Gullskipið enn eina ferðina

het_wapen_van

Í gær var frumsýnd heimildakvikmynd um leitina að Het Wapen van Amsterdam, gullskipinu sem sumir kalla svo. Sú leit er víst enn í gangi vegna misskilnings ævintýramanna sem ekki hafa fyrir því að lesa heimildir. Þessir ævintýramenn geta greinilega fengið í lið við sig auðtrúa fólk sem ekki hefur heldur hænuvit á því hvað heimildir og heimildarýni gengur út á. 

Mér til mikillar furðu voru mér færðar þakkir í rúllutexta síðast í þættinum. Ja, fyrir hvað, er mér spurn?

Screenshot 2022-03-14 at 08-37-33 Leitin að Gullskipinu - RÚV Sjónvarp

Fundur minn með Jóni Ársæli Þórðarsyni í Kaupmannahöfn 2019

Ég hélt fund yfir nokkrum kaffibollum og bakkelsi á listasafni í Kaupmannahöfn með Jóni Ársæli Þórðarsyni, sem ólmur vildi fá mig með í þáttinn þennan, þó hann þekkti afstöðu mína til allra leita að skipinu fram á okkar dag. Um skoðanir mínar er hægt að fræðast hér á blogginu Fornleifi.

Ég benti Jóni Ársæli á það sem ég hef skrifað um skipið (hér, hér og hér) og sé ég að lítið af því hefur komist til skila í þættinum. Svo vart er mér þakkað fyrir það. Ég heyrði aldrei frekar í Jóni eftir fund þennan, enda hefur honum örugglega skilist á mér að ég hefði lítinn áhuga á því að ræða dagdrauma fjársjóðaleitarmanna og furðudýrafræðinga.

Jón blessaður veiktist svo eins og alþekkt er orðið, og það mjög illilega af Covid-veirunni. Ég heyrði ekki meira frá Jóni um þáttinn fyrr en ég sé hann nú í gær. Nafn mitt á ekkert erindi í rennitextann á eftir þættinum. Það er enn verið að skapa eitthvað ævintýri, og skáldskap. Mig grunaði að það væri tilgangurinn með þættinum og þess vegna er ég feginn að ég tók ekki þátt í því að veita leitinni gæðastimpil forleifafræðings.

Aðrir meistarar nálarinnar í sandinum

Hinn látni meistari Þórður Tómasson í Skógum kemur fram í þættinum og fer því miður með rangar upplýsingar um kistuspjöldin. Hann hefur greinilega lesið greinar mínar en aðeins munað hluta úr því sem ég skrifaði. En gaman var að sjá Þórð, þarna á 100 ára afmæli sínu.

Þór Magnússon var einnig fyllingarefni, en hafði að vanda frekar lítið að segja. Áhugaverðara hefði verið að fá að vita, af hverju hann fór að trúa að því að skipið væri fundið skömmu áður en þýski togarinn birtist holunni miklu á sandinum.

Ómar Ragnarsson var þá nokkuð merkilegri til viðræðu og sagði það sem hann hefur áður haft eftir heimamönnum: Að leitað hafi verið á röngum stað á söndunum, þ.e.a.s á Svínafellsfjöru, en ekki á Skaftárfellsfjöru sem heimamenn tengja strandinu. Ómar benti einnig réttilega á breytileika árfarvega á söndunum og hvernig staðfræði sandanna hefði ef til vill breyst gegnum tíðina við það.

Fyrst mér er þakkað í heimildamyndinni, leyfi ég mér að setja hér hlekki (hér, hér og hér) í greinar sem ég hef skrifað um skipið Het Wapen van Amsterdam hér á Fornleifi, svo fólk geti lesið um vitleysuna sem hefur verið í gangi um áratuga skeið.

Upphaflegu gullskipaleitamennirnir höfðu engan áhuga á að vita hvað hollenskumælandi menn sögðu þeim og sýndu þeir samt þeim mönnum sem samband var haft við hroka og útlendingafyrirlitningu. Hér á ég við föður minn, sem þeir höfðu samband við, en vildu ekki hlusta á skýringar hans og þýðingu.

Síðar var notast við mann sem síðar var fréttamaður hjá RÚV, sem Gullskipsmenn vildu heldur trúa en þeim sem gátu lesið hollenskan texta. Það var Þorvaldur Friðriksson, sem var með í þættinum. Sem dæmi um þýðingartilburði hans á 17. aldar hollensku var að hann þýddi orð sem notað var yfir rauða himnu múskatblómunnar, foelie, sem "kylfur" (sjá hér).

000004_1276016

Rauða himnan utan um múskatblómuna (hnetuna) er það sem Hollendingar kölluðu á 17. öld foelie. Hún var þurrkuð og þótti besti hluti Múskatávaxtarins. Þegar Íslendingar kaupa hana í dag malaða, er hún í umbúðum með enskum texta, og kallast Mace. Sérfræðingurinn Þorvaldur Friðriksson þýddi foelie sem "kylfur".   

Er ekki frekar kominn tími til að íslenska ríki gefi upp þá heildarupphæð sem íslenska ríkið setti í gullgrafaraverkefnið á Skeiðarársandi, vegna þess að stjórnmálamenn létu líka glepjast og létu sig dreyma um gull og geimsteina? Það var mikið fjármagn, sumir tala um 50 milljónir, aðrir segja að það hafi verið hærri upphæð. Það var fjármagn sem aldrei var greitt til baka í ríkissjóð. Ríkisstjórn notaði almannafé í fíflaskap og ævintýri leikbræðra úti á stærsta sandkassa landsins.

Það hefur því miður lengi verið ævintýrafólk í íslenskum stjórnmálum og því verður Alþingi aldrei betra fley en þeir sem sigla því. En Het Wapen van Amsterdam er löngu sokkið og í sjónvarpsþætti Jóns Ársæls var ekki  minnst einu orði á skýrslu sem rannsóknarstofnun Bandaríska flotans í Maryland ritaði á sínum tíma og sem lengi var að finna á skrifstofu starfsmanns eins á Þjóðminjasafni Íslands, Guðmundar Ólafssonar. Guðmundur er ekki þakkað í rennitextanum við þáttinn í gær, og því býst ég við að ekki hafi verið haft samband við hann. Er ekki kominn tími til þess að Þjóðminjasafnið taki skán af skýrslu þessari og setji hana á netið, svo gullleitarmenn framtíðarinnar, sem læsir eru, geti fræðst. Skýrlan er til í Þjóðarbókhlöðunni.

Ég sagði Jóni Ársæli frá þessari bandarísku skýrslu (sem ég á nokkur ljósrit úr) á Cafe Polychrom á den Frie i Kaupmannahöfn í september 2019, og Jón fékk einnig að vita, hvar hann gæti náð í hana. Skýrslan segir allt sem segja þarf um strauma og krafta í sandinum, sem taka ætti af allan vafa um að nokkuð sé eftir af skipinu góða sem sumir kalla "Gullskip" - vegna þess að þeir lifa í draumalandi, þar sem menn vilja ekki taka sönsum eða þroskast.

Krydd varðveitist ekki vel í sandi og leit að ímyndun er heldur ekki nógu sterkt krydd fyrir mig. Ómar Ragnarsson taldi sig aftur á móti finna furðulega lykt í sandinum þegar þýski togarinn var að birtast. Lyktin var að minnsta kosti ekki af karrýpylsum (Currywurst) frá Berlín, því þær komu fyrst til sögunnar þegar stríðshrjáðir Þjóðverjar fengu óhemjumagn af karríblöndu frá velunnurum sínum í BNA árið 1949.

Screenshot 2022-03-14 at 09-40-29 Leitin að Gullskipinu - RÚV Sjónvarp

Hér rekur Ómar Ragnarsson nefið í togaraleifar og telur sig finna kryddlykt. Svo fleygði hann barasta sönnunargagninu í sandinn eins og einhverjum sora. Kannski var þetta fnykur af kylfum Þorvalds Friðrikssonar.

Gísli Gíslason gullgrafari 21. aldar. tjáir sig í upphafi þáttarins, þannig að ljóst má vera að fræðilegur tilgangur með leitinni er ekki meiri eða merkilegri en hann var á 20. öld. hjá Björgunarkörlunum, sem ekki vildu, eða gátu, lesið sér til gagns.

"Við erum ekki að þessu til þess að auðgast; við erum að þessu til að taka þátt í ævintýri og auðvitað væri gott að finna eitthvað þarna til að koma einhverju í ríkiskassann - ekki veitir af og fá einhver verðlaun, það væri gaman."

Fullorðnir karlar þurfa stundum að leika sér eins og smápollar, og af og til kostar það nú skildinginn. Það er alltaf gaman að því þegar menn koma upp um sig í sömu setningu og þeir neita öllu. Svo er Gísli Gislason einnig kominn í bullandi samvinnu við Rússa sem verður að teljast mjög vafasamt á þessum síðustu og verstu tímum. Kannski dreymir karlana þá um að verða olígarkar, þegar gulli og gersemum verður dælt upp úr sandinum.

Gull var reyndar ekki grafið úr jörðu eða unnið í Indónesíu á 17. öld (þó svo að það sé gert í dag í hinni risavöxnu námu í Papúa-hluta eyjanna) og það gull sem lestað var í skipalestina, sem Het Wapen van Amsterdam sigldi með frá Indónesíu/Suður-Afríku, var sett í lestar annarra skipa í Suður-Afríku.

Myndin efst: er málverk af skipi VOC deildarinnar í Amsterdam. Þarna er mjög líklega komið skipið Het Wapen van Amsterdam, þar sem skjaldamerki Amsterdamborgar (Het Wapen van Amsterdam) er listilega útskorið og steint á skut skipsins. Þar stendur einnig Banda, sem var heimahöfn Het Wapen van Amsterdam í Indónesíu. Í upphafi sjónvarpsþáttarins um leitina að gullskipinu er akrílmynd af skipi sem ekki einu sinni er með skjaldamerki Amsterdamborgar á skutnum. Það hefði nú verið við hæfi, þar sem skipið dregur nafn sitt af því. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fornleifur, ég finn ekkert hjá þér um það hvar gullskipið er: Hvarf það í sandinn eða var það allt sagað niður og nýtt þannig af sveitungunum þarna í kring? Það er ekkert sniðugt að gera bara grín að öllum þeim sem eru sannfærðir um að skipið sé einhversstaðar að finna þarna grafið í sandinn, ef ekki er hægt að sýna fram á hvað varð um skipið.

Kv. Guðmundur

Guðmundur H Guðjónsson (IP-tala skráð) 14.3.2022 kl. 18:32

2 Smámynd: FORNLEIFUR

Ágæti Guðmundur,

Á þessari slóð held ég að þú finnir ágætar upplýsingar um íslenskar heimildir varðandi strandið: https://www.visindavefur.is/svar.php?id=881

sem þeim sem gerðu heimildamyndina hefur láðst að skoða.

FORNLEIFUR, 15.3.2022 kl. 03:16

3 identicon

Stórskemmtilegur pistill eins og vænta má.  Þetta er auðvitað hrein og klár ævintýramennska og ótrúlegt hversu lífseigar svona þjóðsögur geta verið.  Ég geri aðeins eina athugasemd: það er ekki rét hjá Fornleifi að skýrsla bandaríska sjóhersins (sem hefur væntalega haft um annað brýnna að hugsa) hafi ekki verið nefnd í myndinni.  Hennar var getið og sýnt skjáskot af henni og svo talað við Friðþór Eydal sem sagði eitthvað sem ég ekki skildi.  

Jón Viðar Jónsson (IP-tala skráð) 15.3.2022 kl. 21:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband