Skyggnumyndasýning Marks Watsons - nú í boði Fornleifs

Nýjasti safnauki Fornleifasafns er lítill en all verklegur kassi. 

Kassi þessi er svo rammgerður, að erfitt er að granda honum nema með einbeittum vilja. Loki kassans er lokað með tveimur spöngum og einnig þykkri leðuról. 

Ég keypti kassann á eBay, en ekki vegna þess að ég safna litlum kössum og öllum eins, eins og segir í kvæðinu. Innihald kassans vakti þegar forvitni mína og ég keypti hann nánast án upplýsinga um innihaldið. Þó upplýsti seljandinn á Englandi, að um væri að ræða heila röð mynda og tilheyrandi minnispunkta yfir skyggnuljósmyndir, 8x8 cm. að stærð. Röðin ber heitið A Journey to Iceland.

Í kassanum ramma eru 35 skyggnumyndir, svokallaðar laterna magica myndir, frá 4. áratug síðustu aldar, þegar slíkar myndir voru reyndar að syngja sitt síðasta vers.

Ég var sem betur fór einn um hituna á netuppboðinu. Ásættanlegt verðið rauk því aldrei upp. Svo kom kassinn seint og síðar með sænska póstfyrirtækinu (sem blóðsýgur Dani) og rannsóknir hófust á innihaldinu við fyrsta tækifæri sem gafst:

IMG_4519 (2) C

IMG_4530 (2) C

Tvær eða þrjár myndanna eru eldri en hinar, og eru teknar úr eldri Íslandsmyndaröð. Þær myndir voru framleiddar af fyrirtækinu Newton & Co á 37 King Street í Covent Garden. En meginþorri myndanna eru merktar framleiðandanum Church Army á 14 Edgeware Road W.2 í London, sem voru góðgerðar- og trúboðsamtök (sem enn eru til) sem útveguðu fátæklingum Lundúnaborgar alls kyns vinnu, m.a. við að útbúa glerskyggnur fyrir ríka viðskiptavini, sem margir hverjir studdu starfsemi samtakanna mjög ríkulega fyrir skattaívilnanir. Þorri myndanna í kassanum er tekinn á síðari hluta 4. áratugarins af breskum ferðalangi sem hafði verið á Íslandi að sumarlagi.

Eigandinn

Kassanum fylgdu minnispunktar fyrir fyrirlesarann sem notaði þessar myndir í fyrirlestrarhaldi á Heimssýningunni í New York (sjá hér).

Fljótlega kom í ljós við lesturinn á minnispuntunum, að höfundur þeirra var mikill dýravinur og sömuleiðis mikill Íslandsvinur.

Á meðal nýrri myndanna í kassanum voru margar dýramyndir og einnig mynd af húsakynnum Dýraverndunarfélagsins í Reykjavík. Mig grunaði að sá sem tekið hefði myndirnar væri enginn annar en endurreisnarmaður og verndari íslenska hundsins, hinn eini og sanni Mark Watson. Í íslenskum dagblöðum var greint frá því að Watson hefði verið á Íslandi sumrin 1937 og 1938.

Einhverjar pöddur hafa farið á beit í minnispunktum Watsons og þegar skjalið komst í hendur þess er þetta ritar var það sett í poka og beint í frystinn í nokkra daga og síðan var allt lauslegt hrist á svarta plötu til að athuga hvort einhverjar dýraleifar væru enn á kreiki eða á lífi. Svo var ekki, en kannski er ég komin góð sýnishorn af flösu úr höfði Watsons. Beðið er frekari rannsókna á því. 

Ég greindi sérlegum agent Fornleifs á Íslandi frá grun mínum um að myndirnar hefðu tilheyrt Mark Watson. Hann sendi mér nokkrum mínútum síðar grein Önnu heitinnar Snorradóttur (1920-2009), sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins árið 1988(sjá hér). Grein Önnu skýrði mörg vafamál og lausa enda í rannsókn minni. Anna hafði sem ung stúlka ásamt bróður sínum, Hauki Snorrasyni (1916-1058), síðar ritstjóra Dags og enn síðar Tímans, verið Mark Watson innan handar á ferðalögum hans um landið árin 1937 og 1938. Lesið vinsamlegast grein Önnu til að fá sem mest út úr myndunum. 

Iceland PavillionÞess ber þó að geta, að greint var frá því í Morgunblaðinu 31. mars 1939, að til væri kvikmynd í lit sem Watson á að hafa tekið á Íslandi. Val stóð á milli fjögurra Íslandskvikmynda, en eina átti að sýna í New York. Litmynd Watsons var að lokum ekki ekki sýnd í New York, heldur hélt hann þar í húsi Íslands fyrirlestra með skyggnumyndum sínum sem teknar voru á Íslandi 1937-38.  Honum innan handar við þær sýningar var einnig Haukur Snorrason, sem var Watson mikill harmdauði er Haukur dó um aldur fram árið 1958.Alþýðublaðið - 277. Tölublað (01.12.1937)

Watson hélt einnig sýningu á ljósmyndum sínum í Lundúnum (Wertheim Gallery), síðla hausts 1937. Sýninguna heimsótti Krónprins Friðrik og Ingrid spúsa hans. Færði Watson þeim tvær ljósmyndir að gjöf líkt og Alþýðublaðið greindi frá þann 1. desember 1937.

tumblr_pleakuGiIX1warhxxo2_1280Fólk í fréttum: Ekkert launungarmál er það lengur á okkar upplýstu tímum, að Watson þótti, fyrir utan Ísland og smalahundinn okkar, einnig vænt um unga hali, þó svo að hann hafi mest hrifist af hinum íslenska seppa. Þess má einnig geta að amma David Camerons fyrrum forsætisráðherra Breta var systir Marks Watsons. Þá vituð þér það.

Ekki ætla ég heldur að útiloka að kvikmynd Watsons sé týnd og tröllum gefin. Ef einhver veit meira um hana eða hvar hún gæti verið niður komin, þætti mér fengur í að fá vitneskju um hana. Þangað til annað kemur í ljós, geng ég út frá því að myndirnar í kassanum góða séu þær sem Watson sýndi á heimssýningunni New York árið 1939 - þar sem einnig var til sýnis mynd af Fyrstu hvítu móðurinni í Ameríku eftir Ásmund Sveinsson (sjá skýrslu Fornleifs um styttuna hér).

MARK TIL HESTS JPGFjölskylda Watsons var forrík. Langafi hans, Joseph Watson, hafði auðgast á ýmis konar efnaframleiðslu og sápugerð í Leeds og Yorkshire og afi hans, George, byggði þann iðnað frekar upp. Faðir hans, Joseph, sem síðar þekktur sem the First Baron Manton, græddi á tá og fingri og framleiddi einnig sprengiefnið Amatol fyrir breska herinn. Sjálfur átti Mark Watson hús í London, íbúð í Boston og aðgang að ættarsetri í Austurríki.

  Þar sem Watson bjó í Nicasio i Kaliforníu, ca. 30 km. norður af San Francisco, og stundaði þar hreinræktun á íslenska hundinum, var aðeins lítillátur bústaður hans sem hann dvaldi í er hann hafði tíma til að sinna hundarækt sinni í sveitasælunni. Þar hélt hann einnig margfrægar "sígaunaveislur" fyrir sérstakt og listrænt fólk frá Castro-hverfinu í San Francisco.

Vegna alls ættarauðsins, þurfti Watson svo sem ekkert að vinna sér til framfærslu, en hann lærði fornleifafræði, var í breska hernum, og var síðar diplómat í Washington (1930-32) og einnig forngripasali í New York svo eitthvað sé nefnt. Ræktin á íslenska hundinum lá nærri hjarta hans. En alltaf gat hann borgað aðstoðarfólki vel, svo lífsstíllinn væri á pari við það sem jafnan gerðist á meðal lágaðalsins á Bretlandseyjum. Watson var þó fyrst og fremst gullaldarrómantíker, sem hafði minni áhuga á verslun, iðnaði og auði en menningu og listum. Sumir safna og aðrir eyða.

Screenshot 2022-06-05 at 11-13-52 Update 2017_pp1-8A - NHS_2017_Summer_Update.pdf

Íbúðarhús eða búgarður í augum Íslendinga, en réttara sagt sumarbústaður Watsons í Nicasio í Kaliforníu. Jörð hans þar getur ekki flokkast undir "búgarð" líkt og sumir Íslendingar töldu að býli hans þar væri.

Ég átti þeirrar ánægju að njóta, að vera kynntur fyrir Watson á barnsaldri. Hann kom eitt sinn heim með föður mínum og keypti af föður mínum gamalt landakort af Íslandi. Watson var boðið í kaffi og kökur. Hann var meðal hærri manna og var með sýnu hærra höfuð en faðir minn, og eftir slíkum hausum þurfti oft að leita lengi á Íslandi.

Sjón er sögu ríkari

En höfum ekki fleiri orð um þetta. Blogglesendur eru latir og Lesendur Fornleifs geta nú litið í kassann og horft á skyggnumyndasýningu Watsons með því að klikka á skyggnumyndasýninguna efst, sem Fornleifur hefur sett á YouTube-síðu sína, eða klikkað hér.

29 b

Mynd Watsons af einum af samferðarmönnum Watsons með hund.

33 b

Mynd 33 í myndaröð Watsons frá Íslandi. Watson kallaði myndina Going Aboard og það sem hann ritaði í sýningartextann sýnir mikinn kærleika til dýra:

LAST ONE GOING ABOARD

94 ON SHIP

ROUGH PASSAGE BACK; but they had 4 legs

I WENT INTO THE HOLD EVERY DAY

DRY, COZY, HAY, PUZZLED

WOULD SEE SEAMEN TAKE THEIR OWN BREAD

AND BUTTER DOWN TO THEM

Misjafnt er mat manna. Íslenskum hrossapröngurum hefði ugglaust þótt það heldur betur út í hött að gefa hrossum smjér. En blessaðir Íslendingarnir komust fyrst á mann- og dýragæskustig Viktoríutímans eftir aldamótin 2000, þá er menn fóru fyrst að elska hundinn sinn meira en mannskepnuna og eta hráan bauta úr plastumbúðum úti í móa. Þær hefðu nú hlegið að því í þvottalaugunum þær Guðný og Jónína sem sjörmuðu Tjallan með uppistandi sínu. Watson ályktaði: WOMEN WORK HARDER (one of these not keen on me). Hann Mark þekkti greinilega lítið á konur.

19 b fyrir blog


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband