga sér í lagi, ef einhverjum skal kennt um.

Blessuð náttúran og ónáttúran

Þegar er búið að gera mikið úr ógn náttúrunnar í þáttaröðinni, en hún hefur nú sannast sagna í verið minnsta vandamál Íslendinga á sl. 100 ár. Lítilfjörleiki auðlindanna og lítill stöðugleiki þeirra vegna ýmissa þátta hafa verið helstu örlagavaldar Íslendinga,

Íslendingar hafa alla tíð verið á kanti uppgjafar. Því kemur ESB-löngun eftir sjálfskaparvítið í byrjun núverandi aldar ekkert á óvart. Peningavitið, hin nýja atvinnugrein sumra Íslendinga, reyndist  algjörlega óhæf auðlind og í ljós kom að þeir sem unnu við hana voru alls ekki þeir snillingar sem flestir virtust halda og þeir hlutu að lokum jafnmörg ár í steininum, og fullveldið sem þeir settu næstum í sjálfheldu, hefur varað.

Í þeim harðindum sem "hrunið" var, var gömlu fólki ekki skipað að ganga fyrir björg (en þó næstum) eins og fyrr á öldum, heldur lá lausnin í einhverri ímyndaðri útópíusýn sem sumir hafa á ESB, án þess að nokkuð sé hæft í draumnum. Enn sér maður þessa óskhyggju hjá fólki sem sjálft segist vera fráhverft kapítalisma og þjóðerniskennd. En hvar eru nasistaflokkarnir sem við sjáum alls staðar í ESB-Evrópu og þjóðernisflokkarnir - á Íslandi? Þeirra er ekki þörf. Smávísir að þeim hefur reyndar myndast í kjölfar hrunsins með áherslu á útlendingahræðslu, sem er þó í raun ekkert minni meðal þeirra sem vilja ólmir ganga í ESB um leið og þeir úthrópa annan hvern mann sem rasista ef þeir eru ekki sammála.

Fullveldi og innilokunarstefna

icelandic_stone_age_1248936.jpg
Þjóð sem sem fékk fullveldi eftir stuttan kröfukafla sem var hafnað árið 1908, lét utanríkismál sín að mestu liggja í höndum Dana þar til 1940. Það var fyrst og fremst málamiðlun.

Ásteytingarsteina eins og fánann og hlutleysi Íslendinga í stríði fengu Íslendingar 1918 með því að fallast að að Danir færu með utanríkismálin í umboði Íslendinga. En sömu menn, í ýmsum flokkum , sem lentu samningnum, settu samt fram tillögur um að Danir skyldu ekki hafa sömu réttindi í landinu og Íslendingar, t.d. til veiða, nema ef þeir hefðu fasta búsetu í landinu. Sömuleiðis settu sömu stjórnmálamennirnir sem fengu fullveldi innflutningsbann til að styrkja krónuna árið 1924. Gengi krónunnar var líka hækkað. Þetta var árið 1924. Umheimurinn starði á hið fullvalda land sem furðufyrirbæri og töldu að Íslendingar óskuðu sér að fara aftur á steinaldarstig með einangrunartilburðum sínum. Betri kunnátta heimsins á andarpollinum á Íslandi, hefði leitt hins vegar leitt alheim í skilning um, að með tollalögum og verslunarhindrunum voru "sannir Íslendingar" að reyna að gera út af við útlendinga sem stunduðu verslun og viðskipti á Íslandi. Þeim var að mestu bolað úr landi með steinaldaraðferðum.

Síðan hafa slíkar hundakúnstir í íslenskri pólitík oft verið stundaðar með ýmsum tilbrigðum. En ávallt þegar mönnum þykir allt fara úrskeiðis er það allt saman öðrum að kenna, meira segja þeim sem töldu óðs manns æði að vaða inn í hið helsjúka ESB til að bæta fyrir afleiðingar hrunsins, sem að hluta til var ættað þaðan samkvæmt sama fólki sem svo fjálglega vildi ganga í sambandið. Já, það hefur margt furðulegt gerst á Íslandi sl. 100 ár. Mótsagnirnar voru margar. 

Í sannleika sagt, þá hafa Íslendingar aldrei haft sérlega mikinn eða djúpan áhuga á því sem gerðist árið 1918 og þess vegna er það kannski svo erfitt fyrir sagnfræðinga nútímans að gera sig skiljanlega í þáttaröð RÚV og sér í lagi þegar þáttagerðamennirnir eru uppteknir af ruglingslegum og tilgangslausum samlíkingum milli byrjunar 20. aldar og þeirrar 21.

1. desember hvarf fljótlega í skuggann á 17. júní eftir lýðveldisstofnun, enda kalt og leiðinlegt að fara í skrúðgöngur um miðjan vetur. Krakkar fengu frí í skólum, og maður gat í Mogganum lesið sama viðtalið við sömu konurnar með 5 ára millibili, þar sem þær voru spurðar um hvernig þeim þætti að vera fæddar 1. desember árið 1918. Það var nú öll minningin. Upp úr 1980 fóru reyndar að birtast betri greinar um sambandsslitin fyrir almenning.

Hvað áhugaleysið á sambandsslitasamningnum og fullveldinu varðar, var svo komið á 9. áratug síðustu aldar, að samningurinn góði frá 1918 hafði týnst í Dómsmálaráðuneytinu. Dauðaleit var sett að stað og fannst samningurinn í loks í frumritinu. Að því tilefni sagði Jón Helgason, dómsmálaráðherra við hátíðlega athöfn árið 1984: „Það þykir ekki hlýða að skjöl þessi sem svo mikla sögulega þýðingu hafa fyrir íslensku þjóðina séu geymd með öðrum almennum skjölum, og geti þannig horfið og gleymst í skjalamergð áratuga skjalavörslu.“  En aldrei birtist á því skýring af hverju samningurinn fór á vergang. Það heyrðist þó sú Gróusaga að embættismaður í ráðuneytinu hefði látið setja samninginn í gullramma og hafi farið með hann heim til sín. Ef rétt er, er það ekki Ísland í hnotskurn?

Af hverju var Scavenius ekki nefndur?

Kannski er það eftir að koma fram í þáttaröðinni að Erik Scavenius var utanríkisráðherra í Danmörku árið 1918. Scavenius, meðlimur stjórnmálaflokksins Radikale Venstre,  var í mun um að ljúka samningum við Íslendinga árið 1918 einfaldlega vegna þess að hann óttaðist að landið færi undir yfirráð Breta í fyrri heimsstyrjöld, en einnig er mögulegt að hann hafi haft hliðsjón af framtíð Slesvíkur/Suður-Jótlands í Danska konungsríkinu. Um það var þó fyrst kosið árið 1920, svo maður getur verið í vafa um hvort Scavenius hafi nokkuð verið að velta Wilsonianisma (sjá hér) og Suður-Jótlandi fyrir sér í sambandi við Ísland. 

Scavenius-Best-300x296

Já, sama lítilfjörlega kenndin sem fær menn til setja samlíkingar á milli hrunsins árið 2008 og sambandslaganna var einnig til staðar hjá Dönum. Scavenius varð síðar mest þekktur fyrir samvinnupólitík (sem sumir kalla svo fínt "forhandlingspolitik" , þó kollaboration sé óefað eina, rétta orðið)  sína við nasista í síðara stríði.

Viti menn: Til eru sagnfræðingar í Danmörku í dag, sem telja samvinnu við nasista það besta sem komið gat fyrir Dani í síðara stríði. Vegna þess að Danir græddu og Þjóðverjar voru blíðari við þá. Óneitanlega var Scavenius hrifnari af Þjóðverjum en Bretum, í báðum stríðum. Sömu dönsku sagnfræðingar nefna hins vegar ekki í bókum sínum að þessi samvinnupólitík Scaveniusar leiddi til þess að Danir vísuðu gyðingum og öðru flóttafólki úr landi á árunum 1940-43, þó þýska setuliðið færu í flestum tilvikum ekki fram á slíkt. Þar að auki veita þeir þessum manni og pólitík hans heiðurinn af því að það tókst að bjarga flestum dönskum gyðinga til Svíþjóðar. En það er reyndar ekkert annað en tálsýn sem búin hefur verið til á síðari árum.

7557545-saxo-photo

Var þessi maður, Erik Skavenius, sem hér sést ræða vinarlega við Hitler, örlagavaldur  sambandsslitinna, eða var almenn tortryggni hans í garð Breta stærsta áhyggjuefni hans árið 1918? 

Í tilefni 100 ára afmælis Fullveldisins verður haldin þriggja tíma ráðstefna á morgun í lagadeild Hafnarháskóla. Þar verða ýmsir merkismenn frá Íslandi með allt of stuttan tíma fyrir framsögn á ensku en einnig kemur einn þessara dönsku sagnfræðinga, Jes Fabricius Møller, sem heiðra mun Scavenius og flokkinn Radikale Venstre. Nú í tengslum vi Sambandsslitin. Fabricius Møller er einn þeirra dönsku sagnfræðinga sem gjarnan úthrópar aðra sagnfræðinga sem leyfa sér að minnast á gyðinga sem fórnað var á altari hinnar frábærlega góðu dansk-þýsku samvinnu á þeim árum að Danmörk var hersetin. Hann kallar þá "móralista" (vandlætara) án þess að undirbyggja það.

Hann byrjaði á því í júní 2005, þegar sagfræðingur sem skrifaði ritdóma fyrir Politiken hrökk upp af þann 19. apríl 2005 er hann las nýjar uppgötvanir sem sýndu að dönsk yfirvöld höfðu vísað saklausu fólki úr landi í hendur nasista. Fabricius Møller var fenginn til að taka við keflinu og eftir að allir fjölmiðlar höfðu keppst við að lofa verkið sem sýndi fram á þessa slagsíðu danskrar sögu, hljóp Fabricius Møller fram og skeit bókina út án nokkurra raka og hélt því fram að bókin væri skrifuð af manni sem væri að leita að sökudólgum og sekt. Það fjallaði bókin sem hann hataðist út í alls ekki um, heldur um líf einstakra fórnarlamba þessara algjörlega tilhæfulausu brottvísanna sem er lýst í smáatriðum. Fabricius Møller hafði greinilega alls ekki lesið bókina áður en hann dæmdi hana. Hann er einn af þessum Dönum sem kippir sér ekki upp við þó gyðingar hafi verið sendir frá Danmörku í dauðann. Það veldur engum rispum á vellakkaðri sögu dansk-þýskra samskipta í síðari heimsstyrjöld. En brottvísun gyðinga og annarra til Þýskalands nasismans var fórn sem algjörlega var á ábyrgð danskra stjórnvalda sjálfra. Þá sögu vilja Danir helst ekki heyra og gleyma henni sífellt.

Stundum væri óskandi að menn eins og Jes Fabricius Møller, en sérstaklega í þessu tilfelli íslenskir sagnfræðingar, sem rita bækur um Fullveldið, sambandsslit og fánamálið, noti meiri tíma í dönskum skjalasöfnum en að éta dogmur og kreddur upp eftir hvorum öðrum.

Mér sýnist að það sé frekar sjaldgæft að íslenskir sagnfræðingar sem vinni með 20. öldina geri sér ferð til Danmerkur. Gaman væri að menn kynntu sér hvað menn í Utanríkisráðuneytinu danska voru að hugsa í Danmörku þegar þeir skutluðust til Íslands í júlí 1918; Eða hvað Scavenius hugsaði, ef hann hugsaði yfirleitt nokkuð annað en að blíðka Þjóðverja sem hann, líkt og stór elíta í Danmörku, hafði tröllatrú á.  Nú er hægt að komast í mikinn hluta nefndarskjala Utanríkisnefndar danska þingsins sem stofnað var árið 1923. Sjaldan sér maður þó íslenska sagnfræðinga nýta sér upplýsingar um "móðurlandið" sem það lét stjórna utanríkismálum sínum fram til 1940. Menn virðast halda að allan sannleikann um áframhald Fullveldisaldarinnar fram til 1944, sé að finna í Reykjavík eða jafnvel í Bandaríkjunum. Þeir gleyma því að Danir voru aðal mótleikarinn.

Ríkisskjalasafnið danska er opið alla daga nema sunnudaga og mánudaga, en reyndar er lokað á laugardögum yfir sumartímann. Sjón er stundum sögu ríkari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Mér hnykkti við að heyra að Kristján tíundi hefði verið við völd á ári uppkastsins 1908.  

Og ef það hefði átt að nota eitthvað annað en að segja Kristján tíundi hefði verið skárra að segja bara Kristján tíkall sem stundum heyrðist hér heima á Fróni heldur en Kristján X. 

Ómar Ragnarsson, 9.10.2018 kl. 13:23

2 Smámynd: FORNLEIFUR

Nei Ómar, það var sagt að Kristján 10. hafi fært okkur stjórnarskrána árið 1874 og um leið birtist mynd af Kristjáni 9. Svo slæm var nú villan.

Hann var síðar nefndur með réttu, er Borgþór Kærnested sagði frá dagbókum hins rétta Chr. X frá 1918. Bækur sem ég fékk ekki að líta í, en Borgþór fékk aðgang eftir að hafa farið á ráðstefnu sem blaðamaður í Finnlandi. Ég býst ekki við að fá aðgang, þar sem Fabricius Møller, sem ég gagnrýndi hér að ofan (fyrir ómerkilega gagnrýni á bók mína) er mikill hofsnákur, þó ungur sé að árum, og var veitt embætti þess hallarsagnfræðings krúnunnar sem á sínum tíma neitaði mér um aðgang að dagbókum Kristjáns 10 án nokkurrar ástæðna. Þegar stjórn Ríkisskjalasafnsins varð ljóst lögbrot þeirra og mismunun gagnvart mér, gáfu þeir mér eins konar plástur á sárið, en hann er ég ekki búinn að nota enn, og varðar hann ekki beint íslenska sögu, heldur dellur sem kennari Fabricius Møller framreiddi í bókum sínum. 

Hvað Kristján 10. sagði árið 1918 er kannski ekki aðalatriðið í heimildamynd um Sambandsslitin, því hann skildi aldrei heildarmyndirnar, frekar en synir hans. Það voru ekki allir eins skarpir í þeirri fjölskyldu og hún Margrét varð síðar. Henni tókst að fá pungapróf í Fornleifafræði, sem orðið svo algengt á Íslandi að þeir sem slíkt próf hafa frá HÍ fá vinnu á kassanum hjá Bónus, og til þess starfs þarf víst ágæta málakunnáttu og góðar gáfur.

FORNLEIFUR, 9.10.2018 kl. 14:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband