Ástandsnjósnir

bretinn.jpg

Ég hlakka til að lesa grein prófessors Þórs Whiteheads í Sögu um persónunjósnir Jóhönnu Knudsens hjúkrunarkonu og fyrstu lögreglukonunnar á Íslandi, sem gerð var að yfirmanni ungmennaeftirlits lögreglunnar árið 1941, eða þangað til hún var sett af árið 1944.

Þór Whitehead hefur greinilega beðið eftir þessu rannsóknarefni, sem var lokað efni í 50 ár eftir að það var afhent Þjóðskjalasafninu árið 1961. Ég sé Þór fyrir mér eins og ólman, breskan latínuskólanema (þó svo að hann hafi nú gengið í Verslunarskólann og lært höfuðbækur í stað latínu), sem kemst í fullar útgáfur af gömlu meisturunum, þar sem klámfengið efni hefur ekki verið sleppt úr eða klippt út úr bókunum.

Að umfang njósna þessarar gammeljómfrúar Knudsen hafi verið svo mikið, og að 1000 konur hafi verið undir smásjá hennar, kemur hins vegar á óvart, þó svo að þóttinn og öfgarnar hafi verið miklar t.d. í grein hennar gegn Arnfinni Jónssyni kennara og meðlimi í barnaverndarnefnd. Hann skrifaði um aðferðir Knudsens (Sjá hér og eitt svara hans hér).

Vitaskuld var "ástand" á kvenfólkinu, að því leyti að það hafði allt í einu einn vordag í maí 1940 úr grösugri garði að gresja en áður. Þær hittu fyrir menn sem voru ef til vill meiri sjentilmenni en íslenskir karlar. Karlar eru það oft þegar þeir eru ekki heima hjá sér. Kaninn var enn glæsilegri en Tjallinn og þá fauk í flest skjól fyrir marga íslenska karla í kvennaleit, þegar glæsikonur bæjarins völdu hermenn fram yfir þá. Vonlausir gaurar, eins og þeir heita í dag, gerðu einnig sínar athuganir, sem Knudsen hefur líklega þótt kræsilegar, og einn þeirra, sem kallaði sig S.S., birti þær í lágkúrulegum bæklingi. S. S. þessi hét í raun Steindór Sigurðsson (1901-1949) Sjá hér.

setuli_i_og_kvenfolki_ljosm_vilhjalmur_rn_vilhjalmsson.jpg

 

Hermann Jónasson, ekkert er nýtt undir sólinni

Auðvitað var Hermann Jónasson með fingurinn í þessu eins og öðru. Þó vona ég að Þór Whitehead sé ekki enn að velta fyrir sér hverjir hafi verið meiri nasistar, Sjálfstæðismenn (sem hann tilheyrir) eða Framsóknarmenn? Bæði Framsóknarmenn og Sjálfstæðismenn voru hallir undir Hitler!

Hverju mátti búast við af manni (Hermanni), sem kom því til leiðar að landflótta gyðingar væru sendir úr landi, og sem einnig setti hindranir í veg fyrir þá eina, meðan aðrir hópar sem tilheyrðu hinum "aríska" stofni var hleypt inn í landið. Ekki breyttust hlutirnir eftir stríð. Þýskar vinnupíur, sumar hverjar dætur dæmdra stríðsmanna Hitlers, voru fluttar inn í stórum stíl og gerðust myndarhúsfreyjur á hrakbýlum landsins og eignuðu börn og buru með sveitadurgum sem engin heilvita íslensk kona leit við. En það féll hins vegar fyrir fyrir brjóstið á sumum Íslendingum, að svartir menn þjónuðu á herstöðvum Bandaríkjamanna á Íslandi. Í dag eru menn með fáeina múslíma og annað "dekkra" fólk á milli tannanna á sér og halda mætti af máli sumra, að til landsins væri mættur heill her.

f7a08fae13ce7071.jpg
18bba6b35caa3be4_1226763.jpg
Ekki létu herir bandamanna sér alveg á sama um hvað sumum Íslendingum þótti um samlíf íslenskra kvenna og dátanna.  Skautakvikmyndin Iceland vakti gagnrýni í BNA sem og meðal Íslendinga, jafnvel þó þeir hefðu ekki séð myndina. Menn í Bandaríkjunum töldu að "ástandið" sem sýnt var í myndinni gæti orðið til að skapa BNA óvildarmenn. Sjá hér. Þessar myndir hér að ofan eru hins vegar ekta myndir af svellinu á Íslandi.

Þegar ég les um ofsa fyrstu lögreglukonu Íslands, er mér hugsað til danskrar lögreglukonu sem starfaði á skrifstofu dönsku lögreglunnar í síðara stríði. Þegar danskur verkamaður í Berlín bjargaði gyðingnum Bröndlu Wassermann og þremur börnum hennar til Kaupmannahafnar, var tekin sú ákvörðun að senda hana og börnin úr landi með fyrstu lest. Til að fylgja þeim til Þýskalands var fengin lögreglukonan sem vann á skrifstofunni. Ég fékk áhuga á því að vita hvað kona þetta var, og kom þá í ljós að þetta hún var meðlimur í nasistaflokki Dana. Hún tók ekki að sér flutninginn til Þýskalands af "kvenlegri miskunnsemi" heldur vegna fordóma sinna, og hefur líklega talið sig vinna góðverk. Mánuði eftir að Brandla og börnunum hennar hafði verið vísað úr landi í Danmörku, höfðu börnin verið myrt í gasklefum Auschwitz og Brandla var myrt þann 15. desember 1942, þegar SS-læknir sprautaði fenóli beint í hjarta hennar eftir að brotist hafði út taugaveiki í skála þeim sem hún var í. Lesið um þetta í góðri bók sem hægt er að fá lánaða á bestu bókasöfnum landsins.

Ástandið var nauðsynlegt !

Svonefnd ástandsskýrsla sem gerð var 1941, byggð á gögnum Jóhönnu Knudsens, upplýsir að lögreglan sé með á skrá 20% þeirra kvenna sem séu í ástandinu, eða um 500 konur. Miðað við fjölda kvenna 12 til 61 ára í Reykjavík þýddi það, að 2.500 konur væru í ástandinu. Þetta er vitaskuld út í hött. Líklega hafa allar konur sem þvoðu fyrir Breta, t.d. hún amma mín á Hringbrautinni, komist á lista Knudsens yfir léttúðugar konur. Amma mín þénaði einhverja smáaura fyrir þessa vinnu. Langamma mín, heiðvirð stýrimannsfrú og peysufatakona, komin vel yfir 61 árs aldur, hafði einnig samband við Bretann, þegar hún var stundum með í sumarbústað dóttur sinnar og tengdasonar í Mosfellssveitinni. Að sögn móður minnar, sem er fædd árið 1929, elskaði amma hennar að tala við Tjallann, þó hún kynni ekki stakt orð í ensku. Fingramál gekk ágætlega og hermennirnir voru hrifnir af henni, því stundum færði hún þeim kaffi. Mesta mildi má þykja að hún langamma mín hefði ekki verið skotin þegar hún þeyttist yfir holt og hæðir til að hitta vini sína í breska hernum, en þarna nærri sumarbústaðnum stunduðu Bretar skotæfingar.

g_min_1226767.jpg

Háttalag langömmu minnar hefði ekki fallið frú Knudsen í geð, en Guðrún var bara gestrisin kona úr Kjósinni sem kunni sig í umgengni við erlent fólk.

Ætli Jóhanna Knudsen og ýmsar aðrar konum hefðu ekki lagst undir fyrsta þýska nasistann, hefðu þeir komið hér í stað Breta og Ameríkana? Hver veit? Það er eðli flestra kvenna að "falla" fyrir mönnum og konur eru jafnan nýjungagjarnari en karlar. Hefur það ekki bjargað þjóðinni frá afdalamennsku þökk sé góðum leik íslenskra kvenna, og komið í veg fyrir meiri skyldleikarækt en þá sem er staðreynd á Íslandi ?

Í Danmörku fúlsuðu mjög margar konur ekkert við Günther og Siegfried, en mjög margir Danir fæddir á tímabilinu 1941-45 vita alls ekki enn að þeir eru með erfðamengi "herraþjóðarinnar" í æðum sér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

þetta ÁSTAND :::: kvenna  o0g umræðan um það lysir mestu minnimáttarkend og vesælmennsku sveitamanna á Islandi sem þeir ættu að reyna að hætta að ræða.

 Þetta svipar mjög til einelti sem notað hefur verið í ómunatíð af kjaftakellingum !

Erla Magna Alexandersdóttir, 27.1.2014 kl. 19:33

2 Smámynd: FORNLEIFUR

Sammála þér Erla. Íslendingar eru heimsmeistarar í einelti.

FORNLEIFUR, 28.1.2014 kl. 07:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband