Mittismjó brúður eða Venus frá Utrecht
20.1.2013 | 18:48
Sjötta getraun Fornleifs reyndist greinilega fornfálegu fólki á Íslandi um megn. Sumir voru að brjóta heilann í hálfan annan sólahring og langt fram á síðustu nótt. Aðrir voru enn að snemma í morgunsárið, eftir að þessi raun hafði tekið af þeim allan svefn og sálarró aðra nóttina í röð. Ég verð nú að létta á spenningnum og lýsa því yfir að getrauninni sé formlega lokið. Sumir gerðust heitir en flestir stóðu á gati. Bergur Ísleifsson komst næst sannleikanum allra þátttakenda.
Það sem spurt var um, og mynd var sýnd af, var aðeins brot af grip. Það er að segja neðri hlutinn af lítilli styttu, sem sýnir hefðarfrú í fínum plíseruðum kjól. Gripurinn, sem er 8,6 sm. á hæð, er tæplega 300 ára gamall, eða frá fyrri hluta 18. aldar. Hann fannst í Amsterdam, nánar tiltekið í Vlooienburg-hverfinu (einnig ritað Vlooyenburg), sem upphaflega var manngerða eyja. Þar stendur nú síðan 1983 nýtt óperuhús Amsterdamborgar, almennt kallað Stopera. Áður, á 17. öld og alveg fram undir 1940, var þarna hluti af hverfi gyðinga. Á 17. og 18. öldu bjuggu á Vlooienburg margir portúgalskir gyðingar.
Gripurinn er úr brenndum leir, svokölluðum pípuleir, sem er blágrár en verður hvítur við brennslu á ákveðinn hátt. Gripurinn var framleiddur í Hollandi, hugsanlega í borgum eins og Delft eða Utrecht, þar sem við vitum að slík framleiðsla fór fram. Brot af sams konar eða líkum styttum hafa fundist í miklum mæli í jörðu í Hollandi. Hollendingar kalla brenndann pípuleir, pijpaarde (sem er borið fram peipaarde).
Á miðöldum var heilmikil framleiðsla á pípuleirsmyndum í Hollandi, m.a. í borginni Utrecht. Mynd af heilagri Barböru sem Kristján Eldjárn fann í kapellunni í Kapelluhrauni, var einmitt gerð í borginni Utrecht eins og ég ritaði um í grein í Árbók Fornleifafélagsins um árið og síðar hér á blogginu. Stytta, sem virðist vera úr sama mótinu og brotið af Barböru sem fannst í Kapelluhrauni, var einmitt frá Utrecht. Þá styttu má nú sjá á sýningu í Utrecht fram í febrúar. Á Skriðuklaustri hefur líklega staðið altari úr nokkuð stærri pípuleirsstyttum frá Hollandi, m.a heilagri Barböru frá því um 1500.
Topless Dutch women
Undarlegt má virðast, að allar styttur, eins og sú sem spurt var um, finnast aðeins brotnar. Það er einvörðungu neðri hlutinn sem finnst. Sama hvort þessar myndir finnast í Hollandi, Danmörku eða annars staðar, þá eru það aðeins neðri hlutinn, pilsið, sem finnst. Ég hef reynt að leita uppi efri hlutann á þessum hefðarfrúm, en hef enn ekkert fundið. Greinilegt er, að þessi mittismjóa hefðarfrú hafi haft veikan punkt um mittið. Hér sjást myndir frá ýmsum álíka styttum:
Two birds from Alkmaar
Bakhlutinn á mittismjórri meyju frá Rotterdam
Nokkrir hollenskir pilsfaldar. Efri hlutann vantar, en vitanlega minnir þetta sumt á digur og stutt reður eins og einhver stakk upp á meðan á getrauninni stóð
Þessi brotnaði einnig um mittið, enda þvengmjó, og svo nokkrar úr Kaupmannahöfn hér fyrir neðan:
Brotakonur frá Kaupmannahöfn. Stytturnar hafa margar verið málaðar/litaðar. Mynd úr Nationalmuseets Arbejdsmark 2012, sem Þjóðminjasafn Dana gefur út.
Gripur sá sem getraunin gekk út á er í einkasafni Fornleifs. Mér var gefinn gripurinn af frægum hollenskum safnara, Edwin van Drecht , sem á unga aldri tíndi lausafundi upp úr byggingagrunnum víðs vegar í Amsterdam. Þá voru fornminjalög í Hollandi ekki eins og þau eru í dag og áhugasafnarar gátu farið og safnað sér fornminjum þegar hús voru byggð. Edwin fann mikið af heilum diskum og gripum úr fajansa, rauðleir og postulíni í leit sinni og ánafnaði það síðan virðulegum söfnum í Hollandi, sem gefið hafa út virðulegar útgáfur til að heiðra Edwin van Drecht. Sýningar á fundum hans hafa verið víða um heim, t.d. í Japan.
Eftir síðari heimsstyrjöld voru mjög fá heilleg hús eftir í Vlooyenburg hverfinu í miðborg Amsterdam. Þjóðverjar höfðu sprengt húsin þar sem gyðingar höfðu búið. Það var þó ekki fyrr en á 8. og 9. áratug 20 aldar að bæjaryfirvöld ákváðu að byggja aftur á svæðinu, og þá var m.a. tekin sú ákvörðun að reisa nýa óperuhöll Amsterdamborgar við Waterlooplein. Faðir minn bjó við Waterlooplein fyrsta ár ævi sinnar, áður en hann fluttist með foreldrum sínum til Norður-Amsterdam. Síðar á 4. áratugnum fluttust þau til den Haag. Þess má geta að í grennd við Vlooyenburg í Joodenbreestraat (Gyðingabreiðgötu) bjó Rembrandt Harmenszoon van Rijn á 17. öld.
Vlooienburg er innan bláa ferhyrningsins, hús Rembrandts innar þess rauða og portúgalska samkunduhúsið, Snooga (Esnoga) er merkt með stjörnu
Vlooienburg árið 1934
Þess má í lokin geta, að þessi brotna hefðarfrú frá Vlooienburg og álíka styttubrot leiða hugann að einu af frægustu verkum Rembrandts sem gengur undir heitinu Gyðinglega brúðurin (Het joodse bruidje). Það verk er frá því um 1667, og því nokkuð eldra en styttan mín. Takið eftir því hvernig maðurinn á myndinni heldur um brúði sína og hún leggur hönd í skaut sér. Stytturnar mittismjóu úr Hollandi eru einnig til í öðru afbrigði, þar sem maður stendur við hlið konunnar og hún leggur hönd í skaut sér, eins og brúðurin á mynd Rembrandts.
Ég leyfi mér að halda því fram, að þessi mittismjóa snót úr Amsterdam hafi verið barbídúkka síns tíma eða stytta af brúður, kannski stytta sem sett var á hlaðin borð í brúkaupsveislum líkt og kransakökumyndir af hjónum úr plasti eru settar á brúðhlaupskökur í dag. En hugsanlega var þetta bara stytta eins og Venus frá Míló, þessi sem vantar handleggi. Þessar hollensku vantar hins vegar tilfinnanlega búk og haus, og lýsi ég hér með eftir þeim.
Neðan á dömunni minni frá Amsterdam hefur sá sem steypti þessa mynd skilið eftir sig fingra- og naglaför sín.
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Forngripir, Fornleifar, Getraun Fornleifs | Breytt 16.9.2019 kl. 15:04 | Facebook
Athugasemdir
Áhugavert og gaman að þessu. Ég var reyndar kominn á fremsta hlunn með að giska á Amsterdam/Holland ... en skipti yfir í Nuremburg. En það er auðvelt að vera vitur eftirá.
En segðu mér ... hintið með Frey ... hvað átti það að þýða? Það leiddi mann frekar í ógöngur en hitt.
Bergur Isleifsson (IP-tala skráð) 21.1.2013 kl. 02:15
Sæll Bergur,
Ég setti mynd af styttu af Frey með fánann að húni, því það er stytta ... líka til þess að sjá hvort einhverjir sæju út úr þessu eitthvað klúrt. Það þykir fornleifafræðingum alltaf gaman.
FORNLEIFUR, 21.1.2013 kl. 08:50
Fornleifur þó! í einum af spurninga liðum þínum,spyrð þú,,til hvers var hann notaður,,? Það líklegasta var stytta eða hluti af styttu,en ,,notar maður styttur,? Var að hugsa um þær sem styðja við bækur í bókahillum,en fannst þær ekki nógu fornar.
Helga Kristjánsdóttir, 21.1.2013 kl. 17:20
Stytta, skurðgoð, Jesús á Krossinum, Barbí, Freyr, vúdúdúkkur og Jón Sigurðsson á Austurvelli. Allt eru þetta styttur/dúkkur - eða eins konar fetísh líkt og þjóðhfræðingar og mannfræðingar myndu segja.
Ég hef aldrei heyrt um bókastyttur, þó ég hafi séð nokkrar skoskar, sem á var hægt að fylla whisky og norskar sem voru eins konar tröll. Talar maður ekki frekar um bókastoðir. En þessi stytta frá Amsterdam hefur varla verið meira en 15. sm á hæð og varla meira en 100 gr. að þyngd, og heldur ekki nokkurri bók.
FORNLEIFUR, 21.1.2013 kl. 17:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.