Næla frá Vaði

Allmargir gripir sem ættaðir eru frá austurhluta Skandinavíu og löndunum við botn Eystrasalts hafa fundist í jörðu á Íslandi. Sumir þessara gripa eru greinilega gerðir þar austur frá, en aðrir eru undir stíláhrifum þaðan. Í raun hafa fundist fleiri gripir frá Eystrasaltslöndunum norðanverðum en gripir sem óyggjandi er hægt að tengja Írlandi eða svokölluðum keltneskum stíláhrifum.

Nælan frá Vaði í Skriðdal 2
Ljósm. Ívar Brynjólfsson. Þjóðminjasafn Íslands.

Nælan frá Vaði í Skriðdal í Suður-Múlasýslu fannst í kumli árið 1894 en kom á Forngripasafnið tveimur árum síðar, Það er til góð lýsing á fundi hennar frá 1897 eftir Stefán Þórarinsson:

Þess skal þá fyrst getið að þessi staður er rétt fyrir utan og ofan túnið á Vaði  á snöggu grasbarði. Þannig var varið að utan af þessu barði hefi blásið, grasrótin og moldin, sem mun vera c. 3 kvartél á þykkt ofan á aur. Svona hefur haldið áfram að blása upp þar til komið var að beinunum, þá lomu þau í ljós. Auðvitað sást ekki nema höfuðkúpan sem upp var komin, en þegar grafið var svo sem 4-5 þuml., og sumstaðar ekki nema 2-3 þuml., þá komu öll beinin í ljós. Öll mannabeinin sáust bæði tábein og fingur, nema hvað ryfbein og hryggur var farin að fúna, þar sem innýflin höfðu legið

Eftir því sem eg þekki best til átta, þá lág maðurinn frá há norðri til há suðurs, þannig að höfuðið snöri suður, en fæturnir norður. Beinin lágu öll reglulega, og var auð séð, að við þau hefði aldrei verið átt. -  Sverð það sem sumir segja að hafi fundist hef ég ekki getað fengið áreiðanlegar sagnir um, enda hefði ég best getað trúað, að það væri ósatt? En Björn á Vaði segið það satt vera að þar hafi fundist hnappar nokkuð einkennilegir, en víst eru þeir tapaðir. Brjóstnálina fann eg af þeirri ástæðu að þegar ég sá höfuðkúpuna, þá fór eg að grafa þar niður og fann eg þá strax nálina hjá hálsinum.

Ég tók öll beinin saman og gróf þau í sama stað niður, þó nokkru dýpra. Þess skal getið að barðið er ekki blásið lengra upp inneftir en rétt yfir beinin, svo fleiri bein geta ef til vil verið þar. Sendi form. Forngripasafnsins mann hér austur þá er ég jafnan reiðubúinn að gefa þær upplýsingar er ég get af þessum fundi mínum.

Borrodýrið frá Vaði

Þessi hringlaga næla, sem er úr koparblöndu, er steypt og lokuð að aftan með plötu sem nál er fest á. Bronsplatan, sem hangir í keðjunum og sem á eru leifar af gyllingu, er með skrautverki í Borróstíl. Nælan, keðjurnar og axalaga plötu sem hanga á þeim benda til stíláhrifa frá baltnesku löndunum eða Rússlandi og að hún sé frá 10. öld. Svipaðar nælur finnast í Finnlandi, norður í Þrumu (Troms) í Norður-Noregi, en finnast hins vegar ekki í sunnan- og  vestanverðri Skandinavíu. Austrænir hlutir finnast afar sjaldan þar. Tvær mjög líkar nælur hafa fundist á Íslandi.

Baltneskir, rússneskir og finnskir gripir, sem finnast í Norður-Noregi, eru jafnan tengdir samískri búsetu eða verslun Sama á þessum slóðum. Samar, sem áður voru kallaðir Lappar, hlutu ekki verðskuldaða athygli í fornleifafræðinni fyrr en fyrir nokkrum áratugum, og ekki eru mörg ár síðan þessi frumbyggjar Skandínavíu voru var nefndir í bókum um víkingaöldina. Þjóðernisnærsýni norrænnar fornleifafræði og sagnfræði gerði það að verkum að hlutu Sama í menningu járnaldar gleymdist og að þeir voru jafnvel taldir óæðri Skandínövum. Þótt enn sé vinsælt að sjá Sama í hlutverki náttúrubarnsins eru fræðimenn nú sammála um mikilvægi þeirra fyrir menningar- og verslunartengsl í Norður-Skandinavíu á járnöld og miðöldum.

Verslunarhæfileika Sama könnuðust fyrstu landnemar á Íslandi vel við, enda margir þeirra ættaðir úr nyrstu héruðum Noregs og voru  jafnvel af samískum ættum. Rannsóknir danska mannfræðingsins Hans Christian Petersens  í Þjóðminjasafni sumarið 1993 á beinum fyrstu Íslendinganna virðast eindregið benda til þess að þau tengsl kynni að vera meiri en t.d. Landnámabók getur um. Austrænir gripir á Íslandi gæti því sýnt tvennt. Annars vegar verslunartengsl við Norður-Skandínavíu, og hins vegar skyldleika Íslendinga við þá sem þar bjuggu.

Grein þessi birtist fyrst í bókinni Gersemar og Þarfaþing  (1994), bók sem Þjóðminjasafn Íslands gaf út á 130 ára afmæli safnsins og sem Árni Björnsson ritstýrði. Örlitlar viðbætur hafa verið gerðar við grein mína hér.

Ítarefni:  

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, "Archaeological Retrospect on Physical Anthropology in Iceland". Populations of the Nordic countries Human population biology from the present to the Mesolithic." [Proceedings of the Second Seminar of Nordic Physical Anthropology, Lund 1990. Editors Elisabeth Iregren and Rune Liljekvist ]. Report Series from the Archaeological Institute, University of Lund No. 46 (1990), 198-214. Hægt er að lesa greinin hér í pdf sniði, en dálítinn tíma tekur að hlaða hana niður.

SJSAMI~1
Ivar Samuelsen, Sami frá Finnmörku

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband