Hringavitleysingasaga: Um léleg vinnubrögð og fræðilegt misferli í fornleifafræðinni á Íslandi

II

Hér skal greint frá þeim mönnum sem halda, og trúa því meira að segja, að hringlaga kirkjugarðar kringum fornar kirkjur sé arfleifð frá Bretlandseyjum. Þeir ganga sumir frekar langt til að telja öðrum trú um það. Einnig skal vikið að þeim, sem án nokkurra haldbærra raka halda því fram að torf- og steinkirkjur Íslendinga séu hefð frá Bretlandseyjum, meðan að timburkirkjur, þ.e. stafkirkjur, sem einnig voru þekktar á Íslandi, séu hefð ættuð úr Skandínavíu.  

Í sumar hafði samband við mig lærður maður sem var að skrifa bók á ensku um uppruna íslenskrar kirkju. Leitaði hann eftir leyfi mínu til að birta grunnmynd af kirkjurústinni á Stöng í Þjórsárdal, og tilgátuteikningu sem ég hef teiknað og birt til að sýna hugsýn mína af því, hvernig ég ætla að kirkjan hafi litið út. Hann hafði séð teikningarnar í grein eftir mig í norsku riti (sjá hér).

 
Kirkja á StöngStangarkirkja Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson b 
Tvær hugmyndir að útliti einkakirkjunnar á Stöng í Þjórsárdal.
Myndin efst sýnir grunnmynd kirkjurústarinnar á Stöng. Teikningar Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson.  
 

Þar sem rithöfundurinn upplýsti mig um titilinn á fyrirhugaðri bók sinni á ensku, The Westward Movement of Insular Culture and Christianity in the Middle Ages, gat það bent til þess að hann teldi hugsanlegt að íslenskar torfkirkjubyggingar væri hefð, sem ættuð væri frá Bretlandseyjum, og að Kristnin hefði komið þaðan að mestu. Staldraði ég aðeins við og spurðist fyrir um efnið í bókinni og notkun umbeðinna mynda. Mikið rétt, eins og mér datt í hug var skoðun mannsins sú, að kirkjubyggingar á Íslandi úr torfi og steini væri hefð er borist hefði frá Bretlandseyjum. Ekki var þetta tilgáta mannsins sjálfs, og gat hann vitnað í  fornleifafræðinga máli sínu til stuðnings.

3
Kirkja ofan á smiðju Stöng 3
Teikning og ljósmynd sem sýnir uppgraftarstöðu og byggingaskeið, er helmingur kirkjunnar á Stöng (A) hafðu verið fjarlægður til að rannsaka rústina fyrir neðan sem er smiðja (B). Gulu útlínurnar sýna grunnmynd kirkjunnar. Grafirnar umhverfis kirkjuna (einnig merkt A) hafa verið grafnar í gegnum gólf sem tilheyrir enn eldra byggingaskeiði (C), skála sem hefur verið í notkun um 900 e.Kr. Teikning og ljósmynd. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson.
 

Steinunnar þáttur Kristjánsdóttur 

Þessi kenning, um að uppruna íslenskra torfkirkna sé að finna á Bretlandseyjum, er að mínu mati afar einkennileg meinloka og þunnur misskilningur sem slæðst hefur inn meðal nokkurra fornleifafræðinga á síðari árum, sérstaklega meðal þeirra sem menntaðir eru við háskóla, þar sem kennsla í fornleifafræði er meira hengd upp á þeóríu frekar en staðreyndir, heimildir og greiningu fornleifanna sem maður finnur. Þeir sem sett hafa þessar skoðanir fram eru ekki menntaðir í miðaldafornleifafræði né í kirkjufornleifafræði, og það sést vel í öllum skrifum þeirra. Fylgismenn þessarar kenningar eiga það einnig sameiginlegt, að álíta og trúa, að Kristnitaka og iðkun Kristindóms á Íslandi hafi hafist fyrr en ritaðar heimildir greina frá og fornleifar staðfesta.

Rithöfundurinn sem vildi fá leyfi til að birta myndir af rúst litlu torfkirkjunni á Stöng, sem ég og aðstoðarfólk mitt rannsökuðum að hluta til í lok síðustu aldar, hafði lesið þann "sannleika", að torfkirkjur á Íslandi væri hefð ættuð frá Bretlandseyjum, meðan að stafkirkjur, sem einnig voru reistar á Íslandi, væru hefð frá Skandinavíu. Þetta hafði hann lesið í doktorsritgerð Steinunnar Kristjánsdóttur frá Gautaborgaháskóla sem hún varði árið 2004 og sem ber titilinn: The Awakening of Christianity in Iceland. Discovery of timber Church and Graveyard at Þórarinsstaðir in Seyðisfjörður.

Steinunn er, eins og kunnugt er, mjög virk í tilgátusmíð, en oft standast ekki blessaðar tilgáturnar og hið frjóa ímyndunarafl hennar, sem hleypur iðulega með hana í gönur. Því miður verða nokkrar þeirra þó að meiru en tilgátum í hennar meðförum og annarra. Fólk heyrir og les ævintýralega fréttir í fjölmiðlum, og svo er orðið altalað að fílamaður, eskimóakonur og annað gott fólk hafi eytt ævikvöldinu í austjarðarvelferðarþjóðfélaginu á Skriðuklaustri. Menn byrja að alhæfa, og loks verður hugdettan að kreddu (dogmu). Þannig fornleifafræði er afar hvimleið. En þessi merkistíðindi að austan hafa öll reynst vera tóm tjara þegar upp var staðið. Síðast fór Steinunn með ólögulegan móbergshnullung frá Seyðisfirðið á sýningu í Paderborn í Þýskalandi og kallar hann kross frá Bremen eða Hamborg. Það eru engin haldbær rök fyrir því að þetta sé yfirleitt kross og hvað þá að hann sé eða sýni einhver tengsl við Bremen eða Hamborg (sjá hér)

Stone-cross616642
Kross Steinunnar Kristjánsdóttur er sagður vera úr móbergi, en er greinilega úr setlögum. Ljósm. Þjóðminjasafn Íslands.

Nú er það einu sinni svo, að engar torfkirkjur hafa fundist á Bretlandseyjum. Litlar kirkjur og kapellur hafa reyndar fundist við bæi norrænna manna á Hjaltlandi og á Orkneyjum, sem byggðar voru að hluta til af þurrum steinvegg, ólímdum, sem var gömul byggingarhefð á Bretlandseyjum. Engar slíkar kirkjur hafa verið reistar á Íslandi svo vitað sé. 

Christians þáttur Kellers

Norskur fornleifafræðingur, Christian Keller, hefur einnig, án mikillar rökhugsunar eða rökstuðnings, komist að þeirri niðurstöðu, sem hann komst að í doktorsritgerð árið 1989, að elstu kirkjubyggingarnar á Íslandi og á Grænlandi byggðu á hefð frá Bretlandseyjum. Hann notar afar furðuleg hringsnúningarök er hann segir lesendum sínum frá því að 50 órannsakaðar rústir torfkirkna í Noregi gætu vel sýnt sams konar áhrif í Noregi, þ.e. hefð frá Bretlandseyjum. Engin þessara 50 rústa hafa verið rannsakaðar. Hvernig getur lærður maður sett fram slíka bábilju í doktorsritgerð?

En hvers vegna skyldu kirkjur úr torfi og steini í Noregi, þar sem önnur hús voru reist úr því efni, að vera undir áhrifum frá hefðum frá Bretlandseyjum, þegar Norðmenn og aðrir norrænir menn höfðu byggt slík hús í aldaraðir, og sér í lagi þegar engin kirkjurúst rannsökuð á Bretlandseyjum hefur verið reist með veggjum úr torfi og ótilhöggnum steinum? Það er mér algjörlega óskiljanlegt.

Christian Keller, sem og Steinunn Kristjánsdóttir, sem hugsanlega hefur komist að óundirbyggðri skoðun sinni á byggingarhefð á Íslandi með því að lesa tilgátur Kellers, vaða í villu þegar þau telja að það séu aðeins hefðir sem valda byggingarlagi.

Stór þáttur í því hvernig ákveðin bygging lítur úr, er einnig notkun þess byggingarefnis sem fyrir hendi er. Menn byggðu oftast úr því efnið sem þeir höfðu innan handa í nágrenninu. Þó menn væru ættaðir úr trjáríkum héruðum Noregs, neyddust þeir eftir 2. alda ofbeit, uppblástur og vegna trjáleysis til stórra bygginga að reisa flest hús sín á Íslandi úr öðru efni en einvörðungu timbri.  Í Noregi, þar sem nægt timbur var að fá, reistu menn einnig hús úr torfi og steini, því þau einangruðu betur en hús úr timbri. Nokkrar kirkjur og önnur hús á Íslandi voru reist úr rekaviði, en þegar mikið var lagt í var timbur í helg hús flutt um langa vegu frá Noregi til Íslands. Minni höfðingjar, eða þeir sem ekki höfðu beinan aðgang að reka, létu sér hins vegar nægja torfkirkjur. Ekki ber að gleyma að innan í skelinni af torfi og steinum var lítil og nett stafkirkja.

Sagan af Steffen Stummann Hansen

Út fyrir allan þjófabálk er meðferð danska forleifafræðingsins Steffens Stummanns Hansens á torfkirkjum í löndum Norðuratlandshafs. Stummann Hansen, sem býr í Færeyjum, hefur einnig fengið þá flugu í höfuðið,  ásamt írska fornleifafræðingnum John Sheehan frá Cork University á Írlandi, að kirkjur í Færeyjum væru byggðar eftir hefðum frá Bretlandseyjum. Til að undirbyggja þá skoðun sína skrifar hann m.a., að órannsökuð rúst í Leirvík á Eysturoy sé byggð á þannig hefðum. Í grein eftir Stummann Hansen og John Sheehan í Archaeologia Islandica, sem þeir kalla 'The Leirvik 'Bønhustoftin' and the Early Christianity of the Faroe Islands, and beyond' er vitnað rangt og falslega í grein eftir mig.

Stummann Hansen og Sheehan gera kirkjuna á Stöng í Þjórsárdal að kirkju sem byggir á hefð frá Bretlandseyjum með því að vitna rangt í málsgrein í grein minni. Stummann Hansen, sem ber ábyrgð á þessu, segir mig skrifa um kirkjuna á Stöng: "much indicates that the churchyard had a circular form or a circular enclosure ..." (Sjá s. 36 í greininni).

En ég skrifa ekki aðeins það. Það sem er sýnt með rauðu letri hér fyrir neðan, vinsar Stummann Hansen út og vitnar rangt í, en það sem er með bláu vitnar hann alls ekki í. Þetta er ekkert annað en heimildafölsun og fræðilegur subbuskapur sem John Sheehan, meðhöfundur Stummanns Hansens, ber vitanlega enga ábyrgð á, því hann les ekki dönsku:

"Kirkegården på Stöng er kun delvist udgravet. Vi kender endnu ikke dens størrelse eller form, og der er indtil videre fundet 11 grave. Plateauet, hvorpå kirken har stået, har fysiske afgrænsninger og kirkegården har derfor ikke haft en større diameter end ca. 20 m. Meget kunne tyde på, at den har haft en cirkulær form eller en cirkulær indhegning, lige som så mange kirkegårde i f.eks. Grønland, elle som ved nabokriken på Skeljastaðir i Þjórsárdalur."

Þarna fjarlægir Stummann Hansen vísvitandi úr skýringu minni til að láta lesendur sína trúa því að ég telji að hringlaga kirkjugarður byggður á hefð sé umhverfis kirkjugarðinn á Stöng. Þar að auki greinir Stummann Hansen ekki frá gagnrýni minni í sömu grein frá 1996, á þá fornleifafræðinga sem telja stafkirkjuhefð norræna og torfkirkjur ættaðar frá Bretlandseyjum. Ég færi einnig rök fyrir því í sömu grein, að hringlaga kirkjugarðar séu ekki endilega hefð, heldur oftar lausn vegna landslags kringum kirkjugarðana eða þess byggingarefnis sem til taks er, sem og að lagið sé ekki keltneskt eða írskt, og hvað þá heldur fyrirbæri sem aðeins finnst á Bretlandseyjum og á eyjum í Norður-Atlantshafi. En því gleymir Stummann Hansen að segja lesendum sínum frá. Þessi vinnubrögð eru óheyrð. 

Hringlaga garður er líklega kringum meinta kirkjurúst í Leirvík í Færeyjum, ef trúa má Stummann Hansen. En hans túlkun á hring er greinilega ekki sú sama og mín. Ég á afar erfitt við að sjá, hvernig Stummann  Hansen sér hringlaga gerði í Leirvík. Enginn veit heldur, hvort bænhúsrústin í Leirvík er rúst kirkju eða bænhúss. Er er gerðið kringum "bænhúsið" í Leirvík yfirleitt hringlaga? Kannski er ég með sjónskekkju, því mér sýnist garðurinn í Leirvík alls ekki vera hringur

 Leirvík

Bænhústóft með hringlanga kirkjugarðsgerði. Mér sýnist nú frekast að gerðið hafi verið lagað eftir lækjunum sem renna vestan og austan við tóftina sem enginn veit hvort er Bænhústóft eða eitthvað allt annað. Lengi, líklega aðeins síðan á 19. öld, var talað um hring mikinn í túninu fyrir ofan Forna-Reyni í Mýrdal sem kirkjugarð. Hringurinn var fullkomlega hringlaga, með sama radíus allan hringinn, og veglegur. Fornleifarannsókn hefur hins vegar sýnt, að þetta er ekki kirkjugarður heldur náttúrulegt fyrirbæri. Engar grafir voru innan "garðsins" og engin kirkja. Myndin að hér fyrir ofan er úr grein Stummanns Hansens og Johns Sheehans. Myndin hér fyrir neðan er af "kirkjugarðinum" að Forna-Reyni í Reynishverfi.
 
Forni Reyni 1982 2 b
 
Knud Krogh 2
Þjóðhildarkirkja í Eiríksfirði (Tunulliarfik) á Grænlandi hefur lengi verið talin hafa haft hringlaga kirkjugarð. Svo er þó ekki. Lega grafanna réðst af landslaginu, miklum halla í landslaginu sunnan og austan við kirkjuna, sem ég sýni með grænum lit á teikningu fornleifafræðingsins sem rannsakaði kirkjuna. Leifar hugsanlegs torfveggs vestan við kirkjuna (sem ég lita með gulum lit) sýnir ekki með vissu að kirkjugarðsgerði hafi verið hringlaga. Hins vegar er endurgerð Þjóðhildarkirkju þeirrar  sem byggingarmeistarinn að Þorláksbúð, Árni Johnsen hefur einnig komið að (mynd fyrir neðan), búin að koma því inn hjá almenningi að í fornu hafi verið veggur úr torfi og steini umhverfis torfkirkju Þjóðhildar. Það er álíka mikið út í hött og Þorláksbúð hin nýja í Skálholti. Teikning Knud Krogh.
 
 Þjóðhildarkirkja

 

Vinnubrögð Stummann Hansens í grein hans í Archaeologia Islandica eru vítaverð og ég verð að lýsa fordæmingu minni á þessari heimildafölsun og tilvitnunarfúski danska fornleifafræðingsins í Færeyjum. Menn vitna einfaldlega ekki rangt í kollega sína til að undirbyggja draumóratilgátur. Það er til ágæt skilgreining á slíku á dönsku: Videnskabelig uredelighed (Fræðilegt misferli).

Ég býst náttúrulega við því að þeir sem gefa út ritröðina Archaeologia Islandica taki afstöðu til slíkra vinnubragða og birti afsökunarbeiðni í næsta hefti. 

Fornleifastofnun Íslands gaf vitleysuna út

Hverjir gáfu svo út grein Stummann Hansens og Sheeans í tímaritinu Archaeologia Islandica? Það gerði  sjálfseignarstofnunin sem það sem fornleifafræðingar í bisness tóku sér hið ríkislega nafn Fornleifastofnun Íslands. Í stjórn fyrirtækisins, sem gefur út Archaeologia Islandica, situr meðal annars dr. Orri Vésteinsson sagnfræðingur, sem gegnir stöðu prófessors í fornleifafræði við Háskóla Íslands. Orri hefur sjálfur verið tekinn í svipuðum óvönduðum vinnubrögðum og Steffen Stummann Hansen, (dæmi hér og hér).

Ég verð að lýsa áhyggjum mínum af ritstjórnargetu þeirra sem sjá um fræðiritið Archaeologia Islandica, þegar þeim yfirsést að Steffen Stummann níðist á því sem ég hef ritað. Það er reyndar ekki nýtt vandamál. Orri Vésteinsson fór eitt sem með Steffen Stummann Hansen að grafa í Þjórsárdal. Þeir grófu í rúst í Skallakoti, sem fyrst var rannsökuð árið 1939. Viti menn, eins og ég hafði þegar haldið fram frá 1983, og síðar sannað mörgum til ama, þá fór byggð ekki í eyði í Þjórsárdal fyrr en eftir 1104. Í torfi skálarústarinnar í Skallakoti var að finna gjósku úr Heklugosi frá árinu 1104 (H 1 gjóskuna svokölluðu). Ekki var í rannsóknarskýrslu Stummanns  Hanasen og Orra Vésteinssonar vitnað í svo mikið sem í eina grein eða stafkrók eftir mig, þó ég hefði sýnt fram á að aldursgreining endalok byggðar í Þjórsárdal til 1104, setta fram af  Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðingi, byggði á misskilningi, misskilningi sem einnig leiðréttist með endurrannsókninni á Skallakoti, sem og nýjum aldursgreiningum sem nýlega hafa verið gerðar á leifum frá Skeljastöðum í Þjórsárdal.

Svona útilokunarvinnubrögð minna á aðferðir sumra fornleifafræðinga í Sovétríkjunum sálugu, sem útrýmdu kollegum sínum úr umræðunni, eftir að þeir höfðu komið þeim sem átti að gleyma í Gúlagið (sjá hér). Slík vinnubrögð eru greinilega ekki framandi í HÍ. Það er dapurlegt.

Meira böl og fleiri klámhögg 

í grein sem Steinunn Kristjánsdóttir birti í ráðstefnuriti fyrir 16. Víkingaráðstefnuna, sem haldin var í Reykjavík árið 2009, er heil röð af röngum tilvitnunum: Grein Steinunnar, þar sem hún kemur inn á  "klassíkerinn", kirkjurústina á Stöng, kom út árið 2011 og bar titilinn: The Vikings as a Diaspora - Cultural and Religious Identities in Early Medival Iceland: Texti Steinunnar um Stöng fylgir hér, og það sem er með rauðu letri er einfaldlega rangt vitnað í texta eftir mig:

Of course, it is useful to use the church found at the farm Stöng in Þjórsárdalur as a representative example of the turf churches. The church was discovered during an excavation that was performed there in periods in 1986 and 1992-1993. This particular building was first excavated in 1939 and interpreted as a smithy (Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 1996, p. 119-139). The church at Stöng was built of turf and stones, and its interior measured 2.5 meters wide and 5 metres long. A choir was added to the east side of the church, which had an east west orientation (Fig. 2) Several graves were exhumed. A fragmented stone cross of Irish origin was also found during hte excavation of the church. The excavator suggest that the farm at Stöng was established in the 10th century; radiocarbon results date the church to the early 11th century (Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 1996, p. 129f).

Leiðrétti ég hér með:
 

  • Kirkjurústina,sem Kristján Eldjárn og aðrir sveinar danska arkitektsins Aage Roussell komu niður á með hroðvirknislegum rannsóknarskurðum árið 1939 var þá ekki túlkuð sem smiðja. Þetta ættu allir að vita sem lesið hafa Forntida Gårdar i Island (Kaupmannahöfn 1943), þar sem niðurstöðurnar rannsóknanna í Þjórsárdal 1939 voru gefnar út árið 1943. Smiðja fannst hins vegar á Stöng árið 1939 um 20 metra austan við kirkjuna. Beint undir kirkjurústinni á Stöng er aftur á móti eldri smiðja (sem fannst 1993), forveri smiðjunnar sem rannsökuð var 1939.
  • Kór var ekki bætt við austurhluta kirkjunnar. Hann var þar frá upphafi er kirkjan var byggð. Þarf að nefna að kirkjan hafi legið í austvestur? Engar grafir voru grafnar upp. Þær voru rannsakaðar og í ljós koma að beinaflutningur í líkingu við það sem Kristinna laga þáttur í Grágas nefnir hefur átt sér stað - bein höfðu verið grafin upp á 12. öld og greftruð við aðra kirkju.
  • Skilgreiningin "exhumation of graves", það er fjarlægin líka, er mjög einkennileg, þegar tillit er tekið til þess að Steinunn Kristjánsdóttir hlýtur að vita, ef hún hefur lesið greinina sem hún vitnar í, að grafirnar á Stöng voru tómar. Bein höfðu í flestum tilvikum verið fjarlægð (sjá t.d. hér).
  • Brot af steinkrossi af írskum uppruna hefur aldrei fundist á Stöng og stendur ekkert um það í þeirri grein sem sem Steinunn Kristjánsdóttir vitnar í.(Sjá enn fremur hérna).
  • Ég hef hvergi ritað eða haldið því fram, að geislakolsaldursgreiningar á kirkjunni sýni aldur til byrjunar 11. aldar. Út frá upplýsingum frá afstöðu jarðlaga og mannvistarlaga, aldri gripa sem fundust í smiðjunni undir kirkjunni sem og út frá vitnisburði gjóskulaga, er ljóst að kirkjan hafi ekki verið reist fyrr en ca árið 1000 e. Kr.
Steinunn-distortion
 
Aldrei var torfgafl til vesturs á kirkjunni á Stöng. Hér hefur Steinunn blandað saman kirkjurústinni og smiðjurústinni sem liggur undir. Myndin úr Viking Settlements & Viking Society; Papers from the Proceedings of the Sixteenth Viking Congress í Reykjvík 2009 (2011). Mér þykir Steinunn hafa skrumskælt niðurstöður rannsóknanna á Stöng með þessari "skrípateikningu" sinni.
 

Hvernig það er hægt fyrir kennara í fornleifafræði við HÍ að níðast svo á texta og rannsóknarniðurstöðum annarra, er mér algjörlega fyrirmunað að skilja. Til hvers þarf Steinunn Kristjánsdóttir að birta viðvaningslega skematíska teikningu af rústinni á Stöng, þegar til eru nákvæmar uppmæling á kirkjunni? Verst er þó, að þeir sem ritstýrt hafa ráðstefnuriti 16. Víkingaráðstefnunnar í Reykjavík, á vegum Hins íslenzka Fornleifafélags og Háskóla Íslands, hafa ekki haft til þess nokkra burði.

Réttast væri að kæra þessi viðvaningslegu vinnubrögð til siðanefnda í Háskóla Íslands og ráðuneyta sem bera ábyrgð á þeim stöðum og stofnunum sem Steinunn vinnur við. En ósk mín er að fólk læri þegar þeim er bent á ruglið í sér og vinni ekki á eins hroðvirknislegan hátt í framtíðinni. Mikið af efni Fornleifs eru misjafnlega mjúk gagnrýni á léleg vinnubrögð og fljótfærnisvillur í íslenskir fornleifafræði. En líklegast lesa þeir sem baunað er á ekki gagnrýnina. Þeir eru kannski yfir hana hafnir.

Ef menn geta ekki lesið sér texta til gangs, er háskólaumhverfi kannski ekki rétti staðurinn að eyða kröftum sínum og starfsævi. Afsökunarbeiðni mega þeir sem skömmina bera setja hér í athugasemdirnar, ef menn hafa einhverja æru í skrokknum.

*

Ég gaf auðvitað manninum lærða, sem lesið hafði og trúað skrifum Steinunnar, leyfi til að nota myndir sem ég hef birt úr rannsóknum á Stöng. Rannsóknirnar á Stöng voru styrktar af almannafé, og þó ég hafi unnið mest með efnið á mínum eigin tíma, þá tel ég allar rannsóknarniðurstöður vera almannaeign þegar þær hafa verið birtar, en menn skulu nota þær með virðingu og án þess að skrumskæla það sem niðurstöðurnar sýna í raun eða það sem vísindamaðurinn hefur skrifað. Að vitna rangt í heimild er misnotkun. Meðferð Steffen Stummanns Hansens á texta mínum er skammarleg heimildafölsun og meðferð Steinunnar ætti ekki að sæma akademískum borgara í HÍ. En þegar menn eru komnir út í vafasama kenningasmíð sem mest líkist trúarbrögðum eru rökin, vísindin og fræðimennskan eftir því. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Sæll Fornleifur. Er þetta líf fornleifafræðinga í Hnotskurn? og ekki bara hér á landi. Ég las dagbók Kristján Eldjárns.  Nú verð ég að treysta á þig en þetta er svar á fyrirspurn vegna rústa í USA á mögulegri torfkirkju tóftir og hringlaga stein hleðslu vegg með opum í þrjár höfuðáttir.

Hér segir þú í greininni að hringlaga kirkjuveggir séu sér Íslenskt og torf kirkjur líka nema ég misskilji einhvað í þessari góðu grein hér ofan.

Valdimar Samúelsson, 7.10.2013 kl. 19:55

2 Smámynd: FORNLEIFUR

Nei, Valdimar hvorki torfveggir né hringlaga kirkjugarðar eru séríslenskt fyrirbæri. Það segi ég heldur ekki í þessari færslu. Hringur á Íslandi  er heldur ekki "keltneskur" og torfhleðsla á Íslandi er nærri því örugglega ekki fyrirbæri ættað frá Bretlandseyjum.

Fyrirbæri verða ekki eingöngu til vegna hefða og tengjast ekki endilega uppruna fólks. Lífið er ekki svo einfalt að líffræðilegur uppruni ákvarði það sem menn gera. Adaption, aðlögun, að aðstæðum, er einnig mjög mikilvægur eiginleiki mannsins, sem leiðir oft af sér lausnir, sem í fljótu bragði gætu verið keimlíkar á mismunandi svæðum, þótt að engin tengsl hafi verið þar á milli. Fólk í Arnarnesinu byggir hús með þökum með kínversku lagi, en eru ekki Kínverjar.

Hringlaga steinvegg í BNA er ekki hægt að aldurgreina eða ákveða "upprunann" á út frá lagi. Það þurfa að fylgja fleiri upplýsingar til að ákvarða hvað steinhleðsla í BNA er. Eitthvað sem þú heldur að gæti verið sönnun búsetu norrænna manna í Ameríku gæti alveg eins verið leifar eftir búsetu indíána eða leifar einhverrar annarrar menningar frá 16. eða 17. öld eða síðar - ef til vill 19. öld.  Norrænir menn fundu ekki upp hringinn, frekar en hjólið.

Þó þú hafir fundið hringlaga vegg í BNA þarf það ekki að vera kirkjugarður. Eru grafir innan hringsins, er það þó orðið líklegt, en aldurinn verður þú svo að hafa til að geta sett punktinn. Ef hann sýnir ekki 11. öld, þá er hringur með gröfum í BNA ekki leifar eftir norræna búsetu. 

FORNLEIFUR, 7.10.2013 kl. 20:35

3 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Þakka fyrir Í hvaða löndum finnast svona hringlaga kirkjugarðar. Það voru tvær grafir opnaðar inn á milli veggrústanna. Það var byggð kirkja fyrst fyrir Narragansett indjánanna upp úr 1650 og þetta er fyrir utan þeirra svæði. Veggirnir eru sokknir um 50 cm ef hægt er að nota það sem grófa aldursgreiningu Þetta eru ótilhoggnir steinar og líklega hefir verið torf á milli. Þetta er ekkert indjána verk.

Valdimar Samúelsson, 7.10.2013 kl. 21:32

4 Smámynd: FORNLEIFUR

Hringalaga, eða nokkurn veginn hringlaga kirkjugarðar, með eða utan gerðis, finnast eða hafa verið til á Grænlandi, Íslandi, í Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Bretlandseyjum (en ekki mest á Skotlandi eða Írlandi eins og oft er haldið fram), Hollandi, Þýskalandi og Sviss. Enginn, svo ég viti til hefur rannsakað skipulega hvort lag garðanna sé komið til vegna landslagsþátta eða hefða. Ef við tökum þjóðhildarkirkju á Grænlandi, þá er talið að kirkjugarðurinn þar hafi verið hringlaga, m.a. vegna legu grafanna (líkt og á Skeljastöðum), en landslagið þar sem kirkjan er leyfir ekki annað!

Á Spáni er til hringlaga kirkjugarður með grafhýsum, en það er annar handleggur líkt og  hringlaga kirkjugarðurinn í Kent i Maine (frá 19. öld) er. Stórir hringlaga kirkjugarðar eru til víðar í Bandaríkjunum.

Þær minjar sem þér er tíðrætt um á Rhode island verður auðvitað að rannsaka af fornleifafræðingum en ekki af leikum eða ævintýramönnum hjá http://www.neara.org/ . Þeir tenglar sem ég hef fengið frá þér í tölvupósti virka ekki, svo ég get alls ekki, og vill því ekki, taka neina afstöðu til þeirra minja sem þú ræðir um og telur tengjast norrænum mönnum og vera kirkju. Margir hafa búið á Rhode island og allar þjóðir sem þar hafa búið þekkja hringinn. Hvernig þú getur útilokað indíána er mér hulin ráðgáta red_indian Uug

FORNLEIFUR, 8.10.2013 kl. 07:19

5 Smámynd: FORNLEIFUR

Þó vitlausir Kínverjar í doktorsnámi við HÍ séu ekki að hóta mér lífláti og Rauða hernum eins og Friðriki Eysteinssyni, hef ég leyft mér að senda fyrirspurn í anda Friðriks, þegar hann sendir mönnum línu í "Háskóla Íslands" (gæsalappirnar utan um Háskóla Íslands eru mínar):

Sæl Steinunn [Kristjánsdóttir prófessor],

ég vona að þú sjáir þér fært að svara gagnrýni minni hér http://fornleifur.blog.is/blog/fornleifur/entry/1308152/ og hér: http://fornleifur.blog.is/blog/fornleifur/entry/1308947/
og vona að þú teljir þig ekki yfir það hafna

bestu kveðjur,

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

FORNLEIFUR, 8.10.2013 kl. 09:02

6 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Þakka svarið og ef ég má. Hvenær er álitið að hringlaga torf/stein hlaðnir kirkjugarðar hafi verið síðast í Evrópu. Við vitum cirka að þeir voru hér fyrst á tíundu öld? Grænlandi á svipuðum tíma.?

Kent, Main afhverju.(er að hugsa)? Áttu við Fort Kent norður í Maine.? Rhode Island hringurinn er langt frá mannabyggð en það hefir verið sókn í kring um kirkjuna. Sóknin heitir/hét ''Parrish'' eða sókn. Á rennur niður lítinn lokaðan dal heitir Parrish brook. Það hefir ekki verið skrifað um þetta svo ég viti á heimssíðu NEARA. Það var hugmynd að þetta væri frá Hollendingum en þeir voru þarna um 1650 með venslunaraðstöðu við Charlestown, RI sem töluvert frá þessum stað. Voru þeir með svona kirkjur á þessum tíma.?

Vilhjálmur ég veit að ég spyr mikið en ef þú gætir komið mér á sporið en eins og er þá er ég með þá skoðun að þetta sé Íslenskra manna verk.   

Valdimar Samúelsson, 8.10.2013 kl. 10:22

7 Smámynd: FORNLEIFUR

Mér þykir gott að þú spyrjir Valdimar. Stundum hefur maður bara ekki tíma til að svara öllu.

Ef menn spyrja ekki, er ekkert varið í fræði og vísindi. Ég tel að eina leiðin til að ganga úr skugga um hvaða hringur þetta er á Rhode Island sé að skoða staðinn með jarðsjá og grafa rannsóknarskurði. Þá kemur fljótt í ljós hvers kyns er. Hollendingar voru svo stórtækir á 17. öld með verslun og siglingar um allar jarðir, að ekki myndi það undra mig ef þeir hafi verið að reisa einhverja garða. En ég þekki ekki neitt slíkt úr steinalausri flatneskjunni í Niðurlöndum.

Menn voru með hringlaga kirkjugarða á Íslandi fram eftir öldum eins sést í Skagafirði í dag, og í rústum kirkjugarða í Skagafirði frá 11. öld (Seylu). En taktu það ekki þannig að ég sé að tileinka Skagfirðingum hringinn á Rhode Island. Það myndi gera frændur mínSkagfirðinga svo merkilega, þeir færu að að gera kröfur og kall til Rhode Island. Nóg er að hafa einn ættbálk fullan af lofti fyrir Norðan.

FORNLEIFUR, 8.10.2013 kl. 11:59

8 identicon

Sæll Fornleifur.

Ævinlega fróðlegt og gaman að lesa pistla þína.
Öðru máli gegnir um samskipti fræðimanna
á þessu sviði. Þar er hreint böl á ferðinni.

Ætli þetta hringlaga form margnefnt séu ekki bara
hlaðnir réttarveggir eftir að hús töpuðust
eða féllu sjálfum sér?(!)

Eitthvað að frétta af rómaðri rómverskri mynt
er fannst við Arnarhól, lofsællar minningar?

Hvað mundi fást fyrir þá mynt sem þar fannst
og hversu auðvelt er að verða sér úti um slíkt
gaman?

Húsari. (IP-tala skráð) 8.10.2013 kl. 12:01

9 Smámynd: FORNLEIFUR

Þó vitlausir Kínverjar í doktorsnámi við HÍ séu ekki að hóta mér lífláti og Rauða hernum eins og Friðriki Eysteinssyni, hef ég leyft mér að senda fyrirspurn í anda Friðriks, þegar hann sendir mönnum línu í "Háskóla Íslands" (gæsalappirnar utan um Háskóla Íslands eru mínar):

Sæl Steinunn [Kristjánsdóttir prófessor],

ég vona að þú sjáir þér fært að svara gagnrýni minni hér http://fornleifur.blog.is/blog/fornleifur/entry/1308152/ og hér: http://fornleifur.blog.is/blog/fornleifur/entry/1308947/
og vona að þú teljir þig ekki yfir það hafna

bestu kveðjur,

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson ;

STEINUNN SVARAÐI SAMDÆGURS:

Sæll Vilhjálmur,

Engar kenningar eru hafnar yfiir gagnrýni. Þær eru beinlínis lagðar fram til nánari skoðunar. Um þetta getum við væntanlega verið sammála. Ég hef hins vegar lítið um gagnrýni þína að segja, sumt er gott en annað ekki.

Hefur þú annars ekki enn lesið bókina mína um Skriðuklaustur, eins og þú lofaðir mér að gera þegar hún var í vinnslu? Bestu kveðjur,

Steinunn

ÉG SVARAÐI UM HÆL:

Sæl Steinunn,

ég er ekki með neina fasta vinnu, og er ekki búinn að vera það lengi (eða allar götur síðan 1996 þegar Þór Magnússon rak mig úr vinnu á Þjóðminjasafni Íslands) og nú hef ég í rúmt ár verið án atvinnuleysisbóta eða styrkja frá hinu opinbera. Ég get því ekki leyft mér að kaupa allar bækur sem mig langar í. Nú síðast sótti ég um vinnu á Þjóðminjasafninu en fékk því miður ekki. Ég hef sótt þrisvar um þá rannsóknarstöðu. Þjóðminjasafnið bar umsókn mína og annarra vel menntaðra manna undir einhverja í HÍ og háskólinn valdi Lilju Árnadóttur starfsmann Þjóðminjasafsins í stöðuna. Þegar slíkt gerist eru vitaskuld litlar líkur til þess að ég hafi nokkur ráð á því að ná mér í bókina um Skriðuklaustur og verð að reiða mig á að góðir vinir gefi mér hana við tækifæri næst þegar ég á stórafmæli. Þá skrifa ég kannski um hana lof, ef það á við, eða gagnrýni ef hún er réttlætanleg. Ég læt ekki á mér standa meðan ég hef heilsu til.

Ég hef skoðað margar tilgátur þínar og kenningar og sett fram gagnrýni á þær, en heldur þykir mér leitt að þér sé svara fátt við athugasemd minni við þau vinnubrögð sem þú viðhafðir í riti Víkingaráðstefnunnar á Íslandi 2009. Þegar menn gegna stöðu eins og þeirri sem þú gegnir í Háskóla Íslands, er lágmarkskrafa að menn kunni að vitna rétt í texta. Það er víst orðinn almennur vandi á þeirri stofnun.

bestu kveðjur,

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

FORNLEIFUR, 8.10.2013 kl. 12:04

10 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Sæll Fornleifur. Ég las grein/bók Stummann Hansen og John Sheehan en þar eru nógugóð svör við spurningum mínu til þín. Mætti ég spyrja eina. Hvenær eru talið að Rómversku tölustafir fyrst notaðir hér á landi.  

Valdimar Samúelsson, 10.10.2013 kl. 15:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband