Fiat lux
16.3.2012 | 16:25
Þann 15. ágúst árið 1960 var hr. Sigurbjörn Einarsson biskup Íslands staddur í Arnarfirði að vísitera Selárdalskirkju. Vísitasían hófst með guðsþjónustu kl. 2 eftir hádegi og þjónaði sóknarpresturinn Jón Kr. Ísfeld fyrir altari. Biskup stóð einnig við altari eftir predikun, en frú Magnea Þorkelsdóttir biskupsfrú lék listilega á orgelið. Mikil helgi var yfir staðnum þennan dag.
Í vísitasíugjörðinni frá 1960 er nefnt að kirkjan sé 99 ára gömul og í ríkiseign. Þar stendur m.a., og skal lesið með framburði Sigurbjörns biskups:
"hefur kirkjueigandi algjörlega vanrækt allt viðhald á henni, enda er hún stórlega skemmd af fúa, og í yfirvofandi hættu af veðrum. Væri það mikið og lítt bætanlegt tjón, ef kirkjan félli, eða fyki, því að hún verður að teljast merkilegt hús og auk þess geymir hún marga og merka muni."
Viti menn, heimsókn biskups hefur líklega haft sitt að segja, því gert var við kirkjuna árið 1961, og mætti ef til vill kalla þá viðgerð ærlega endurbyggingu. Selárdalsprestakall hafði reyndar þegar verið lagt niður árið 1907 og Selárdalssókn lögð til Bíldudalsprestakalls. En nú er svo komið að kirkjan hefur verið afhelguð og um tíma var rætt um að rífa hana, sem auðvitað kemur ekki til greina þar sem hún er friðuð.
Selárdalskirkja er enn ekki fokin og hefur Átthafafélagið Skjöldur áform um að færa þar hluti til betri vegar, enda var þetta að fornu ein ríkasti kirkjustaður á Íslandi.
Myndin efst er tekin í Selárdalskirkju árið 1913 og þá voru enn í kirkjunni ýmsir góðir gripir frá fyrri öldum sem sýndu að þessi kirkja hafði verið rík. Í loftinu hékk "ljósahjálmur góður" samkvæmt vísitasíu biskups.
Vart er til betri kirkjugripur frá miðöldum Íslands en þessi ljóshjálmur.
Ljósahjálmurinn í Selárdalskirkju
Fyrsti maðurinn sem gerði sér grein fyrir hina mikla menningarlegu verðmæti ljósahjálmsins í Selárdal var Matthías Þórðarson þjóðminjavörður. Hann kom í Selárdalskirkju árið 1913 og sá hvað þar hékk neðan úr neðan úr loftþiljum og tók ljósmyndir. Hann ritaði 28. júlí 1913:
"... Ljósahjálmur stór og veglegur og forn, í gotn. stýl, allur úr kopar; 6 armar í neðra kransi en 3 í efra; nokkuð brotnir og gallaðir. Ljón situr á legg efst og vargstrjóna stendur niður úr neðst. .."
Matthías lýsti hjálminum í kirknaskrá sinni (sem varðveitt er á Þjóðminjasafni Íslands) og teiknaði m.a. útlínur arma hjálmsins (sjá mynd neðar). Matthías kunni sína kirkjulist betur en flestir og vissi hvað hann vildi fá á Þjóðminjasafnið. Hann skrifaði enn fremur:
"Hjálmur þessi er mjög gamall og merkilegur og ætti að sjálfsögðu að ganga til Þjms. sem fyrst. Árið 1915 skrifar hann á spássíu: "Boðnar 100 kr. (eða annar hjálmur ) í bréfi 10.III.'15. Boðinn nýl. Myrkárhjálmurinn og 50 kr. að auki 17.IX.1915."
Allt kom fyrir ekki. Heimamenn vildu ekki selja Þjóðminjasafninu hjálminn, enda var hann tæknilega séð ekki í eigu þeirra, og þar við sat, eða þangað til að Hjörleifur Stefánsson arkitekt gerði það gustukaverk að taka hjálminn traustataki og fara með hann suður í Þjóðminjasafn. Það var á síðasta tug 20. aldar og er hjálmurinn þar enn í geymslu engum til ánægju, því hann er ekki hafður til sýnis, þótt hann sé merkilegasti og veglegasti ljósgjafi úr kirkju á Íslandi frá miðöldum, og þótt víðar væri leitað.
Áframhald um Selárdalshjálminn á næstu dögum
Meginflokkur: Fornleifar | Aukaflokkar: Kirkjugripir, Menning og listir | Breytt 11.4.2020 kl. 10:05 | Facebook
Athugasemdir
Þessi færsla fjallar ekki um gamla ítalska bíla.
FORNLEIFUR, 16.3.2012 kl. 16:41
Vargstrjóna??? Fór að ryja upp ,hvaða dýr var kallað vargur,minnir það vera refurinn.
Helga Kristjánsdóttir, 17.3.2012 kl. 00:12
Leiðr. ryfja upp,,,
Helga Kristjánsdóttir, 17.3.2012 kl. 00:13
Sæl Helga, vargur getur bæði verið refur, úlfur, vargur í véum, og svo er talað um að konur séu vargar eins og hún Vala, konan hans Óla Skans, sem talinn er vera Ólafur Eyjólfsson kanóner á Bessastaðaskans. Vala braut á honum viðbeinið. Í næstu færslu sérðu hvers kyns er.
FORNLEIFUR, 17.3.2012 kl. 08:14
Já takk.
Helga Kristjánsdóttir, 17.3.2012 kl. 14:14
Römm er forneskjan. En rammari en þó andskotinn og allir árar hans. - Datt þetta bara sisona í hug.
Sigurður Þór Guðjónsson, 17.3.2012 kl. 16:26
Sigurður Þór, gott er að unglingar eins og þú hafir tíma til að droppa hér inn svo ég noti fersklegt tungutak þitt. Hvernig hefur Mali það? Veit hann að í Óðinsvéum fundu fornleifafræðingar á 7. áratug síðustu aldar nokkur hundruð beinagrindur af forfeðrum hans í holu einni mikilli? Á Fjóni var víst í tísku að nota kattafeldi í forláta hanska á fyrri hluta miðalda. Mjá, þannig var það nú, Mali minn, mannvonskan alltaf söm við sig.
FORNLEIFUR, 17.3.2012 kl. 18:32
Mali þakkar Fonleifi kærlega fyrir að taka upp hanskann fyrir forfeður hans með því að rifja upp þær hörmungar sem þeir urðu að þola af hendi vondra manna. Mali hefur alltaf skotið upp kryppunni gegn því að eltast við tískuna og iðka alla aðra hégómlega léttúð.
Sigurður Þór Guðjónsson, 18.3.2012 kl. 01:21
MAður undrar sig á öllu því merka, illa eða vel fengna á þjóðminjasafninu, sem aldrei fær fyrir augu manna komið, en svo eru þeir með uppdiktaða tískugripi á sýningum ár eftir ár, sem eiga sér enga stoð né hafa nokkurt gildi.
Dæmi um þetta er hin kjánalega "Gríma" frá Stóruborg og allar ályktanirnar og fullyrðingarnar, sem henni fylgja.
Fyrir mér er þetta bara raftur eða hluti úr mastri eða blökk með götum og slitförum eftir bönd og nöglum sem áður hafa gengt öðru hlutverki en til að henjgja á skegg.
Hvað finnst forleifi um þesskonar dellu og finnst honum boðlegt að svona fantasía og amatörismi líðist á þjóðminjasafni?
Jón Steinar Ragnarsson, 18.3.2012 kl. 15:12
Sæll Jón,
Miðað við alla þá einkennilegu hluti sem fundust á Stóruborg, þá kemur manni ekkert á óvart. Þarna fannst forláta "dildó" úr tré, en ég veit ekki hvort hann hefur lifað aðgerðaleysið í forvörslumálum Þjóðminjasafnsins á sínum tíma af. Þar á bæ var enginn áhugi á rannsókninni og Mjöll Snæsdóttir var aldrei nógu dugleg að ota sínum tota eins og "ungu" drengirnir sem hún vinnur hjá í dag. Eftir bréf, sem ég skrifaði Þjóðminjasafninu, um þessi mál að eigin frumkvæði var Mjöll ráðin í einhvern tíma að Þjóðminjasafninu til að vinna úr sínum málum, en þá var því miður þegar orðið slys á miklu magni af fornleifum frá Stóruborg. Ég get ímyndað mér að "dildóinn" sem við fundum á Borg sé nú klofinn, fúinn, sprunginn, eða rotinn. En maður getur auðvitað leyft sér að vona; að þessi priapos erectus birtis hnarreistur í mikilli útgáfu um Stórborg, þar sem einnig verður skírt af hverju teikningar af hellulögum sem voru undir einhverju reyndust vegna mæligalla við rannsóknina vera yfir einhverju. Hnífsslíðrið frá Stóruborg, sem ég birti teikningu mína af í fyrra hér á Fornleifi, vona ég að fái líka merka umfjöllun í þessari bók sem við bíðum öll eftir.
Gríman? Nei, sannast sagna, þá tel ég að þetta hafi verið allt of þungt til þess að bera á andliti. Ég hef haldið á þessum grip og meira að segja sett hann að andliti og tel að þetta hafi verið allsendis óhæf gríma, nema að maður hafi haft augu mjög þéttsetin og flatt nef. En nú er ég með svo stórt nef og augnfagur, svo það er ekkert að marka hvað ég held.
Eitt sinn fannst þarna á Borg járnkengur sem líktist gyðingahörpu, og hafði ég það á orði. Ég vissi svo ekki betur fyrr en að þessi hlutur, sem líkari var ákveðnum upptakara frá Coca Cola sem brotnað hafði í annan endann, hefði verið birtur, án tilvitnana, í einhverjum litlum bæklingi sem eitt elsta hljóðfærið á Íslandi.
Yfirlýsingagleðin og óskhyggja tekur oft yfirhöndina í stað þess að menn viðurkenni að þeir viti ekki rassgat um það sem þeir eru með á milli handanna. Það er oftast nær betra að viðurkenna vanmátt sinn, en að halda að maður geti sagt eitthvað vegna þess að maður heldur að aðrir viti ekkert. En það þolir Fornleifur ekki og skrifar þess vegna af mikilli gleði er hann stingur í slíkar bólur.
FORNLEIFUR, 19.3.2012 kl. 07:25
Í greinargerð Þjóðminjasafnsins um grímuna stendur efst:
FORNLEIFUR, 19.3.2012 kl. 07:28
Í bókinni Gersemar og Þarfaþingfrá 1994 (ritstj. Árni Björnsson) segir Mjöll reyndar ekkert ákveðið um þennan grip, sem þar birtist á mynd.
FORNLEIFUR, 19.3.2012 kl. 07:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.