Sunnudagspredikun: Biskupsbrek
6.1.2019 | 07:00
Sigurbjörn heitinn Einarsson, biskup íslensku þjóðkirkjunnar var afar vænn maður, segja mér flestir menn, og ekki ætla ég mér að rengja á nokkurn hátt.
Hann kom því m.a. verk að Passíusálmarnir yrðu lesnir í Ríkisútvarpinu á hverju ári.
"Gegnjúðskað"
Allir eiga menn sér bernskubrek og einnig óbarðir biskupar. Sigurbjörn lauk skólavist sinni i Menntaskólanum í Reykjavík árið 1931 með því að skrifa pistil í Skólablaðið, en svo hét einmitt skólablaðið Menntaskólanum. Þetta ritaði biskupsefnið:
Einn spakur maður, íslenskur, hefur talað um, hversu hið hvíta mannkyn væri gegnjúðskað orðið. Er það orð og að sönnu. - Íslendingar eru engir eftirbátar annara hvítra þjóða i þessu efni. Júðum þakka þeir bókmentir sínar,- bókmentirnar, "fjöregg þjóðarinnar". Það er ekkert sjaldgæft að Íslendingar þakki það hebreskum áhrifum að sögur voru ritaðar, Eddurnar geymdar - og rímur kveðnar. - Slík er þá frægð "söguþjóðarinnar". ...
Einhver voldugasta þjóð heimsins er Gyðingar. Hinar arísku þjóðir hafa gert Þá að kennifeðrum sínum svo mjög, að löggjöf sú, sem þeir Semítarnir sömdu fyrir nærfelt 3000 árum, má heita undirstaða allrar löggjafar hinna voldugustu og best mentu Þjóða af hinum aríska kynstofni. Og Gyðingur er Það, sem oftast er nefndur og þeirra manna heilagastur sem fæðst hafa, að dómi flestra Aria. - Fje heimsins er og mjög i höndum Gyðinga. Mestu fjárplógsmenn hins hvíta heims eru af Gyðingaættum og hafa sumar þjóðir fengið að kenna á því nú i seinni tíð, t.d. Þjóðverjar. Það liggur við að Aríarnir kafni undir nafni, (Aríar = herrar). - Einnig hjer á Íslandi er Júðinn vaxinn Íslendingum yfir höfuð. Og Íslendingar virðast aldrei fá nógsamlega þakkað þeim mönnum, sem því ollu upphaflega. Og þó ætti ekki að vera erfitt að skilja hverjum íslenskum manni, að það var tilræði við hið íslenska og norræna þjóðerni, tilræði, sem að ben gerðist. Hefur nú grafið og grasserað i því sári i nærfelt 1000 ár og seint mun ganga lækningin. Jeg fyrir mitt leyti er i engum vafa um það, að eina ráðið sje að uppræta þann hinn illa meiðinn, taka upp þráðinn aftur að fullu, þar sem hann var niður feldur - við tilkomu Kristninnar. (Lesið grein Sigurbjörns menntskælings í Skólablaðinu).
Þá var boðskapurinn hjá Sigurbirni ekki kærleikur líkt og síðar varð. Seinna gerðist hann félagi í Þjóðvarnarfélaginu. Hann hélt ræðu í Hafnarfirði sem fór fyrir brjóstið á Sjálfstæðismönnum. Einn þeirra manna í Hafnarfirði, sem hallur hafði verið undir Hitler fyrir 1940, klagaði ræðu guðfræðingsins í Ólaf Thors. Upp úr því var hálfgerður kommastimpill á Sigurbirni, sem víst aldrei tókst að hreinsa af honum, eins lofandi og hann hafði verið í skrifum sínum í Menntaskólanum í Reykjavík.
Líkt og margir Íslendingar fyrr og síðar, úr öllu litrófi stjórnmálanna, var Sigurbjörn heltekinn af hatri í garð gyðinga - ekki ósvipað þeim mönnum sem í dag kenna George Soros um allar ófarir sínar og hins appelsínugula átrúnaðargoðs síns úti í heimi. Það gerir t.d. fólkið sem telur múslímahatur sitt vera aðgangskort að stuðningi við Ísrael. Ísrael er enginn stuðningur eða akkur í múslímahatri. Hatur sumra múslíma á gyðingum er alveg nóg, svo að öfgakristnir fari nú ekki að leika sama leikinn.
Hugsanlega gerir Þjóðkirkjan sér grein fyrir því að hatrið í hinum unga manni sem síðar varð biskup, skýri áhuga hans á Passíusálmunum, sem hann vitnaði einnig í í grein sinni í Skólablaðinu árið 1931. Ég efa það þó. Hinir hámenntuðu sérfræðingar HÍ í Hallgrími Péturssyni, sem ekki þekkja muninn á Glückstadt (þar sem Hallgrímur dvaldi) og Glücksburg, hafa þegar gert kreddu sína að öfgatrú.
Ég varpaði þessum boðskap Sigurbjörns frá 1931 inn á FB Illuga Jökulssonar í umræðuna um aðför Hannes Hólmsteins á Sólveigu Önnu Jónsdóttur. Þar greinid ég einnig frá því hjálparstarfi sem Hannes tekur þátt í, þegar samtök sem hann er limur í leggur blessun sína yfir að t.d. Eystrasaltsþjóðirnar Eistland, Lettland og Lithaugaland, og þar fyrir utan Úkraína geri á okkar tímum gyðingamorðingja sína í seinni heimsstyrjöld að þjóðhetjum.
Það eru víða svartar sorgarrendur undir nöglum manna, en skíturinn er oftast sá sami og ekki til kominn við vinnu í víngarði Drottins.
AMEN
P.s. eftir að ég setti upplýsingar um þessi bernskuskrif biskups á FB Illuga Jökuls, skrifaði mér óður maður og sagði mig vera að rugla Sigurbirni við nafna hans Sigurbjörn Ágúst Einarsson. Svo er ekki. Sá Sigurbjörn, kallaður Bjössi bakari, lærði bakaraiðn. Ég hengi ekki bakara fyrir biskup. En þá, sem hengja þjóð kraftaverkameistarans úr Passíusálmunum í snörur haturs síns, gef ég harla lítið fyrir.
Athugasemdir
Það er þó nokkurnveginn óhætt að fullyrða að þessi grein Sigurbjarnar var bernskubrek. Síðar, ekkert mjög löngu þó, skrifaði hann bók sem heitir Kirkja Krists í ríki Hitlers. Þar kveður við talsvert annan tón.
Þorvaldur Sigurdsson (IP-tala skráð) 6.1.2019 kl. 16:02
Mikið rétt Þorvaldur. Í ræðu sinni sem ég nefni í Hafnarfirði, sagði hann m.a.:
Það er vissulega margt uggvænlegt í samtíðinni. En eitt er ég hræddastur við, og það er hræðslan. Hræðslan hefur valdið meiri óhöppum en vísvitandi hatur eða grimmd. Því féll þýska þjóðin í fang Hitlers, að hún hafði látið tryllast af ofboðshræðslu við bolsévika og Gyðinga. Hræðslan olli hermdarverkum galdraaldar.
Þetta er sama hræðslan og þegar menn hatast út í alla múslíma fyrir gerðir fárra og þegar fólk ber því við að Soros sé á bak við hurðina að plotta gegn smáborgalegum heimi þeirra.
FORNLEIFUR, 6.1.2019 kl. 16:48
Takk samt fyrir ábendinguna Tobbó! Um biskup átti við það fornkveðna: Batnandi mönnum er best að lifa.
FORNLEIFUR, 6.1.2019 kl. 16:51
Fornleifur.
Þú hefur greinilega ekki lesið bókina, Játningar, sem út kom árið 1948. Þar er Sigurbjörn Einarsson höfundur eins kaflans.
Annars hefðir þú ekki skrifað þennan pistil, sem er þér ekki til sóma.
Hörður Þormar, 6.1.2019 kl. 17:29
Sæll Hörður Þormar, þú ert ekki á vaktinni hjá skoðunarlögreglunni núna? Af hverju má ég ekki skrifa um þessi mistök í lífi Sigurbjörns Einarssonar? Þetta eru skoðanir sem enn eru á kreiki hjá fólki sem sér gyðinga á bak við allt. Ekki er laust við að ég hafi séð slík skrif hjá mönnum sem þú samsinnist.
FORNLEIFUR, 6.1.2019 kl. 17:47
Og mundu Hörður, að ég leyfi athugasemdir sem eru innan velsæmismarka. Það gera sumir aðrir alls ekki og eru ávallt að hnýta í Soros. Prófessor Hannes, Björn Bjarna og Styrmir hlusta ekki einu sinni á gagnrýni.
FORNLEIFUR, 6.1.2019 kl. 18:17
Sæll Fornleifur.
Þú getur alveg eins skrifað um það, hvernig Sál frá Tarsus ofsótti kristna menn.
Sigurbjörn Einarsson var greinilega örgeðja, ungur maður. Hann aðhylltist um tíma skoðanir sem hann gerðist síðar mjög fráhverfur. Það er langt til seilst að draga þær skoðanir fram.
Mér liggur forvitni á að vita hvaða skrif eða hvaða menn það eru sem ég samsinnist svo mjög.
Svo verð ég að bæta því við að þú finnur fáa sem hafa meiri samúð með gyðingum eða hafa stutt málstað Ísraelsríkis fremur en ég, enda þótt það geti stundum verið erfitt.
Hörður Þormar, 6.1.2019 kl. 18:42
Af hverju má ekki líta á skoðanir skólapilts árið 1931? Af hverju hafa þær ekki verið frammi fyrr? Getur verið að Íslendingar eigi í vanda með sannleikann um sjálfa sig?
Vitaskuld skal það koma fram hve aðaltalsmaður Passíusálmanna sagði um þá á yngri árum.
Þetta er hluti af mótunarsögu Íslendinga á 20. öld. Það var venja að kenna útlendingum um allt og sér í lagi ákveðnum hópi. Það er reyndar ósiður sem haldist hefur fram á 21. öld. Nú ímyndar elda fólk sér eftir að það hefur verið hrætt í hel af stormsveit útvarps Sögu, að múslímar séu að yfirtaka landið með hjálp vonds gyðings. Þetta fyrirbæri er sjúkt og þeir sem fylgja því taka það með sér í gröfina.
Ný kynslóð fólks gerir sér grein fyrir því að hatur á nauðstöddu fólki og einstökum hópum heyrir fortíðinni, ykkur steingervingunum til.
Ákveðnir hópar, sem þykjast geta sagt mönnum fyrir hvað þeir eiga að halda og hugsa, er fortíð. Nú hafa menn frelsi til skoðana, hugsana og tjáninga - með ábyrgð. Ég misfer ekki ábyrgð minni við að segja frá rugli menntskælings árið 1931.
Það sem hann sagði, lýsir tíðarandanum og þeim straumum sem náð höfðu til Íslands og sem hentuðu heimalningshættinum vel og hræðslunni við útlendinga.
FORNLEIFUR, 6.1.2019 kl. 21:27
Sæll,Fornleifur.
Ef þú ætlar að grafa upp og birta öll heimskupör ungra manna, þá átt þú mikið verk óunnið.
Mér skilst að þú hafir horn í síðu Sigurbjarnar biskups vegna ástar hans á Passíusálmunum, þar sem fram komi gyðingahatur. Ekki veit ég hvort Hallgrímur hafi þekkt einhvað til gyðinga og ekki ætla ég að ræða boðskap Passíusálmanna. En samkvæmt mínum skilningi, sem má vera rangur, er þar ekki hatursáróður gegn gyðingum, almennt, heldur gegn forystumönnum þeirra. Því má ekki gleyma að Jesús Kristur og allt hans fylgdarlið voru gyðingar.
Því miður upphófst snemma tortryggni og hatur á milli gyðinga og kristinna manna, sem magnaðist mjög á miðöldum. Ég hef nú aldrei verið sérstakur aðdáandi Marteins Lúters sem ég álít að hafi verið hinn mesti hrotti, auk þess að vera haldinn drykkjusýki sem jókst með árunum. (Minna sumar Borðræður hans mjög á nýlegan talsmáta "Klausturbræðra"). Hann ber mjög mikla ábyrgð á gyðingaofsóknum Hitlers, ef hægt er að bera ábyrgð svo langt fram í tímann. En því er ekki að neita að atorkumaður var hann, bæði til góðs og ills.
Auðvitað var sr. Hallgrímur "lúterstrúar" og eru Pasíusálmarnir til vitnis um það, en ég held að fáir, nú til dags, hafi sömu trúarhugmyndir og hann, nema að nafni til. Þar held ég að Sigurbjörn biskup sé ekki undanskilinn, þrátt fyrir dálæti hans á Passíusálmunum.
Ég er nú orðinn svo gamall að ég býst ekki við að þú hafir mikið álit á skoðunum mínum, en ég man vel eftir stríðinu. Ég man að sumir studdu Þjóðverja, ekki vegna gyðingahaturs heldur vegna vegna ótta við kommúnista. Þvert á móti man ég eftir áhyggjum manna út af afdrifum gyðinga í Þýskalandi. Ég tel það algera firru að gyðingahatur eða hræðsla við útlendinga hafi verið almenn á Íslandi fyrir miðja síðustu öld.
Mér sýnist þú eitthvað vera að sneiða að eldra fólki og Útvarpi Sögu, ég verð víst að viðurkenna að ég er á meðal þeirra "einföldu gamlingja" sem hlusta mikið á þá stöð. Þar er jú annað slagið minnst á múslíma á milli þess að kvartað er yfir kjörum öryrkja og eldri borgara, verðtryggingu o.s.frv.
Ég játa að mér stendur viss ógn af innflutningi múslíma. Ekki stafar það svo mikið af hlustun minni á Ú.S. en tek tillit til varnaðarorða manna úr þeirra heimahögum T.d má nefna tvo sómamenn, þá Hamed Abdel-Samad og Ahmad Mansour. Þeir þekkja vel vandamál sem koma upp þegar þessir ólíku menningarheimar koma saman. Ég held að við Íslendingar séum ekki búnir undir að standa frammi fyrir þeim.
Með bestu kveðju.
Hörður.
Hörður Þormar, 7.1.2019 kl. 01:37
Hörður, það gleymist á Íslandi að Jesús (hvort sem hann var til eða ekki) var gyðingur sem slitinn var frá trú sinni svo hægt væri að nota hann af nýtrúarsöfnuði til að vinna á trú fjölskyldu hans. Kristnin hefur einnig gegnum aldirnar reynt að losa hann undan því "oki" með því að drepa gyðinga eða ofsækja; að kenna þeim öllum um "morð" á Jesús, ekki aðeins leiðtogum þeirra. Jesús kemur hins vega gyðingum ekkert við. Hann er ekki frelsari þeirra. Lágmarskrafan má vera sú í nútímaþjóðfélagi sem má vera kunnugt um helfarir gegn gyðingum, að þeir þurfi ekki að hlusta á boðskap aftan af 17. öld. Útvarp er ekki staður fyrir hatursboðskap, hvorki á Sögu eða á RÚV.
Hatrið geta menn þulið í kirkjum sínum, félagasamtökum og stjórnmálaflokkum, án þess að vera að agítera það yfir öllu öðru fólki, sem helst vill vera í friði.
Ágætt er að útvarp Saga minni á gamalmenni og öryrkja sem ávallt hefur verið farið illa með á Íslandi. En þegar menn blanda þeirri baráttu við eitthvað sem ekki er vandamál á Íslandi, eru menn komnir út fyrir velsæmismörk.
Ef þú lest grein Sigurbjörns Einarssonar í Skólablaðinu, þá sérðu að hatur hans á Passíusálmunum stafar af hatri gagnvart gyðingum. Sigurbjörn var fornaldardýrkandi. Vildi snúa aftur til Þórs og Óðins. Vitaskuld voru þetta kjánaleg læti í ungum manni sem sansaðist fljótt í námi sínu í guðfræði, svo mjög að síðar taldi íhaldið að hann væri kommi.
Öfgamennina sem þú nefnir, þekki ég vitaskuld og hvað þeir standa fyrir. Mér er vel kunnugt um að fjöldi múslíma hugsar gyðingum aðeins dauða og pínu. En það gera ekki allir múslímar. Ég vonast til að við getum breytt vanda múslíma með því að höfða til þeirra afla innan Íslam sem eru gangrýnin og sem geta skapað siðaskipti í trú sinni og sjái að gamlir reiðir menn eru ekki lausnin. Vart gerist það á næstu árum. Það tók kristna menn árhundruð að þroskast og enn er til fólk sem hatast út í ímyndaða óvini, Soros og annað sem þeir nota sem tákn fyrir hatrið.
FORNLEIFUR, 7.1.2019 kl. 04:07
Hörður, í vinsemd lýk ég svörum mínum til þín hér, því mér sýnist að þú sért maður af þeirri gerð sem alltaf vill eiga síðasta orðið. Hafðu það ef þú vilt, en ég bið þig, eldri og líklegast miklu vísari mann en mig um að sýna gagnrýni þegar þú hlustar á Útvarp Sögu. Hrætt fólk með áfengisvanda sem hatast út í heiminn veldur oftast óþarfa dauða gamals fólk. Mundu það sem Jesús boðaði, en sem svo margir gleymdu.
Mig langar aðeins til að nefna eitt í lokin:
Ég var sl. fimmtudag í Det Jødiske Hus, sem nokkrum árum síðan var byggt á bak við samkunduhús Gyðinga í Kaupmannahöfn í stað elliheimilis gyðinga sem þar var. Ég stakk upp á því, fyrir mörgum árum síðan, þegar ég var ritstjóri tímaritsins RAMBAM (ársrits sögufélags gyðinga), að Danmörk fengi Stolpersteine, litla steina með nöfnum gyðinga í Danmörku sem myrtir voru í stríðinu (síðar munu vonandi koma steinar fyrir aðra hópa). Þeir verða að veruleika í byrjun sumars, þegar fyrstu steinarnir verða lagðir í "fortóv" Kaupmannahafnar. Við sem vorum á fundinum vorum vel varin af 8 hermönnum og lögreglumanni sem gættu okkar. Ekki fyrir kommúnistum eða nasistum, heldur afar litlum hópi múslíma sem vill drepa gyðinga. Einn af dönsku hermönnunum á vakt við sýnagóguna þann dag var múslími og greinilega liðsmaður í varðsveit Margrétar drottningar. Ég treysti honum fullkomlega. Af hverju ætti hann að hata mig? Hræðsla eyðileggur allt.
Sigurbjörn sagði þetta líka alveg rétt í ræðu sinni í Hafnarfirði forðum sem olli því að íhaldsmenn þar í bæ sáu rautt. Orð hans eiga einnig við í dag og beinast gegn þér og skoðanabræðrum þínum:
Það er vissulega margt uggvænlegt í samtíðinni. En eitt er ég hræddastur við, og það er hræðslan. Hræðslan hefur valdið meiri óhöppum en vísvitandi hatur eða grimmd. Því féll þýska þjóðin í fang Hitlers, að hún hafði látið tryllast af ofboðshræðslu við bolsévika og Gyðinga. Hræðslan olli hermdarverkum galdraaldar.
FORNLEIFUR, 7.1.2019 kl. 04:19
Fornleifur. Satt er það, ég vil hafa síðasta orðið.
Þakka spjallið.
Kveðja,
Hörður.
Hörður Þormar, 7.1.2019 kl. 11:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.