Af DNA-ævintýrum og rangfærslum Gísla Pálssonar

Bók GP 2
Árið 2014 kom út bók Gísla Pálssonar fyrrverandi prófessors við HÍ, sem ber heitið Hans Jónatan, maðurinn sem stal sjálfum sér. Síðan hefur bókin verið gefin út á ensku, dönsku og síðast á frönsku, enda er efnið vitaskuld áhugavert.

Þegar bókin kom út á íslensku, reyndi ég þegar að verða mér út um eintak, þar sem ég hef lengi haft áhuga á sögu svartra manna á Íslandi (þið finnið lesefni um það hér á vinstri spássíu Fornleifs).

Þar fyrir utan hef ég rýnt í skrif Gísla síðan hann vann með prófessor Paul Durrenberger, bandarískum félagsmannfræðingi sem var fyrst og fremst sérfræðingur í Tælandi og Melanesíu. Durrenberger las eitt sinni kilju með Íslendingasögu í flugvél og sneri sér þá að mannfræðirannsóknum á Íslandi í kjölfarið – en með afar misjöfnum árangri. Eftir að Gísli fór út fyrir sitt svið og gerðist mikill áhugamaður um DNA-rannsóknir hef ég líka fylgst með úr fjarska. Ég hef hér áður á Fornleifi lýst gagnrýni minni á vinnubrögð Gísla á síðastnefndu sviðinu (sjá hér).

Þegar vinur minn í Reykjavík heyrði af þessum brennandi áhuga mínum á bókinni, keypti hann hana þegar í stað og gaf mér nokkrum dögum síðar er hann heimsótti mig í Danmörku. Ég hnaut þegar um ýmsar villur í bókinni og undraðist síðar að þær hefðu ekki verið leiðréttar þegar bókin var gefin út á öðrum tungumálum.

Fyrirlestur Gísla Pálssonar í Kaupmannahöfn 2015

Þar sem sögusvið bókarinnar um Hans Jónatan er m.a. Kaupmannahöfn, hélt Gísli Pálsson erindi um innihald bókarinnar í Kaupmannahöfn í janúar 2015 á málstefnu í tengslum við ágæta sýningu sem þar var haldin um efni sem ég hef síðan einnig skrifað viðbætur um atriði sem sýninguna og sýningarskrá vantaði (sjá hér).

Erindi sitt í janúar 2015 kallarði Gísli Pálsson "Homo Islandicus: Black and white”. Það var flutt í húsakynnum Nordatlantens Brygge á Kristjánshöfn í Kaupmannahöfn. Ég fór til að hlusta, en endaði með því að gagnrýna Gísla fyrir villur og rangfærslur sem fram kom í sýningatexta sýningarinnar sem hann fjallaði um að hluta til. 

Því miður komst ég ekki að til að ræða nýju bókina um Hans Jónatan við Gísla. Ung dönsk kona sem stýrði málþinginu, og sem ég tel næsta öruggt að hafi einhverju sinni verið nemandi Gísla á Íslandi, reyndi eftir bestu getu að þagga niður í mér. Gagnrýni var ekki vel séð í þeim dagskrárlið sem kölluð var umræða. Það var því dulítið íslenskur fræðibragur yfir pakkhúsinu á Christianshavn þann daginn.

Fyrirlestur Gísla í Reykjavík

Gagnrýni var greinilega heldur ekki vel séð, þegar Gísli Pálsson (GP)hélt erindi um bók sína um Hans Jónatan í stórborginni Reykjavík. Eftir fyrirlesturinn reis upp prófessor Gísli Gunnarsson (GG) sagnfræðingur, og benti á villur í bók Gísla Pálssonar um Hans Jónatan.

GP vitnar t.d. á bls. 190-91 í bókina Ættir Austfirðinga, þegar hann birtir lýsingu á sonarsyni Hans Jónatans, Lúðvík Lúðvíkssyni á Karlstöðum á Berufjarðarströnd. Úr sal benti GG GP á þá staðreynd, að tilvísunin væri röng hjá nafna sínum; GG greindi frá því að lýsinguna á Lúðvík væri alls ekki að finna í verkinu Ættir Austfirðinga og að GP hefði sótt tilvitnunina um Lúðvík á Ættarvef afkomenda Hans Jónatans. Þó að á ættarvefnum stæði skýrum stöfum: "Höfundur þessarar lýsingar er Gísli Sigurðsson, bóndi og kennari að Krossgerði, Berufjarðarströnd" hliðraði GP af einhverjum ástæðum staðreyndum og sagði að lýsingin á Lúðvík væri komin úr verki þar sem hana er ekki að finna. Það eru vægast sagt furðuleg vinnubrögð í bók sem ekki telur fleiri en 292 tilvitnanir í 267 blaðsíðna bók.

GG er reyndar dóttursonur Gísla Sigurðssonar, og lét GG Ættarvefnum upplýsinguna sem GP misnotaði í té.

Gísli Gunnarsson átti einnig í stökustu erfiðleikum með að rekja garnirnar úr Gísla á fundinum, því nokkrir úr klappliði nemanda GP og aðrir vildarmenn höfðu í frammi hávær mótmæli við öllum efasemdum sem fram komu í sambandi við bókina. GP stóð í pontu fastur í þeim ósannindum að frásögnin væri komin úr Ættum Austfirðinga. GG gerði hins vegar síðar grein fyrir þessi villuráfi GP í tímaritinu SÖGU 2015:2. Orðrétt segir þar:

"Í aðaltexta er sagt að tiltekin ummæli (á bls. 190-191 í bókinni séu fengin úr bókinni ÆTTIR AUSTFIRÐINGA. Þetta þótti mér undarlegt og leit því í tilvísanaskrá bókarinnar. Þar er sagt að ummælin séu af ÆTTARVEF HANS JÓNATANS...Þar, (á ættarvefnum) stendur skýrum stöfum: "Frásögn þessi er eftir Gísla Sigurðsson, bónda og kennara á Krossgerði. Hún fékkst frá dóttursyni hans, Gísla Gunnarssyni"".


Nýlega hélt GP því ósmeykur fram á Facebook GG, að GG vildi kveðið hafa þá Lilju sem hann sjálfur orti með útgáfu bókarinnar um Hans Jónatan. Gaf GP í skyn að GG væri að öfundast út í verk sitt. Þetta voru heldur klén viðbrögð við gangrýni sem GG hafði hreyft aftur við í tilefni að sýningu leikinnar heimildarmyndar um Hans Jónatan í Sjónvarpinu (RÚV).

Ég er persónulega viss um að GG hefði, sem ábyrgur og virtur sagnfræðingur, gert hluta af því efni sem bókin inniheldur betur skil en GP gerði. Í bók GP eru einfaldlega of margar villur til að taka verkið alvarlega. Nú verða sumar þeirra útlistaðar:

Getur GP lesið frumheimildir?

kirkebogen Christiansted VOV Ljósm. V.Ö.Vilhjálmsson

Í bók sinni Hans Jónatan: Maðurinn sem stal sjálfum sér, er GP með mynd af því sem hann kallar skírnarvottorð Hans Jonathans. Það er rangt; Um er að ræða kirkjubók Lúterska safnaðarins í Christiansted á Sanct Croix 1780-1794, sem varðveittar eru í Ríkisskjalasafninu (Rigsarkivet) í Kaupmannahöfn, sem GP kallar ranglega "Þjóðskjalasafn".

Ógreinileg svarthvít mynd í lítilli stærð á bls. 31 í bók Gísla er vitaskuld ekki skírnarvottorð, heldur mynd af blaðsíðu í kirkjubók. Rétt heiti kirkjubókarinnar sem ber að vitna í er: Den Evangeliske Menighed på Sankt Croix: Enesteministerialbog for evangelisk menighed på Skt. Croix. GP kann því greinilega ekki listina að vitna rétt í heimildir. Það rýrir mjög verk hans.

Ekki er nóg með að rangt sé vitnað í kirkjubókina, GP les einnig textann ranglega og færir í stílinn. Á óljósri ljósmynd sem hann birtir á bls. 31, þýðir hann orðið Faddere sem Votta.  Það er frekar ónákvæm þýðing. Fadder er skírnarvottur. Skírnarvottar Hans Jónatans voru Herra og frú Testmann og Hr. Delgart, sem Gísli les sem Delpach.

Hvað á prófessor sem ekki getur lesið frumheimildir sér til gagns að vera að vasast í ritheimildum frá 18. öld?  Aldrei voru til neinir Delpach á Sankt Croix, fæðingaeyju Hans Jónatans, en Delgart voru meðlimir safnaðarins. Í kirkjubókinni stendur greinilega Delgart. Þó texti kirkjubókarinnar sé að mestu rétt túlkaður í vandaðri bók blaðamannsins Alex Frank Larsens, Slavernes Slægt (2008), tekst GP ekki að nýta sér það, þó sú bók hafi verið honum kunnug.

Höfundur þessa pistils tók sér sjálfur ferð fyrir hendur til að lesa frumskjalið sem varðveitt er í Ríkisskjalasafninu í Kaupmannahöfn og tók af því ljósmyndir til að fá betri sýn á blaðsíðuna í kirkjubókinni.

GP heldur því fram, að að á "skírnarvottorðinu" sem hann hefur greinilega ekki haft á milli handanna sé hægt að lesa eftirfarandi (Ég hef leyft mér að setja inn rauða bókstafi þegar GP fer með fleipur):

"Hinn 20. júní, annan mánudag eftir trinitatis. Skírt hér í kirkjunni 1 óskilgetið múlattabarn, nefnt Hans Jónatan,  móðirin [hans] er negrakonan Regína sem tilheyrir General Major Schimmelmann. [og Föður ekki getið skriflega en hermt er að hann sé ritarinn."

Ef Gísli Pálsson hefði getað lesið skjöl þessa tíma sér til gagns, hefði hann líklega frekar lesið þetta:

Den 20de Juni 2den Søndag  efter Trin. døbt her i Kirken -/ et  uægte mulatte-Barn, kald.. Hans Jonathan. Hans Moder var Negerinden Regina, tilhører Gen: Major Schimmelmann, og Fader blev ingen skriftlig ud[lagt?], men erindrer mundtlig sagt at være Secretairen.

Þýðingin á íslensku ætti því frekar að hljóða þannig:

Hinn 20. júní., annan sunnudag eftir Trin[itatis]. Skírt hér i kirkjunni - /  óskilgetið Múlattabarn,  kallað Hans Jonathan. Móðir hans var negrakonan Regina, sem tilheyrir Generalmajor Schimmelmann, og faðir var enginn til [greindur??] skriflega, en [mig] minnir að það hafi verið sagt munnlega að væri ritarinn.

Á grundvelli þessarar frekar óljósu og bjöguðu dönsku í kirkjubókarfærslunni, má ef til vill álykta að ritarinn væri upphaflega þýskumælandi.

Þó GP hafi ekki getað nýtt sér frumheimildir til hlítar, ætlar GP, lítið fær á rithendur 18. aldar, að leita að afkomanda ritarans sem Gísli færir rök fyrir að hafi verið maður að nafni Hans Gram. Það á ekki að gerast með heimildaleit, heldur með aðstoð beinagrindar Hans Benjamin Burch Grams, sonar Hans ritara, sem GP telur að hægt sé að finna í kirkjugarði einum í Brooklyn í New York.

Næsta ævintýri Gísla Pálssonar: Leitin af Hans  Benjamin Burch Gram í kirkjugarðinum

Óbifandi ofurtrú GP á DNA-greiningum á nú að leysa spurninguna um faðerni Hans Jónatans, þrælsins sem flýði úr ömurlegri vist í Kaupmannahöfn og settist að á Íslandi árið 1802. 

Áður var Hans Jónatan talinn vera sonur Schimmelmanns, eiganda síns, en GP er eiginlega búinn að afskrifa generamajorinn, því "alhvítir" afkomendur Schimmelmanns í Danmörku, vilja ekki gefa Gísla sýni úr sér svo hægt verði að rannsaka skyldleikann með því að bera niðjar Schimmelmanns saman við genamengi afkomenda Hans Jónatans á Íslandi. Þriðja ættin, Moltke, sem gæti ef til vill feðrað Hans Jónatan, er af einhverjum óskýrðum ástæðum ekki svo mikið til umræðu lengur, því GP hefur fengið þá flugu í höfuðið að enginn annar en ritarinn, sem tilgreindur er óbeint í ofangreindri kirkjubók, komi til greina.

Við lestur fréttar á mbl.is sem og fréttar á dönsku sjónvarpsstöðinni TV2 sá ég að bandarísk kona, Kirsten Pflomm að nafni, sem telur sig vera afkomanda Hans Jónatans, vilji láta grafa upp bein Hans Benjamin Burch Grams upp í kirkjugarði í Brooklyn.

En það læðist nú að manni sá grunur að Eiríkur prófastur og magister Helgi séu líka farnir að aðstoða prófessor Gísla. Pflomm, sem á yngri árum starfaði fyrir Bill Clinton og Pentagon, en býr nú og vinnur í Kaupmannahöfn, ætlar með Gísla að freista þess að ná beinum Hans Benjamíns úr fjöldagröf í Brooklyn.

Hans Burch Gram (1786-1840) var sonur Hans Grams ritara organista og tónskálds, sem GP telur að sé sá ritari sem gefið er í skyn að hafi verið faðirinn í kirkjubókinni. Eftir árin í Christiansted settist Hans Gram að í Boston. Þar er sonur hans, Hans Burch Gram, sem GP langar að grafa upp. Sonurinn er talinn vera fyrsti homópatinn í Bandaríkjunum. Hann lést árið 1840 í mikilli fátækt.

Ég rannsakað málið betur í bandarískum gögnum og get hér upplýst að Hans Burch Gram var ekki upphaflega borinn til grafar í Greenwood-kirkjugarði í Brooklyn (sjá t.d. hér).

Þetta kemur einnig vel fram á bls. 180-81 í bók GG, þar sem Gísli vitnar ekki fyllilega í heimild sína og er mest upptekinn af áhuga manna á hauskúpu Hans Burch Gram, er meint bein hans voru flutt. Hann var upphaflega greftraður í St. Mark´s Burial Ground, milli 11. og 12. strætis í New York City.

Hinn 4. september 1862, eða 22 árum eftir dauða Hans Burch Grams lét vinur hans og nemandi John Franklin Gray grafa upp jarðneskar leifar Hans, sem lágu undir minnismerki eða grafsteini (sjá lýsingu  í bók Thomas Lindsey Bradfords um bandaríska hómópata, hér bls, 295). Leifarnar voru fluttar í grafreit Gray ættarinnar í Green-Wood Cemetery í Brooklyn án steins. Reyndar voru allar aðrar grafir í St. Mark´s Burial Ground fluttar til The Evergreens Cemetery árið 1864, sem er á öðrum stað í Brooklyn, 8 km austur af Green-Wood kirkjugarði. Miklu síðar en 1862 var svo settur nýr steinn ofan á hið nýja leiði Hans Burch Gram. Þar undir vill Gísli samkvæmt fréttamiðlum leita hálfbróður Hans Jónatans. Er Bein hans voru flutt frá Manhattan ályktuðu menn að hár hans í gröfinni væru svart. Það hafði ekki verið svart í lifanda lífi heldur rauðleitt.

st-marks-dripps-1852Kort frá 1852 sem sýnir staðsegningu St. Mark´s Cemetery á Manhattan. Þar var hugsanlegur hálfbróðir Hans Jónatans borinn til grafar. 1862 voru bein hans flutt.

Hans Burch

Teikningar af Hans Burch Gram í lifanda lífi. Hann var með kastaníurautt hár upplýsa heimildir, en var orðin svarthærður í gröfinni. Var þetta maðurinn með svarta hárið sem grafinn var upp í St. Mark´s kirkjugarði á Manhattan? Svart hár getur orðið rauðleitt eftir dauðan, en ekki öfugt.

Hvaða öryggi er fyrir því að rétt bein hafi verið tekin á Manhattan og að grafsteinn hafi verið lagður á rétt leiði? Því má GP gjarnan svara við tækifæri, því líklega vill hann ekki gera það á opinberum fundum.

Öll þessi fyrirhugaða og umfangsmikla líkleit er vitaskuld ekki sú sennilegasta til að gera sér vonir um "match", sem sýnt gæti skyldleika. Eyðing erfðaefnis getur verið umtalsverð við beinaflutninga. Svo er sú spurning opin, hvort grafin hafi verið upp rétt bein í Mark´s Burial Ground eða legsteinninn settur síðar yfir rétt leiði í Green-Wood. Stundum færast legsteinar líka til sökum rasks við aðrar greftranir. Með svo miklu óvissu ætlar bandaríks kona búsett í Kaupmannahöfn að hjálpa sérfræðingnum auðtrúa á Íslandi að finna hálfbróður Hans Jónatans, þrælsins sem settist að á Íslandi. Velkominn í heystakkinn sagði nálin.

En ef GP langar í líkkrukk í New York með meintum afkomanda Hans Jonathans, byggir það á enn einni veilu GP við að kynna sér ekki nógu vel heimildir og fara ekki fyllilega rétt með. Í því felst kannski aðferðafræði félagsmannfræðinga? Af hverju greini Gísli ekki frá því í bók sinni að svarthærður maður í gröf hafi verið rauðhærður í lifanda lífi. Ég kann ekki að meta slík vinnubrögð.

Er Gísli Pálsson upphafsmaður tilgátunnar um að Hans Gram sé faðir Hans Jónatans?

Samkvæmt bók Gísla er þetta alfarið hans hugmynd. En er það nú rétt? Alex Frank Larsen sem skrifaði bókina Slavernes Slægt (2008) um danska þræla, m.a. um Hans Jónatan, og gerði síðan fjóra mjög góða samnefnda sjónvarpsþætti, segir mér allt aðra sögu.

Hann upplýsir, að Svend E. Holsoe mannfræðiprófessor í Bandaríkjunum (1939-2017) hafi verið fyrstur til að stinga upp á Hans Gram og segja GP frá þessari skoðun sinni á fundi í Bandaríkjunum þar sem viðstödd var kollega GP sem Rannveig heitir. Larsen er fullviss um að það var Svend E. Holsoe sem átti hugmyndina. GP gerir því miður ekki grein frá þessu og gerir hugmyndina að sinni. Maður sem ætlað að leita að beinum í kirkjugarði í Brooklyn og sem ekki veit að þau hafa áður verið greftruð á Manhattan vílir greinilega engu fyrir sér.  

GP vitnar á einum stað í bók sinni í Holsoe, á eftir þesum orðum: ”Þótt kirkjubækur fari ekki alltaf með rétt mál og margar ástæður geti verið fyrir því að skrásetjarinn beini sjónum manna annað, geta líka verið gildar ástæður fyrir því að taka eigi fullyrðingar þeirra bókstaflega”. Þetta kemur fram í tölvupósti frá Holsoe til Gísla dags. 22. ágúst 2013. Kannski skýrir þessi póstur Holsoe forsögu málsins.

Hins vegar er það nú svo, og staðreynd, að á þeim tímum sem um er að ræða voru um 8-10% allra manna rangfeðraðir, sama hvað stendur í kirkjubókum.

Fyrri ævintýri Gísla Pálssonar með DNA og upprunaleit

GP hefur á síðari árum orðið eins konar átorítet á sviði DNA- rannsókna, þótt ljóst sé við lestur að þekking hans á því efni sé harla lítil og mestmegnis komin frá samstarfsmönnum hans hjá Íslenskri Erfðagreiningu.

Ekki er það þó svo, að Gísli Pálsson hafi ávallt verið eins glaður yfir niðurstöðum úr DNA raðgreiningum og hann er nú orðið.

Eitt sinn gerði hann út á tilgátur Vilhjálms Stefánssonar landkönnuðar og ætlaði sér að sanna þær með DNA greiningum.  Fékk hann til þess fúlgur úr opinberum sjóðum og notaði óspart af sínum akademíska tíma í málið - sem var ekkert annað en della runnin undan grillufangaratilgátum Vilhjálms Stefánssonar og dansks samtímamanns hans.

Vilhjálmur Stefánsson greindi um 1922 frá inúítum með ljóst hár á meðal inúíta Virginíu-eyju nyrst í Kanada. Lítið var um sönnunargögn. Vilhjálmur ljósmyndaði ekki alltaf til að færa uppgötvunum sínum fyllilegar sannanir. Vilhjálmur taldi þessi einkenni inúítanna ljósu væru til komin vegna blöndunar við Evrópumenn, sér í lagi við norræna menn frá Grænlandi. 

Gísli Pálsson gekk í lið með nemanda sínum úr félagsmannfræði, Agnary Helgasyni, sem farinn var að stunda DNA rannsóknir fyrir Íslenska Erfðagreiningu, eftir að hann hafði áður gagnrýnt deCode/ÍE harðlega. Ætlun GP var að sannreyna tilátu Vilhjálms, en ævintýri það endaði með því að inúítar á eyjunni voru úrskurðaðir hreinir inúítar og óblandaðir. Þannig fór um DNA show-ferð þá, sem var vitaskuld skemmtun frekar en fræði.

Þess má svo geta, svo að menn haldi ekki að GP sé einn um að trúa kjaftæði, að það var ekki Vilhjálmur Stefánsson sem fyrstur velti fyrir sér ljóshærðum eða koparhærðum inúítum (skv. skilgreiningu Vilhjálms) á slóðum. Hugmyndina fékk Vilhjálmur frá dönskum hvalfangara og ævintýramanni sem Christian Klengenberg hét. 

Þegar Gísli kynnti niðurstöður raðgreiningarinnar á inúítunum, var ekkert minnst á upphaflegan tilgang með rannsókninni. En þegar upp var staðið og engin gen Grænlendinga fundust í fólki á Virginíu-eyju, hélt GP því fram að Vilhjálmur hefði væntanlega búið til söguna til að ná í styrki.

Fyrrverandi nemandi Gísla, Agnar Helgason hjá ÍE, lét það hins vegar flakka á blaðamannafundi þegar niðurstöðurnar voru kynntar, að áframhaldandi samanburðarrannsóknir á inúítum á Grænlandi og Virginíu-eyju "could reveal a new chapters in the history of humanity". - Ekki meira né minna. 

Hinn merka kafla í sögu mannkyns, sem boðaður var, hef ég þó enn ekki séð.

Er ekki löngu kominn tími fyrir Agnar að segja okkur frá þessum frábæru niðurstöðum sem hann vænti árið 2003, eða var þetta kannski bara beita fyrir umsókn sem hann hafði í bígerð til að hala nokkrum milljónum inn með?

Ég bíð enn, því þetta verður að útskýra betur …


Uppruni forfeðra Hans Jónatans

Samkvæmt nýlegri grein í hinu virta tímariti Nature eftir hóp erfðafræðinga þmt starfsmenn Íslenskrar Erfðagreiningar, sem rannsakað hafa afrískan uppruna afkomenda Hans Jónatans, með því að raðgreina íslenska afkomendur hans, er því slegið föstu að þeir séu upprunnir í Benin, Nígeríu eða Kamerún. 

Reyndar kemur sá fjölþætti uppruni örlítið á óvart, því nokkuð vel var vitað, hvaðan Danir sóttu þræla sína, sem þeir fluttu til Vesturindíu. Það vill svo til að allar þrælasölustöðvar Dana eru þekktar og þaulrannsakaðar. Allar voru verslunarstöðvar og þrælamiðstöðvar Dana í núverandi Ghana. Bærinn Kumais í Norðurhluta Ghana var hins vegar miðstöð þrælaverslunarinnar. Ashanti-fólkið sem þar réði ríkum hneppti nágranna sína í ánauð, stundum í samfloti við arabíska þrælasala. Frá Kumais voru þrælar seldir til verslunarstöðva við ströndina. En ekki voru þrælar á mörkuðum í Ghana sóttir til Benin, Nígeríu eða Kamerún.

afkomendur Hans Jónatans

Afkomendur Hans Jónatans. Myndin fengin að láni á Ættarvef Hans Jónatans.

Að uppruni áa Hans Jónatans sé nú heimfærður upp á önnur landssvæði fjarri Ghana, sem sum eru í þúsunda kílómetra fjarlægð frá Ghana, sýnir nokkuð vel að DNA-rannsóknir eru enn á unglingabólustiginu, þar sem getgátur ráða ferðinni. Það brennur einnig við að þeir sem stunda þessa etnogenetísku rannsóknir með DNA nútímamanna, skauti hratt yfir sagnfræðilegar staðreyndir og almenna vitneskju. 

Þar að auki upplýsir greinin í Nature, að engir Afríkumenn eða afkomendur þeirra hafi skilað sér inn í erfðamengi Íslendinga fyrir komu Hans Jónatans og telur hópurinn það sömuleiðis víst að afrískt genamengi þeirra 182 einstaklinga sem deCode hefur greint, og sem sem fæddir voru 1880-1930 og sem komnir eru af Hans Jónatan eigi ekkert skylt við þá 320 einstaklinga sem deCode hefur gert raðgreiningar á, sem fæddir eru eftir 1930 og eru einnig með "afrískar" genotýpur. Síðari hópurinn er væntanlega helst kominn út af fólki sem eru afkomendur fólks frá Norður-Afríku, bandarískra hermanna og hugsanlega einhverra sem ekki hafa hugmynd um "afrískan" uppruna sinn fyrr en þeir fá að vita að haplotýpa (setröð eða einlitna arfgerð) þeirra sé óvenjuleg fyrir Íslendinga. Þetta síðastnefnda er vissulega áhugavert, en kemur ekki á óvart.

Aðeins ein grafskeið

1_grafskei.jpg

Nú er ekki annað að gera en að bíða þolinmóður eftir því að GP og Kirsten Pflomm grafi upp tvígrafin bein Hans Burch Grams í Brooklyn. Þangað til fæ ég mér rólegur marga kaffibolla, sem við getum líka þakkað henni Afríku líkt og ágætt genamengi Hans Jónatans. Ég þakka tryggum áhangendum Fornleifs fyrir lesturinn að sinni, ef einhver hefur náð alla leið hingað. Það er í sjálfu sér afrek. Kannski ætti maður að raðgreina slíkt afreksfólk.

Ritstjórn Fornleifs gefur ávallt bókum sem rýnt er í stafrænar grafskeiðar. Ég er hræddur um að aðeins ein slitin grafskeið sé við hæfi fyrir bókina Hans Jónatan, Maðurinn sem stal sjálfum sér. Grafskeið þá verður örugglega ekki hægt að nota til að grafa upp Hans Burch Gram.

* Viðbót 25.1.2019: Ritdóm prófessors Ulrik Langens á bók GP í Weekendavisen,7. apríl 2017, er hægt að sjá hér


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Fornleifur, áhugaverður og ítarlegur pistill og ég gæti best trúað að þú farir nokkuð nærri sannleikanum þegar þú segir að DNA sé ennþá á unglingabólustiginu.

Ég átti heima á Djúpavogi hátt í tvo áratugi og fékk þar áhuga fyrir sögunni um Hans Jónatan. Þar er fólk sem út af honum var komið eins eru afkomendur hans víðar hér á Austfjörðunum, og vinn ég t.d. með einum afkomenda hans.

Þegar bók Gísla Pálssonar kom út bjóst ég ekki við miklu enda taldi ég mig hafa heyrt mikið af Hans Jónatan í gegnu tíðina. Það má segja að ég hafi fengið bókina því sem næst volga úr prentsmiðju því konan mín, sem er frá Djúpavogi, gaf mér hana í jólagjöf það árið. 

Ég varð fyrir engum vonbrigðum með bók Gísla enda hef ég engar forsendur til þess, og mér finnst hún hafa bætt talsverðu við þá sögu sem ég þóttist þá þegar þekkja nokkuð, því enn er talsvert talað um Hans Jónatan á Djúpavogi.

Það er smásmuguleg villa í pistlinum hjá þér; Því miður komst ég ekki að til að ræða nýju bókina um Pál Jónatan við Gísla. Annars takk fyrir pistilinn.

Magnús Sigurðsson, 25.1.2019 kl. 15:44

2 Smámynd: FORNLEIFUR

Þakka þér Magnús fyrir að hafa lesið langloku mína til enda og sjá nafnabrenglið.

Menn líta ávallt á bækur með mismunandi forsendum. Þegar maður er skaðaður af rýni eins og sumir fornleifafræðingar og margir sagnfræðingar eiga helst að vera, þá lesa menn allt gagnrýnið nema að það séu skáldsögur. Þegar ég les sagnfræðilega rómana eða sé kvikmyndir byggðar á þeim er ég reyndar ávallt í villuleit. Á vissan hátt getur vinsæl skáldsaga um ákveðin tíma brenglað vitneskju fólks um söguleg atriði. Stundum eru þessar skálsögur jafnvel ganggert skrifaðar til að hafa áhrif á söguna.

Mig langar að benda á að aðrir en ég hafa gangrýnt bókina faglega, t.d. Prófessor Ulrik Langen við Kaupmannaháskóla. Hann sparaði ekki stór orð, vegna allt annarra atriða en ég kem hér inn á. T.d. tínir Langen til samlíkingu Gísla Pálssonar á Helförinni og þrælaversluninni, en fer þó  ekki nánar út í það. Helförin var skipulög áætlun um að útrýma milljónum manna. Það var þrælaverslunin ekki, þó svo að mannvonskan í henni hafi valdið dauða tugþúsunda manna. Græðgi var á bak við Þrælaverslunina, en sjúkleg mannvonska á bak við Helförina. Afbökuð samlíking Gísla Pálssonar sýnir galla í söguskoðun og er ein af þeim mörgu lítilsvirðingum sem ýmsir menn á okkar tímum leyfa sér að sýna afkomendum og ættingjum hinna myrt gyðinga í Evrópu á 20. öld.

Athugasemd Langen birtist í helgarblaðinu Weekendavisen 7.april 2017 Danmörku. Ég er að hugsa um að birta hana, svo að fólk sjái að ég er ekki einn um að sjá rautt þegar ég les bók Gísla. Kannski ætti ég að finna skán af greininni sem ég á.

Aðrir rómuðu bók Gísla Pálssonar í Danmörku, en höfðu þá engar fræðilegar forsendur til að nálgast verkið. Það á nú einu sinni oft við um gangrýnendur blaðanna. Gott dæmi Egill Helgason. Hann svínar menn til áður en hann les verk þeirra, ef hann gerir það yfirleitt. Ég get tekið dæmi af bók minni Medaljens Bagside sem út kom 2005 og fékk góða dóma. Vinnu mína og störf við rannsóknir á gyðingum sem Danir vísuðu úr landi (í dauðann) var Egill Helgason búinn að svína til í þeim miðlum sem hann vann við, án þess að vita að bókin væri á næstu grösum. Sá hló þá best sem síðast hló. En hjörðin á bak við Egil verður ávallt eins og hún er, heilaþvegnir sauðir.

FORNLEIFUR, 25.1.2019 kl. 18:05

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Kannaðist við þennan titil Man who stole himself og mig minnti rétt að það var svört frelsishetja í ameríska borgarastríðinu (reyndar blendingur sem var meira svartur en hvítur að sjá)

Hann hét Robert Smalls og var talað um hann sem manninn sem stal sjálfum sér og er reyndar ævisaga til um hann með því nafni. Tilviljun eða andleysi?

Jón Steinar Ragnarsson, 25.1.2019 kl. 19:10

4 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Ég verð nú að bera virðingu fyrir þér en þetta er gífurleg vinna sem fer í svona Grúsk. Afi minn var altekin í 15 við að semja og sannprófa eitt stærsta ættfræðirit sögunar á Ísland á þeim tíma.

Hann fékk nokkrar ákúrur um launbörn en ekki mikið fyrir fjórar bækur. Yfirleitt hafði hann rétt en hann sannreyndi með erfðarskrám en þar kom yfirleitt sannleikurinn fram.

Varðandi þennan svertingja sem allir virðast hafa dálæti af þá heyrðist mér nú afkomendurnir ekki allir ánægðir og einn sagði ég hefði óskað mér að langafi hefði aldrei komið en þau systkinin hans lentu í miklu einelti út af hörundslitnum. Hvernig var máltækið.: Við upphaf skal endirinn skoða eða einhvað í þá átt. 

Valdimar Samúelsson, 25.1.2019 kl. 20:53

5 Smámynd: FORNLEIFUR

 Tilviljun? Kannski, en stal Hans Jónatan sjálfum sér? Þá er kannski best að minnast fyrrnefndrar greinar Ulriks Langen sem hann kallaði "Kunsten at stjæle sig selv".

FORNLEIFUR, 25.1.2019 kl. 21:35

6 Smámynd: FORNLEIFUR

Valdimar, afkomendur Hans Jónatans (sem þú kalla "þessa svertingja") mega vera stoltir af forföður sínum. Sjálfur ert þú hálfur Skoti og hlýtur að vera stoltur af því, þó þú gangir ekki í "pilsi". Stutt "kilt" væri kannski við hæfi.

FORNLEIFUR, 25.1.2019 kl. 21:41

7 Smámynd: FORNLEIFUR

Finnst þér annar, Valdimar, afkomendur Hans Jónatans á myndinni hér fyrir ofan vera sérlega dökkir á hörund? Einn hefur liðað hár, annars eru þetta ósköp venjulegir hversdags-Íslendingar með lifrarkæfulitað hár.

FORNLEIFUR, 25.1.2019 kl. 21:44

8 Smámynd: FORNLEIFUR

Mjög gagnrýninn ritdóm prófessors Ulrik Langens á bók GP í Weekendavisen,7. apríl 2017, er hægt að sjá hér

FORNLEIFUR, 25.1.2019 kl. 22:19

9 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Fornleifður ertu á einhverju mygluðu víni. Ég kallaði aldrei afkomendur Hans svertingja heldur sagði ég svertingja eins og þú nefndir Hans sjálfur.

Gerðu árás á einhvern annað en einum er það tamt.

Ég er ekki að grínast en þú er péthetik. Þú ert eins og Skrúts gamli. 

Valdimar Samúelsson, 25.1.2019 kl. 22:28

10 Smámynd: FORNLEIFUR

Nei Valdimar, en þú ert greinilega einhvers konar rasisti. Ég hef ekki notað orðið svertingi og nota það aldrei. Ég tala heldur ekki um hvítingja. Litur fólks skiptir ekki máli. Hvernig maður fer með fólk er áhugamál mitt. "Skrúts gamla" þekki ég heldur ekki.

Við skulum ekki hafa þetta lengra. Fornleifur hefur ástæður til að útiloka fólk með kynþáttafordóma. Ég þakka þér heimsóknirnar, en frábið mér dónaskap og öfgar.

FORNLEIFUR, 25.1.2019 kl. 22:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband