Trupulleikarnir á Velbastað

Hringur frá Velbastað
Fornleifafræðin í Færeyjum er ekki eins hástemmd og greinin er á Íslandi. Í Færeyjum eru t.d. ekki 40 fornleifafræðingar á ferkílómetra líkt og á Íslandi. Samt finna frændur vorir, fornfrøðingarnir hjá Tjóðsavninum í Færeyjum, sem áður hét Føroya Fornminnissavn, oft mjög áhugaverðar minjar. Stundum svo áhugaverðar að þær setja alla á gat.

Árið 2016 fannst t.d. á Velbastað (Vébólsstað) á Streymoy (Straumey) einstakur gripur, sem hefur valdið miklum heilabrotum á meðal frænda okkar í fornleifafræðingastéttinni í Færeyjum. Gripurinn sem um ræðir, er forláta hringur úr silfri sem hefur verið logagylltur.  

Þrátt fyrir að færeyskir fornfrøðingar hafi sett sig í samband við sérfræðinga á söfnum í Noregi, Bretlandseyjum (þar með töldu Írlandi)  og víðar (þó ekki á Íslandi), hefur enginn hringasérfræðingur á söfnum þessum getað hjálpað við að leysa gátuna um þennan merka hring. Því því er haldi fram að enginn hringur eins, eða nærri því líkur, hefur fundist í þeim löndum sem leitað hefur verið til. Aldursgreiningin er einnig samkvæmt helstu söfnum enn óviss. Við sama uppgröft fannst einnig silfurmynt, silfur-penny frá tíma Engilsaxakonungsins Eðvarðs hins Eldra í Wessex og mun myntin hafa verið slegin á tímabilinu 910-15.

Hvort hringurinn er eins gamall og myntin, er enginn fræðimannanna sem Tjóðsavnið hefur haft samband við tilbúinn að tjá sig um. Einn þeirra hefur gefið aldursgreininguna 1100-1300, en án nokkurra haldbærra raka. Einn ágætur fornleifafræðingur og fyrrverandi safnstjóri Þjóðminjasafns Írlands, Ragnall O´Floinn, telur hæpið að uppruna hringsins skuli leitað á Bretlandseyjum. Því er höfundur þessarar greinar ekki alveg sammála.

Hér má lesa grein eftir fornleifafræðinginn Helga D. Michelsen hjá Tjóðsavninu sem hann ritaði í tímaritið Frøði (sama og fræði, en borið fram "fröi") og kallar Helgi ágæta grein sína Gátuførur fingurringur

Eins og lesa má er Helgi fornfrøðingur í Færeyjum í miklum vandræðum, eða trupulleikum eins og það er kallað hjá frændum okkar. Trupulleikar er reyndar orð ættað frá Bretlandseyjum, komið af orðinu trouble. Ég held að hringurinn frá Velbastað sé líka þaðan. Það er svo minn "trupulleiki". En nú geri ég grein fyrir skoðun minni á baugnum:

Fornleifur ákveður að hjálpa frændum sínum

Þegar ritstjóri alþjóðadeildar Fornleifs frétti af einum helsta trupulleik Færeyinga á seinni tímum, þ.e. hringnum forláta frá Velbastað, ákvað hann að hjálpa frændum sínum sem urðu sjóveikir á leiðinni til Íslands. Hann notaði um það bil eina klukkustund á netinu og á bókasafni sínu uppi undir þaki. Hér kemur mjög stutt skýrsla um niðurstöður gruflsins:

Þar sem myntin sem fannst á Velbastað er vel aldursgreind og uppruni hennar þekktur, datt Fornleifi fyrst í hug að leita uppruna hringsins á sömu slóðum og myntin er frá.  Færeyjar eru, þrátt fyrir allt jafn langt frá Bretlandseyjum og þær eru frá Íslandi og Noregi.

  Tel ég nú mjög líklegt að hringurinn sé undir mjög sterkum Engilssaxneskum stíláhrifum með áhrifum frá Meróvingískri list í Frakklandi. Lag hringsins frá Velbastað er einnig þekkt á frægum hring með engisaxískum stíl, sem fannst á 18. öld. Einn helsti sérfræðingur Breta í engilsaxneskri list, dr. Leslie Webster, telur vera frá fyrri hluta 9. aldar (sjá hér). Hringurinn, sem hér um ræðir, fannst í Berkeley í Mercíu (Midlands) á Englandi, þar sem er greint frá klausturlífi þegar árið 759 e.Kr.

_48957730_ring

Berkley ring 2  Króna af öðrum hring, sem talinn er örlítið eldri en hringurinn frá Berkeley í Mercíu, er hringur sem fannst í Scrayingham í Reydale i Norður-Jórvíkurskíri (sjá nánar hér,þar sem hægt er að lesa um aðra hringa með sama lagi, sem tímasettir eru til 8. og 9. aldar). Krónan af hringnum frá Scrayingham er sömuleiðis meistaraverk með filigran-verki (víravirki)en  með sama lagi og krónan á hringnum frá Velbastað.

Hringur frá Liverpool

  Líklegt má telja, að hringurinn sem fannst í Berkley í Miðlöndum hafi verið hringur geistlegheitamanns, ábóta eða biskups. Hringurinn er vitaskuld skreyttur með annarri aðferð en hringurinn frá Velbastað, og er gott dæmi um það allra besta í gullsmíðalist á Bretlandseyjum á 9. öld. En lagið á hringnum, eða réttara sagt krónu (höfði) hans, er það sama  Þetta krosslag, sem báðir hringarnir hafa, er hins vegar frekar sjaldgæft en þó samt vel þekkt á fyrri hluta miðalda. Þetta er sams konar kross og maður sér t.d. á gylltum altörum í Danmörku (gyldne altre). Líklegt þykir mér einnig, að hringurinn frá Velbastað hafi verið borinn af kirkjunnar manni. Af hverju hann tapaði honum í Færeyjum er alfarið hans einkamál.

The_Tamdrup_Plates_Detail_1 b

Frontal_Ølst_Church_Randers b
58943119_1_xÉg fann fljótt hringa líka þeim hér til hliðar, sem hafa álíka krossmynd í auga hringsins og Velbastaðarhringurinn, þ.e. vígslukross (hjólkross/Eng. Consecration Cross), eftir mjög stutta leit á veraldarvefnum. Þeir eru vitaskuld alls ekki eins og hringurinn fornfái frá Velbastað, en ef svo má að orði koma, frá næsta bæ.

Ef maður lítur á stóru silfurkúlurnar, eða stílfærðu vínberin beggja vegna hringlaga flatarins með vígslukrossinum á miðju krónu hringsins frá Velbastað, minna silfurkúlurnar mjög á hringa frá Frakklandi frá 6.- 9. öld. Hér eru nokkur dæmi um, hvernig þannig vínberjaklasar (vínberið táknar blóð Krists) voru settir beggja vegna hringkrónunnar, eða þar sem baugurinn mætir krónunni.

Dæmi um Merov hringa

 

cluny-museum-ring-by-thesupermat-wikipedia-commons-800-2x1

Ef trúa má Leslie Webster, helsta sérfræðingi Breta í Engilsaxískri list, varðandi aðra hringa með svipuðu lagi og Velbastaðarhringurinn, er hringurinn að mínu mati líklegast smíðaður á 9. eða  10. öld, þegar engilsaxneskur stíll í gullsmíðalist var enn í miklum blóma. Hringurinn er því að mínu mati frá Bretlandseyjum, en ber einnig áhrif frá hringum á Meginlandi Evrópu, helst frá hringum í Frakklandi, en einnig sjást býsantísk áhrif.  

Ég vona að þetta leysi vandamálið með hringinn frá Velbastað. Reikninginn sendi ég síðar til Tjóðsavnsins í Færeyjum, en Fornleifur er vitaskuld rándýr í allri fræðilegri þjónustu við söfn og örn að senda stofnunum reikninga. 

Góðar stundir og allt í lagi.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 

Ljósmyndin efst birtist í Frøði og er tekin af Finni Justinussen

Version in English (pdf)

Version in English (word docx), please see "Skrár tengdar þessari bloggfærslu" below.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þessi hringur er nú engin völundarsmíð. Frekar groddalegur miðað við önnur sýnishorn þarna. Krossinn ósymmetrískur og flausturslegur, gerður með grófum verkfærum og glákusjón. Maður gæti alveg ályktað að hér sé á ferð klaufaleg og alþýðleg eftirmynd af fágaðri hring. Jafnvel eftir minni. Kannski var hann bara smíðaður í færeyjum fyrir preláta með heimsborgaralanganir.

Virðist sem talsverður munur sé þó á handbragði hringsins og svo krossins í miðju. Svo mikill að maður gæti ályktað að hann sé settur síðar og að miðjan hafi máske verið prýdd öðru tákni eða mynd sem hafi verið slípuð af, nú eða emeleringu sem hafi fallið af.

Bara svona pæling.

Jón Steinar Ragnarsson, 26.8.2018 kl. 20:34

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Má ýmynda sér að þetta sé gripur frá umbreytingarskeiði frá heiðni til kristni.. Vínþrúgur koma við sögu í skartgerð víkinga og þetta mjúka krosslaga form má finna í nælum frá heiðni sem hafa enga tivísun í kristinn kross. Held að það séu til dæmi um slíka endurvinnslu. Heyrði einu sinni sagt að þegar víkingar tóku kristni, þá hafi þeir einfaldlega sett nýjan keng á þórshamarinn og snúið honum á hvolf þannig að hann breyttist í kross. Sel það ekki dýrara en ég keypti.

Allavega finnst mér að þessi gripur geti verið af þessu tagi. Fruntalefur krossinn í auga hringsins seinni tima viðbót.

Jón Steinar Ragnarsson, 26.8.2018 kl. 20:51

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Semsagt hringurinn sjálfur gæti verið miklu eldri en táknið í miðju hans gefur til kynna.

Jón Steinar Ragnarsson, 26.8.2018 kl. 20:54

4 Smámynd: FORNLEIFUR

Alltaf góðar og nytsamar athugasemdir frá þér, Jón. En nú verður þú að hafa í huga, að hringar þeir sem næst koma hringnum á Velbastað í útliti, eru það besta sem gullsmíðatækni bauð upp á þessum tíma. Ég skora á þig örn sem þú ert á www að finna fleiri hringa með sama lagi og þann sem fannst í Færeyjum.

Ég skil vel skoðun þína á grófleika hringsins, en miðað við aldur hans, þykir mér ólíklegt að hann hafi verið gerður í Færeyjum, nema að þar hafi sveitasmiðir keypt tímaritið "The Latest in Anglo-Saxon Jewelery" frá Bretlandseyjum.

Þessi hringur var einfaldlega ekki tísku í þeim héruðum Bretlandseyja eða Noregs, þaðan sem íbúar Færeyja komu frá. Að minnsta kosti hefur aldrei fundist slíkur hringur þar - punktum bast. Fornleifafræðingar komast venjulega að niðurstöðu út frá líklegustu möguleikunum, en ekki öllum möguleikum (OK, flest okkar).

Annar möguleiki er að þetta sé hringur sem borist hefur til eyjanna í silfursjóð, sem t.d. var hluti af ránsfeng frá Bretlandseyjum. Þá skoðun hefði ég vitaskuld átt að viðra í greininni. En þá verðum við að hafa í huga að þessi gerð af hringum hefur aldrei komið fyrir í silfursjóðum frá víkingatíma og hringurinn er líka logagylltur, sem ég tel einnig vera tækni sem hvaða sveitasmiður sem var í Færeyjum hefur ekki kunnað.

Ég tel ekki að krossinn í auga hringsins sé "fruntalegur", AMEN. Menn voru ekki með stækkunargler, þegar þeir skáru mótíf í hringa á þessum tíma - og þess vegna tel ég ólíklegt að krossinn sé seinni umbreyting á hringnum. Þeir kunnu hins vegar að búa til  (berin) með því að setja bráðið silfur í vatn. Mér kunnuglega hefur hefur hvergi í Færeyjum fundist gripur (sem er eins gamall og þessi gripur) með þeirri aðferð við silfursmíðar  og hún var einni óalgeng á Víkingasilfri, sem þeir smíðuðu sjálfir.

Því fer ég ekki ofan af því að ef kirkjunnar maður hafi ekki tapað hringnum í Færeyjum, t.d. á fylleríi eftir að hafa framið primus jus noctis, þá hafi hringnum verið stolið á Bretlandseyjum og hefur hann síðan eftir órannsakanlegum leiðum borist til Færeyja.

Nú er hægt að athuga silfrið (þó ekki mæli ég með því að fenginni reynslu að það sé gert í Kaupmannahöfn (Miðhús, say no more::). Breskir sérfræðingar hafa á stundum, vegna efnasamsetningar silfurs, tjáð sig um uppruna gripa. Hugsanlega væri það hægt í þessu tilviki.

FORNLEIFUR, 27.8.2018 kl. 05:11

5 Smámynd: FORNLEIFUR

Það er gott að fá athugasemd frá glöggsýnum mönnum eins og Jóni Steinari, sem veit lengra en nef hans nær. En hvað þykir kollegum mínum um hringinn. Hvað myndu þeir segja ef þeir fyndu eintak af slíkum hring á Íslandi? Kannski lesa þeir ekki þetta blogg - fá kannski í magann?

FORNLEIFUR, 27.8.2018 kl. 05:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband