Déjà vu
5.10.2018 | 07:30
Eftirfarandi myndatexta mátti lesa á baksíðu Alþýðublaðsins sáluga sunnudaginn 13. júní 1965.
Gamli símklefinn á torginu horfinn
ÓÐUM er miðborgin að breyta um svip, gömul og virðuleg verzlunarhús úr timbri eru rifin og í þeirra stað rísa himinháir bankar og skrifstofubyggingar úr stáli og gleri. Og nú er gamli símaklefinn á Lækjartorgi horfinn, hann hefur staðið þarna í nokkra áratugi, en til hvers vita líklega færri, því síminn þarna hefur yfirleitt ekki verið í sambandi, en það er sama,turninn setti sinn svip á bæinn og er ekki laust við að Lækjartorg sé heldur sviplausara eftir að hann hvarf.
Ritstjóri Fornleifs var tæpra 5 vetra þegar þessi hræðilegi atburður átti sér stað. Hann man því lítið eftir þessum merka símklefa og þurfti sjaldan að hringja. Er ekki eins símóður og margir landar hans.
Þó hitnaði honum um hjartarætur þegar hann uppgötvaði að Hollendingurinn fljúgandi, sem kom til Íslands árið 1957, og sem greint var frá í færslunni í gær og fyrr, hafði tekið mynd af þessum merka klefa. Fornleifur, sem er eldri sál en ritstjórinn, telur víst að klefinn sé ættaður frá Svíþjóð. Hann hefur séð slíka klefa þar og hélt að þeir væru hernaðarmannvirki, til taks ef Rússarnir kæmu einn daginn.
Síminn á Lækjartorgi virtist þó ekki vera bilaður árið 1957 og stelpurnar í klefanum sýnast mér vera að hringja, eða voru þær bara flissandi í þykjustunnileik fyrir Hollendinginn, sem þeim þótti greinilega sætur.
Þrátt fyrir spár Alþýðublaðsins gæti þessi frétt hafa birtist nýlega, því enn er verið að reisa himinháa banka, skrifstofubyggingar og hótel úr stáli og gleri. Og samt er Lækjartorg enn líkt Lækjartorgi, og ungt fólk sem þar bíður verður enn ástfangið, þangað til það hverfur í hverfin sín með strætisvögnum Reykjavíkur sem nú heita bara því ómerkilega nafni Strætó.
Reykjavík var þarna á vordegi, eins og undarleg blanda af Múrmansk og New York. Blanda af draumum, hryllingi og norðanátt. Takið eftir sveitamanninum sem situr á bekknum til hægri. Það er eins og hann hafi brugðið búi í gær, eða sé að bíða eftir vagninum að Kleppi. Sá hann hvert stefndi?
Ljóshærði strákurinn glápir á undarlega útlendingin og grettir sig. Það gerir Fornleifur líka. Reykjavík er sem betur fer enn lítil, þrátt fyrir gler og stál. Gleðjumst yfir því, í stað þess að farast í græðgiskasti tengdu hinni eilífu, íslensku minnimáttarkennd.
Reykjavík er bara helvíti fín, gott fólk og spilltir stjórnmálamenn, eins og alltaf. Reyndar er búið að gera bankann í bakgrunninum að dómshúsi. Þangað mætti hífa borgarstjóra inn við tækifæri til að staga í götin í vösum þeirra. Því fylgir ábyrgð að stjórna borg, þar sem enginn símklefi er. En ef trúði og íhaldi tekst það, ætti mórauðum borgarstjóra með ólívukrullur að takast það líka. Það er nefnilega aldrei neitt eftirlit. Enn virkar síminn ekki og borgastjórinn verður upptekinn út kjörtímabilið. Hringið bara, ekkert svar...
Meginflokkur: Ljósmyndafornleifafræði | Aukaflokkar: Gamlar myndir og fróðleikur, Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 07:41 | Facebook
Athugasemdir
Við litum stórt á okkur þarna sem nú. Þjöð meðal þjóða með fána og þjóðsöng sem enginn gat sungið án þess að hætta á heilablóðfall.
Stolt og rembingsleg þjöð uppá 150þ sálir í fjötrum stórbænda og kaupmannaklíku sem telja mátti á þumlum annarar handar. Höfuðborg með 67þ íbúa. Borg í örum vexti sem hafði tífaldast að íbúafjölda frá aldamótum.
Skrítið fólk af skrítnu fólki. Sérlundað, kaldhæðið, fámált, þrasgjarnt, þvermöðskufullt og tortryggið.
Ég held að við hefðum ekki tímgast eða komið út úr skel ef ekki hefði verið fyrir kaffið. Kaffið opnaði margar dyr og knúði fram samræðu. Gaf tilefni sem tilefni voru engin til að muldra um lífið. Menn og konur fóru að skrifa bækur um menn og konur og þar var hellt uppá á hverri síðu.
Jón Steinar Ragnarsson, 5.10.2018 kl. 12:05
Þetta var semsagt 1957. Tveim árum síðar mætti ég og breytti engu. Sextíu árum seinna enn jafn magnlaus og ósjálfbjarga í hafsjó sögulausra brjálæðinga komna í skel á ný, vegandi mann og annan með fingurgómunum einum saman.
Jón Steinar Ragnarsson, 5.10.2018 kl. 12:21
Á æskuslóðum var enginn símmaklefi utandyra en einn kyrfilega lofttæmdur og einangraður á símstöðinni þar sem fylla þurfti út eyðublað til að hringja. Það voru eyru á öllum veggjum og best að tala í líkingum og undir rós.
Heima var trékassi með sveif á vegg og miðstöð tengdi mann við umheiminn og hlustaði grannt um leið. Svo kom sjálfvirki síminn frá LM Ericson og við fengum eigið símanúmer. Sími 207. Loks gat fólk látið allt flakka við hvort annað og talað í trúnaði. Sama og á samfélagsmiðlum samtímans fyrir utan trúnaðinn.
Jón Steinar Ragnarsson, 5.10.2018 kl. 12:31
Ó "déja vu, ó déja vu." Man vel eftir klefanum og Lækjartorgi á þessum árum. Faðir minn fór með okkur bræður niður að Tjörn, við hvert tækifæri, en áður var komið við í Björnsbakaríi og keypt "andabrauð". Á sunnudögum var farið í Gamla Bíó og alltaf í stúku að horfa á Disney.
Annar símklefi og sennilega sá sem síðast féll, stóð í Lækjargötunni, en fékk ekki frekar en annað, sem hugsað var borgurunum til góðs, nokkurn tíma að vera í friði fyrir skemmdarvörgum.
"Those were the days, my friends
I thougt they'd never end....."
ó "deja vu, ó deja vu."
Góðar stundir, með kveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 6.10.2018 kl. 02:13
Nú er hún Snorrabúð stekkur og skuggar gámahrúga, sem kallast víst arkitektúr nútímans, vestar nær höfninni, hafa bæði steingellt svæðið og eyðilagt. Ógeðslegasta skemmdarverk, sem unnið hefur verið á gamla miðbænum, en það er nú sennilega allt annað mál. Og þó?
"Djésá vu".....hver er maðurinn á bekknum, lengst til hægri?
Halldór Egill Guðnason, 6.10.2018 kl. 02:22
Eða burgeisinn með skjalatöskuna, aftan við hann, vinstra megin?
Þessi mynd er mögnuð. Í henni sést svo mikið!
Góðar stundir, með kveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 6.10.2018 kl. 02:28
Sammála Halldór, þetta verk er eftir hollenskan meistara. Við lýsum hér með eftir upplýsingum um fólkið á myndinni. Svo er ég hjartans sammála ykkur báðum, þér og Jóni Steinari. Halda mætti að við hefðum verið uppi á sama tíma, eða þar um bil. Þó við séum jafnaldrar, ég og Halldór, man ég sannast sagna ekkert eftir þessum sænska símaklefa, og þó var ég mjög tíður gestur í miðbænum með föður mínum, Fór með honum í banka, tollinn, að rukka viðskiptavini, á Hressó etc, og alltaf í strætó á þeim árum. Torgklukkunni man ég eftir, en sænski símaklefinn hefur algjörlega farið framhjá manni. Hann var ljótur og ég gleymi alltaf því sem ljótt er.
FORNLEIFUR, 6.10.2018 kl. 08:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.