Skotið yfir markið á Skriðuklaustri

oddur 3 

Mér sýnist að Steinunni Kristjánsdóttur fornleifafræðingi hafi enn einu sinni brugðist bogalistin. Staðhæfingagleði og ímyndunarafl hennar í fjölmiðlum hefur á undanförnum árum verið mjög frjótt og alltaf vakið þó nokkra athygli innan fræðigreinarinnar. En margt af því sem hún hefur greint frá í fjölmiðlum, þegar það var vertíð á fornleifarannsóknir í gúrkutíð fjölmiðlanna á sumrin, hefur þó alls ekki reynst á rökum reist þegar betur var að gáð.

Fyrir nokkrum árum hélt Steinunn Kristjánsdóttir því fram, að fundist hefðu bein tveggja grænlenskra kvenna, (inúíta), sem hefðu verið í meðferð á Skriðuklaustri. En á Skriðu var spítali eins og oft tíðkaðist í sumum klaustrum á miðöldum og síðar. Úr því dómadagsrugli spunnust alls kyns vangaveltur og ævintýri. Erlendur nemi í mannfræði, sem greinilega var ekki með nóga reynslu, greindi beinin svona glannalega og stjórnandi uppgraftarins gleypti það hrátt. Þekktur, danskur mannfræðingur sem ég benti á frétt Sjónvarps um beinin, gat út frá myndunum einum í henni haldið því fram við mig, að þau væru örugglega ekki af grænlendingum (ínúítum). Síðan hefur heyrst lítið til systranna frá Kúlusúk, sem um tíma var talið að hefðu geispað golunni á annálaðri klíník austur á landi. Ekki fór eins mikið fyrir leiðréttingum í fjölmiðlum eins og fyrir stórfréttum um Grænlendingana.

Í fyrra hélt Steinunn því fram, að maður með einkenni "fílamannsins" hefði dáið á Skriðuklaustri. Hún blandaði þar illilega saman tveimur sjúkdómum. Sjá frekar hér.

Holur oddur
Gula örin bendir á holrúm í oddi "oddsins". Slík holrúm er út í hött á örvaroddi fyrir lásboga. Kannski eru menn á Skriðuklaustri á því að áður óþekkt tegund af dum-dum oddum hafi verið fundnir upp á Íslandi.

 

Nú er kominn nýr sumarreifari frá Skriðuklaustri. Greint var frá honum í fréttum Sjónvarps nýlega. Oddur af ör úr lásboga hefur nú fundist þar, að sögn, og sveinar biskups hafa ekki meira né minna verið að skjóta með lásboga á Skriðuklaustri. Þessi vangavelta kemur af því að ungur kandídat frá Svíþjóð segir að amboð sem fannst í rústunum í sumar hafi verið örvaroddur fyrir lásboga frá 16. öld.

Aldrei hef ég séð þessa gerð að lásbogaörvaroddum áður, en tel mig sem sérfræðing í fornleifum miðalda þó nokkuð vel inni í þeim gerðum sem þekkjast á Norðuröndum og Evrópu frá 12. fram á 16. öld til að geta sagt að gripurinn sé ekki örvaroddur. Gripurinn, sem fannst á Skriðuklaustri, er úr bronsi og er það nær óþekkt að lásbogaörvaroddar hafi verið gerðir úr því efni á þeim tíma sem hann hefur verið notaður, því það er einfaldlega of létt fyrir þann kraft sem boginn býður upp á. Svo er „oddurinn" ekki steyptur. Hann er holur að innan (sjá mynd) og ójafn, og virðist vera úr rúllaðri samanhamraðri málmþynnu (sjá mynd hér neðar). Ef þetta væri lásbogaoddur væri vart líklegt að hann hæfði marks og heldur ekki með ör úr viði sem var með ferhyrnt  þversnið og hvöss horn, eins og viðarbúturinn í kopargripnum bendir til.  Slík ör leikur alls ekki að stjórn.

Oddur 2

Hér sést hin hlið "oddsins" og er greinilega ekki um steyptan grip að ræða. Oddurinn er holur. Ljósmyndin efst er af heimasíðu Skriðuklausturs, og sýnir hún gjörla að oddurinn er holur að innan (dum dum oddur?) og að "örin" er ferstrend.

 

Á Austurglugganum, agl.is, er greint svo frá:

"Steinunn telur nær öruggt að vopnið sé ættað frá sveinum Skálholtsbiskups frekar en bræðrunum á Klaustri.

„ Veraldlegir höfðingjar og biskupar áttu vopnabúr og voru með verði, sem kölluðust sveinar. Það eru til heimildis um bardaga á þessum tíma sem þeir lentu í. Það er ekki vitað til þess að klaustrin hafi sérstaklega átt vopnabúr og það er ekkert sem bendir til þess að slíkt búr hafi verið hér eða bræðurnir átt vopn. Líklega hafa biskupssveinarnir komið hingað og tapað vopnum sínum með einhverjum hætti en það eru heimildir um að Skálholtsbiskups hafi oft verið hér á ferð.""

Svei mér er ég hræddur um að sveinum biskups sé kennt um of mikið á Skriðuklaustri og séu allir saklausir af þessum skörungi. Sveinn var reyndar orð sem notað var í þessu samhengi fyrir þjóna biskups og var bein þýðing orðinu puer, (ft.-i  á latínu, sem eiginlega þýðir drengur eða sveinn, og hefur það orð alltaf verið notað um þjóna heldri manna), sem ég tel líklega hafi verið amboð til að ota í eitthvað annað en andstæðinga sína. Kannski hefur þetta verið bakklóra ábóta? En þessi gripur getur ekki með neinu góðu móti talist vera vopn.

435px-Martyrium_of_Saint_Sebastian__Pic_03 
Hettir þú einhvern á Skriðu, Oddur?
Jhaaaaá, Svein.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Merkilegt finnst mér einnig það ályktanahrap að fyrst "örvaroddur" finnst á einhverjum stað þá hljóti það að benda til þess að "lásbogi" hafi verið í eigu staðarhaldara. Ég hélt að örvum væi skotið út í loftið en boginn fylgdi tæpast.

Ekki nóg með það, heldur er ályktað í framhaldi hverjir ættu bogann sem örinni var skotið af og hvernig hann hafi komist í eigu þeirra.

Hvet þau til að fantasera videre. Úr því gæti orðið frábært ævintýri. 

Hollow point kúlur eru þekktar nú til dags í rifflum og eru þær hannaðar til að valda sem mestum skemmdum. Skilja eftir hnefastórt gat á útgöngunni ef skotið er í mann t.d.  Ætli þeir hafi verið að pæla í því þarna á hinu stór-húrrandi-merkilega Skriðuklaustri?  

Jón Steinar Ragnarsson, 18.9.2011 kl. 13:39

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég ætla að voga mér að álykta að hér sé um einhverskonar glingur til helgihalds að ræða. Nú eða eitthvað lækningaáhald. Menn voru jú soldið að taka mönnum blóð og svona og stinga á kýlum; Troða arseniki, kvikasilfri og kúadellu í sár, eins og snilld pápískrar læknisfræði bauð.

Jón Steinar Ragnarsson, 18.9.2011 kl. 13:47

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Timbrið á endanum er formað en ekki brotið að mér sýnist, svo líklega á það sér samsvarandi gat í öðru. (spons). Þetta er hluti úr einhverju stærra stykki.

Jón Steinar Ragnarsson, 18.9.2011 kl. 13:52

4 Smámynd: FORNLEIFUR

Jón Steinar, þú er tilvalinn bloggvinur Fornleifs, forn í fari en nýjungagjarn í háttum.

Ég tel að það verði erfitt að ganga úr skugga úr því hvað þessi gripur var notaður í, en tilgátur þínar eru ekki verri en aðrar fantasíur.

Gaman væri að fá sannreyndar allar þessar hugdettur frá Skriðurannsóknum á t.d. Myth Busters.

Hvað þykir þér um landnámið í Færeyjum. Kannski ætti ég að spyrja Jens Guð?

FORNLEIFUR, 18.9.2011 kl. 14:00

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Á eftir að kíkja á þá grein.  Annars datt mér í hug að þetta tilheyri apparati til að gata leður fyrir saum, svona ef þú vilt jarðbundnari tillögu. Þetta gæti svosem líka verið hlutur úr læsingu, af skríni eða einhverjum trúarlegum skúlptúr.

Jón Steinar Ragnarsson, 18.9.2011 kl. 14:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband