Alein á Spáni með son sinn eingetinn
10.5.2020 | 17:27
Fyrr á öldum trúðu Íslendingar og aðrar þjóðir óbilað á mátt líkneskja, eða mátt bæna manna við helgimyndir. Það var aftur í pápísku þegar primus ius noctis olli því að flestir Íslendingar í dag eru komnir undan sömu greðjuprestunum - jafnvel bandóðum munkum sem héldu drykkju- og kynsvallveislur (orgiae carnis) í moldarklaustrunum íslensku. Horfið í spegil og sjáið helgisvipinn því til jarteikna að þið séuð afkomendur slíkra heiðursmanna.
Þekkt var fyrrum, aftur í pápísku, að fólk teldi sig læknað af alls kyns kvillum eftir innilegar bænir við ákveðin líkneski eða helga gripi. Það þótti jafnvel heppilegra til árangurs en að grafa upp hvannarrætur sem menn trúðu að hefðu lækningarmátt. Sumir menn með auðtrúargenin trúa því enn að sér-íslenskar rætur og grös geti jafnvel hnésett veirur frá Kína.
Dýrlingar í skápum (tabernacula)
Ekki var óalgengt í kaþólsku sið, að bílæti af dýrlingum væru höfð í litlum skápum sem stóðu á stalli eða héngu á veggjum til hliðar við altari, eða við langveggi kirkjuskips í stærri kirkjum. Í máldögum var greint frá helgimyndum í húsum eða í hurðum. Reyndar er sú venja ekki horfin í kaþólskum löndum eins og flestir vita. Slíkar myndir voru og eru úti í framandi löndum kallaðar Tabernacles*.
* Tabernacula mega menn ekki rugla saman við tjaldmusteri gyðinga (sem á hebresku var kalla Mishkan, sem orðrétt þýðir dvalastaður). Tjaldið (mishkan) var notað fyrir helgihald á flóttanum frá Egyptalandi. Á latínu var það þýtt með með orðinu tabernaculum (sem orðrétt þýðir lítill kofi á latínu) en latínuþýðingin var léleg þýðing á grísku þýðingunni á orðinu Mishkan í biblíu gyðinga (Tanach), sem var orðið skete, sem þýðir tjald. Frumtexti bóka Gamla testamentisins og jafnvel grískan í fyrstu þýðingum á þeim hefur oft vafist fyrir kristnum þýðendum eins og kunnugt er.
Þegar heilagra manna myndir voru geymdar í skápum (lat. plur. tabernacula) var einnig auðvelt að flytja dýrðlingana til innan kirkju eða fara með þá út í vorgrænkuna í prósessíur. Sumar slíkar myndir stóðu oft utan kirkju í veðursælli löndum en Íslandi. Þær dýrlingamyndir, sem venjulega komu ekki mikið út úr skápnum, voru ein bestu hjálpartækin í vonleysi og volæði fyrri alda, fyrir utan hvalreka og fyrrnefnd lækningagrös.
Ein margra helgimynda sem vafalaust bjargaði Íslendingum andlega gegnum pestir, bólur og aðrar kreppur hafnaði Kóngsins Kaupmannahöfn, og það örugglega í skiptum fyrir brennivínsflösku eða tóbak árið 1859. Hún var send með haustskipi til Kaupmannahafnar. Það var Maríumynd í skáp sem kom úr kirkjunni í Múla (Múlastað) í Aðaldal. Kirkjan þar var lögð af um 1890. Maríumyndin mun að öllum líkindum vera frá síðari hluta 13. aldar eða byrjun þeirar 14.
Hvað segja máldagar um líkneskið í Múla
Í máldögum Ólafs biskups Rögnvaldssonar á Hólum frá 1461 er fyrst meðal innanstokksmuna kirkjunnar nefnt: Þetta jnnan kirkiu; Mariulíkneski með einu gullnistu...
Í eldri máldagaskrá við Vísitasíugerð Jóns biskups Vilhjálmssonar árið 1429 er líkneskið í Maríukirkjunni í Múla hins vegar ekki nefnt frekar en flestir aðrir helgir gripir kirkjunnar.
Í elsta máldagaskrá í Hólabiskupsdæmi, Auðunarmáldaga er nefnt Mariu skript., sem hugsanlega gæti verið María sú sem nú húkir einmana á spænsku safni í Barcelona, en viss getum við ekki verið þar sem ekki er talað um líkneskju j hurðum eða j husi.
Eftir að líkneskið var selt úr landi hefur María með Jesúsbarnið frá Múla síðan hangið í Kaupmannahöfn, en reyndar lengst af í geymslu danska þjóðminjasafnsins, Nationalmuseet, og gengið undir heitinu Alterskab, Island - Mule (inv. nr. 19014, DM & R).
Það síðastnefnda, að Danir þrjóskist enn í vankunnáttu sinni og fyrirlitningu á íslenskri tungu og kalli Múla Mule, sýnir hve mikið út í hött það er, að íslensk handrit og önnur menningarverðmæti séu yfirletti enn varðveitt og að íslenskukennsla sé stunduð á háskólastigi í landinu flata - enda er fyrir því enginn áhugi hjá yfirvöldum né námsmönnum. Danir hafa sannast sagna afar takmarkaðan sem engan áhuga á sögu Íslands og halda þeir almennt að þeir séu orðnir málsmetandi þjóð í Hansaríkinu ESB. Þegar íslenskar fornbókmenntir eru gefnar út á nýdönsku á okkar tímum eru þýðendur ofuruppteknir af að nota kjánalegt götumál frá Norðurbrú nútímans til þýðinga á þjóðararfi Íslendinga. Ýmislegt hefur samt farið betur en í eldri þýðingum, en stundum rennur nálin út af plötunni; dæmi: Það sem áður var kallað fragmenter (brot) á dönsku, samanber brot af handritum af ákveðinni sögu, er nú kallað "totter" - tøv venligst en tot!
Nú er María frá Mule komin til Spánar
Maríuskápurinn frá Múla er 140-145 sm háar og 52 sm að breidd. Það er talið vera frá 1250 eða síðari hluta 13. aldar, þó mögulegt sé að myndin gæti einnig hafa orðið til eftir 1300.
Nú er María og Jesús frá "Mule" orðin strandaglópar á Spáni. Danir lánuðu líkneskið út á helgigripasýningu til Hollands á sýninguna North & South á Museum Catharijne Convent i Utrecht (haldin 25. október 2019 til og með 26. janúar 2020. Þá fór sýningin að mestu til Museu Episcopal de Vic/Barcelona á Spáni (sjá hér og hér myndstubbur um sýninguna). Þar lokaði sýning, sem ber heitið «Nord & Sud. Art medieval de Noruega i Catalunya 1100-1350» nokkrum dögum eftir að hún opnaði - vegna bölvaðs Kórónufaraldursins. María og Jesús frá Múla dvelja nú á Spáni án þess að fólkið þar, sem á þau trúir, geti reynt lækningarmátt þeirra.
Væri nú ekki tilvalið að biðja um Maríu og einkason hennar aftur til Íslands eftir að Covið er um garð gengið - að bjarga henni heim með fyrsta flugi til Íslands. Danir geta ekki einu sinni stafað nafn kirkjunnar þar sem hún lifði af tískusveiflur heimsins í margar aldir.
Bakhlið altarisskápsins frá Múla
Fáum Maríu heim
Fyrir um 20 árum síðan í kjölfar greinar í Lesbók Morgunblaðsins eftir fyrrv. settan þjóðminjavörð Guðmund Magnússon, heyrðust raddir um að Ísland ætti að fara fram á að fá gripi frá Íslandi sem enn eru í danska Þjóðminjasafninu. Talsmenn þjóðminjasafnsins danska töldu í viðtölum við íslenska fjölmiðla slíkar óskir frá Íslandi vera einhverja "politik" á Íslandi. Það var bara kjaftæði og útúrsnúningur og jafnvel dónaskapur. Heyrt hef ég að núverandi þjóðminjavörður á Íslandi hafi í selskaplegheitum og upp á eigin reikning fallið frá öllum frekari kröfum um heimsnúning gripa úr danska Þjóðminjasafninu. Ef það er rétt er það vitaskuld hið versta mál fyrir íslensku þjóðina.
Nú vill svo til að Norðmenn hafa lengi vel talið þetta líkneski úr Múla vera norskt með stóru N-i. Þjóðararfur Noregs er greinilega svo lítilfjörlegur, að þeir þurfa að eigna sér annan hvern grip á Íslandi og jafnvel víðar. Heimfærsla Múla-Maríu til Noregs er þó allsendis á huldu, þó svo að líkneskið sé skorið úr furu. Líklegra er einnig að líkneskið sé úr Norður-Þýskalandi eða Niðurlöndum.
Nógu slæmt er að Norðmenn vilji eiga allan heiminn. Nú vill svo til að Spánverjar sjá spænskan svip og segja Maríu í skápnum svipa til líkneskis í Aran-dalnum í vestanverðri Katalóníu. Líkneski það var nýlega "enduruppgötvað" og telja menn á Spáni það eiga einhverja taugar í líkneski frá 13. öld á Íslandi. Fyrir nokkrum árum síðan skrifaði listfræðingur í Noregi, Elisabeth Andersen að nafni, áhugaverða grein um skápsdýrlinga í Evrópu, Madonna Tabernacles in Scandinavia ca. 1150- ca.1350 Ýmislegt nýtt kom fram í henni um skápsdýrlinga í Norður-Evrópu, þó ekki væri nein heimfærsla líkneskja í skápum til afdals í Katalóníu. Gott hefði verið ef spænsku listfræðingarnir sem úttalað hafa sig um Maríumyndina frá Múla hefðu í það minnsta lesið greinina norsku. Farandsýningar eru ekki til mikils ef sérfræðingarnir eru heimalningar í fræðunum.
Vissulega er María í Aðaldal ekki bláeyg, en líkneskið er kríttað, og málað andlit hennar minnir mjög á Maríur í Suður-Evrópu. En ekki er einu sinni víst að við sjáum upphaflega lag málningar á andlitinu, því greinilega hefur verið málað yfir upphaflega andlitið á einhverju stigi, t.d. þegar vængjaðir englar (kerúbar, eins og þeir heita í lauslegri íslenskri þýðingu Gamla testamentisins, voru málaðir í svipuðum lit á hurðarblöðin á síðari hluta 17. aldar eða fyrst á þeirri 18. Sá sem það gerði hefur kunnað og lesið biblíuna sína betur en listfræðingar síðari tíma.
Því má bæta við, fyrir þá sem nú orðið nenna að lesa og fræðast, að mikil kerúbamergð hefur verið í Múla. Án mjög haldbærra raka hafa vindskeiðin frá Múla verið eignuð Þórarni myndskera Einarssyni, nú síðast í annars ágætri bók Þóru Kristjánsdóttur, Mynd á Þili (2005).
Á vindskeiðum kirkjunnar í Múla, sem nú eru varðveitt í Þjóðminjasafni Íslands má sjá útskornar myndir af kerúbum (réttara sagt englum sem kallaði voru Ofanim á hebresku) sem eru frá sama tíma og kerúbinn sem málaður var á hurð líkneskjuskápsins. Íslenskir listfræðingar hafa rembst við að skýra myndmálið á vindskeiðunum frá Múla, en ekki tekist - meira um það í næstu færslu - með lausn myndmálsins. Pattaralegir kerúbar sem blása framan í mann, eins og sá á skápshurðinni, voru algengir í skreytilist 17. aldar.
Stundum er eins og listfræðingar uppgötvi sannleikann upp á nýtt með sérhverri nýrri kynslóð af slíkum fræðingum. Skáplíkneskið frá Múla er vitanlega heldur ekkert ósvipuð Maríumyndum frá sama tíma, sem varðveist hafa í Niðurlöndum og í Norður-Þýskalandi. Straumar listanna og tíska barst sannarlega oftast úr suðri en fóru sér hægar en þeir gera í dag. Eitthvað sem var í tísku árið 1200 á Spáni eða Ítalíu var það ekki fyrr en um 1250 í Noregi. Stundum bárust straumarnir í hina áttina, t.d. frá Niðurlöndum til Spánar.
- Það sem í mínum huga er áhugaverðast við Maríumyndina frá Múla í Aðaldal, er að María og Jesúbarnið sem voru í kirkjunni í Múla fram til 1859, eru greinilega skorin eru út úr sama boltrénu. Myndin af þeim hefur ugglaus ekki tilheyrt skápnum sem hún er í nú.
- Skápurinn, tabernaklið, er í sannleika sagt hin mesta hrákasmíð miðað við handverkið á sjálfu líkneskinu. Stílfræðilega þykir mér líklegt að líkneskið hafi verið keypt frá Niðurlöndum og skápur síðan smíðaður utan um það í Noregi eða á Íslandi. Máldagar kirkjunnar á Múlastað í Aðaldal fram til 1461, nefna engan skáp. Strangt til tekið þarf það ekki að þýða, að skápurinn hafi ekki verið til staðar.
- Einnig er enn og aftur ljóst að útskornar helgimyndir hafa við svo kallaða siðbót á Íslandi ekki verið settar á bálið eins og pápísk skurðgoð voru í öðrum löndum. Þau voru notuð áfram til kristnihalds fátækra bænda í litlum torfkirkjum landsins. Menn hafa t.d. á 17 öld eða jafnvel á þeirri 18. málað lítinn kerúbaengil á þverspýtu á hurðarblaðinu næst líkneskinu til vinstri, þegar skápurinn var farinn að láta á sjá.
- Í fjórða lagi tel ég algjörlega öruggt að útskornar myndir af dýrlingum sem sumir listfræðingar, t.d. Ellen Marie Mageroy (sjá hér), halda að hafi hangið á hurðunum að innanverðu, sé ímyndun ein. Ekkert bendir til að styttur hafi staðið eða hangið innan á hurðum skapsins. Hvorki finnast göt eða tappar eftir festingar á hurðarblaðinu, né á þunnum syllum á henni sem bent geta til þess að útskornar myndir hafi verið festar þar. Miklu frekar má ætla að á hurðarblöðin hafi aðeins verið málaðar dýrlingamyndir. Þær hafa allar að mestu verið afmáðar og ljóst er að sú þróun hefur haldið áfram í Þjóðminjasafni Dana. Ef borin er saman mynd af líkneskinu frá 1962 og nýjar myndir er greinilegt að leifar málningar á dyrablöðum og á líkneskinu hafa flagnað töluvert af á þeim 58 árum sem liðin eru á milli ljósmyndanna. Já, það er enn frekari ástæða til að fá arf fyrri alda aftur heim til Íslands.
Fáum nú Maríu heim frá Danmörku, og förum fram á það. Hún á hvorki heima þar sem menn halda því fram í algjöru áhugaleysi, að hún sé frá "Mule", né í einsemd á Spáni, þangað sem hún var lánuð út og þótt pestin haldi henni þar um sinn.
Kannski væri vit í að krefjast hennar með undirskriftarlista?
Allar ljósmyndir í þessari grein eru opið myndefni af vef Nationalmuseet í Kaupmannahöfn.
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson er höfundur greina á blogginu Fornleifi. Greinið frá höfundi og setjið hlekk í þessar og aðrar greinar á Fornleifi, ef vitnað er í það sem ég hef ritað. Annað er víst þjófnaður.
Meginflokkur: Forngripir | Aukaflokkur: Kirkjugripir | Breytt 11.5.2020 kl. 06:01 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.