1) Ísland vex alltaf í augum Íslendinga

Untitled-TrueColor-01

Stundum þarf að snúa sjónaukum Íslendinga alveg við til að fá sæmilega raunhæfa mynd af íslenskri atburðarrás, og á þann hátt minnka þær hæðir og ofurstærð sem skoðanir, umræða og mat nær oft á Íslandi - og það ósjaldan vegna þjóðernisrembu, naflaskoðunar eða minnimáttarkenndar hjá stórum hluta landsmanna. 

Ég talaði einu sinni við hollenska konu prófessors á Bretlandseyjum, sem stundaði norræn fræði. Hún kvartaði við mig að fyrra bragði yfir Íslendingum sem henni fannst ekki getað talað um neitt annað en sjálfa sig. Hún gladdist þegar ég sagðist vera á sömu skoðun og hún. Henni hafði einu sinni verið boðið í veislu Íslenska sendiráðinu, eða voru það snittur og hanastél. Það var henni "óþolandi", því Íslendingarnir vildu um ekkert annað tala en Ísland og Íslendinga. Það hvarflaði að henni að þetta gæti verið vegna þess að Íslendingar væru ekki enn nógu miklir heimsborgarar, en svo uppgötvaði hún loks að meinið var eintóm sjálfsánægja.

Eru Íslendingar ekki enn orðnir sjálfstætt fólk?

Undarleg rimma fer nú fram í Morgunblaðinu milli Björns Bjarnasonar og Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur. Síðast svaraði Björn á bloggi sínu (sjá hér). En bæði gætu þau grætt töluvert á því að fá sérkennslu í heimildarýni.

Rimma þessi, sem nú fjallar orðið um smáatriði í bók Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur - inn heilaga Halldór Laxness - er erkigott dæmi um þann þjóðarsjúkdóm Íslendinga, þegar þeir sjá sjálfa sig í miðri hringiðu heimsstjórnmálanna, við borð heimsfrægra manna, og jafnvel sleikjandi sig upp við prófessora á kennarastofu í Oxford hér um árið. Annað orð yfir þetta er veruleikafirring. Menn hringsóluðu og bökuðu pönnukökur til að komast í Öryggisráð SÞ og heimsóttu eitt sumar morðingjann Assad á Sýrlandi í þeim tilgangi. Æðið er ekki enn farið af mönnum, því sá sem nú situr í hásæti utanríkisráðuneytisins ætlar víst að leika sama leikinn og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem ætlaði sér að leysa allar deilur fyrir botni Miðjarðarhafs og koma þannig á heimsfriði.

Eiginnöfnin Björk og jafnvel Vigdís, svo og hugtakið Saga eru í raun einu íslensku orðin sem menn láta sig varða úti heimi. Sumir klæmast þó á Eyjafjallajoke´l.

Allir aðrir en Björk og Vigdís eru einungis "heimsfrægir" á Íslandi og Höfði-House er timburkofi í jaðri iðnaðarhverfis, nema í höfði Íslendinga. Þar breyttist heimssagan, ef dæma má út frá skoðun sumra Íslendinga. Höfði var þó aldrei annað en sviðsmynd heimssögunnar og að litlu leyti: Þetta var bara hús þar sem áfangafundur var haldinn í roki og rigningu. En á Ísland varð hvíta húsið að höll friðar. Hvergi nema á Íslandi leikur þetta hús annað eins hlutverk.

Svo, now it´s Laxness again.

laxness desk

Vissulega var Laxness mikill rithöfundur. Hann hlaut fjandakornið Nóbelsverðlaunin.

En þar fyrir utan er þekking umheimsins á þessum manni afar takmörkuð. Dræm sala á bók Halldórs Guðmundssonar um Laxness í Danmörku sýnir það á vissan hátt. 800 bls. doðrantur um íslenskt skáld á 20. öld verður aldrei metsölubók í landi þar sem sumt fólk er enn ólæst og einkum á eigin sögu.

Já, rimma Björns og Ólínu er harla hjákátleg:

Ólína hefur skrifar og gefið út ritgerð sem ber hinn mikla titil Spegill fyrir Skuggabaldur: Atvinnubann og misbeiting valds. Þótt Ólína fari ansi víða í bók sinni, en mest úr einu í annað, þannig að oft úr verði margar hálfkveðnar vísur, er bókin fyrst og fremst pólitísk ádeila frekar en heimildarit, þó að í henni sé að finna heimildaskrá.

Ádeila á Sjálfstæðisflokkinn, sem og aðra fyrirgreiðsluflokka, eiga vitaskuld fullan rétt á sér. Pólitík á Íslandi var lengi því marki brennd að hún var á öllum sviðum hreinræktuð sveitastjórnarpólitík, og var pólitík Sjálfstæðisflokksins engin undantekning á því allt fram á 9. áratug 20. aldar, þar sem flokkurinn var allra flokka lengst við völd og gat komið sínum fyrir og otað sínum tota, sem er hins vegar afar forn íslenskur siður þeirra sem völdin hafa.

Við getum fárast yfir því í dag, nú þegar við erum orðin svo góð og siðmenntuð, en maður þarf að vera sæmilega söguljós til að gera sér ekki grein fyrir því að aðrir flokkar stunduðu einnig sama leik og Íhaldið. Reyndar var það Sjálfstæðisflokkurinn sem braut út af venju og fór á tímabili að ráða alls kyns villinga með hættulegar stjórnmálaskoðanir í stöður, þó þeir væru langt frá því að vera verkfæri flokksins og þaðan að síður starfi sínu vaxnir.

En þegar Ólína svissar yfir Laxnessológíu í kveri sínu verða menn að fara að vara sig. Ólína tínir til tilgátuna um að Laxness hafi verið settur á kaldan klaka af bókaforlaginu sem gefið hafði út bók hans Sjálfstætt Fólk í Bandaríkjunum; og á Bjarni Ben að hafa staðið á bak við að Atómstöðin kæmi ekki út. Þess vegna er Björn Bjarnason væntanlega kominn á vaktina - til að vernda heiður pabba síns, en einnig til að leiðrétta leiðar villur hjá Ólínu.

Ólína dregur fram tvö bréf sem áður hafa verið nefnd af Ingu Dóru Björnsdóttur og af Halldóri Guðmundssyni. Bréfin sýna áhuga Bjarna Bens á því að fá upplýsingar um dollaratekjur Laxness af bókinni til að sýna Íslendingum að þetta sósíalíska skáld stingi undan skatti.

Inga Dóra Björnsdóttir kemst að þeirri makalausu niðurstöðu, að bréf Bjarna og aðgerðir stjórnvalda í BNA hafi valdið því að FBI setti pressu á Alfred A. Knopf forlagið í New York, þannig að það ákvað ekki að birta Atómstöðina í kjölfarið á "metsölubókinni" Independent People. Samkvæmt þessari Gróusagnfræði, sem stenst ekki skoðun, átti J. Edgar Hoover að hafa þrýst á forlagið til þess að úthýsa Laxness og það vegna stjórnmálaskoðana hans.

Í danskri útgáfu Laxness-bókar Halldórs Guðmundssonar, þar sem ég gegndi því merka hlutverki að fá hugmynd að hönnum kápu bókarinn (sjá hér) og sjá um lista yfir ritverk Laxness, kemur greinilega fram, að haft var samband við J. Edgar Hoover.

Þar sem ég á ekki íslenska gerð Laxness-bókar Halldórs Guðmundssonar, leyfi ég mér að hafa eftir honum á dönsku, það sem hann skrifar um bréfaskrifin þar sem Bjarni Ben vildi með hjálp Trimble sendiherra BNA á Íslandi fá upplýsingar um dollarareikninga Laxness í utanríkisráðuneytinu í Washington, svo hægt væri að væna stuðningsmann íslenskra sósíalista um græðgi og skattsvik. Halldór Guðmundsson ritar:

Trimbles overordnede i Washington reagerede med forsigtighed på hans iver, men udenrigsministeriet sendte dog hans anmodning videre til FBI, og i september 1947 skrev dens chef, J. Edgar Hoover, til sine medarbejdere i New York, om man ikke diskret kunne undersøge Knops betalinger til Laxness. Det blev ikke til noget, men State Department skrev til skattemyndighederne om efteråret, og de blev bedt om at undersøge Alfred Knopfs indbetalinger. I november var Trimble blevet temmelig utålmodig, og han skrev i et telegram til USA, at det hastede for den islandske udenrigsminister at få oplysningerne "i lyset af de intensiverede angreb, som Laxness retter mod regeringen for dens USA-venlige kurs og på grund af den mulighed, at det formentlig er Laxness som finansierer Den Patriotiske Forening [skýring Fornleifs: Þjóðvarnarfélagið], som atter har påbegyndt sin virksomhed." Men han fik det svar, at der ikke var blevet overført penge fra Knopf til Laxness i 1946, at man man måtte vente et helt år, før der forelå en opgørelse for 1947, og at der ikke ville blive gjort mere ved sagen foreløbig. Derved blev undersøgelsen foreløbig lagt på hylden.

Síðar, eða í mars 1948 komst William Trimble loks í upplýsingar hjá skattayfirvöldum Vestanhafs sem sýndu að Laxness hefði fengið greiðslu frá Knopf, 24.000 dali, en einnig kom greinilega í ljós að 21.000 dalir af þeirri greiðslu væru enn inni á reikningi Laxness í banka á Manhattan. Laxness hafði því ekki borgað fyrir kommúnistaáróður með fjármagni fyrir útgáfu Sjálfstæðs fólks í Bandaríkjunum eins og Sjálfstæðismenn ímynduðu sér. Og þetta var vel fyrir daga ásakana um Rússagull.

Laxness greiddi líka skatta

Í maí 1946 sendi bandaríska utanríkisráðuneytið William Trimble aftur afar neikvæðar fréttir. Laxness, eða útgáfufyrirtæki hans, höfðu greinilega greitt alla nauðsynlega skatta í BNA af tekjum hans. En skatturinn þarf ekki að hafa verið nema smáupphæð miða við prósentustig skatta á Íslandi í dag og þá.

17_-_Bjarni_r__ir_vi__Eisenhower_yfirhersh_f_ingja_NATO__ri__1951_-_Lj_smyndari_P_tur_Thomsen_-_Einkaskjalasafn_Bjarna_BenediktssonarBjarni Benediktsson með Eisenhower sem staldraði við á Íslandi veturinn 1951. Danskur sendiherra, samtímamaður hans, bar honum afar illa söguna og taldi manninn treggáfaðan afturhaldssegg, en aðrir eins og amma mín, sem var með honum í barnaskóla, þar sem menntun flestra kvenna stöðvaðist á þeim tíma, töldu hann til dýrlinga, því hann var svo "gáfaður" og "rétti alltaf upp báðar hendur" þegar kennarinn spurði um eitthvað. Hvernig hann fékk þá flugu í hausinn, að Laxness borgaði fyrir starfsemi sósíalista á Íslandi, verður seint svarað - en það lýsir ekki gáfulegri rökhugsun.

Herferð Bjarna Ben og vina hans misheppnaðist algjörlega. Stærð, frægð og eðli skáldsins hafði vaxið þessum mönnum mjög svo í augum.

Og þegar allt kom til alls var Laxness heldur aldrei strangur hugsjónamaður. Hann vildi eins og allir njóta þeirra ávaxta sem hann hafði ræktað með vinnu sinni og list. Við sjáum t.d. á ferðalagi hans til Berlínar árið 1936, að hann fór þá ferð fyrst og fremst til að bjarga tekjum sínum, ekki vegna þess að banna ætti bækur hans vegna meint illmælis hans um Þýskaland eins og haldið hefur verið fram síðar og af Laxness sjálfum. Laxness átti í erfiðleikum að fá tekjur sínar frá Þýskalandi, því fyrirtækið, sem gaf verk hans út. hafði að mestu verið í eigu gyðinga, og á þau hafði verið sett höft (sjá hér). Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni má segja til hróss, að hann kom þeim ferðaupplýsingum að í einni af bókum sínu um Laxness (eftir að hafa séð upplýsingarnar á fyrrnefndu bloggi mínu. Hins vegar hafði Halldór Guðmundsson ekki upp á því, og er hann með afar furðulega og óundirbyggða skýringu á samningum Laxness við dönsk og þýsk útgáfufyrirtæki.

knopf

 

Merki Alfred A. Knopf útgáfunnar.

Ólína Þorvarðardóttir notar einstaklega ógagnrýnin skrif dr. Ingu Dóru Björnsdóttur í Kaliforníu, sem heldur því fram að Independent People í útgáfu Forlagsins Alfred A. Knopf hafi verið metsölubók og að viðleitni Bjarna Ben hafi verið að sýna að skáldið borgaði fyrir "kommúnistaáróður" á Íslandi úr eign vasa og að hann hafi sannfært J. Edgar Hoovers um að koma í vef fyrir að hafi Atómstöðin kæmi út hjá Alfred A. Knopf í BNA . 

Höfum það sem réttara reynist: Bókin Independent People, þýðingin á Sjálfstæðu Fólki, var valin Book of the Month Club sem var bókaklúbbur sem var stofnaður af auglýsingafyrirtæki. Bækur mánaðarins hjá Book of the Month Club voru valdar mánaðarlega af frekar fámennu dómarapaneli. Bókin var talin líkleg til sölu, en það var mat dómaranna en ekki kaupenda. Bókin Independent People í bandarískri útgáfunni frá 1946 var því aldrei metsölubók. Harla léleg sagnfræði hjá Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur.

Bréfaskrif Bjarna Bens, sem leitaði eftir upplýsingum um auðæfi Laxness sem hann taldi öll fara í "kommúnistaáróður", voru aðeins rotinnboruleg afskipti íslensk stjórnmálamanns, sem ofmetnast hafði í stöðu sinni. En þau ollu því ekki að Alfred L. Knopf var neyddur til þess að gefa ekki út Atómstöðina, líkt og Ólína apar upp eftir Ingu Dóru Björnsdóttur. Sjálfstætt fólk var einfaldlega aldrei metsölubók í Bandaríkjunum. Íslenska skáldið hafði vaxið í augum manna. Hann borgaði fyrir stjórnmálaáróður af tekjum sínum og menn töldu greinilega lengi að sú ásökun tengdist því að menn reyndu að koma í veg fyrir útgáfu bóka hans.

En vitleysan fær svo vængi eins og má sjá hér.

new-knopf

Blanche og Alfred Knopf. Kannski líkaði henni ekki stíll Laxness og kom þannig í veg fyrir að Atómstöðin yrði gefin út. Engin heimild er til fyrir því að J. Edgar Hoover hafi beitt þrýstingi á Knopf-hjónin.

Þess ber einnig að geta, að allsráðandi útgáfudómari A.L. Knopf var kona hans, Blanche (fædd Wolf). Hún bar betra skynbragð á bókmenntir en Alfred. Alfred hafði fyrst og fremst peningavit. Vitað er að FBI reyndi að hafa afskipti af bókavali Blanche Knopf, en oftast kom það fyrir ekki. Hún andaðist árið 1966. Þegar eiginmaðurinn andaðist á 9. áratug síðustu aldar, voru afskipti FBI borin undir son þeirra Alfred Knopf jr.

Þegar Knopf jr. heyrði að FBI og illfyglið og gyðingahatarinn Hoover hefði haldið skrá  um fyrirtæki foreldra sinna, og haft það undir eftirliti, sagði hann þetta um föður sinn:

"He was the quintessential capitalist, but he published anybody he thought was worth publishing. He paid no attention to what their politics were."(heimild)

Má vera að slíkt sé erfitt að skilja í landi þar sem klíkuskapur og ætterni hefur lengi verið það mikilvægasta til að rísa til metorða. Vera kann að vegna þessa klíkusamfélags hafi Björk, Vigdís og Saga verið það eina sem komst á spjöld sögunnar í raun, jú og ef til vill hann Snorri "norski". Og þess ber að geta að Laxness er ekki nefndur á nafn í Knopf-skrá Hoovers. Heimurinn er nefnilega stór og Íslendingar fyrst og fremst merkilegastir heima hjá sjálfum sér.

Íslendingar eru samt ágætasta þjóð og upp til hópa gott fólk, en misjafn sauður er oft í sömu hjörð, eins og alls staðar á byggðu bóli.

800px-Director_Hoover_1940_Office

Mér finnst persónulega mjög lítill munur á annars vegar því fasíska Loyality check sem J. Edgar Hoover beitti gegn þeim sem grunaðir voru um kommúnisma eða fyrir að vera "andstæðingar ríkisins", og hins vegar á þeirri áráttu Íslendinga að setja menn á pólitískan bás og byggja það aðeins á einhverju óundirbyggðu kjaftæði í þorpi á hjara veraldar. John Edgar Hoover hefði líklega orðið góður og gegn Íslendingur í framvarðarsveit sama hvaða flokks sem væri við stjórnvölin.

Þjónslund sumra manna er hafin yfir hugsjónir. Kjölturakkaeðlið er því miður bara sumu fólki í blóð borið.

sigurdur_thorarinsson

Sjálfstæðisflokkurinn kom vitaskuld einnig upp kerfi um tíma, sem satt best að segja líktist mest stjórnkerfi í Austur-Evrópuríkjum, sem þeir hræddust sjálfir einna mest fyrir utan allar veislurnar sem þeir sóttu í rússneska sendiráðinu.

Flokkurinn, eða lögregluyfirvöld á stjórnartímabili flokksins, lögðust svo lágt að láta rannsaka íslenska menntamenn í erlendum löndum. T.d. höfðu einhverjir í "íslensku leyniþjónustunni" sem suma menn hefur svo sem dreymt um endurreisn á síðari árum, samband við Säpo í Svíþjóð. Bað  eitthvert yfirvald á Íslandi sænsku leyniþjónustuna um að fylgjast með Íslendingum - t.d. stjórnmálalega algjörlega meinlausum manni eins og Sigurði Þórarinssyni. Meira um það fyrir jólin. Og já það tókst ekki að brenna allt í ruslatunnu eins þeirra lítilmenna sem stunduðu þá þjónustu að njósna um landsmenn sína fyrir valdamenn. Sagan af rannsókninni á Sigurði er ekki með í ágætri bók Guðna forseta, Óvinir Ríkisins, en hefði sæmt sér vel í henni; svo lesendur Fornleifs geta farið að hlakka til jólanna. Þau verða vafalaust rauð í ár.

Kalda stríðið var mjög sjúkt tímabil og því verður ekki neitað af sagnfræðingum Sjálfstæðisflokksins, að saga flokksins var ekki fögur á þeim tíma. Björn Bjarnason verður að kyngja því - nema að hann hafi eitthvað að fela.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband