Herramannsmatur

dunne-bierkade-bierkade-spui_detail_1251216.jpg

Hollendingar eru þekktir fyrir að mála matinn sinn, enda hluti þjóðarinnar miklir matmenn og þorði að láta berast á þegar velmegun ríkti. Annar hluti Hollendinga eru sparsamir púrítanar sem í gegnum aldirnar hafa hneykslast mjög á málverkum sem sýna bruðl og allsnægtaborð matgæðinga yfirstéttanna á 17. og 18. öld.

dunne-bierkade-bierkade-spui.jpg

Árið 1780 málaði Maria Margaretha la Fargue þetta skemmtilegu ólíumálverk af fisksala sem heimsækir hús efnaðrar fjölskyldu við Dunne Bierkade (Þunna bjórsgötu) í Haag (den Haag) í Hollandi. Á hjólbörum sínum er fisksalinn með girnilegan, fallega hvítan saltfisk, sem Hollendingar kölluðu oftast klipvis (v-ið borði fram sem f).

Ekki er laust við, að dæma út frá svipnum, að hefðadömunum þyki fiskurinn girnilegur, eða kannski voru það bara fisksalar sem þeim þóttu lokkandi? Þeir hafa að minnsta kosti verið hugleiknir listakonunni, því hún málaði annan, þar sem hann var að selja girnilegar, reyktar laxasíður. Þetta var víst löngu áður en fisksalar fóru að hafa sterkari efni í fiskborðinu.

laxi.jpg

Mjög líklegt má teljast, að saltfiskurinn, sem seldur var í hús við Þunna-Bjórsgötu í Haga árið 1780, hafi verið verkaður á Íslandi, þótt aðrir upprunastaðir verði þó ekki útilokaðir.

Hafa fróðir menn á Íslandi lengi talið víst, að Íslendingar hafi fyrst lært að verka og þurrka saltfisk á síðari hluta 18. aldar. Það er ekki rétt, þótt vinnslan hafi þá orðið meiri en áður. Saltfiskverkun var orðin að veruleika á fyrri hluta 18. aldar. Á fyrri hluta 17. aldarinnar votsöltuðu menn fisk i tunnur fyrir erlendan markað, en það var aldrei gert í miklum mæli. Svo var einnig fluttir úr landi svokallaður stapelvis, sem hefur verið fiskur sem var lagður í stakka og ef til vill verið líkur signum fiski. En á 17. öldinni var skreiðin enn sú afurð sem mest var flutt út af frá Íslandi.

Hvíta gullið - salt lífsins

Öll söltun var þó háð innflutningi á salti, og voru aðföng þess oft stöpul, en lengst af kom saltið til Íslands á "einokunaröld" með Hollendingum. Þess ber að geta að upp úr 1770 var soðið salt í Reykjanesi við Djúp. Framleiðslan hófst árið 1773 en var ekki mikil (sjá hér), en nú er endurreisnaröldin greinilega hafin (http://www.saltverk.com/). Jón biskup Vídalín stakk einnig upp á því danskan embættismann árið 1720, að hann sendi menn til að kenna saltsuðu svo framleiðsla á salti gæti farið fram á Reykjanesi (Gullbringusýslu), svipuð þeirri sem þá var stunduð í Noregi. Aldrei varð neitt úr því.

Saltið í fisksöltunina kom sunnan úr Frakklandi, Spáni og Portúgal og barst til Íslands á svokallaðri "einokunaröld", sem margir Íslendingar hafa misskilið og tengt eymd, vosbúð og vöruskorti. Þó svo að einokun (monopol) konungs á versluninni hafi verið komið á og Jón Aðils, og margar kynslóðir Íslendinga hafi séð það sem mikla þrautagöngu, þá gleyma menn að konungur seldi hæstbjóðanda, og mörgum tilfellum Hollendingum, verslunar og athafnaleyfi á Íslandi. Íslendingar seldu áfram fisk sinn, sem þeir söltuðu með salti sem fyrst og fremst var útvegað af Hollendingum. Fjórar tegundir af salti voru fluttar til landsins: Spánskt, franskt, þýskt Lynenborgarsalt (sem gat gefið fiski grænan lit vegna kopars í saltinu)og salt sem soðið var úr sjó í Noregi á 18. öld. Algengast var svokallað grásalt, sem mun hafa verið spánskt. 

Verslunin við Ísland á 17. og 18. öld varð hluti af Atlantshafsverslun Hollendinga og annarra stórþjóða í verslun. Skip sem sigldu til Madeira og Kanarí á vetrum sigldu til Íslands með salt að vori og sóttu m.a. saltfisk og annan varning. Saltfiskurinn var vitaskuld seldur í Hollandi, en mestmegnis var hann sendur áfram til Spánar og Portúgals og síðar Ítalíu, þar sem hann var kallaður var bacalao, bacalhau, og bacallà sem sumir telja ættað úr basknesku (bakailo, makailao, makailo, basknesk orðinu fyrir þorsk) en aðrir úr gamalli hollensku bakaljauw/bakkeljau. Sumir telja það afmyndum orðsins fyrir þorsk í miðaldafrönsku, cabillaud, sem fyrst kemur fyrir í varðveittum texta frá 1272. Fransmenn telja hins vegar orðið komið af niðurlenska orðinu kabeljauw.

Hvað sem öllum þessum þessum fiskisögum líður, þá hafa flestir Hollendingar ekki hundsvit á því lengur hvað salfiskur er, nema ef það er saltlakkrís sem er í laginu eins og fiskur. Listfræðingur sem síðast lýsti myndinni af fisksalanum við Þunna-Bjórsgötu í Haag telur fiskinn á hjólbörunum vera flatfisk

7837573_orig_1251230.jpg

Frekari lesning:

Hér getið þið lesið grein mína um elsta málverkið af skreið, sem Hollendingar kölluðu "stokvis" og hér grein um Jonas Trellund (sjá einnig hér og hér)og skip hans de Melckmeyt sem lýsir í hnotskurn verslunarsögu Hollendinga á 17. öld á Íslandi, öld sem frekar ætti að kalla hollensku öldina í íslenskum kennslubókum en einokunaröld. Lesið meira um það í 2. hluta um fálkasögu Íslands sem brátt verður birt á Fornleifi. Eins mæli ég alltaf með því að menn lesi bækur Gísla Gunnarssonar Upp er boðið Ísaland (1978) og Fiskurinn sem munkunum þótti bestur: Íslandsskreiðin á framandi slóðum 1600-1800 (2004)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Í þessari ágætu og skemmtilegu samantekt bregður fyrir misskilningi þar sem segir: Þess ber að geta að upp úr 1770 var soðið salt á Reykhólum í Reykjanesi við Djúp. – Hér er um tvo staði að ræða en ekki einn. Reykhólar eru við norðanverðan Breiðafjörð en Reykjanes er við innanvert Ísafjarðardjúp. Landsnefndin fyrri, sem kölluð er, starfaði um 1770 og gerði margar tillögur um framfarir og nýmæli á Íslandi. Þar á meðal voru tillögur um saltsuðu í Reykjanesi við Djúp (já, í Reykjanesi, ekki á Reykjanesi) og á Reykhólum, og nýtingu jarðhitans í því skyni, en hann er ríkulegur á báðum stöðum. Saltverkið í Reykjanesi varð fljótt að veruleika og starfaði í tvo áratugi eða þar um bil, en ekkert varð af framkvæmdum á Reykhólum. Ekki fyrr en núna, en Norðursalt á Reykhólum tók til starfa í fyrrahaust (2013). Nokkru áður eða snemma árs 2012 hafði verið komið á fót saltsuðu í Reykjanesi á nýjan leik.

Hlynur Þór Magnússon (IP-tala skráð) 13.12.2014 kl. 23:33

2 Smámynd: FORNLEIFUR

Þakka þér fyrir allan þennan fróðleik, Hlynur Þór Mágnússon. Ég taldi mig hafa fjarlægt Reykhóla í yfirlestri mínum. Mér þótti það of löng saga um annað en saltfiskinn, enda varð aldrei til salt á Reykhólum forðum.

Saltið frá Reykjanesi, sem búið er til í Reykjanesi, er komið í verslanir hér í Danmörku. Ekki veit ég hvernig salan er. En verðið bendir til þess að það verði aldrei notað til saltfisksöltunar, nema að það verði lakkríssaltfiskur eða birkisaltfiskur.

Salt frá Reykhólum hef ég enn ekki séð eða smakkað, en sá að hlutafélagið á bak við það hafði reynt að fá Margréti Danadrottningu til að uppfylla loforð eins forvera síns sem heitið hafði verulegri upphæð þeim sem hæfu að framleiða salt á Reykhólum. Hún er svo nísk hún Magga, en ef hún hefði spurt mig, hefði ég sagt henni að hún gæti sparað sér ómakið, því að árið 1944 breyttist skattaprósentan á Íslandi. Drottning styður varla nokkuð sem hún eða Danaveldi fær ekki tolla af. Kannski er saltið frá Reykjanesi svo dýrt í Danmörku vegna tolla? Þessi saltmarkaður er erfiður.

Reykjanes þekki ég vel. Bjó þar um vikutíma á hótelinu hjá syni séra Baldurs heitins Vilhelmssonar meðan ég var að grafa rúst í Hrútey með doktorskollega mínum Ragnari Edvardssyni og öðrum. Þetta var í október og orðið kalt, og því gott að hafa stærsta heita pott landsins tiltækan þegar maður kom heim úr eyjunni. Ég og Ragnar vorum næstum því komnir í lífsháska á smábáti sem hann hafði lánað og Guðbrandur sonur prestsins bjargaði tveimur veiðimönnum úr lífsháska meðan að við vorum þarna.

Nýlega kom Reykjanes aftur til tals, á rakarastofu í úthverfi Kaupmannahafnar, þar sem vinnur íslensk kona frá Ísafirði sem oft klippir son minn. Hún og fjölskylda hennar voru með afmælisveislu fyrir móður hárgreiðslukonunnar í Reykjanesi. Ég fæ að vita hvernig hún fór næst þegar sonur minn verður klipptur, og hvort maturinn hafi verið nógu saltur.

FORNLEIFUR, 14.12.2014 kl. 08:29

3 Smámynd: FORNLEIFUR

En af hverju skrifa þeir á vefsíður Norðursalts/Norður Co.?:

Norður Salt is made by a traditional Icelandic/Danish method dating back to 1753 that was practised in the same place we make Norður Salt today. http://www.nordurco.com/the-salt.html

Mér sýnist, að þeir haldi því fram að salt hafi verið framleitt á Reykhólum. Kem ég hér af fjöllum.

FORNLEIFUR, 14.12.2014 kl. 08:43

4 Smámynd: FORNLEIFUR

Þeir eiga líklega við tilraunir þær sem Skúli Magnússon fékk Eggert Ólafsson og Bjarna Pálsson til að gera til saltvinnslu úr sjó við hverahita á Reykhólum í Barðastrandarsýslu 1753. Veistu hvar þeim tilraunum er lýst?

Skemmtilegra væri að fá söguna sem viðskiptavinir Norðursalts lesa rétta og upplýsingar um hve mikið salt hafi þýtt fyrir verslun og framleiðslu á Íslandi.

FORNLEIFUR, 14.12.2014 kl. 09:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband