Fréttir úr framboði

Bók

Nýlega, er Ari Trausti Guðmundsson, hinn landsþekkti jarðfræðingur og fjölmiðlamaður boðaði forsetaframboð sitt, greindi ég svolítið frá ættum Ara í Þýskalandi. Þótt oft hafi loðað einhver nasistaára yfir Guðmundi frá Miðdal, föður Ara, vita kannski fæstir að lítið fer fyrir þýskum uppruna Ara. Forfeður hans í Þýskalandi voru að helmingi, ef ekki að meirihluta til, af gyðinglegum uppruna og höfðu síðustu kynslóðirnar verið kaupmenn í bænum Pasewalk í Pommern (Mecklenburg-Vorpommern).

Ég sá, að Egon nokkur Krüger, efnafræðingur og menntaskólakennari í DDR, og síðar áhugasagnfræðingur í sameinuðu Þýskalandi, hafði skrifað bók um gyðingana í Pasewalk. Ég tók mig til og keypti bókina sem kostaði aðeins 15 evrur. Hún er vel skrifuð og með virðingu fyrir efninu.

Í bókinni má lesa um kaupmennina í Sternberg-fjölskyldunni, pólsk-þýska forfeður Ara Trausta, m.a. Meyer Sternberg, sem fæddist í Obersitzko í Posen (nú Obrzycko) árið 1815, og telst mér það til að hann sé langalangafi Ara Trausta. Í Obersitzko voru fangabúðir á síðari heimsstyrjöld, sem heyrðu undir hinar illræmdu fangabúðir í Stutthof sem margir fangar frá Norðurlöndum lentu í.

Meyer þessi átti klæðaverslun við Am Marktplatz 28 í Pasewalk. Síðar fór Meyer einnig að versla með matvörur. Í auglýsingu árið 1868 bíður hann t.d. léttsaltaða síld af hollenskum sið Matjes-Hering empfing und empfhielt M. Sternberg. Salt auglýsti hann einnig eftir að einokun á salti var aflétt: Salz - Bei Aufhebung des Salzmonopols empfehle ich meinen geehrten Kunden von heute ab stets feinstes trockenes Crystall-Speise-Salz in Säcken von Netto 126  8/30 Pfd. Inhalt, sowie ausgewogen in jeder beliebigen Quantität, M. Sternberg. Allt var hægt að selja, t.d. svínafitu: Frisches ausgebratenes Schweinschmalz offerirt billigst M. Sternberg.

Saga Sternberg fjölskyldunnar í Pasewalk fyllir aðeins 3 blaðsíður af 203 blaðsíðum í bók Egon Krügers. Bókina Jüdisches Leben in Pasewalk; Familiengeschichten, Familienschicksale, Stolpersteine, er hægt að kaupa vefsíðu Schibri-Verlag (ISBN 978-3-86863-022-0). Þetta er hluti af sögu íslensks forsetaframbjóðanda og ekkert ómerkilegri en svo margt annað sem til boða stendur.

Hitler var líka í Pasewalk 

Að lokum er einnig vert að minnast þess að bærinn Pasewalk var einnig hluti af geðveikislegri sögu Hitlers. Þangað var hann færður á sjúkrahús í lok fyrri heimstyrjaldar og var því lengi haldið fram að hann hefði verið þar vegna blindu sem orsakaðist af gaseitrun. Dr. Karl Kroner, læknir og gyðingur sem allranáðugast komst til Íslands fyrir bláan augnlit arískrar konu sinnar og smekk íslensks sendiráðsritara fyrir bláeygum þýskum konum, og sem reyndar var líka bláeygur, upplýsti leyniþjónustu Bandaríkjahers um "veikindi" Hitlers í Pasewalk, er Kroner var enn á Íslandi árið 1943 (aska hans er reyndar grafin í Fossvogskirkjugarði).

Karl Kroner Klaus Erlendur Kroner

Karl Kroner í fyrri heimsstyrjöld, þegar hann hitti Hitler í Pasewalk. Sonur hans Klaus Erlendur (th) lést í Bandaríkjunum árið 2010.

Karl Kroner greindi leyniþjónustu Bandaríkjanna frá því sanna um „sjúkdóm" og ímyndunarveiki Hitlers, eins og kemur fram í bók taugasérfræðingsins David Lewis-(Hodgson) um Hitler, sem ber heitið The man who invented Hitler (2004), sem og í bókinni Hitler in Pasewalk (2004) eftir Bernhard heitinn Horstmann. Sjá hér.

Hitler1916

Hitler var einnig á spítala árið 1916. Hugsið ykkur, hvað hefði gerst ef hann hefði verið drepinn í stríðinu. Hjalti er annar frá hægri í efstu röð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband