Sígaunarnir á Seyðisfirði

Juli---BB-2-177

Árið 2017 birti Þjóðminjasafnið á heimasíðu sinni  bráðskemmtilega ljósmynd frá 1912, sem Björn Björnsson (1889-1977) tók. Björn var ungur verslunarmaður á Seyðisfirði sem kynntist ljósmyndun árið 1911.

Myndin var kynnt til sögunnar með titlinum Sígaunatjöldum tjaldað á Seyðisfirði (sjá nánar hér). Reyndar sjást líka þeir sem tjölduðu tjöldunum, sígaunarnir sem við i dag köllum frekar Roma eða Rómafólk

Þjóðminjasafnið upplýsti, að engar ritheimildir væru til um komu sígaunanna til Íslands árið 1912. Það er reyndar ekki alveg rétt. Heimildir um ferðir fjölskyldunnar á myndinni til Íslands eru til í Danmörku.

Á þetta benti fræðimaður við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, Sofiya Zahova, sem ég nefndi hér um daginn (sjá greinina hér á undan).

Zahova krifaði stutta grein um fjölskylduna Dimitri, Demetri eða einnig Demeter, sem kom til Íslands í afmælisriti til heiðurs Auði Hauksdóttur (sjá heimildaskrá neðst), en  Sofiya rannsakaði ekki heimildir í Danmörku.

Ég hafði hafði nýverið samband við þjóðfræðinginn Ditte Goldschmidt, sem er hálfsystir mannfræðings Karen Lisa Salamon, sem ég þekki. Ditte Goldschmidt hefur skriað mjög áhugaverða  bók um bréfaskriftir Roma-fjölskyldna í Danmörku fyrir síðara heimsstríð. Fjalla bókin að miklu leyti um þá fjölskyldu þá sem kom til Íslands. Bókin heitir Udenfor: En rejsende romafamilie. Forlaget Vinduet, København 2006.

Bók Ditte Goldschmidt er hafsjór af fróðleik um fyrstu Kalderash sígaunanna (sígaunar sem fyrst og fremst höfðust við í aldaraðir í Balkan-löndunum, áður en þeir fóru að færa sig um set á 19. öld), sem komu til Danmörku og þá miklu fordóma sem þeim mætti í Danmörku. 

Bókin byggir að stórum hluta á safni kennarans og fræðimannsins Johan Miskow (1862 -1937)sem tók ástfóstri við þetta utangarðsfólk sem landar hans fjölargir hötuðust út af fordómum og hefð, frekar en þekkingu á einstaklingunum.

Danir settu lög til höfuðs sígaunum árið 1875 (sem var hluti af Lov om Tilsynet med Fremmede og Rejsende) sem setti blátt bann við að "tatarar" og aðrir útlendingar, sem stunduðu vinnu án fastrar búsetu, fengju leyfi til koma til eða dvelja í Danmörku.

Dimitre i Rold 2

Ruva og Babi Demitri og barn þeirra í Rold-skógi árið ca. 1910. Aalborg Stadsarkiv, B41481.

Fjölskyldan Demetri kom frá Íslandi árið 1911

Vorið 1911 kom sígaunafjölskyldan Demitri frá Íslandi til Danmörku. Á Íslandi er sagt að hún hafi selt og keypt hross. Reyndar hafði fjölskyldan ekki ókunn í Danmörku, því henni var vísað úr landi árið 1909, er hún hélt sig við bæinn Randers á Austur-Jótlandi.

Vorið 1911, þegar Demitris koma frá Íslandi halda þau sig á markaðssvæðinu Halvrimmen nærri Brovst á Norður-Jótlandi þar sem hún seldi hesta frá Íslandi. Þar kynnist hinn mjög fordómalausi Johann Miskow fjölskyldunni og brá sér í för með þeim í 14 daga til að kynnast lífi þeirra (í stað þess að stýrast af orðrómi).

Fjölskyldan sest að í bænum Aabybro og kaupir sér hús sem kostaði 2050 kr. og borgar 750 kr. í fyrstu greiðslu.

Um haustið 1911 er fjölskyldan aftur á faraldsfæti samkvæmt Miskow og heldur til Íslands og hefur þar vetursetu, ef rétt er að ljósmyndin af þeim á Íslandi sé frá 1912, líkt og haldið er fram. Demitri fjölskyldan hafði greinlega áhuga á íslensku hrossunum. En önnur ástæða var þó líklegri fyrir því að þau hörfuðu úr landi, og sú var að dönsk yfirvöld hófu strax að reyna að koma fjölskyldunni úr landi. 

Til er bréf til Friðriks 8. Danakonungs, dags. 17/11 1911, sem Rebekka Demeter undirritar og sem Johan Miskow, hjálparhella fjölskyldunnar hefur vafalaust hjálpað henni að rita.

Rebekka var eins konar ættmóðir fjölskyldunnar, en maður hennar andaðist í Randers árið 1909.  ún hefur hugsanlega dvaldist í húsinu í Aabybro veturinn 1911-12, meðan að aðrir fjölskyldumeðlimir fóru til Íslands.

Screenshot 2021-09-24 at 18-25-57 arkiv dk Lærer Miskow sammen med sigøjnere i Aabybro 2

Mynd tekin 1911 eða 1912 i Aabybro. Frá vinstri: Ruva Demetri, systir hans Sofi, og bróðir Wenzel (sitjandi á jörðinni), Rebekka sú með pípuna, móðir þeirra systkina, Bersiko bróðir Ruva  og Margunna kona hans. Dansk Folkemindesamling, bnr 3863, Safn Johans Miskows;  Nationalmuseet neg. 88669.

Bréfið er hér í þýðingu minni:

Til Hans Hátignar

Friðriks hins áttunda, konungs.

Undirrituð, Rebekka Demeter f. Edes, leyfir sér hér með að biðja Hans Hátign um geta haldið áfram að búa hér í landinu, þar sem við höfum nú í vetrarbyrjun fengið skipun um brottflutning frá eign okkar, og við skiljum ekki ástæðuna - Ég hef nú, fyrir utan nokkurra ára hléa, ferðast hingað á hestamarkaði í 22 ár. Eiginmaður minn var hrossakaupmaður, og er hann andaðist fyrir tveimur árum síðan, var hann borinn til grafar í Randers hef ég haldið áfram hestakaupum ásamt uppeldissyni og börnum mínum, en fjögur þeirra eru fædd hér í landi. Ég hef fest kaup á eign í Aabybro, þar sem tekið hefur verið á móti okkur og allir íbúarnir hafa undirritað sig með heimilisfangi okkur til stuðnings. Ég sé mér fært að greiða skatta og synir mínir munu með tímanum verða hermenn. -

Ég er á engan hátt sígaunakona. Faðir minn var Magyari [ungverji] og hét Edes og ég er fædd í Ungaverjalandi - - Ég hef aldregi ferðast með sígaunalest og óska aðeins eftir því að búa áfram í næði með börnum mínum þar sem við erum nú, því hér er gott að vera. Ég er undir yðar vernd sett.

Yðar auðmjúk,

Rebekka Demeter

Aabybro þ. 17/11 - 1911

Rebekka

Rebekka med pípu í munninum

Allt kom fyrir ekkert. Fjölskyldan Demetri var flæmd úr landi árið 1913. Eitt dagblað skrifaði m.a.

"... Ræningjaflokkurinn hefur verið sendur úr landinu, og það ríkir aftur ró. Í Aaby hefur ekki sést neitt til sígaunanna í langan tíma, - ekki gátu þau dvalið lengi í húsi sínu, og það að halda því hreinu og huggulegu lá langt handan sjóndeildarhrings þeirra. Fólkið í Aaby, meira að segja þeir sem á sínum tíma undirrituðu beiðni um að veita ræningjaflokknum leyfi til að búa, munu vart finna fyrir sárum missi; þetta var fólk sem átti ekki við hér í landi og sem aldrei yrði eins og aðrir.

Já, þungur var dómur Danans. En slíka Dani eigum við enn í vandræðum með. Hatrið drífur allar þeirra gerðir. Sams konar hatur sér maður hjá gyðingahöturum og múslímahöturum. 

Fjölskyldan hrökklaðist til Svíþjóðar og varð loks að selja húsið sitt Johanni Miskow. Eftir þann tíma er hægt að fylgjast með fjölskyldunni í Svíþjóð í bréfaskrifum hennar við Miskow. sem i dag eru varðveitt í safni hans í Dansk Folkemindesamling í Konunglegu Bókhlöðunni í Kaupmannahöfn. Bréfin spanna tímabilið 1913-1937. Ég mun glugga betur í þau síðar í mánuðinum.

Íslandsfararnir

Pike Ward photo 2

Mynd Björns Björnssonar af sígaunum við tjald sitt á Seyðisfirði sýnir nokkra fjölskyldumeðlimi Demeter/Demetri fjölskyldunnar: karlmann, þrjár konur og tvær ungar stúlkur. 

Af myndinni efst og annarri ljósmynd (her fyrir framan; myndina sendi mér Sofiya Zahova), sem vafalítið er einnig tekin af Birni Björnssyni, og sem kemur úr safni breska kauphéðinsins Pike Ward, má ætla að mjög sennilegt sér, að karlinn á myndunum sé Ruva Demeter.

IMG_2570 b (2) Ruva var á þeim árum kvæntur Babi. Systkini Ruva var eldri bróðir hans Bersiko, svo yngri bræður tveir, Johan og Wenzel, og systurnar Sofi og Rosa.

Ef menn vilja fræðast um afar flókna ættfræði Demeter fjölskyldunnar og Toikon (Taikon) fjölskyldunnar, sem voru meira eða minna skyldar, skal bent á hina góðu bók Ditte Goldschmidt og rannsóknir sænska þjóðfræðingsins Tillhagens (sjá heimildalista neðst).

Afkomendur og ættingjar fjölskyldannar, sem kom til Íslands í tvígang í byrjun 20. aldar, búa í dag í Svíþjóð og víðar, t.d. í Frakklandi og á Spáni. Svíar reyndust, eins og oft áður, lifa meira eftir boðorðunum tíu en nágrannarnir á flatneskunni, og sumir gera það jafnvel enn.

Þakkir

Kærar þakkir til Sofiyu Zahovu og Ditte Goldschmidt.

Heimildir

Goldschmidt, Ditte. Udenfor: En rejsende romafamilie. Forlaget Vinduet, København 2006.

Idem, Breve fra romaer i Skandinavien før 2. verdenskrig. Journalen, Lokal og kulturhistorisk tidsskrift Nr. 3, december 2006, 11-16. [Ritið Journalen er gefið út af Dansk Lokalhistorik Forening].

Tillhagen, C. -H.: "Gypsy Clans in Sweden", Journal of the Gypsy Lore Society, Third Series, Vol. XXVIII 1949 og Vol XXXIX 1950.

Zahova, Sofiya: The first records of Roma visiting Iceland. Í Magnússon Gísli (Ritstj.): Til Auðar: Afmælisrit til Auðar Hauksdóttur. Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur i erlendum tungumálum, Háskóla Íslands 2020, s. 72-84.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband