Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2014

Ástandsnjósnir

bretinn.jpg

Ég hlakka til að lesa grein prófessors Þórs Whiteheads í Sögu um persónunjósnir Jóhönnu Knudsens hjúkrunarkonu og fyrstu lögreglukonunnar á Íslandi, sem gerð var að yfirmanni ungmennaeftirlits lögreglunnar árið 1941, eða þangað til hún var sett af árið 1944.

Þór Whitehead hefur greinilega beðið eftir þessu rannsóknarefni, sem var lokað efni í 50 ár eftir að það var afhent Þjóðskjalasafninu árið 1961. Ég sé Þór fyrir mér eins og ólman, breskan latínuskólanema (þó svo að hann hafi nú gengið í Verslunarskólann og lært höfuðbækur í stað latínu), sem kemst í fullar útgáfur af gömlu meisturunum, þar sem klámfengið efni hefur ekki verið sleppt úr eða klippt út úr bókunum.

Að umfang njósna þessarar gammeljómfrúar Knudsen hafi verið svo mikið, og að 1000 konur hafi verið undir smásjá hennar, kemur hins vegar á óvart, þó svo að þóttinn og öfgarnar hafi verið miklar t.d. í grein hennar gegn Arnfinni Jónssyni kennara og meðlimi í barnaverndarnefnd. Hann skrifaði um aðferðir Knudsens (Sjá hér og eitt svara hans hér).

Vitaskuld var "ástand" á kvenfólkinu, að því leyti að það hafði allt í einu einn vordag í maí 1940 úr grösugri garði að gresja en áður. Þær hittu fyrir menn sem voru ef til vill meiri sjentilmenni en íslenskir karlar. Karlar eru það oft þegar þeir eru ekki heima hjá sér. Kaninn var enn glæsilegri en Tjallinn og þá fauk í flest skjól fyrir marga íslenska karla í kvennaleit, þegar glæsikonur bæjarins völdu hermenn fram yfir þá. Vonlausir gaurar, eins og þeir heita í dag, gerðu einnig sínar athuganir, sem Knudsen hefur líklega þótt kræsilegar, og einn þeirra, sem kallaði sig S.S., birti þær í lágkúrulegum bæklingi. S. S. þessi hét í raun Steindór Sigurðsson (1901-1949) Sjá hér.

setuli_i_og_kvenfolki_ljosm_vilhjalmur_rn_vilhjalmsson.jpg

 

Hermann Jónasson, ekkert er nýtt undir sólinni

Auðvitað var Hermann Jónasson með fingurinn í þessu eins og öðru. Þó vona ég að Þór Whitehead sé ekki enn að velta fyrir sér hverjir hafi verið meiri nasistar, Sjálfstæðismenn (sem hann tilheyrir) eða Framsóknarmenn? Bæði Framsóknarmenn og Sjálfstæðismenn voru hallir undir Hitler!

Hverju mátti búast við af manni (Hermanni), sem kom því til leiðar að landflótta gyðingar væru sendir úr landi, og sem einnig setti hindranir í veg fyrir þá eina, meðan aðrir hópar sem tilheyrðu hinum "aríska" stofni var hleypt inn í landið. Ekki breyttust hlutirnir eftir stríð. Þýskar vinnupíur, sumar hverjar dætur dæmdra stríðsmanna Hitlers, voru fluttar inn í stórum stíl og gerðust myndarhúsfreyjur á hrakbýlum landsins og eignuðu börn og buru með sveitadurgum sem engin heilvita íslensk kona leit við. En það féll hins vegar fyrir fyrir brjóstið á sumum Íslendingum, að svartir menn þjónuðu á herstöðvum Bandaríkjamanna á Íslandi. Í dag eru menn með fáeina múslíma og annað "dekkra" fólk á milli tannanna á sér og halda mætti af máli sumra, að til landsins væri mættur heill her.

f7a08fae13ce7071.jpg
18bba6b35caa3be4_1226763.jpg
Ekki létu herir bandamanna sér alveg á sama um hvað sumum Íslendingum þótti um samlíf íslenskra kvenna og dátanna.  Skautakvikmyndin Iceland vakti gagnrýni í BNA sem og meðal Íslendinga, jafnvel þó þeir hefðu ekki séð myndina. Menn í Bandaríkjunum töldu að "ástandið" sem sýnt var í myndinni gæti orðið til að skapa BNA óvildarmenn. Sjá hér. Þessar myndir hér að ofan eru hins vegar ekta myndir af svellinu á Íslandi.

Þegar ég les um ofsa fyrstu lögreglukonu Íslands, er mér hugsað til danskrar lögreglukonu sem starfaði á skrifstofu dönsku lögreglunnar í síðara stríði. Þegar danskur verkamaður í Berlín bjargaði gyðingnum Bröndlu Wassermann og þremur börnum hennar til Kaupmannahafnar, var tekin sú ákvörðun að senda hana og börnin úr landi með fyrstu lest. Til að fylgja þeim til Þýskalands var fengin lögreglukonan sem vann á skrifstofunni. Ég fékk áhuga á því að vita hvað kona þetta var, og kom þá í ljós að þetta hún var meðlimur í nasistaflokki Dana. Hún tók ekki að sér flutninginn til Þýskalands af "kvenlegri miskunnsemi" heldur vegna fordóma sinna, og hefur líklega talið sig vinna góðverk. Mánuði eftir að Brandla og börnunum hennar hafði verið vísað úr landi í Danmörku, höfðu börnin verið myrt í gasklefum Auschwitz og Brandla var myrt þann 15. desember 1942, þegar SS-læknir sprautaði fenóli beint í hjarta hennar eftir að brotist hafði út taugaveiki í skála þeim sem hún var í. Lesið um þetta í góðri bók sem hægt er að fá lánaða á bestu bókasöfnum landsins.

Ástandið var nauðsynlegt !

Svonefnd ástandsskýrsla sem gerð var 1941, byggð á gögnum Jóhönnu Knudsens, upplýsir að lögreglan sé með á skrá 20% þeirra kvenna sem séu í ástandinu, eða um 500 konur. Miðað við fjölda kvenna 12 til 61 ára í Reykjavík þýddi það, að 2.500 konur væru í ástandinu. Þetta er vitaskuld út í hött. Líklega hafa allar konur sem þvoðu fyrir Breta, t.d. hún amma mín á Hringbrautinni, komist á lista Knudsens yfir léttúðugar konur. Amma mín þénaði einhverja smáaura fyrir þessa vinnu. Langamma mín, heiðvirð stýrimannsfrú og peysufatakona, komin vel yfir 61 árs aldur, hafði einnig samband við Bretann, þegar hún var stundum með í sumarbústað dóttur sinnar og tengdasonar í Mosfellssveitinni. Að sögn móður minnar, sem er fædd árið 1929, elskaði amma hennar að tala við Tjallann, þó hún kynni ekki stakt orð í ensku. Fingramál gekk ágætlega og hermennirnir voru hrifnir af henni, því stundum færði hún þeim kaffi. Mesta mildi má þykja að hún langamma mín hefði ekki verið skotin þegar hún þeyttist yfir holt og hæðir til að hitta vini sína í breska hernum, en þarna nærri sumarbústaðnum stunduðu Bretar skotæfingar.

g_min_1226767.jpg

Háttalag langömmu minnar hefði ekki fallið frú Knudsen í geð, en Guðrún var bara gestrisin kona úr Kjósinni sem kunni sig í umgengni við erlent fólk.

Ætli Jóhanna Knudsen og ýmsar aðrar konum hefðu ekki lagst undir fyrsta þýska nasistann, hefðu þeir komið hér í stað Breta og Ameríkana? Hver veit? Það er eðli flestra kvenna að "falla" fyrir mönnum og konur eru jafnan nýjungagjarnari en karlar. Hefur það ekki bjargað þjóðinni frá afdalamennsku þökk sé góðum leik íslenskra kvenna, og komið í veg fyrir meiri skyldleikarækt en þá sem er staðreynd á Íslandi ?

Í Danmörku fúlsuðu mjög margar konur ekkert við Günther og Siegfried, en mjög margir Danir fæddir á tímabilinu 1941-45 vita alls ekki enn að þeir eru með erfðamengi "herraþjóðarinnar" í æðum sér.


Þingsályktunartillaga fyrir þá sem veggfóðra með Kjarval?

louvre.jpg

Nýverið var sett fram þingsályktunartillaga http://www.althingi.is/altext/143/s/0499.html sem er ætlað að stefna stigu við málverkafölsunum.

Gott og vel. Ég þurfti ekki að lesa tillöguna lengi til að sjá, að hún ber fyrst og fremst hag þeirra fyrir brjósti sem hafa látið snuða sig með því að kaupa fölsuð málverk.  Á annarri blaðsíðu tillögunnar kemur þessi setning eins og skrattinn úr sauðaleggnum, en hún skýrir nú margt:

"Nokkrir einstaklingar urðu og fyrir verulegu fjárhagslegu tjóni vegna kaupa á fölsuðum myndverkum. Þessari þingsályktunartillögu er stefnt gegn slíkum svikum og því leggja flutningsmenn áherslu á að embætti sérstaks saksóknara, sem fer með efnahagsbrot, taki þátt í þeirri vinnu sem tillagan mælir fyrir um."

Einn af þeim sem ber fram tillöguna er Vilhjálmur Bjarnason fjárfestir og fjármálasérfræðingur. Það leitar vissulega að manni sú spurning, hvort Vilhjálmur hafi talist til þeirra mörgu vel stæðu Íslendinga sem ekkert vit höfðu á list, en sem  keyptu hana í metravís í góðærinu til að betrekkja stofuveggina hjá sér.  Ég læt spurningunni ósvarað, því mér finnst tillagan öll full af ósvöruðum spurningum.

Eins finnast mér kjánar, sem í einhverjum snobbeffekt keyptu allt sem þá langaði í, án þess að hafa nokkurt vit á því sem þeir keyptu, sjálfir bera ábyrgð á slíkum mistökum. Slíkir einstaklingar eru ekki listasöfn. Aðalatriðið er að listasöfn landsins séu ekki að sýna falsaðan menningararf, alveg sama hvað hann er gamall.  

Þessu er t.d. haldið fram í þingsályktunartillögunni:

" Ótvírætt virðist að á 10. áratug síðustu aldar hafi talsverður fjöldi falsaðra myndverka verið í umferð á Íslandi og gengið þar kaupum og sölum. Hefur verið sett fram sú tilgáta af fagmanni, sem þekkir vel til íslenskrar myndlistar og myndlistarmarkaðarins hér, að allt að 900 fölsuð myndverk (málverk og teikningar) muni hafa verið á sveimi hérlendis á þessum tíma."

Ég tel víst að fagmaðurinn sem nefndur er hér sé Ólafur Ingi Jónsson forvörður (sjá hér og hér). Þó svo að ég trúi því fastlega að fölsuð málverk hafi verið í umferð og sannanir séu fyrir því, þá hef ég því miður enn ekki séð neitt birt á riti eftir Ólaf, t.d. ítarlegar rannsóknir hans, sem rennt get stoðum undir þá skoðun hans að 900 fölsuð myndverk hafi verið á sveimi.

Mér þykir einfaldlega ekki nægilega undirbyggð hin fræðilega hlið þessarar þingsályktunartillögu, sem mest ber keim af því, að þeir sem keypt hafa svikna list vilji fá hið opinbera til að setja gæðastimpla á verkin. Að mínu mati á slíkt aðeins við um verk í opinberri eigu. Ríkisbubbarnir, sem jafnvel höfðu Kjarval á klósettinu heima hjá sér, verða sjálfir að bera ábyrgð á gerðum sínum og fjárfestingum.

00-intro.jpg

 

Hins vegar er það hlutverk lögregluyfirvalda og hugsanlega nefndar sérfræðinga að rannsaka mál sem koma upp um falsanir. Meira er ekki hægt að gera. Og svo mætti Ólafur forvörður birta rannsóknir sínar, svo fólk í kaupshugleiðingum geti hugsanlega varað sig, ef það hefur aðeins peningavit en enga þekkingu á list eða annarri menningu.

Lokaorð tillögunnar eru: "Hin mikla áhersla á þekktan og ósvikinn uppruna menningarminja er tiltölulega ný í sögunni en nýtur engu síður víðtækrar viðurkenningar sem ein af höfuðforsendum þess að slíkar minjar þyki tækar til varðveislu. Skal í því sambandi nefnt að Mennta-, vísinda- og menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, gerir það að ófrávíkjanlegri kröfu fyrir því að menningarminjar fái sæti á heimsminjaskrá að þær séu ófalsaðar og sömu kröfu gera lista- og minjasöfn á Vesturlöndum til safnkosts síns."

Þetta er greinilega skrifað af einhverjum, sem ekkert þekkir til heimsminja (ég hélt nú annars að Katrín Jakobsdóttir vissi meira í sinn haus). Heimsminjaskrá telja ekki einstök málverk eða einstaka gripi. Heimsminjar, menningarlegar eða náttúruminjar, eru heildir. Vissulega verða söfn að gera þá kröfu að safnkostur þeirra sé ófalsaður. En á Íslandi hefur það því miður ekki talist nauðsynlegt. Þrátt fyrir að fleiri rannsóknir og álit sérfræðinga sýni að það séu falsaðir gripir í silfursjóði í Þjóðminjasafni Íslands, heldur safnið áfram að sýna sjóðinn sem silfursjóð frá Víkingaöld, eins og ekkert hafi í skorist, jafnvel þrátt fyrir alvarleg vandamál í danskri skýrslu um sjóðinn og þrátt fyrir sérfræðiálit í nýlegri útgáfu með greinum frá Víkingaráðstefnunni sem haldin var á Íslandi sumarið 2011.

Í einni af bókum langalangafa míns sáluga, Iszëks, sem ég nefndi um daginn, fann ég þessa frábæru mynd frá Louvre frá miðri 18. öld sem er efst í þessari grein. Einu sinni var sumt af því sem þar fór fram ekki talið til falsanna. Þarna voru menn bara að kópíera. Síðar uppgötvuðu óprúttnir náungar að hægt var að plata peninga út úr þeim sem vildu eiga da Vinci, Gainsborough eða jafnvel Kjarval. Þetta er spurning um framboð og eftirspurn. Því fleiri vitleysingar, því betri sala.

Eimskipasaga

eimskip_1930.jpg Ljósm. höfundur.

Saga Eimskipafélags Íslands eftir Guðmund Magnússon kom aftur út í gær. Guðmundur, sem nú er aftur orðinn blaðamaður á Morgunblaðinu, var eitt sinn Þjóðminjavörður Íslands, og var einn af þeim betri í því starfi. Þessa grein, sem tengist Eimskipafélaginu og mörgum örðum skipafélögum, birti ég fyrst árið 2008, en birti hana hér aftur með afmæliskveðjum til skipafélagsins sem flutti bróðurpartinn af því sem faðir minn flutti til landsins meðan hann var heildsali um 35 ára skeið.

Ég man eftir ófáum ferðum mínum með föður mínum í Eimskipafélagshúsið, þar sem við fórum með gömlu lyftunni upp á stóra skrifstofu, þar sem faðir minn fékk pappíra sem voru stimplaðir og svo var farið í bankann og upp í Arnarhvál til að fá aðra stimpla og stundum líka á Tollpóststofuna til að fá enn fleiri stimpla. Svo var náð í vörur og ók Hallgrímur nokkur frá Sendibílastöðinni Þröstum fyrir föður minn. Hallgrímur var frændi Ólafs Ragnars Grímssonar. Hallgrímur keðjureykti London Docks vindlinga, sem ég "reykti" glaður óbeint þegar ég fékk að hjálpa til við að aka út vörum í verslanir. Í Eimskipafélagshúsinu fór ég líka stundum til rakarans sem þar var.

Ekki er ég viss um að Guðmundur Magnússon hafi þessa sögu frá 1940 með í bók sinni, þó hún varði lítillega Eimskipafélagið:

 

5. febrúar árið 1940 fór Valerie Neumann, 65 ára (f. 13.10. 1874) kona í Vín Austurríki, í sendiráð Dana í Vín og sótti um 14 daga landvistarleyfi í Danmörku, til þess að bíða þar eftir skipi til Íslands. Erindi hennar var sent til útlendingadeildar Ríkislögreglunnar í Kaupmannahöfn, sem hafði samband við skipafélög sem sigldu á Ísland.

Danska skipafélagið DFDS upplýsti, að ekki yrði siglt í bráð til Íslands, þar sem hætta væri á því að skip félagsins yrðu tekin af Bretum og færð til hafnar á Bretlandseyjum, sérstaklega ef "þýskir þegnar" væru um borð.  Danska lögreglan fór annars með umsókn Valerie Neumann sem umsókn gyðings og færði hana inn í skýrslur sem Valeire Sara Neumann. Lögreglan gerði DFDS það ljóst að Valerie Neumann væri gyðingur frá Austurríki. Þýsk yfirvöld kröfðust þess að gyðingakonur bæru millinafnið Sara í skilríkjum sínum og karlar millinafnið Israel. Hún var líka afgreidd sem Valerie Sara Neumann í Danmörku.

Eimskipafélagið hf upplýsti, þegar mál Valerie Söru Neumann var borið undir það, að maður myndi gjarnan taka þýska ríkisborgara með á skipum sínum, ef þeir hefðu meðferðis vottorð frá breskum yfirvöldum. Eimskipafélagið vissi hins vegar vel að þýsk yfirvöld gáfu ekki út nein slík vottorð.

Danski lögreglufulltrúinn H. Krause, sem var nasisti og gyðingahatari, skrifaði í skýrslu sína um Valerie Neumann: "Það kom fram í máli félagsins að maður vildi helst vera laus við farþega sem kynnu að valda vandamálum eða seinkunum fyrir skipið".

Norðmenn neituðu líka Valerie Neumann um leyfi til að bíða eftir skipi til Íslands í Bergen.

 

d_billeder_the_wonderland_of_contrasts.jpg
"The Wonderland of Contrasts 1937": Ekkert er nýtt undir sólinni. Ljósmynd Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson. Myndin efst er einnig tekin af Vilhjálmi.
 

Nokkrum mánuðum síðar, eftir að Valerie Neumann ítrekaði umsókn sína og einnig fjölskylda hennar á Íslandi, maður systudóttur hennar Viktor Ernst Johanns von Urbantschitsch (Urbancic) sem var búinn að kaupa handa henni farmiða, var aftur haft samband við Eimskipafélag Íslands í Kaupmannahöfn. (Í skjölum danska sendiráðsins í Reykjavík og danska utanríkisráðuneytins var Viktor sagður systusonur Valerie, en hið rétt er að Valerie var systir Alfreds Grünbaum föður Melittu Urbancic, konu Viktors).

Eimskipafélagið upplýsti þann 5. apríl 1940 að það hefði verið svo mikið "Vrøvl" og erfiðleikar með bresk yfirvöld, svo það væri ekki hægt að leyfa frú Neumann að sigla, nema að hún fengi bresk vottorð og gildandi íslenskt landgönguleyfi. Í lögregluskrýrslu Ríkislögreglunnar dönsku kemur þetta fram

"Islands Eimskipafjelag, Strandgade 35, forkl. at man ikke har noget egentligt Forbud mod at medtage en saaden Passager, selv om man for saa vidt helst er fri, da det ved et Par enkelte tidligere Lejligheder har vist sig, at man faar en del "Vrøvl go Ubehageligheder med de engelsek Kontrebandemyndigheder", ja endog kan risikere af samme Grund at blive ført til engelsk Kontrolhavn. - Man vil kun medtage den. pgl., hvis hun forinden har en officiel britisk Attest, som sikrer hende "frit Lejde", og naturligvis mod gyldigt islandsk Indrejsevisum." 

Skrifstofa félagsins í Kaupmannahöfn upplýsti að siglt yrði þann 10. apríl og svo aftur 1. maí. Embættismaður við Ríkislögregluembættið, Troels Hoff, ákvað hins vegar sama dag, að Valerie Neumann fengi ekki leyfi til að dvelja í Danmörku.

Fjórum dögum síðar buðu Danir, svo að segja án nokkurrar mótspyrnu, þýsku herraþjóðina velkomna. Og já, ekki má gleyma því að Þjóðverjar, sem Íslendingar báru svo mikla virðingu fyrir, tóku Gullfoss traustataki í Kaupmannahöfn.

Valerie Neumann sat áfram í Vín og fjölskyldan á Íslandi var rukkuð um 31 íslenskar krónur fyrir símskeytakostnaði í bréfi dags. 28. nóvember 1940. Áður hafði danska forsætisráðuneytið minnt á þessa skuld í bréfi til Sendifulltrúa Íslands í Kaupmannahöfn.

Danir fengu peningana sína, eins og alltaf, og Eimskip losnaði við vandræði. Nasistar fengu Gullfoss og var skorsteinsmerki skipsins þeim líkast til að skapi.

Valerie Neumann var send í fangabúðirnar í Theresienstadt 21. eða 22. júlí 1942. Andlát hennar var skráð 9. ágúst 1944. Hvort hún hefur dáið þann dag eða verið send í útrýmingarbúðir, er óvíst.

Skömmu áður en Valerie andaðist höfðu nasistar búið til áróðurskvikmynd um ágæti þessara fangabúða í fyrir utan Prag. Í kvikmyndinni sést fólk í sparifötunum við ýmsa iðju. Flestir þeir sem þarna sjást voru sendir til útrýmingarbúðanna Auschwitz og Sobibor að loknum myndatökunum, m.a. kvikmyndagerðamaðurinn. Kvikmyndin sýnir gyðinga frá Austurríki, Hollandi, Danmörku, Austurríki og Tékkóslóvakíu.

Hér og hér eru tvö skeið úr áróðurskvikmyndinni frá Theresienstadt.

urbancic.jpg

Viktor Urbancic, kona hans Melitta (f. Grünbaum) og fjölskylda í Reykjavík. Á flótta undan hakakrossinum varð annar slíkur, íslenskur, á vegi þeirra. Hefði Eimskipafélagið og aðrir aðilar verið sveigjanlegri, hefði frú Valerie Neumann, móðursystir Melittu, hugsanlega verið með þeim á myndinni. Móðir Melittu, Ilma, andaðist í Theresienstadt í janúar 1943.


Hin fagra framtíð

ljosaskilti_ari_1837.jpg
coollogo_com-233162008.gif
Árið 1837 eða 1838 las einn langalangafi minn um rafmagnaðan heim framtíðarinnar.  Í uppfræðandi ársriti fyrir upplýstan almúgann, Nederlandsch Magazijn sem gefið var út í Amsterdam, mátti það ár lesa um unaðssemdir framtíðarinnar með rafmagni og raflýsingu og þá möguleika sem rafstraumur átti eftir að gefa mönnum.
flikkerglas.jpg
 

Meðal þess sem menn dreymdi um var ljósapera, nánar tiltekið ljósrör (flikkerlicht), þar sem menn ímynduðu sér að lýsing skapaðist ef straumur yrði leiddur gegnum tinþráð. Rafmagnið ímynduðu menn sér að kæmi fyrst og fremst úr batteríum, svokölluðum Leydenflöskum.  Menn trúðu því, að ef þær væru margar settar saman væri til frambúðar von um að hægt væri að nota strauminn til lýsingar.

leydse_fles.jpg
 
Leydenflöskubatterí

Einnig gat karlinn lesið um unaðssemdir glerplötu sem á hafði verið sett tinþynna. Í þynnuna átti að skera út bókstafi með vasahníf! og svo leiða í gegnum þynnuna straum svo bókstafirnir lýstu með flöktandi ljósi (flikkerend licht).

Dreymdi menn þarna um fyrstu ljósaskiltin, fyrstu skjáina eða IPad ?

Langalangafi hefur vart trúað þessu rugli og tautað einhverja teutónísku með hrákahljóði í skeggið. Hann kveikti aldrei á perunni, svo mikið er víst. En nú eru þessi framtíðarsýn samtíðarmanna hans fornleifar einar og löngu kulnaðir draumar um bjarta framtíð.

nederlandsch_magazijn.jpg

Ice and fire

iceland_eldspytur.jpg

Fornleifafræðingar með söfnunaráráttu eru fáir til, og það er illa séð að fólk í þeirri stétt sé að koma sér upp einkasöfnum. Ef þeir nenna að safna fram yfir það sem þeir grafa upp, er það venjulega allt annars eðlis en jarðfundnir gripir.

Sjálfur er ég ekki haldinn söfnunaráráttu, en hef þó haft ákveðna gleði af að safna hlutum sem ég tel skemmtilega, einkennilega og sem t.d. tengjast Íslandi á einn eða annan hátt. 

Ég hef í nokkur ár safnað öllu sem ég finn um veitingastaðinn Iceland á Broadway í New York (sjá hér). Ég þekki það vel til þess staðar, þó ég hafi aldrei komið þar, að ég sé strax þegar vankunnugir viðvaningar telja auðtrúa fólki í trú um þeir viti allt um þennan sögufræga stað. 

iceland_matches.jpg

Nýlega keypti ég á eBay eldspýtnabréf sem forðum varð deilt út á Iceland á Broadway, og er ég nokkuð stoltur af þeim kaupum og deili hér með ykkur myndum. Þessa eldspýtur eru frá því á fyrri hluta 5. áratugarins. Eins og þið sjáið var íslenska "smörgásborðið" mjög rómað. Barinn var líka vel þekktur. 

iceland_matches_2_litil.jpg

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband