Arabíuperlur með auga Allah - íslensk fornleifafræði er orðin að hjáfræði

S2

Hjáfræði er íslenska þýðingin á hugtakinu pseudoscience. Allir sjá á grísk-latneska hugtakinu að slík fræði geta ekki verið góð latína. Íslenska þýðingin finnst mér of væg. Réttara væri að kalla fyrirbærið gervivísindi eða gervifræði. En hvenær er hægt að skilgreina vísindi með hugtaki eins og hjáfræði? Það er vitaskuld mjög vandasamt verk.

Ég leyfir mér að taka gott dæmi um rannsókn þar ég er fullviss um að fornleifafræðin er komin í hjáfræðaflokkinn. Það er einnig hægt að lesa um aðrar rannsóknir undir flokknum Íslensk furðufornleifafræði og grillumannfræði á dálkinum hér til hægri. 

Stutt er síðan að nýtt fræðilegt hugtak kom inn í íslenska fornleifafræði. Það er orðið Stöð. Stöð hefur að frumkvæði dr. Bjarna F. Einarssonar fengið merkinguna "búsetustaður manna fyrir "hefðbundið" viðtekið og í stórum dráttum sannað landnám manna á Íslandi á seinni hluta 9. aldar.  Samkvæmt dr. Bjarna höfðust norrænir menn tímabundið við í stöðvum á Íslandi fyrir hið viðtekna landnám.

Bjarni telur sig haf rannsakað tvær slíkar stöðvar á Ísland, þar sem á að hafa farið fram einhvers konar fjarvinnsla þar sem voldugir menn sóttu hráefni og fóru með afurðirnar til "heimalands" síns (Noregs).

Þrátt fyrir að talað sé um veiðar á rostungi og önnur verðmæti hafsins, hefur ekki fundist svo mikið sem arða af rosmhvalstönn í "stöðvum" þeim sem nýlega hafa verið rannsakaðar og sem kallaðar hafa verið stöðvar af þeim sem rannsakar. Vinnslan fór greinilega fram án þess að úrgangur væri skilinn eftir.

Íslenskir stöðvartrúarmenn, sem eru fáir, hafa bent á að búsetan hafi verið stutt í stöðvunum. Menn birgðu sig upp af veiði sinni og fluttu hana síðan út til "móðurlandsins".  Reyndar bendir sumt til þess að þessar "útilegur" stórmanna í stöðvum á Íslandi, hafi nú lengst töluvert eftir að Stöð í Stöðvarfirði hefur verið rannsökuð. Í Vogi í Höfnum, þar sem Bjarni F. Einarsson telur sig hafa rannsakað "stöð", var hins vegar brotinn kvarnarsteinn í gólfi. Það bendir nú frekar til lengri búsetu, þar sem menn möluðu korn svo ótt að kvarnarsteinn brotnaði.S2sMynd 2 - Til vinstri perla sú se m Bjarni F. Einarsson telur vera frá Arabíu og sýna auga Allah. Hún er ekki frá Arabíu heldur búin til í Evrópu. Johan Callmer hefur flokkað hana til gerðar sem hann kallar sem B p / B316 (sjá neðar). Perlan til hægri er einnig fundin á Stöð í sumar. Hún er mjög líklega innflutt perla frá löndum Íslam.

Engar C-14 greiningar styðja almennilega við þá yfirlýsingar að "Stöðvar" séu frá því fyrir landnám um 870 e.Kr. Til undirbyggingar því að Stöng í Þjórsárdal hafi ekki farið í eyði fyrr en í byrjun 13. aldar, en ekki í eldgosi í Heklu árið 1104 (sem er nokkuð erfitt að hveða niður) voru greind hátt á þriðja tug C-14 sýna fyrir tilstuðlan þess sem þetta ritar. Þær voru meðal annarra sönnunargagna sem ótvírætt bendir til þess að Stöng hafi farið í eyði eftir aldamótin 1200. Því miður gefur lítill fjöldi C-14 greininga frá Stöð í Stöðvarfirði ekki góðan stuðning við landnám og stöðvarrekstur í Stöðvarfirði fyrir 870 e.Kr.  Ef menn ætla sér að kollvarpa landnámstíma á Íslandi verður það frekar gert með C-14 greiningum heldur en Auga Allah.

Það gerir gripasafnið heldur ekki. Reyndar eru menn ekki almennilega komnir niður í gólf eldri skálans á Stöð í Stöðvarfirði, sem á að vera skáli stöðvarinnar, en þangað til gólfið verður rannsakað eru engir gripir frá Stöð sem eru eldri en frá miðbiki 9. aldar. 

Spurningum um eðli "stöðvanna" á Íslandi láta þeir sem bera ábyrgð á stöðvarrannsóknum undir hattinn að svara. Dæmi um slíkar spurningar. Hvers vegna sóttu menn frá Noregi fisk og rosmhvalsafurðir alla leið til Íslands, þegar nóg var að slíku við strandlengju Noregs? Hvar eru leifar fiskvinnslunnar?

Hið alsjáandi auga Allah?

Svo er farið út í hjákátlegar tilgátusmíðar og bábiljur. Tökum dæmi: Nýlega fannst perla á Stöð í Stöðvarfirði. Á RÚV var sagt frá þessum fundi á eftirfarandi hátt (sjá hér bæði í texta og á myndbandinu:

„Þetta er augnaperla eða augnperla. Önnur slík sem finnst í Stöð. Það má ráða í hana að hún er upprunnin frá Arabíu eða úr múslímskum heimi og á henni eru augu. Þetta er auga Allah sem blasir þarna við. Þetta berst með verslunarleiðum frá Arabíu norður á bóginn og finnst í stórum dráttum alls staðar í Norður-Evrópu,“ segir dr. Bjarni."

Þótt allt arabísk falli vel að sörvi RÚV, er perlan mórauða með auganu ekki ættuð frá Arabíu eða múslímskum heimi. Glerið, sem notað var við gerð perlunnar, gæti þó hugsanlega upphaflega hafa borist frá fjarlægari löndum til Skandinavíu á 8.öld. Perlan er búin til á söguöld. Hvergi er þekkt fyrirbærið Auga-Allah perla og þegar Bjarni var spurður um það af ritstjóra Fornleifs, kom þetta delfíska svar í véfréttastíl, þótt það sé alveg klárt hvað Bjarni F. Einarsson sagði alþjóð á RÚV:

Sæll. Lang flestar perlurnar eru úr yngri skálanum. Sumar var erfitt að færa til hins yngri eða eldri og örfáar voru úr þeim eldri.
 
Hvergi hefur því verið haldið fram að heitið Auga-Allah-Perla sé til eða að það sé hugtak. Að augað á Augnperlunni sé auga Allah er allt annað mál.
Kv
 
Bjarni

Bjarni telur greinilega, sér og persónulega, en í einhvers konar hjátrú, að augað á perlunni sé auga Allah. Mönnum er í sjálfsvald sett, hvað þeir kalla auga Allah eða hvort þeir trúa á hann. En þessi aðferð, að búa til heiti á perlu, þannig að þorri manna heldur að perlan sé arabísk og af gerð sem kölluð er Auga Allah er hálfgert glóðarauga fyrir fornleifafræðina sem fræðigrein. 
 
Bjarni hefur áður sagt perlusögur. Árið  201.. hélt hann því fram að grænleit perla úr steini væri ættuð alla leið frá Indlandi og að steinninn kallaðist Kreolite. Engin slík steintegund er til (sjá dóm Fornleifs yfir þeirri furðuperlu frá Stöð hér).
 
Hverju slíkar lygasögur eiga að þjóna, er mér hulin ráðgáta. Ef Bjarni telur sig hafa sannanir fyrir landnámi fyrir þetta venjulega og klassíska á síðari hluta 9. aldar, þá vantar haldbæran rökstuðning. Hvar er hann?
 
RibeSJM_348_200283653_x783-1 b 2
 
 
Mynd 3 - Tvær perlur frá Ribe á Vestur Jótlandi, af sömu gerð og perlan frá Stöð sem ranglega er sögð vera arabísk og sýna "Auga Allah". Danir hafa lengið kallað augun blóma/sólar-mynstur.
 

Gerðarfræði og aldur "arabísku" perlunnar á Stöð

Fyrst skal jörðuð skyndiyfirlýsing Bjarna F. Einarssonar um að perlan mórauða með auganu sé Arabaísk eða frá  Íslömskum svæðum. Það er hún ekki.

Ég tek venjulega ekki að mér verktakaverkefni fyrir aðra fornleifafræðinga sem ekki eiga grundvallarrit um perlur, þó þeir séu búnir að finna um 130 í sömu rannsókninni. Ég geri hér hins vegar undanþágu, þar sem höfðingjabýli Bjarna á "Stöð" er glæsileg perla og vel upp grafin af einum besta uppgrafara á Íslandi; en fyrst og fremst vegna þess að ég hlakka til að sjá eldri skálann sem er undir þeim sem er frá 10. öld, sem Bjarni rannsakar nú. Ég hef enn ekkert séð bitastætt sem fær mig til að trúa því að á Stöð sé byggð löngu fyrir hefðbundið landnám.

Þær perlur sem Bjarni hefur sýnt umheiminum eru allar dæmigerðar fyrir perlusöfn frá 10. öld.

Ég fór í kassa uppi undir þaki og sótti þar ritgerð Johan Callmers frá 1979, sem ber heitið Trade Beads and Bead Trade in Scandinavia ca. 800-1000 A.D. Johan Callmer var prófessor í Umeå 1991 og síðar á Humbolt í Berlín. Doktorsritgerð hans frá Lundi keypti ég einu sinni á Historiska Museet i Stokkhólmi snemma á 9. áratugnum er ég heimsótti systur mína í Uppsölum.

Ég get upplýst með tilvísun í Callmer, að "Auga Allah-perlan" á Stöð ber flokkunarheitið B p - perla samkvæmt gerðarfræði Callmers.

Perlur af B p gerð eru (líkt og perlur af B c gerð búnar til í Vestur Evrópu og hafa ekki komið frá Arabíu eða svæðum þar sem Íslam hafði breiðst út til. Nánar tiltekið er perlan af gerðinni:

B p; B316

P p; B316, eru rauðbrúnar perlur með augum (Sjá bls. 88, 98, Plate 8 og Colour Plate II í Callmer (1977)). Hins vegar kalla Danir (t.d. fornleifafræðingar í Rípum/Ribe) þetta skreyti ekki augu, heldur sólar/blóma-mynstur.

IMG_20200628_0002 b

Eftir Callmer (1977), Plate 8.

B316O

Eftir Callmer (1977), Colour Plate II. Perlan í miðjunni ert skyldust perlunni á Stöð.

Tímasetningar á perlum frá 800-1000 e. Kr. eru mjög erfiðar og menn nota venjulega ekki tímatal Callmers á perlum sem afgerandi tímasetningaraðferð, enda mælir hann hvergi með því þegar hann vann meistaraverk sitt þar sem hann flokkaði perlurnar. En hann upplýsir að perlur í B p-flokki af þeirri gerð sem "Auga-Allah Perlan" hans Bjarna er af hafi komið fram á sjónarsviðið á 9. öld, fjölgað svo mjög á tímabilinu 845-915 (frá tímaskeiðum III-VII sem hann hefur sjálfur skilgreint. Perlum sem þessum fer síðan hríðfækkandi í aldursgreinanlegu samhengi fram til 950.

Hinar perlurnar sem Bjarni hefur fundið í sumar eru allar af gerð perla sem er algengar á 10. öld samkvæmt Callmer og öðrum viðurkenndum perlufræðingum Norðurlanda. Það bendir m.a. í þá átt að yngri skálinn, sem þær hafa fundist í , sé reistur þó nokkru eftir landnám um 870, þ.e. þetta gamla góða hefðbundna landnám, sem því miður hefur orðið alls konar hjáfræði að bráð.

Til að gleðja Stöðvar-fornleifafræðinga sem sjá allt í hyllingum í arabískri eyðimörk, vill svo vel til að perlan lengst til hægri í neðri röðinni á mynd Fornleifafræðistofunnar (Sjá efst) er niðurhlutuð (segmenteruð) perla með silfurþynnu. Þær voru fluttar inn til Evrópu sem verslunarvara í tonnatali á löngu tímabili frá löndum Íslams, m.a. Egyptalandi. Þær má stundum finna í mannvistarleifum allt fram til um 1100 e.Kr. Það verður að vera plásturinn á sárið og perlan í grjúpáninu nú þegar auga Allah er komið alveg í  pung austur á Stöðvarfirði.

Lesið fyrri greinar Fornleifs um rannsóknir á Stöð í Stöðvarfirði hérhér og hér.

Heimildir:

Callmer, Johan (1977). Trade Beads and Bead Trade in Scandinavia ca. 800-1000 A.D. (Í Acta Archaeologica Lundensia, Series In 40. Nr. 11) Lund, Bonn.

Callmer, Johan (1995). The Influx of Oriental Beads into Europe during the 8th Century AD. í M. Rasmussen, U. Lund Hansen & U. Näsman (Eds.). Glass, Beads: Cultural history, techology, experiment and analogy. Lejre: Historical Arcaeological Experimental Centre, 94-54.

Torben Sode & Claus Feveile (2002) Segmenterede metalfolierede glasperler og blæste hule galsperler med metalbelægning fra markedspladsen i Ribe. By, marsk og geest 14, 5-14  (s hér).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Allah er eineygður eins og Óðinn. Hver stakk úr honum augað?

Takk fyrir afar fróðlega pistla.

Aðalbjörn Leifsson (IP-tala skráð) 28.6.2020 kl. 12:38

2 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Það finna ekki allir upp hjólið, en RÚV er alltaf til í að styðja við falskenningar.

Ragnhildur Kolka, 28.6.2020 kl. 12:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband