Kirkjukambar

Barðsnes

Bronskambur þessi kom á Þjóðminjasafnið árið 1941 og fékk safnnúmerið 12912. Hann er eins og eftirlíking eða smækkuð mynd af samsettum kömbum úr horni eða beini, sem algengir voru á Norðurlöndum á seinni hluta 12. aldar. Kamburinn er hin besta smíð og er steyptur í einu lagi. Jafnvel skreytið á honum minni mjög á skreyti á venjulegum beinkömbum.

Kamburinn (á myndinni hér fyrir ofan) fannst árið 1937 í fornri tóft austur á Barðsnesi í Norðfirði. Hann er 6.7 sm að lengd. Annar kambur úr bronsi (Þjms. 5021) hafði fundist um aldamótin 1900 á svokölluðum Norðlingahól hjá Melabergi á Miðnesi í Gullbringusýslu. Hann er einnig eftirlíking af einraða kambi, sem telst til einnar af undirgerðum svokallaðra háhryggjakamba. Við fornleifarannsóknir í Reykholti hefur einnig nýlega fundist kambur af sömu gerð. Allir kambarnir eru líklegast frá lokum 12. aldar eða byrjun þeirrar 13.

Norðlingahóll
Kambur frá Norðlingahól
Kirkjukambur úr Reykholti
 
Kirkjukamburinn frá Reykholti *

Kambarnir frá Barðsnesi, Miðnesi og Reykholti eru ekki sérlega hentugir til að greiða hár með. Mjög sennilegt er að þetta hafi verið svokallaðir kirkjukambar, sem notaðir voru við undirbúning að messu. Líkar greiður, sem oftast eru úr beini, rostungstönn eða fílstönn, hafa fundist á Bretlandseyjum, í Danmörku og Svíþjóð og á meginlandi Evrópu og hafa verið túlkaðir sem kirkjukambar eða tonsúrukambar.

Talið er að kirkjukambar hafi orði algengir þegar tonsúran eða krúnan (sem einnig var kölluð kringluskurður eða kringlótt hár) varð algengt meðal klerka suður í löndum á 4. öld og síðar lögleidd á 7. öld. Þá hefur verið nauðsynlegt fyrir presta að halda hárinu í horfi.

Krúnan var mikilvægt atriði  og mismunandi tíska ríkti við krúnurakstur. Í Kristinna laga þættií Grágás eru ákvæði um að prestur verði að gera krúnu sína einu sinni í mánuði og í norskri statútu er prestum gert að greið eitt mark í bætur er krúna þeirra nái niður fyrir eyrnasnepla. Illa útlítandi kirkjunnar þjónar hafa líklegast alltaf þótt vera til lítillar prýði og léleg auglýsing fyrir boðunina.

Í messubók Lundabiskupsdæmis (Missale Lundense), sem er frá byrjun 12. aldar en varðveitt í prentaðri útgáfu frá 1514, er greint frá því að meðan prestur greiði hár sitt eigi hann að biðja sérstaka bæn. Í íslenskum handritum er að finna skýringar á notkun kirkjukamba, t.d. í handritinu Veraldar sögur (AM 625, 4to), sem er frá 14. öld, í kafla sem heitir Messuskýring ok allra tíða:

Er kennimaður býst til messu, þvær hann sér vandlega, og er það í því markað, að honum er nauðsyn að þvo sig í iðrun og góðum verkum, er hann skal Guði þjóna. Það, er hann kembir sér, jartegnir það, að hann skal greiða hugrenningar sínar til Guðs. Höfuð jartegnir hjarta, en hugrenningar hár. Það að hann leggur af sér kápu eða klæði og skrýðist, sýnir það, að hann skal leggja niður annmarka og skrýðast manndáðum.

Hugsun sú, að hárið tákni hugrenningar, finnst þegar í riti Gregoríusar mikla, Cura pastoralis, sem skýring á orðum spámannsins Esekíels um að hár Levítans, þ.e.a.s. prestsins, skuli hvorki vera rakað eða flakandi heldur stýft.

Ímáldögum íslenskra kirkna grein frá kirkjukömbum, ýmist úr tönn eða tré. Vegna þess að aðeins er greint frá kömbum í kirkjum í Hólastifti hefur þeirri kenningu verið varpað fram að notkun þeirra hafi tengst Benediktínaklaustrinu á Munkaþverá eða tengslum Hóla við erkibiskupssetið í Lundi, þar sem kirkjukambar virðast hafa verið notaðir. Miklu frekar mætti skýra fæð kirkjukamba í máldögum úr öðrum landshlutum með því að litlir gripir sem þessir hafi auðveldlega farið fram hjá mönnum þegar vísiterað var.

Á  Barðsnesi var bænhús á 17. öld og gæti kirkjukamburinn bent til kirkjuhalds löngu fyrir þann tíma.

Grein þessi birtist fyrst í bókinni Gersemar og Þarfaþing (1994), bók sem Þjóðminjasafn Íslands gaf út á 130 ára afmæli safnsins og sem Árni Björnsson ritstýrði. Örlitlar viðbætur hafa verið gerðar við grein mína hér.

Ljósmyndina efst hefur Ívar Brynjólfsson tekið.


* Kamburinn frá Reykholti var til sýnis á sýningunni Endurfundir í Þjóðminjasafni 2009-2010. Því miður láðist aðstandendum sýningarinnar að greina frá heimildum um aðra bronskamba á Íslandi.

1246046480658l_1

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Það virðist dálítið skrýtið ef þessir kambar (greiður) eru ætlaðar nánast hárlausum munkum. Á miðöldum var tonsúran miklu stærri en nú, þannig að a.m.k hálft höfuðið einmitt, þar sem mestur er hárvöxurinn, var rakaður. Aðeins mjór kragi varð eftir, eins og sjá má á mörgum miðaldamyndum. Þessir menn höfðu litla þörf fyrir kamb eða greiðu. Hins vegar voru menn, og þó einkum konur mjög hárprúðar og ýmsar flóknar hárgreiðslur stundum hafðar á ýmsum tímum, aðallega hjá konum. Mér sýnist líklegt að þessar greiður eða kambar séu fremur ætlaðar fólki sem raunverulega hefur þörf fyrir slíka hluti. Ég veit þó, að þú heldur öðru fram. 

Vilhjálmur Eyþórsson, 10.10.2011 kl. 00:19

2 Smámynd: FORNLEIFUR

Nafni, hafa ber í hugrenningum sínum að þessir kambar eru aðeins tæpir 7 sm að lengd og hafa mjög groddalegar tennur. Þær henta vel í þunnt og lítið hár. Mér sýnist vegna þess að þetta eru "míniatúrar" af venjulegum kömbum, að þeir séu þess vegna meira táknrænir og þess vegna líklegastir sem rekvísít í lítúrgíunni (messusiðunum). Kringluskurðurinn á 11. og 12. öld hentar vel fyrir þessar greiður og visa versa, og hef ég sjálfur reynt greiðuna frá Barðsnesi á náttúrulega tonsúru mína og ekkert flæktist, þótt ég sé afar hrokkinhærður. Ekki var laust við að ég skrýddist manndáðum við að prófa greiðuna.

Ekki hefur verið hægt að fjarlæga lýs og annan ófögnuð með þessum áhöldum, enda voru venjulegir beinkambar eða kambar úr tré hentugri til þess og til þess að setja flottar hárgreiðslur og kemba langt hár.

Líklegast verðum við að leita til Villa rakara til að greiða úr þessu máli, sem þú ert búinn að flækja og flétta. Rokkgreiða úr áli er þetta hins vegar ekki og smyrsl í hárið fannst ekki með þessum greiðum.

Prestar höfðu reynda raunverulega þörf fyrir svona hluti í "leikariðum" (litúrgíunni/messusiðum). Svo ég stend harður á því að kambar þessir hafi þjónað kirkjunnar mönnum frekar en hárgreiðslukonum á Norðfirði, Miðnesi og Reykholti, og kamburinn þar er fjandkornið ekki kambur Snorra!

FORNLEIFUR, 10.10.2011 kl. 05:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband