Barbara í Kapelluhrauni

Barbara í Nýjahrauni

Árin 1950 og 1954 rannsakaði Kristján Eldjárn litla kapellurúst í svokölluðu Kapelluhrauni sunnan við Hafnarfjörð. Hann skrifaði um það grein í Árbók Hins íslenzka Fornleifafélags 1955-56, "Kapelluhraun og Kapellulág" og síðar í bók sína Hundrað ár í Þjóðminjasafni.

Löngu síðar fóru menn að ryðja allt svæðið sunnan Reykjanesbrautar gegnt álverinu í Straumsvík, þar sem kapellan liggur. Þá voru brjáluð áform um að stækka áverið sunnar Reykjanesbrautar. Allt var reyndar sléttað áður en tilkynnt var um hinn mikla framkvæmdavilja. Með jarðýtum og dýnamíti hefur landslaginu þarna verið breytt í auðn, eins og eftir tvær sæmilegar kjarnorkusprengjur. Á síðustu mínútu í æðinu mundu menn eftir blessaðri kapellunni, sem þarna stóð, og björguðu henni frá iðnvæðingunni. Hún stendur nú eftir á hraunstalli í miðri auðn íslenskrar ónáttúru, eins og ljót minning um mannsins skammsýni. 

Fátt er reyndar fornt við þá kapellu, sem nú má finna við Reykjanesbrautina, nema staðsetningin. Um er að ræða uppgert nútímamannvirki (frá því á sjöunda áratug 20. aldar), hlaðið með öðru lagi en upphaflega og á í raun lítið skylt við þá rúst sem Kristján Eldjárn rannsakaði og teiknaði. Kaþólskir menn á Íslandi hafa svo komið fyrir líkneski af heilagri Barböru úr bronsi í rústinni.

Hraunið, þar sem kapellan er, hefur verið nefnt Kapelluhraun, en áður var það kallað Bruninn, og enn fyrr Nýjahraun, eftir að þar rann hraun á 12. öld (á tímabilinu 1151-1188). Við nýhlaðna kapelluna hefur verið hamrað niður staur með merki sem upplýsir að þarna sé að finna riðlýstar fornminjar.

Merkasti forngripurinn sem Eldjárn fann í kapellunni var brot af líkneski af heilagri Barböru frá miðöldum, 3.3 sm að lengd (sjá mynd að ofan, ljósm. VÖV). Löngu síðar setti ég þetta líkneski í samhengi við heimssöguna og sýndi fram á uppruna þess í Hollandi, sem og aldur þess. Líkneskið er ættað frá borginni Utrecht, þaðan sem föðurmóðir mín var að hluta til ættuð, og er gert í pípuleir (bláleir). Mjög lík líkneski hafa fundist í Utrecht. Skrifaði ég grein um uppgötvun mína að beiðni Kristjáns Eldjárns í Árbók. Ég uppgötvaði reyndar uppruna líkneskisins eftir að faðir minn heitinn keypti handa mér yfirlitsrit um fornleifafræði í Hollandi, þar sem var að finna ljósmynd af hliðstæðu Barböru í Kapelluhrauni.

Barbara van Utrecht
Barbara frá Utrecht í Hollandi

 

Barbara var píslarvottur, sem samkvæmt helgisögum var uppi í lok 3. aldar e. Kr.. Hún var heiðingi sem gerst hafði kristin á laun. Faðir hennar gætti meydóms hennar vel og læsti hana inni í turni eins og gerðist á þessum tímum. Það skipti ekki miklu máli, því hún hafði heitið því ekki að giftast eftir að hún gerðist kristin. Eitt sinn er faðir hennar fór í reisu lét hann byggja fyrir dóttur sína baðhús. Meðan hann var í burtu, lét Barbara setja þrjá glugga í baðhúsið, í stað þeirra tveggja glugga sem faðir hennar, heiðinginn, hafði fyrirskipað. Hinir þrír gluggar Barböru áttu að tákna hina heilögu þrenningu. Þegar faðir Barböru kom úr ferðalaginu sleppti hann sér og ætlaði að höggva dóttur sína með sverði. Bænir Barböru urðu til þess að gat kom á veggin á turni hennar og hún flýði út um það upp í gil eitt nálægt. Seinna náðu vondir menn henni og hún var pínd og loks hálshöggvin af föður sínum, þegar heiðingjarnir voru búnir að fá sig sadda af alls kyns kraftaverkum sem áttu sér stað í dýflissunni.

Hér má lesa ágæta samantekt um kapelluna í Kapelluhrauni, sem er skrifuð af rannsóknarlögreglumanni sem dreif sig í fornleifafræðinám við HÍ. Ég leyfi mér að sekta "fornleifalögguna" fyrir að gleyma einni grein við yfirferðina um kapelluna. En hann lærði í HÍ, svo við sláum aðeins af sektinni, svo hann fari ekki á Hraunið, því í HÍ má ekki nefna suma íslenska fornleifafræðinga á nafn eins og hér greinir. 

kapellan_2009_pan

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rauða Ljónið

Sæll. Vilhjálmur þakka framtakið Fornleifur.
Varaðindi Kapelluhraun við álverið er það ekki rétt að það hafi verið rutt vegna álversins það var búiið að gera það áður.
Eins og sjá má hér.
Gatan sést ekki lengur í Kapelluhrauni því stórvirkar vinnuvélar hafa eytt þeirri merku vegaframkvæmd sem þarna var unnin fyrir margt löngu .
Gatan var fram til 1964 eða 1965 en efnistaka Hafnarfjarðabæjar á hrauninu lagði hana að lokum að velli á mynd frá Landmælingum Íslands frá 1966 sýnir hana horfna með öllu.
Og hér er meira um kapelluna.

Hin forni vegur sem lá þarna í gegnum hraunið hraunhlaðin og sem sumir telja að hafi verið betur gerður en sá í Bersekkjarhrauni en klyfjarhesta gátu mættst það var ýtunum að bráð,   við bræðurni hjóluðum hann nokkrum sinnum.

Kv. Sigurjón Vigfússon

Rauða Ljónið, 20.9.2011 kl. 10:44

2 Smámynd: FORNLEIFUR

"Allt var reyndar sléttað áður en tilkynnt var um hinn mikla framkvæmdavilja" eins og ég skrifaði. Þakka þér fyrir frekari upplýsingar.

Það hefur vart verið þægilegt að hjóla þennan veg?

FORNLEIFUR, 20.9.2011 kl. 10:51

3 Smámynd: Rauða Ljónið

Nei ekki allan vegin hann var grófur um sumstaða hrunið úr honum og þá þufti að leiða hjólin smá spöl en öruggra var að fara hann en gamla Keflavíkurveginn vegna umferða.

KV. Sigurjón

Rauða Ljónið, 20.9.2011 kl. 11:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband