Orðskrípið "útstöð" er afar þunnur þrettándi

Screenshot_2020-05-23 Morgunblaðið - Minjarnar taldar vera af vinnustað

Íslenskir fornleifafræðingar, sumir nær sprellfrískir af færibandi HÍ, eru farnir að ofnota hið leiðigjarna nýyrði útstöð.

Útstöð kom fyrst inn í tungumálið svo vitað sé sem þýðing á tölvumáli, eða á því sem kallast Thin client

Útstöðin í íslensku fornleifaorðagjálfri (jargoni) er sömuleiðis orðinn frekar þunnur þrettándi. Upphafsmaður þessa orðs í íslenskri fornleifafræði er að öllum líkindum vinur minn, dr. Bjarni F. Einarsson, sem kallar aðra hverja rúst sem hann grefur upp, algjörlega án haldbærra sannana, vera útstöð og það frá "landnáminu" fyrir hefðbundna landnámið okkar sem hófst svona cirka 870-80. Frægust útstöðva útstöðva Bjarna er útstöðin á Stöðvarfirði. Bjarni telur að fiskur hafi verið fluttur út til Noregs í miklum mæli frá Stöðvarfirði og það á tímum þegar nóg framboð var á fiski í Noregi.

Nú sjáum við aðra afar þunna notkun á útstöð; það er á fornleifum sem sumir kalla Bergsstaði í Þjórsárdal. Þar er að sögn einnig komin útstöð eða með orðum fornleifafræðingsins sem þar rannsakar fyrir einkafyrirtækið Fornleifastofnun Íslands:  

»Ekki hafa verið nein hús á forn­leif­a­svæði í Þjórsár­dal sem kennt er við Bergs­staði. Ragn­heiður Gló Gylfa­dótt­ir, forn­leifa­fræðing­ur hjá Forn­leif­a­stofn­un Íslands, seg­ir að við fyrstu sýn virðist þetta hafa verið vinnustaður, svo­kölluð út­stöð.«

Fyrirsögn Morgunblaðsins er svo glæsileg að hún verður að fylgja:

»Minjarnar taldar vera af vinnustað Fornleifarannsókn í Þjórsárdal Munir tengjast vinnu á landnámsöld«

Já þetta er verulega lært. Það er samt með ólíkindum að því sé haldið fram að eitthvað sé útstöð, þegar kolefnisaldursgreiningar hafa t.d. ekki einu sinni verið gerðar á efnivið frá staðnum. Á Bergsstöðum hefur reyndar fundist Þórshamar sem að öllum líkindum er frá því fyrir 1000 e. Kr. Fundur hans árið 2018 hafði för með sér yfirlýsingar sem sýndi að þeir sem rannsökuðu á Bergstöðum höfðu afar takmarkaða þekkingu á fornleifum í Þjórsárdal, sem og á þórshömrum á Íslandi yfirleitt, eins og reifað var á Fornleifi (sjá hér). Námið í HÍ var vegið og léttvægt fundið.

Thors Hammer Bergsstadir 2018

Þórshamarinn frá Bergsstöðum, sem hér var settur var í samhengi sem fornleifafræðingar í HÍ þekktu alls ekki.

Ljóst er af þessu, að ekki var verið að flytja út fisk til Noregs frá Bergsstöðum eins og frá Stöðvarfirði fyrir landnám, en kannski hefur verið hörkuofframleiðsla á þórshömrum úr steini á þessari "vinnustaðar-útstöð".

Mér sýnist að stúdentum í fornleifafræði í HÍ sé ekki kennt að taka nútímagleraugun af nefinu þegar þeir spá í fornleifar. Það er nauðsynlegt til að koma í veg fyrir alvarlega sjónskekkju. Lágmarksþekking er einnig nauðsynleg.

Mér sýnist að uppgraftarstöðin Fornleifastofnun Íslands (sem er einkafyrirtæki) hafi fundið afar þunnan þrettánda (thin client) á Bergsstöðum og að þeir séu að gefast upp í kulda og vosbúð, þar sem ekki kom í ljós stór og mikil langhúsrúst. Þetta finnst mér furðuleg fornleifafræði. Ekki gefast upp gott fólk! Þið hafið að minnsta kosti fundið vinnustað og útstöð og jafnvel blómlega Þórshamraiðju - og undir landnámi er alltaf annað landnám eins og einn kollega minna segir. Grafið dýpra og finnið fleiri Þórshamra.

Fréttin segir einnig frá holu með fuglabeinum. Jú, það stemmir. gæsaveiðar hafa alltaf verið blómlegar á þessum slóðum, löglegar sem ólöglegar. Kannski var reykt gæs flutt út til Noregs.

Fornleifafræði á Íslandi er orðin ævintýri líkust.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Er þetta "útstöðvarfjarðartal" hvort sem það er á Stöð eða Bergstöðum ekki tilkomið vegna þess að fólk þorir ekki að rugga "veruleikanum"?

Það fara margar sagnir af því að þeir sem þurfa að róa á miðum opinberra söguskýringa lenda í fjárþurrð og fá fúsk stimpil í kladdann ef þeir rekast á eitthvað sem raskar viðteknum söguskýringum, hvað þá mankynssögunni.

Latínusamfélagið lætur ekki að sér hæða.

Magnús Sigurðsson, 23.5.2020 kl. 07:50

2 Smámynd: FORNLEIFUR

 Nei Magnús Sigurðsson. Það er ekkert samsæri í gangi. Grundvallarkrafa í öllum fræðum og vísindum er að fólk þekki rannsóknarsöguna og hafi lágmarksþekkingu á því sem þeir taka sér fyrir hendur. "Stöðin" í Stöðvarfirði hefur ekkert gefið okkur sem staðfest getur landnám fyrir  hefðbundið landnám, sem marga dreymir um af mismunandi ástæðum, sem frekar eru sálfræðilegar en fornleifafræði. "Bergsstaðir" sem fékk nafn eftir núlifandi bændasyni úr Þjórsárdal, er ekki "útstöð", heldur aðeins lélegt nýyrði sem var upptekið af tölvugeiranum og síðar af Bjarna F. Einarssyni. Óskandi væri að fleiri íslenskir fornleifafræðingar hefðu lagt stund að latínu. Við eru aðeins tveir sem getum státað okkur af því, en það kemur að litlum notum í íslenskri fornleifafræði eins og hún er stunduð í dag. Þegar þú ert að tala um Latínusamfélagið, finnst mér þú gera það á niðrandi hátt. Áttu innistæðu fyrir því? Að rugga veruleikanum er "fiction" og það er allt annar handleggur en fornleifafræði. Fornleifafræði er staðreyndafræði. Við þurfum ekkert annað.

FORNLEIFUR, 23.5.2020 kl. 08:17

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Ég á enga innistæðu fyrir því Vilhjálmur, enda ekki sérfræðingur samfélagsins.

En ég hef grun um að leikmenn  gefi ekki lengur upp silfurjóði eða fund öðrum fornminjum til ykkar latínumannanna.

Magnús Sigurðsson, 23.5.2020 kl. 08:28

4 Smámynd: FORNLEIFUR

 Ágæti Magnús, eitthvað virðast "sérfræðingarnir" standa í þér þarna fyrir austan. Mér þykir óþarfa fyrirlitningartónn í heitinu "latínumenn", sem ég hef þó ekkert á móti að vera kallaður, þegar það er ekki gert í einhverri fýlu ágæts leikmanns sem mér þykir gaman að lesa (þó ég sé ekki sammála öllum hans hugleiðingum). Silfursjóðir, jafnvel þeir sem finnast óáfallnir fyrir austan, hafa mér minni latínumenn tekið á móti og það fegins hendi - En maður þarf ekki að vera latínumaður til að vita að silfur finnst hvergi óáfallið í jörðu. Þú færð gullverðlaun fyrir þessa fínu opinberun þína, en óáfallið silfur úr jörðu er og verður léleg latína, jafnvel þó maður láti hugann reika.

FORNLEIFUR, 23.5.2020 kl. 09:01

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Allt í góðu Vilhjálmur, bæði með latínuna og silfrið. Gott að þú gengst upp við latínu nafngiftina, en ef hún fer í þig þá er sjálfsagt að biðjast afsökunar á henni.

Magnús Sigurðsson, 23.5.2020 kl. 09:21

6 Smámynd: FORNLEIFUR

Nei, sannarlega engin þörf á því að biðja mig afsökunar. Ég er ekki vanur þeim sóma. Ég er eins og þú veist ekki í neinum í fílbeinsturni suður í Reykjavík. Þar er ríkisstyrkt lið á öllum hæðum, jafnvel hangandi út úr vindaugum og úr fjári mörgum vellur ruglið og öðrum alls ekkert að viti - og enn öðrum ekki neitt. "Latínusamfélagið" á ekki inni í þeim turnum. Í dag er í tísku í fornleifaturninum að slengja einhverju út og sjá hvort einhver kaupir hrátt. Svo verða menn bara vondir þegar einhver gerir rökstuddar athugasemdir við vinnubrögð t.d. kvenna, sem virðast mega láta hvað sem er út úr sér án nokkurrar rökhugsunar og fá fyrir það verðlaun og medalíur frá forsetanum.

FORNLEIFUR, 23.5.2020 kl. 12:18

7 Smámynd: FORNLEIFUR

 En höldu okkur við útstöðvar. Hvaðan hafa menn fengið þessa grillu, þegar þær koma ekki úr okkar einstæða ritaða arfi? Hinn ritaði arfur er enn settur mun hærra en niðurstöður fornleifafræðinga. Af hverju skyldi það vera?

FORNLEIFUR, 23.5.2020 kl. 12:40

8 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Allt sem er skjalfest eftir ákveðinni aðferðafræði telst rétt. það þarf ekki annað en minnast á lög og þeirra máltilbúnað til að sjá það. Lögin eiga að úrskurða um réttlætið en eru oft til þess að fara í kringum það.

Þess vegna held ég, sem leikmaður auðvitað, að fornleyfafræðingar lendi í miklum vanda þegar þeir finna eitthvað sem ekki hefur verið skjalfest s.s. eitthvað sem gæti orðið til þess að að þyrfti að skrifa söguna upp á nýtt.

Þá getur verið gott að eiga orðið útstöð.

Magnús Sigurðsson, 23.5.2020 kl. 15:28

9 Smámynd: FORNLEIFUR

 Kannski er það rétt hjá þér Magnús. Útstöð er eins konar flóttatæki. En á "Bergsstöðum" er reyndar ekkert nýtt, né með afbrigðum fornt að skrifa um, og á Stöðvar-Stöð Bjarna er heldur ekkert að frétta. Við höfum ekki enn séð neitt sem sannar tilgátu Bjarna um að Stöðin hans sé frá því fyrir hefðbundið Landnám, en árlega heldur hann út "sjóvi" þar sem það er gefið í skyn. Nú er hann greinilega búinn að ná sér í lokalpatríót og klapplið sem telja sig elsta og merkasta allra á Íslandi. Við því var svo sem að búast. Nú geta þeir rifist við Vestmanneyðinga sem einnig telja sig beina afkomendur munka sem ekki áttu við konur og er það vel að sér vikið ef satt er. Eyjamenn hafa alltaf verið mjög furðulegir.

FORNLEIFUR, 23.5.2020 kl. 16:37

10 Smámynd: FORNLEIFUR

Svo skulum við skulum sleppa effsilóninu í fornleyfafræðingum. Þeir rannsaka ekki gömul lauf. Eins og illa launaðir ruslakarlar skoðum við aðeins leifar.

FORNLEIFUR, 23.5.2020 kl. 16:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband