Finnur Magnússon (1781-1847), fyrstur íslenskra fornleifafræðinga

Finn Magnusen 2

Fyrsti íslenski fornleifafræðingurinn var óefað Finnur Magnússon (Finn Magnusen) prófessor í Kaupmannahöfn. Finnur var kannski ekki með próf í fornleifafræði, því hún var einfaldlega ekki kennd þegar hann var í námi. Hann gróf, svo vitað sé, heldur aldrei. Hann var líka dálítill draumóramaður og skýjaglópur eins og margir íslenskir fornleifafræðingar. Hér er ég auðvitað að hætti fornleifafræðinga kominn í hrópandi mótsögn við það sem ég sagði í færslunni hér á undan, þar sem ég hélt því fram að maður án prófs og uppgraftar gæti ekki verið fornleifafræðingur. Ég tek það hér með aftur.

nordisk Archaeologie 2
Titilsíða Nordisk Archæologie eftir Finn Magnússon (1820). Karl faðir minn gaf mér bókina er ég fékk pungapróf (Ph.D.) í fornleifafræðinni við háskólann í Árósum árið 1992

 

Finnur var fyrsti Íslendingurinn sem ritaði um norræna fornleifafræði og hélt hann marga fyrirlestra um hana við Hafnarháskóla. Árið 1820 gaf hann út litla bók, Bidrag til nordisk Archæolgie meddeelte i Forelæsninger.

Finnur var reyndar uppgjafarlögfræðistúdent sem gerðist fornleifafræðingur. Árið 1833 fór hann með tveimur öðrum fræðimönnum til Runamo í Blekingehéraði í Svíþjóð, þar sem er að finna mikla ristur. Finnur réði upplýsingar þeirra og innihald á nokkrum klukkustundum. Dellu-Íslendingurinn kom upp í honum og ári síðar gaf hann út ekki meira né minna en 750 blaðsíðna verk um hvað risturnar geyma af upplýsingum þegar maður les þær aftur á bak, þ.e.a.s. frá hægri til vinstri. 

Lögfræðinám og ævintýri í Reykjavík

Hvernig hefur slíkurr fornaldarsnillingur ævi sína. Jú, Finnur sem fæddist í Skálholti, fékk stein í hausinn þegar hann var tveggja ára. Það gerðist í miklum jarðhræringum sem hann og fjölskylda hans komust lífs úr. Nokkru síðar fékk hann hlaupabólu og var vart hugað líf. Bólan skaðaði sjónina í Finni og var hann að eigin sögn ávallt mjög nærsýnn eftir það, þótt ekki sjáist gleraugu á myndum af honum. Ég hef oft heyrt um höfuðáverka sem aðrir fornleifafræðingar fengu í æsku, og sem menn telja rótina að fræðilegum heiðri sínum. Aðrir snillingar hafa t.d. dottið á hausinn.

Auðsýnt þótti á 19. öld, að menn sem fengu stein í hausinn, voru af góðum ættum og með lélega sjón væri til einskis annars nýtir en að sigla til Hafnar og leggja stund á guðfræði eða lélegt handverk. Finnur valdi handverkið og sigldi til Hafnar til að lesa lög, en tíminn fór mest í verklega þætti hennar, drykkju, dufl, spil og hraðskreiðar konur, sem eru lestir sem við þekkjum enn meðal lagastúdenta á okkar tímum.

Slippur og snauður og án gráðu sigldi Finnur aftur heim til Íslands árið 1806 fyrir síðustu skildingana sem hann hafði kríað út hjá veðlánaranum. Lífið næstu árin á Íslandi var ekki minna óreglulegt en Hafnarárin, en hann hélt þó stöðu sem ritari sem hann fékk fyrir góð tengsl og klíku sem alltaf hefur verið mikilvægt afl á Íslandi og hefur bjargað mörgum aumingjum frá glötun.

Talið er að Finnur hljóti að hafa veri  „hirðmaður" Jörundar Hundadagakonungar, þótt hann hafi eins og flestir hirðmenn Jürgensens svarið það af sér. En Jörundur greiddi honum morðfé fyrri einhverja ómerkilega bók sem Finnur útvegaði honum áður en konungstíð Jörunds lauk.

Önnur tilraun 

Er Finnur eða Finn Magnusen, sem hann kallaði sig lengstum, var rúmlega þrítugur, gerði hann aðra og heiðvirðari tilraun til náms í Kaupmannahöfn, enda karlinn búinn að hlaupa af sér hornin. Hann lagði nú stund á fornnorrænar bókmenntir og á mettíma var hann orðinn prófessor við Hafnarháskóla árið 1815.

Árið 1918 var honum falið að halda fyrirlestra um fornnorrænar bókmenntir og goðafræði og er bók hans um fornleifafræði frá 1820 m.a. afraksturinn af því. Árið 1823 hlotnaðist honum staða sem Gehejmarkivar, þ.e. einkaskjalavörður hins konungslega skjalasafns og 1829 var hann orðinn forstöðumaður safnsins. Í skjalavarðarstöðunni, sem ekki gaf mikið í aðra hönd, gat hann unnið að rannsóknum og 1836 var honum veittur doktorstitill við Hafnarháskóla. Finnur var sömuleiðis einn af stofnendum Hins Íslenzka Bókmenntafélags, og gaf út Íslenzk sagnarblöð, sem voru fyrsti vísirinn að Skírni. Með öðrum stofnaði hann Det Kongelige Nordiske Oldskriftselskab árið 1825 og hann þýddi Eddu hina eldri og helsta verk hans var líklegast Eddalæren og dens Oprindelse sem út kom 1824. Það rit var fullt af bulli og fræðilegum þvættingi og álíka spekúlasjónum og íslenskir bókmenntafræðingar hafa verið með allar götur síðan.

Eina verk Finns fyrir íslenska fornleifafræði var að senda spurningalista Oldsagskommissionarinnar, Den kongelige Commission til Oldsagers Opbevaring, sem stofnuð var árið 1807, til Íslendinga. Fornleifanefndin var stofnuð árið 1807 til að safna upplýsingum um fornleifar í danska konungsríkinu. Árið 1817 var röðin komin að Íslandi. Fyrstu listarnir voru sendir prestum á Íslandi er Finnur gerðist nefndarmaður. Í spurningalistanum voru menn beðnir um að upplýsa um fornleifar, jarðfastar og lausar, sem þeir þekktu í nágrenni sínu. Afraksturinn var merkilegur en hann kom ekki út á Íslandi fyrr en árið 1983, þegar prófessor Sveinbjörn Rafnsson og Guðrún Ása Grímsdóttir gáfu hann út í tveimur bindum: Frásögur um fornaldarminjar 1817-1823,  I-II. (Stofnun Árna Magnússonar, Rit 24) Útgáfan er stórvirki fyrir sögu fornleifafræðinnar á Íslandi.

Sveinbjörn Rafnsson skrifaði einnig fyrir fáeinum árum ágæta grein um Finn Magnússon í Aarbøger for Nordisk Oldkyndighed og Historie, forna ritröð danska, sem Finnur gaf upphaflega út með öðrum. Það er grein sem allir áhugamenn um íslenska fornleifafræði verða að þekkja og lesa. Það furðar mig þó, þrátt fyrir góða grein, að Sveinbjörn minnist hvergi á að Finnur Magnússon hafi skrifað bókina Nordisk Archæologie, og að hann hafi haldið fyrirlestra um fornleifafræði. Bókin er trúlega ekki til á Landsbókasafninu? Páll Valsson hefur einnig sýnt Finni áhuga og skrifað áhugaverða grein: "En runologs uppgång och fall" í Scripta Islandica: Isländska Sällskabets årsbok 48 for 1997.

Misheppnaður rúnafræðingur 

Rúnafræði Magnússonar, sem fyrr var nefnd, orkaði tvímælis er hann var enn uppi. Menn vildu ekki alveg meðtaka túlkun hann ristunum í Runamo í Blekinge, sem hann las reiprennandi afturábak og afrám. Árið 1844 gaf 21 ára upprennandi fornleifafræðingur, Jens Jacob Asmussen Worsaae að nafni, út bækling þar sem hann sýndi fram á að risturnar í Runamo væru náttúrfyrirbæri. Margar aðrar rúnaskýringar Finns á manngerðum rúnum hafa síðar reynst vera rangar eða dellukenndar. Finnur var einn um að bera skömmina vegna uppgötvunar J.J.A. Worsaae, sem síðar varð einn að fremstu fornleifafræðingum Dana. Aðrir sem höfðu verið samsinnis Finni um "rúnirnar" í Runamo voru ekki áreittir vegna þessarar fræðilegu skammar.

Worsaae's Runamo
Teikning af náttúrufyrirbærunum í Runamo í bók Worsaaes

Finnur hafði slegið um sig með illa ígrunduðum skýringum, líkt og sumir íslenskir fornleifafræðingar gera enn í dag á sumarverðtíðinni. Þrátt fyrir Runamo-ævintýri Finns verður ekki af honum skafið, að hann var afkastamikill og merkur fræðimaður - síns tíma. Við getum ekki dæmt hann í dag eins og samtíminn gerði, við getum í mesta lagi brosað dálítið í kampinn yfir því að einhver hafið gefið út 750 blaðsíðna bók um sænskt náttúrufyrirbæri. Bækur Finns um fornleifafræði og rúnirnar í Runamo, bera öll einkenni þess að Finnur hafi nú verið hálfgerður skýjaglópur með mikinn sannfæringarkraft. Hann verður því örugglega að teljast til fornleifafræðinga, annars hefði hann ekki fengið stein í hausinn, svo tekin sé snúin skýringatækni hans sjálfs að láni.

Síðustu árin 

Síðustu ár ævinnar barðist Finnur í bökkum fjárhagslega. Konan var farin frá honum, eins og hendir marga góða menn sem ekki eru öðrum sinnandi vegna fræðimennsku og peningaleysis. Runamo- rúnirnar voru orðnar af Guðs rúnum og karlinn orðinn hálfgert aðhlátursefni í Kaupmannahöfn. Finnur leysti þá sín verstu fjárhagsvandamál með því að selja íslensk miðaldahandrit á ýmis erlend bókasöfn, þar sem þau varðveittust líkast til betur en í saggalegri íbúð hans í Kaupmannahöfn.

Þegar Finnur Magnússon andaðist árið 1847 í Klampenborg, var hann greftraður á Assistens-kirkjugarðinum í Kaupmannahöfn. Hvorki var reistur bautastinn eða ristar rúnir yfir leiði hans og líklega var það sökum þess að engir peningar voru lengur til í skuldabúi fræðimannsins. Steinn var þó settur yfir Finn 34 árum eftir andlát hans. Sá steinn hvarf um 100 árum síðar þegar breytingar voru gerðar á kirkjugarðinum. Árið 2006 sá áhugafornleifafræðingurinn Rud Kjems um að setja nýjan legstein yfir yfir jarðneskar leifar fyrsta íslenska fornleifafræðingsins með þátttöku Det Kongelige Nordiske Oldskriftselskabs. Nokkru síðar gaf Rud Kjems út skemmtilega skáldsögu um Finn, sem hann kallar Runamo  og hægt er að lesa þanka Kjems um Finn Magnússon hér, hér og hér 

Runamo Kjems

Þeir sem vilja votta Finni Magnússyni virðingu, næst þegar þeir eru staddir í Kaupmannahöfn, finna jarðneskar leifar hans undir nýjum legsteini í Assistents kirkjugarði, Deild C, gröf 181.

Blessuð sé minning Finns fornleifafræðings

Assistents gravskænderi

Nýlega var mikið rask í Assistent kirkjugarði, því neðanjarðarlestarstöð á að rísa í einu horni hans. Jarðneskar leifar þeirra sem lágu á svæðinu þar sem grafarfriðurinn var rofinn voru rannsakaðar af fornleifafræðinemum frá ýmsum löndum. Að mati ýmissa manna var ekkert því til fyrirstöðu að hafa stöðina handan við götuna þar sem hús hafa hvort sem er verið rifin nýlega. Þetta var afar umdeild framkvæmd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það má með sanni segja að örlögin hafi rist sérkennilegum rúnum sínum á líf þessa manns.

Sigurður Þór Guðjónsson, 10.8.2012 kl. 15:40

2 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Góð samantekt um Finn. Er vitað hvaða handrit hann seldi. Hvar kemst ég í samband við góðar rúnafræðing sem er ekki á launum hjá ríkinu ef þið skiljið hvað ég meina.:-)

Valdimar Samúelsson, 10.8.2012 kl. 20:44

3 identicon

Bráðskemmtileg lesning um "den sprænglærde Islænding" eins og Finnur fékk að heita í ágætri grein um ævintýrin á Rúnamó í Weekendavisen fyrir mörgum árum. Maðurinn hefur verið eins og lifandi ríkisbyggt tilgátuhús. Sei, sei.

Kristján Sveinsson (IP-tala skráð) 15.8.2012 kl. 17:42

4 Smámynd: FORNLEIFUR

Sigurður, ég held að það megi svo sannarlega segja.

Valdimar, ég þekki enga rúnafræðinga. Kona af Íslenskum ættum í Svíþjóð, Snædal, hefur stundað rannsóknir á rúnum.

Kristján, mér er sagt að sprenglærður á víetnömsku sé kallað: thông thái. Sel það ekki dýrara en ég keypti þa: Finnur thông thái.

FORNLEIFUR, 16.8.2012 kl. 21:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband