Krati og gyðingahatari
8.9.2016 | 11:16
Einn argasti gyðingahatari Íslands eftir Síðari Heimsstyrjöld var kratinn, Alþingismaðurinn og embættismaðurinn Jónas Guðmundsson.
Jónas gaf út rit sem voru morandi í gyðingahatri í bland við pýramídafræði Adams Rutherfords og annan okkúltisma.
Á heimasíðu Alþingis er ekki minnst einu orði á þessar einkennilegu kenndir Jónasar. Það er einnig tilfellið með alþingismanninn Davíð Ólafsson í Sjálfstæðisflokknum, sem var nasisti á yngri árum og stundaði nám í Þýskalandi nasismans.
Skrif Jónasar Guðmundssonar og útgáfa hafa vonandi ekki á sínum talist til góðrar latínu á Íslandi? Margir keyptu þó tímarit Jónasar, Dagrenning, sem út kom í 12 ár, og bókasöfn höfðu fjölda eintaka af ritum hans til láns.
Furðulegt má virðast í dag að samflokksfélagar hans hafi ekki reynt að bola honum út úr flokknum með meiri hörku en raunin var. Harðasta gagnrýnin kom frá Vilhjálmi S. Vilhjálmssyni blaðamanni á Alþýðublaðinu (sem skrifaði stundum undir nafninu Hannes á Horninu), en bestu gagnrýnina fékk Jónas Guðmundsson t.d. frá þingmanni Sjálfstæðisflokksins, Garðari Þorsteinssyni. Er bók Jónasar, Saga og dulspeki kom út árið 1942, skrifað Garðar í Eimreiðinni:
Ég get ímyndað mér, að þær skýringar, sem hér koma fram í forsögu hins germanska og engilsaxneska kynstofns, væru ekki öllum jafn geðfelldar, og yfirleitt finnst mér það ógeðfelld kenning að ætla einn kynflokk útvalinn af æðri máttarvöldum - guðs útvalda þjóð - en annan leika það hlutverk eitt að vera tyftari hinna útvöldu. Mer finnst að í slíku gæti nokkuð mikils skyldleika við þær kenninga sem mest hafa verið dýrkaðar af þjóðernissinnum Þýskalands, en fordæmdar af flestum öðrum.
Jónas Guðmundsson, kratinn sem gaf út andgyðingleg rit eftir Heimstyrjöldina síðari.
Ekki má gleyma falsritinu Samsærisáætlunin mikla - Siðareglur Zionsöldunga, sem Jónas gaf út árið 1951. Þetta er falsrit sem nasistar lögðu mikla stund á en sumir höfnuðu því þó sem fölsun, t.d. Oswald Mosley breski fasistaleiðtoginn. En hvað kom til að krati og Alþingismaður var að gefa þetta rit út eftir stríð á Íslandi?
Formálinn á því riti, sem er eftir Jónas, er ævintýraleg steypa, svo mikið bull reyndar að maður efast um geðheilsu mannsins og spyr sjálfan sig hvernig á því stóð að Alþýðuflokksmenn fólu honum svo mörg trúnaðarstörf.
En á endanum fengu Kratar nóg af þessum kynlega kvisti. Jónas skrifaði sjálfur um það í Dagrenningu.
"Loks kom þar að einn þeirra, sem býst við að "erfa ríkið" í Alþýðuflokknum,kom til mín og sagði mér blátt áfram að ef ég hætti að trúa þessum "firrum" með Biblíuna og Pýramídann, yrði ekki hjá því komist að ég yrði að hætt öllu starfi í flokknum. Það mundi meira að segja erfitt að birta greinar eftir mig í Alþýðublaðinu, því það fengi á sig "óorð" af mér og þessum heimskulegum skoðunum,..."
Jónas Guðmundsson taldi sig greinilega fórnarlamb skoðana sinni og sagðist hafa sagt skilið við Alþýðuflokkinn árið 1942 vegna þess að Kratar hefðu ekki hafnað samvinnu við kommúnista. Óregla með áfengi var víst einnig til þess að hann hætti virkni í stjórnmálum, en um 1945 var hann hins vegar eins og þruma úr heiðskýru lofti orðinn einn fremsti bindindisfrömuður landsins.
Honum var heldur ekki bolað meira út úr Alþýðuflokknum en það að árið 1946 var hann skipaður skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu og lengdi því embætti til byrjunar árs 1953. Meðan hann er skrifstofustjóri í Félagsmálaráðuneytinu gefur hann einmitt út ritið Samsærisáætlunin mikla - Siðareglur Zionsöldunga.
Hvað gerist í kollinum á sumum vinstrimönnum og hvað gerist stundum í kollinum á sumum Íslendingum? Bara að maður vissi það. Ofstopi og fordómar sumra þeirra í garð Ísraelsríkis og gyðinga í dag tel ég persónulega vera framhald af sams konar villuráfi og öfgum og Jónas Guðmundsson var haldinn. Íslenskur þjóðernisrembingur blandaður við sósíalisma er hættulegur kokkteill.
Í raun taldi hann eins og margur íslenskur stjórnmálamaðurinn að Íslendingar væru Guðs útvalda þjóð: Í Dagrenning 32 (1951) skrifaði hann t.d.:
Hlutverkið sem Íslandi og íslenzku þjóðinni er alveg sérstaklega ætlað, er það, að þjóðin átti sig á því fyrst allra þjóða, að hún sé "hluti af hinum mikla Ísraelslýð Guðs", og kannist við það opinberlega að svo sé.
Minnir þetta ekki óneitanlega á hjalið um hlutverk Íslands og Íslendinga á meðal þjóðanna - sem enn heyrist?
Hlaut heiður og trúnað þrátt fyrir brenglunina
Hvaða störf fól samfélagið svo manni eins og Jónasi Guðmundssyni. Það var ekki svo lítið. Meðan stórmenntaðir gyðingar fengu ekki störf á Íslandi eða var bolað úr þeim var þessi furðufugl hafinn til skýjanna. Í minningarræðu Hannibals Valdimarssonar árið 1973 segir m.a. svo um Jónas Guðmundsson (1898-1973) (sjá frekar hér):
...Haustið 1921 varð hann kennari við barnaskólann á Norðfirði og gegndi því starfi fram á árið 1933. Jafnframt var hann kennari við unglingaskólann á Norðfirði 19231933. Hann var síðan framkvæmdastjóri Fóðurmjölsverksmiðju Norðfjarðar 19321937 og Togarafélags Neskaupstaðar 19351938. Á árinu 1937 fluttist hann til Reykjavíkur og var framkvæmdastjóri Alþfl. 19381939. Eftirlitsmaður sveitarstjórnarmálefna var hann 19391953 og skrifstofustjóri í félmrn. 19461953. Hann var framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga 19451967 og forstjóri Bjargráðasjóðs Íslands 19521967.
Auk aðalstarfa þeirra, sem hér hafa verið rakin, voru Jónasi Guðmundssyni falin fjöldamörg trúnaðarstörf á ýmsum sviðum, og verður nokkurra þeirra getið hér. Hann var oddviti hreppsnefndar Neshrepps í Norðfirði 19251928 og sat í bæjarstjórn Neskaupstaðar 19291937. Landsk. alþm. var hann á árunum 19341937, sat á 4 þingum alls. Hann átti sæti í Landsbankanefnd frá 19341938 og í bankaráði Landsbankans 19381946. Á árunum 19341935 átti hann sæti í mþn. um alþýðutryggingar og framfærslumál, og síðan var hann í mörgum stjórnskipuðum nefndum til að rannsaka og undirbúa löggjöf um margvísleg efni á sviði félagsmála. Hann var í stjórn Sölusambands ísl. fiskframleiðenda 19391943. Formaður Sambands ísl. sveitarfélaga var hann 19451967, í stjórn Bjargráðasj. Íslands 19461967 og í stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga 1966-1970. Fulltrúi ríkisstj. Íslands á þingum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar var hann 19471952. Hann var stofnandi áfengisvarnarfélagsins Bláa bandsins 1955 og formaður þess fram á árið 1973. Jafnframt var hann formaður stjórnar Vistheimilisins í Víðinesi 19631973.
Þakkir: Magnús A. Sigurðsson sagnfræðingur og Minjavörður Vesturlands (við Minjastofnun Íslands) ritaði merkilega BA ritgerð við Háskóla Íslands árið 1993. Margar upplýsingar hér eru komnar úr þeirri ritgerð, sem ég hefði gefið mjög góða einkunn hefði ég haft Magnús sem stúdent.
Flokkur: Íslenskir nasistar | Breytt 2.5.2020 kl. 10:26 | Facebook
Athugasemdir
Furðulegt er að sjá hvernig hið háa Alþingi lýgur og fegrar sögu starfsmanna sínna, meðan að ríkisstjórn Íslands tímir ekki að bjóða fyrsta gyðingnum sem fæddist á Íslandi til landsins á 80 ára afmæli hans.
FORNLEIFUR, 8.9.2016 kl. 16:20
Sæll Fornleifur.
Bestu þökk fyrir einstaklega fróðlega pistla
fyrr og síðar.
Telur þú Ísraelsmenn Guðs útvöldu þjóð?
Eða er þetta eitthvað sem gæti talist úrelt viðhorf
sbr. endurkomu Krists, trú á djöfulinn, helvíti
og annað í þeim dúr?
Húsari. (IP-tala skráð) 9.9.2016 kl. 10:23
Húsari, ég hef margoft útskýrt hvernig Guðs útvalda þjóð sé fyrst og fremst kristinn misskilningur og oftúlkun sem nasistar hafa unað sér við að klæmast á sér og fjandanum til ánægju. Kristnir menn hafa ekki alltaf verið sleipir í hebresku eða arameísku. Am Nivhar er þetta kallað á hebresku og menn geta sjálfir flett því upp hvað það þýðir. Sjá einnig hér: http://www.jewishvirtuallibrary.org/jsource/Judaism/chosen_people.html
Ísraelsmenn eða Gyðingar eru vart Guðs útvalda þjóð, ef maður lítur á helförina og andbyr þann sem þjóðin verður fyrir frá gjörvöllum heimi múslíma, sem og mörgum á Vesturlöndum, 70 eftir helförina.
Þetta er úrelt viðhorf, og ég vona að móðgi margan útvalinn, þegar ég spyr eins og kjáni: Hvenær kom einhver Kristur til að byrja með og af hverju þarf hann tvær atrennur til að ljúka ætlunarverki sínu meðan að djöfullinn og helvíti eru alltaf á sama stað og sérstaklega í mönnunum? Ef Jesús var útvalinn hefði hann hæglega geta lokið ætlunarverkinu í einni atrennu.
FORNLEIFUR, 9.9.2016 kl. 14:43
Sæll Fornleifur.
Kærar þakkir fyrir svarið!
Ég tek heilshugar undir orð
þín um 'kristinn misskilning og oftúlkun'
þó forsendur okkar séu greinilega ekki þær sömu.
Ég held einmitt að þessi 'kristni misskilningur
og oftúlkun' sem þú orðar svo prýðisvel
hafi orðið til stórskaða því það er fullkomlega
andstætt allri kristinni hugsun að ein þjóð
standi annarri framar.
Hugsaðu þér að þessari kenningu skuli hafa verið haldið
fram í árþúsund svo heimskuleg og vitlaus sem hún er!
Þó svo að ég kannist við það viðhorf sem fram kemur
í síðustu efnisgrein þá hefði það ekki verið í samræmi við
ritúalið að flýta þessu!
Húsari. (IP-tala skráð) 9.9.2016 kl. 15:27
Sæll Fornleifur.
Bið þig margfaldlega afsökunar á framhleypni minni
að skrifa fáein orð af fávísi minni á blogg þitt.
Ég sá reyndar að þráðurinn var snarlega aftengdur af þér
eða bloggmeisturum Morgunblaðsins strax korteri eftir að
ég hafði ritað þau orð og því hreinasta óhæfa að ég skyldi
skrifa í annað sinni.
Vissi frómt frá sagt ekki að blogg snérist um það að helst
enginn læsi það sem skrifað væri en nú veit ég það.
Næst þegar mér verður það á að ætla að skrifa eitthvert
ruglið til þín þá ætla ég að hafa vit á því
að skrifa það í sandinn!
Húsari. (IP-tala skráð) 10.9.2016 kl. 10:23
Ég veit ekki hvert þú ert að fara með þessari aftengingu sem þú skrifar um fyrr í dag. Hér hefur enginn verið aftengdur eða vanaður. Hvað gerðist? Tölvan þín er kannski að niðurlotum komin að niðurlotum komin, komin, komin...?
Sem sagt, ég kannast einfaldlega ekkert við það sem kemur fram í vangaveltum þínum. Þér er alveg óhætt að spyrja, en ég hef ekki alltaf tíma til að svara og svara því aðeins sem ég þykist vita eitthvað um, því bloggið er ekki atvinna mín. Ef svo væri væri ég feitari en Egill Helgason og ríkari en Landsbankinn.
FORNLEIFUR, 10.9.2016 kl. 15:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.