Færsluflokkur: Umhverfismál

Rugl, bull og vitleysa - einnig í dag

Siglt

Í dag fylgir Morgunblaðinu blaðauki, á íslensku og ensku, sem ber heitið Siglt inn í framtíðina. Fjallar hann að mestu um Grænland. Hann kemur hugsanlega að einhverju leyti út í tengslum við Fimmtu Arctic Circle ráðstefnuna í Hörpu, sem er hin furðulegasta blanda af ráðstefnu um ný-trúarbrögð eins og orkumál, heimshitnunaræðið, umhverfismál, öfgatúrisma og kristilegt starf á norðurslóðum - ekki meira né minna.

Blaðaukann, sem er einnig auglýsingablað fyrir kolevetnislosunarfyrirtæki eins og Eimskip og Icelandair, mætti skilgreina sem eins konar ferðakynningu fyrir Grænlandsfara.

En maður fær fljótt dálítið óbragð í munninn, því íslenskur imperíalismi skín að hluta til út úr greinum, viðtölum og efnisvali. Grátbrosleg er einnig viðtal við ungt grænlenskt fólk sem án nokkurs vafa tilheyrir grænlensku elítunni, sem er meira dönsk en grænlensk. Þau segja frá imperíalisma Dana á Grænlandi sem ku hafa ásakað Grænlendinga um kynþáttafordóma þegar þeir töluðu einvörðungu grænlensku og vildu ekki tala dönsku á mannamótum. Slíkt hársæri, sem maður heyrir á báða bóga, er varla hollt veganesti í þeirri sjálfstæðisbaráttu sem Grænlendingar standa frammi fyrir og sem við Íslendingar eigum vitanlega að styðja í verki, í stað þess að velta fyrir okkur hvernig við getum grætt sem allra mest á Grænlandi.

Diskó-draumadís Moggans

Svo eru hjákátlegar og menningasnauðar vitleysur í þessu uppskrúfaða auglýsingablaði. Á blaðsíðu 10 má lesa þessa dómadags fávisku:

"Þó segir sagan að eyjan hafi upprunalega heitið Discovery Island en einhvern tíma hafi bréfsnifsi legið yfir "very" við kortagerð og upp frá því hafi eyjan verið kennd við Diskó. Það er ekki verri skýring en hver önnur. Hvort kempur á borð við Donnu Summer, Díönu Ross og John Travolta hafi einhvern tíman sótt eyjuna heim fæst ekki staðfest".

Þetta er einfaldlega skammarlegt fyrir Morgunblaðið og blaðamanninn sem ritar þetta rugl. Disko er misritun og misskilningur. Upphaflega sér maður nafnið Dusko eða Dicko á flóa á Spitzbergen á hollensku kortum frá 1663 og skömmu síðar. Fróðir menn telja að nafnið sé afmyndun af nafni ensks hvalfangara sem fór til Spitzbergen í byrjun 17. aldar. Hann hét Marmaduke og á enskum kortum er staðurinn sem hollensku kortin kalla Dusko eða Dicko kölluð Duke´s Coe eða Dukes vík. Þess má geta, að á fyrstu kortagerðum af Spitzbergen er Spitzbergen kölluð Grænland vegna misskilnings kortagerðamannanna sem sátu í Amsterdam og Leiden en fengu upplýsingar frá mismunandi skipstjórum, en komu sjaldnast sjálfir á þær slóðir sem þeir gerðu kort af. Hollenskir skipstjórnarmenn gáfu hins vegar oftast nær góðar upplýsingar. Síðar þegar farið er að gefa út þó nokkuð nákvæm kort af Vestur-Grænlandi, áttuðu menn sig á því að þeir hafa vaðið í villu. Þeir brugðu þá á það ráð að flytja nöfn sem þeir höfðu gefið stöðum á Spitzbergen yfir á hið rétta Grænland. Hefð var fyrir því að gefa stöðum í nýuppgötvuðum lendum heiti sem áður voru þekkt. Þannig fékk Disko eyja sem á grænlensku heitir Qeqertarsuaq, nafnið Het Eyland[t] van Disco (eyjan Disco). Flóinn sem hún er í fékk síðar nafnið Baffin flói. Síðan hefur Disko nafnið haldist á Grænlandi og horfið á Spitzbergen.

Disco

Disko-eyja efst á hollensku korti frá byrjun 18. aldar.

Hefði það verið mikið mál fyrir blaðamann Mogganas að ganga úr skugga um þetta, í stað þess að fara að dansa eftir ruglinu í höfðinu á sjálfum sér og skrifa um Travolta, Tínu Turner og diskóljós ? Fyrr má nú fyrr vera. Þvílík menningarleysi og vanþekking á sögu næsts nágrannalands okkar. Það fer norðurslóðahrollur um mann í landi, þar sem upplýsingamiðlun á að vera svo framarlega á merinni. Yfirborðsmennskan er greinilega enn dýrkuð á Íslandi, enda blaðaukinn augsjáanlega fyrst og fremst til þess gerður að  reyna að selja efnafólki ferðir til Grænlands til að sjá og upplifa heimshitnunina á eigin líkama.

ÁllygiAuglýsingarnar í blaðauka Morgunblaðsins í dag eru flestar fyrir íslensk fyrirtæki, t.d. Alcoa á bls. 51. Sú auglýsing er gott dæmi um gamalgróna lygarómantík í íslenskri auglýsingagerð, sem maður hélt að væri orðin dálítið slitinn klisja. En þegar Fjarðarál er að auglýsa sig á umhverfismálaráðstefnu er vitanlega best að hafa ekki mynd af álveri í auglýsingu fyrir álver. Jafnvel kaffibrúsinn á myndinni er úr stáli (og er danskur). Best að gefa ekki ranga mynd þeim náttúruverndarstórmennum sem sækja Arctic Circle ráðstefnuna heim og básúna sig um ágæti landa sinna á norðurslóðum og um að að þeir eigi hlutverki að gegna á meðal þjóðanna. Klisjurnar lifa hátt en eru samt flestar stórmengaðar og hálf kjánalegar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband