Langspilið á 20. og 21. öld
10.5.2013 | 12:43
Langspilseign Íslendinga hefur líklega farið hríðminnkandi þegar á leið 19. öldina, m.a. vegna þess að Íslendingar kynntust betur öðrum hljóðfærum. Menn voru einnig að selja gömlu hljóðfærin sín eða gefa erlendum mönnum þau. Líklega hefur þetta verið eins og með torfbæina, þegar menn fóru yfir þá með jarðýtum. Íslendingar voru farnir að skammast sín fyrir það gamla. Mörg þeirra langspila sem fóru erlendis hafa sem betur fór varðveist á söfnum ytra, eins og ég hef greint frá (sjá hér).
Á 20. öldinni var samt áfram töluverður áhugi á hljóðfærinu, kannski dulítið rómantískur, og reyndu ýmsir að hefja það aftur til vegs og virðingar. Nú á síðustu árum hafa margir smíðað sér hljóðfæri. Þau eru af mjög misjöfnum gæðum, en á meðal eru hljóðfæri sem hljóma mjög vel og fallega - en ekki endilega eins og langspil hljómuðu fyrr á öldum, enda vitum við aðeins lítið um hljóðgæðin frá tveimur heimildum. Sumum þótti hljóðfærin hljóma fallega, en öðrum þóttust þeirra óttalegt gargan, sbr. lýsingar MacKenzies og hins vegar John Baines sem var með í leiðangri John Thomas Stanleys baróns af Alderley til Íslands árið 1789 (sjá hér).
Ég er nær fullviss um að sérhvert langspil hafi haft sína sál og sinn hljóm, og að engin langspil hafi verið alveg eins. Þetta voru ekki hljómsveitarhljóðfæri. Það sjá menn besta af því yfirliti því sem ég hef tekið saman yfir elstu hljóðfærin sem varðveist hafa. Ég tel að hljóðfærið endurspegli dálítið eðli Íslendinga sem ávallt hafa fyrst og fremst verið einstaklingshyggjumenn, sólistar, og neiti því menn ef þeir vilja. Væntanlega eru jafnmargar skoðanir á því og Íslendingar eru margir.
Þegar fram á 20. öldina kemur, ræða menn í riti mest um langspil í minningunni, sem hljóðfæri sem látnir menn höfðu smíðað á unga aldri. En eftir síðara stríð hefst "endurreisnartímabilið" með Önnu Þórhallsdóttir og síðar öðrum áhugamönnum um hljóðfærið. Þá söfnuðu hin ágætu hjón Jón Samsonarson og Helga Jóhannsdóttir miklum fróðleik um langspil, sem er hægt að hlust á hér.
Ég hef tekið saman dálítinn lista yfir ritheimildir um langspilið, þegar það er ekki nefnt í ljóðmáli. Ég vinsaði þetta út á timarit.is:
1898
Langspil voru auglýst sem jólagjafavarningur á 25 aura í Edinborgarverslun fyrir jólin árið 1898.
Mig grunaði lengi að þetta herði verið eitthvað annað annað en hljóðfærið langspil, hugsanlega borðspil. En í kvæði sem birtist í Ísafold stendur: "Helst á langspil Mummi argar", svo ég verð að gera ráð fyrir því að einhverjir hafi verið að smíða hljóðfæri sem seld voru í versluninni Edinborg. Allar upplýsingar um þessi langspil í Edinborgarverslun væru vel þegnar. Orðið "stundanegri" þarfnaðist einnig skýringa.
1910
Í minningargrein í Skólablaðinu (4. árg., 7. tlb. 1910) um Eggert Helgason barnakennara (1830-1910) sem fæddist í Húnaþingi, segir:
Hann var á flesta lund vel gefinn, hugvitsmaður mikill og jarðræktar maður með afbrigðum, en ekki síður pennafær; sönglaginn var hann og spilaði á langspil og flautu. Smíðaði sér víst hvortveggja sjálfur.
1913
Í Hljómlistinnni (1. Árg. 5. tlb. 1913) eru bréfkalfar um hljóðfæraeign Strandamanna:
Einstakir menn eiga harmonium heima hjá sér, t. d. eru 2 í Óspakseyrarhreppi, 1 í Kollafirði, 1 i Hrófbergshreppi og 4 i Árneshreppi. Önnur hljóðfæri eru eigi nema harmonikur og grammófónar og svoleiðis gargskjóður. Langspil eru nú alveg fallin úr sögunni, síðan menn fóru að venjast harmonium.
Fyrsta harmoniið kom hingað í miðsýsluna að Heydalsá til Sigurgeirs Ásgeirssonar, árið 1897; síðan hafa þau verið að smátínast inn í sýsluna.«
Í Eimreiðinni (19. árg. 1. tlb. 1913) er að finna minningargrein um Gunnstein Eyjólfsson (1866 - 1912):
"Í æsku Gunnsteins voru eigi fremur hljóðfæri en skólar eða önnur menningarfæri í byggðarlagi hans [Hjaltastaðaþinghá]. Einhversstaðar gróf hann þó upp langspil hjá fornbýlum náunga, og lærði hann að þekkja nótur og tóna með þess tilstyrk. Er hann líklega eini nútíðar íslendingur, sem hafið hefir sönglistabraut sína við þetta úrelta og ófullkomna hljóðfæri."
1929
Í grein um austfirska ættfræði í Óðni, (25. árg. 1929, 1.-8. tölublaði), er greint frá Birni Skúlasyni sem smíðaði sér langspil:
Björn faðir Gróu var sonur Björns Skúlasonar, er bjó hjer og þar í fjörðunum austan Fljótsdalshjeraðs. Var hann að ýmsu allmikill hæfileikamaður, smiður góður og vel skurðhagur. Hann var söngmaður og smíðaði sjer langspil,til að spila á, því að lítið var þá um hljóðfæri. Hann dó nærri níræður á Kóreksstöðum 24.des. 1872.
1930
Þann 27. júlí 1930 andaðist Halldór Bjarnason bóndi á Stórutjörnum i Ljósavatnsskarði, tæpra 67 ára gamall. Í Degi er þann 10. september 1930 er hægt að lesa þetta um tónlistariðkun Halldórs:
Halldór var ágætlega vel hagur bæði á tré og járn. Mundi hann þó hafa orðið mikið fremri i þeirri grein ef notið hefði tilsagnar við smíðar. En hennar naut hann engrar; átti þess ekki kost. Halldór hafði hina mestu unun af söng og hljóðfæraslætti. Ekki gafst honum þó tækifæri til að læra f æsku neitt, er að slíku lýtur. En það sýnir áhuga hans og löngun til þess, að hann á unglingsaldri smíðaði sér langspil og lék á það í tómstundum.
Anna lætur hér 6. áratuginn mæta 18. öldinni, að því er virðist í skarpri stemmu. Hann er einnig virðulegur faldbúningurinn sem hún klæðist á myndinni hér ofar.
Anna Þórhallsdóttir og Guðrún Sveinsdóttir
Ekki verður með neinu móti gengið framhjá áhuga tveggja merkiskvenna sem reyndu að efla áhugann á langspilinu og hefja það til vegs og virðingar. Þetta voru söngkonurnar Guðrún Sveinsdóttir og sér í lagi Anna Þórhallsdóttir (1904-1998). Anna, sem var nokkuð sérstæð kona, sem lærði m.a. söng í Kaupmannahöfn og á Juilliard í New York, lifði og hrærðist fyrir langspilið. Hún lét árið 1960 gera eftirlíkingu af hljóðfæri frá 18. öld, sem í dag er að finna á Musikmuseet í Kaupmannahöfn.
Þegar ég smíðaði hljóðfæri mitt með Auðuni Einarssyni, leitaði ég upplýsinga hjá Önnu og Guðrúnu og man ég að Önnu þótti mjög merkilegt að ég væri að fara að smíða mér hljóðfæri og vildi vita af framvindu þess verkefnis, en eins og gengur og gerist hringir stráklingur ekki í gamlar konur, svo ég sýndi því aldrei þessari öndvegiskonu langspilsins hljóðfæri mitt.
Anna gaf m.a. út tvær hljómplötur erlendis á eigin kostnað. Ég festi kaup á einni þeirra nýverið Folk Songs of Iceland, sem út var gefin var út árið 1969 hjá Lyricord Discs Inc. í New York. Langplatan var tekin upp af Ítalanum Mario de Luigi og gefin út af Roberto Leydi, sem var þekktur prófessor í tónlistarfræðum í Milano. Svipuð plata fyrir Ítalíumarkað, sem bar heitið Canti popolari d'Islanda, og kom út hjá fyrirtæki sem hét Albatros á Ítalíu árið 1974. Vona að ég að ég brjóti engin upphafsréttarlög með því að leyfa lesendum Fornleifs að heyra nokkur dæmi af plötu Önnu hér í tónlistaspilaranum til hægri.
Önnu þótti greinilega að sér vegið, þegar David Woods og íslenskir aðstoðarmenn komust í fréttir árið 1981, þegar Woods var staddur á Íslandi við rannsóknir á langspilinu. Skrifaði hún grein í Velvakanda Morgunblaðsins til að minna á sig sem fumkvöðul endurvakningar langspilsins. Enginn tekur það frá henni, þótt menn geti vel haft ýmsar skaðanir á söng Önnu.
Plötuumslag fyrir Folk Songs of Iceland með Önnu Þórhallsdóttur. Hlustið á hljóðdæmi í tónlistaspilaranum hér ofar til hægri
Síðustu vitneskju um langspilin safnað
Þegar saga langspilsins 20. öld er skoðuð, er ef til vill mikilvægasta starfið sem unnið var í tengslum við langspilið. að hjónin Jón Samsonarson og Helga Jóhannsdóttir, og síðar aðrir, söfnuðu upplýsingum hjá rosknu fólki um hljóðfærið. Mikið að viðtölum var tekið upp á segulband. Flest þessara viðtala má nú nálgast á http://www.ismus.is/search/langspil og er þar mikill, skemmtilegur og ómetanlegur fróðleikur inn á milli.
Iðnir langspilssmiðir
Áður en menn helltu sér út í langspilasmíðar eftir 1970, líkt og höfundur þessara langspilspistla hér á Fornleifi þegar hann var 10-11 vetra höfðu margir sem höfðu stundað smíði á þessu hljóðfæri eftir eigin höfði og minninu.
Á fyrri hluta 20. aldar voru nokkrir menn mjög afkastamiklir langspilssmiðir.
Þann 22.9. 1961 greini Bragi Jónsson frá því í Tímanum í lesendabréfi þar sem hann leiðréttir upplýsingar í grein Önnu Þórhallsdóttur fyrr það ár og segir frá langspilssmíðum föður síns Jóns G. Sigurðssonar. Bragi skrifar:
Telur frúin að þeir muni ekki svo margir á íslandi, sem séð hafi langspil. Enn fremur að enginn muni hafa kunnað að leika á langspil á þessari öld. Þetta er ekki rétt. Langspil voru allalgeng fram á síðari hluta síðustu aldar og eru enn til á nokkrum stöðum, bæði söfnum og í eigu einstakra manna. Langspil er t. d. í byggðasafni Rangæinga að Skógum undir Eyjafjöllum og eins í byggðasafni Skagfirðinga í Glaumbæ. Langspilið í Skógasafni er smíðað af föður mínum, Jóni G. Sigurðssyni bónda í Hoftúnum (d. 1950), og gefið safninu. Hvort langspilið í Glaumbæjarsafni er smíðað af honum, veit ég ekki, en tel það ekki ólíklegt, þar sem hann var Skagfirðingur að ætt. Hann var hagur vel og hljóm- og sönglistaunnandi. Hann lærði ungur að leika á langspil og smíðaði þau mörg. Fyrsta langspilið, sem ég sá, smíðaði faðir minn 1911 eða 12 og lærði bæði ég og flest systkini mín að leika á það. Eftir að ég lærði að þekkja nótur, lærði ég mesta fjölda af fallegum lögum á langspil þetta. Á efri árum sínum smíðaði faðir minn mörg langspil og seldi sem minjagripi. Eitt slíkt langspil er í eigu Þórðar Kárasonar, lögregluþjóns í Reykjavík og sá ég það fyrir stuttu síðan. Annað langspil smíðað af föður mínum á Eyvindur Friðgeirsson frændi minn í Reykjavík. Hvar ýmis önnur langspil, sem faðir minn smíðaði, eru niður komin, veit ég ekki, en þau munu flest vera í Reykjavík. Langspil eru því ekki jafn fáséð og frú Anna heldur. Á langspil hef ég ekki leikið í áratugi og á það því miður ekki. Þætti samt gaman að taka lagið á langspil, ef svo bæri undir og myndi fljótt æfast í listinni, og sjálfsagt eru einhverjir fleiri en ég, sem kunna með langspil að fara. Annars á frú Anna Þórhallsdóttir þakkir skilið fyrir að kynna í öðrum löndum þetta alíslenzka hljóðfæri. Bragi Jónsson.
Einnig mun Jón Stefánsson á Dalvík hafa smíðað um fimm langspil sem til voru er David Woods rannsakaði langspil árið 1981.
Á Akureyri bjó lengi niður við höfn, Friðgeir Sigurbjörnsson hljóðfærasmiður sem frá 1950 smíðaði ófá langspilin. Árið 1977, er Árni Johnsen, síðar kenndur við Þorláksbúð, heimsótti þennan merka hljóðfærasmið, voru langspilin orðin 128 að tölu. Þá var Friðgeir nýorðinn áttræður. Friðgeir smíðaði m.a. hljóðfæri fyrir Guðrúnu Sveinsdóttur söngkonu (sem var barnabarn Matthíasar Jochumssonar).
Áður en drengurinn á myndinni, (síðar síðuhaldari á Fornleifi), gerðist yngsti langspilssmiðurinn á Íslandi með góðri hjálp Auðuns H. Einarssonar (sjá hér), voru menn að búa sér til langspil í sitthvoru horninu. Jón Hlöðver Áskelsson tónskáld og Njáll Sigurðsson smíðuðu sér langspil á námskeiði út í Bayern (Bæjaralandi), þegar þeir stunduðu nám við Orff-Institut-Mozarteum í Salzburg, en teikningu fyrir hljóðfærin fengu þeir hjá Freiðgeiri Sigurbjörnssyni. Jón sagði mér nýlega að hljóðfæri hans sé ekki lengur spilahæft og hangi upp á vegg sem stofustáss.
21. öldin
Eftir aldamótin 2000 virðist hafa verið mikil gróska í spilamennskunni og langspilaeign Íslendinga eykst nú aftur. Hljóðfæri þau sem smíðuð hafa þó verið eru afar misjöfn að gæðum og tónlistin sem töfruð er fram er það líka. Sumt að því sem maður sér er afar illa smíðað og helstu vankantar eru að þau eru með of þykka veggi (borð).
Stundum sér maður langspil sem skera úr hvað varðar smíð og gæði. T.d. þetta forláta hljóðfæri sem Sigþór Sigurjónsson smíðaði á námskeiði hjá Erni Sigurðssyni tréskurðarmeistara. Ég hef einnig skoðað hljófæri eftrir Jón Sigurðsson, ungan smíðakennara á Þingeyri. Þau hafa mjög fallegan hljóm.
Þvílík gersemi er hljóðfæri Sigþórs Sigurjónssonar, og það er bláklukka á sniglinum, stillingarpinnum og hljóðopin eru í laginu eins bláklukkan góða, enda er Sigþór ættaður að austan. Boginn er úr íslenskum reynivið og hárin í boganum eru af tagli fylfullrar merar. Það ku gefa skarpari tón að hafa migin hár í boganum að sögn fróðra manna. Hvernig ætli það sé svo að músísera á þetta hljóðfæri? Ég get ekki ímyndað mér annað en að það sé fallegur hljómur sem úr því kemur, enda byggt eftir skabelóni sem ég teiknaði hjá Auðuni Einarssyni forðum, sem síðar var notað í langspilspakka, sem útbúinn var í Kennaraháskóla Íslands (sjá frekar hér).
Ég tel ekki að tónlistalærðum mönnum sé stætt á því að gagnrýna langspilslist annarra eins og hér er gert. Ég er eins viss um að sumt að því sem hljómar best í dag, og sem er hægt að hlusta á á YouTube og á disklingum, hefur aldrei heyrst úr langspilum forfeðranna. Þeir sem í dag spila á langspilið íslensk þjóðlög með "keltnesk-írskum" áhrifum, og að gefa þá tónlist út fyrir að vera íslenska, eru á hálli braut.
Jafn mismunandi og langspilin eru, jafn misjöfn er listin. Þannig á það líka að vera, allir spila með sínu nefi og þannig var það líklega alltaf með langspilið. Hér fyrir neðan getið þið notið tóna mismunandi listamanna og fræðaþula sem spila á langspilið - hver með sínu lagi, eða eins vel og hljóðfæri þeirra leyfa. Sum hljóðfæranna eru rafmögnuð. Langspilið hefur greinilega endanlega tekið í sátt af nútímanum. Mig minnir að Sigurrós hafi jafnvel notað langspil, og ef niðursetningarnir í þeirri sveit eru ekki búin að því, er ekkert til fyrirstöðu. Einnig er hægt er að hlusta á marga menn, íslenska og erlenda, spila á langspilið á YouTube
og magister Þórður Tómasson spilar hér og syngur eftir sínu eyra:
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Hljóðfæri, Tónlist, Forngripir | Breytt 1.9.2019 kl. 06:35 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er mjög áhugaverð og góð samantekt á sögu langspilsins. Sigurður Rúnar Jónsson (Diddi fiðla) hefur á góðri stund brugðið á leik með langspilið.
Jens Guð, 11.5.2013 kl. 01:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.