Furðumyndir frá 18. öld á Listasafni Íslands: Síðari hluti

skemmt

Ottó barón Reedtz-Thott á Gavnø hefur verið svo vingjarnlegur að upplýsa mig, að ekki hangi lengur á veggjum hallar hans verk úr furðumyndaröð þeirri sem sýnir Ísland, og sem upphaflega var eign forföður hans Otto Thotts. 24 verkanna voru gefin Íslendingum árið 1928 (sjá fyrri færslu), en myndirnar voru upphaflega 32 að tölu árið 1785, er gerður var listi yfir málverkasafn Thotts. Baróninn upplýsir í tölvubréfi dags. 20.11. 2012, að árið 1930 hafi verið haldið uppboð á lélegum verkum úr safni góssins á Gavnø, en þar á meðal voru ekki neinar myndir sem gætu hafa verið 8 myndir úr Íslandsmyndaröðinni. Líklegt er því, að myndirnar 8, sem vantar, hafi verið orðnar svo lélegar árið 1928, að menn hafi annað hvort ekki viljað gefa Íslendingum þær, eða að þær hafi verið komnar í glatkistuna miklu fyrr.

Við getum þó leyft okkur að vona, að einhver sé enn með átta svipaðar myndir á veggjum sínum. Myndin hér að ofan sem er ein hinna 24 í Listasafni Íslands, er harla illa farin sökum einhvers konar skemmdarverks eða slyss. Kannski fór verr fyrir þeim síðustu átta en þessari mynd.

Tilgáta um listamanninn: Sæmundur Hólm 

Hvað Ólafur Ingi Jónsson byggir fyrrnefndar hugmyndir sínar um hollenskan uppruna og aldursgreiningu til lok 17. aldar á, fyrir utan það litla sem hann sagði í véfréttastíl í fyrrgreindum útvarpsþætti, get ég ekki alveg gert mér grein fyrir.

Greinilega var málarinn, sem bar ábyrgð á þessum málverkum, enginn Rembrandt. En samt eru atriði í málverkunum sem benda til að listamaðurinn hafi lært málaralist og handverk sitt. Þau atriði sem ég taldi til í síðustu færslu tel ég benda til þess að myndirnar hafi orðið til á seinni hluta 18. aldar en ekki á 17. öld eins og Ólafur forvörður heldur.

Sömuleiðis tel ég ekki lokum fyrir það skotið, að líta sér aðeins nær en til Hollands. Hvað með að Íslendingur, búsettur erlendis hafi málað þessi furðuverk? Er það óþarflega glannalegt á þessum síðustu ESB-tímum.

Kristján Sveinsson sagnfræðingur varpaði reyndar fram þeirri spurningu, er ég ræddi nýverið við hann um furðuverkin á Listasafni Íslands, án þess að hafa séð myndirnar, að Sæmund Magnússon Hólm (1749-1821) væri kannski listamaðurinn. Sæmundur var fyrsti Íslendingurinn sem við vitum að hafi stundað nám á listaskóla.

Sæmundur Magnússon fæddist að Hólmaseli á Meðallandi árið 1749, sonur hjónanna Guðmunds Magnússonar og Guðleifar Sæmundsdóttur. Sæmundur gekk í Skálholtsskóla og var um tíma djákni á Kirkjubæjarklaustri. Hann hélt síðan til Hafnar árið 1774 og bjó þar og nam við kröpp kjör fram til 1789 er hann fékk brauð að Helgafelli og Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi.

Hann lærði til prests í Kaupmannahöfn en lauk sömuleiðis öllum deildum Konunglegu Akademíunnar og sumum með ágætum, fékk meðal annars medalíur, verðlaun og konunglegt leyfi til að framleiða gljápappír, (pappír með glansáferð), sem hann segist hafa fundið upp. Þann pappír hefði ég gaman af að sjá, ef einhver ætti snifsi af honum. Sjálfur orti Sæmundur eftirfarandi línur um verlaun þau sem honum áskotnuðust í Kaupmannahöfn. 

Medalíur fimm eg fjekk

forþjent verkin standa;

teikningin til gæða gekk

gjörði eg reynslu vanda.

 

Uppfinninga rækta eg ráð

raun skal vitni bera.

Ríkis fjekk um lög og láð

leyfi að fabrikera.

Margt er til eftir Sæmund, en engin þekkt ólíumálverk 

Þótt ekki séu þekkt nein olíumálverk eftir Sæmund Hólm, þekkjum við þó nokkuð af mannamyndum sem hann teiknaði með rauðkrít, nokkrar koparstungur, sem og þó nokkrar teikningar í handritum, stafagerðabækur og ýmis konar kort og yfirlitsmyndir. 

Sannast sagna þykir mér, líkt og mörgum samtímamönum Sæmundar, hann ekki sýna mikinn listamann, til að mynda í andlitskrítarmyndum sínum. Hann átti í stökustu erfiðleikum með hlutföll á milli líkama og höfuðs og dýpt og gullinsnið lærði hann aldrei. Hann gat ekki teiknað persónur með mikilli snilld. Myndirnar hér að neðan, m.a. af grasafræðiprófessornum Erik Viborg, sem nú eru varðveitt í Friðriksborgarhöll, mynd sem hann vann til verðlauna fyrir, sýnir fólk með stór höfuð og litla búka. Medalíur og verðlaun sem Sæmundi hlotnaðist, má miklu frekar líta á sem stuðning við efnalitla listanema á þessum tímum. Rauðkrítarteikningar Sæmundar voru að minnsta kosti ekki mikil list.

Erik Viborg  Sveinn Pálsson 17_smholm

Thottske Palæ

Det Thottske Palæ eins og það lítur út í dag

 

Tengsl Sæmundar við Otto Thott

Það er helst tvennt sem tengt getur Sæmund Hólm við Ottó barón Thott.

1) 

Í fyrsta lagi eignaðist Thott handrit sem Sæmundur hafði skrifað og myndskreytt, sem nú er að finna í Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn, þangað sem þau voru gefin eftir dauða Thotts.

2) 

Í öðru lagi stundaði Sæmundur myndlistanám í næsta húsi við heimili Otto Thotts í Kaupmannahöfn, Det Thottske Palæ, sem nú hýsir sendiráð Frakka í Kaupmannahöfn. Höllin var seld Frökkum árð 1930. Ef Sæmundur hefur kynnst baróninum sem keypti af honum handrit, hefur ekki verið langt að fara fyrir Sæmund, ef hann hefur fengið aðgang að hluta bókasafns baróns, sem einnig var hýst í Thottsku höllinni í Kaupmannahöfn.

Ef við lítum á handrit þau sem Thott keypti eða fékk af Sæmundi, er margt áhugavert að finna. Thott var maður upplýsingarinnar og átti hann stærsta bókasafn af handritum og smábæklingum í Evrópu sem flokkast getað sem upplýsingabókmenntir. Það sem hann hefur fengið frá Sæmundi, eða með hans hendi, var einnig af þeim toga. En áhugi á list var einnig ástæðan til að handrit eftir Sæmund komust í eigu Thotts. Thott hefur einhvern veginn eignast nokkuð sérstakt handrið sem Sæmundur skrifaði og myndskreytti á Hafnarárum sínum. Þetta er sambrotshandrit með eftirmyndum af  teikningum eftir meintan biskup "G.H.lin.... "sem áttu að fyrirfinnast í kórvegg innanverðum í kirkjunni að Sólheimum í Vesturs-Skaftafellssýslu; Þetta eru fimm teiknaðar helgimyndir sem sýna kafla úr sögu Jesús Krists og sem Sæmundur skrifar/afritar að hafi verið teiknaðar anno Domini 1414 (MCCCCXIV). Vandamálið er hins vegar það, að myndirnar sverja sig í ætt við koparstungur niðurlenskar, eða þýskar. frá 16. öld. Textinn undir myndinni í hverjum ramma er eintómt rugl, fyrir utan orðið Jesús, en í lokarammanum er skýring Sæmundar og neðst er árstalið 1414 og upplýst að G.H.lin... hafi teiknað á Lúsíudag í Föstu að Dyrhólum. Ekki er mér kunnugt um, hvort vísitasíur frá Sólheimakirkju á 17 og 18. öld lýsi slíku verki í kirkjunni, og er verið að rannsaka það. Mér er reyndar nær að halda, að Sæmundur hafið uppdiktað þetta listaverk og selt Thott baróni. Eðli myndanna og stíllinn benda ekki til fyrri hluta 15. aldar. 

Sólheima Kirkja Sæm Holm

Hluti af teikningu Sæmundar af mynd í Sólheima Kirkju.

Ef handritið með Sólheimabílætunum, sem Sæmundur hefur teiknað, og ef til vill selt Thott baróni, er einhvers konar blekking (já, hér er ég kominn í spor forvarðarins og gruna menn um græsku), þá er komin ærin ástæða til að ætla að Sæmundir kunni einnig að hafa verið fær um að mála furðumálverk af stöðum í heimalandi sínu, til dæmis sem einhvers konar æfingau í námi sínu, og hafi svo tekið upp því að selja þær Otto Thott, sem tók við öllu "gömlu" og hafði ráð á því að borga vel fyrir.

Maður getur ímyndað sér, að kennari Sæmundar í listunum hafi ef til vil beðið hann um að mála eitthvað eftir minninu frá Íslandi, og þar sem hann hefur vart gert víðreist nema um suðurhluta landsins og ekki þekkt aðra landshluta vel, hafi hann farið út það í að búa til þessar skemmtilegu fantasíur.

Það er þó einnig ýmislegt í málverkunum 24, sem sýnir skyldleika við önnur verk, teikningar Sæmundar, sem gefur ástæðu til að álykta að hann gæti  hugsast að vera listamaðurinn sem málaði myndirnar 24, þó það verði vart sannað nema með öðrum aðferðum en samanburði einum. Ýmislegt í myndunum gefur einnig ástæðu til að ætla, að listamaðurinn hafi verið ýmsu kunnugur á Íslandi. Hér skal það helst talið upp:

Karlahattar

Á málverkunum 24 á Listasafni Íslands er hattatíska karla með sama lagi og hattar í mörgum verkum Sæmundar, reyndar sláandi líkir. Dæmi:

Karl 1

Karl 2

Karl 3

Karl 4

Mynd af manni með einhvers konar fuglaháf eða snöru í bjargi í Vestmannaeyjum. Úr handriti Sæmundar Hólms um Vestmannaeyjar (NKS 1677 4to) sem er varðveitt er á Konunglega Bókasafninu í Kaupmannahöfn.

Karl5

Tab.V Karl

Úr handritinu Sæmundar um uppfinningu hans, nokkuð furðulega fiskveiðamaskínu sem er varðveitt á Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn (Kall 628a 4to). Handritið, sem eru auðlesið, og tilheyrandi myndir verða birt í heild sinni á Fornleifi innan skamms.

Karl5 Tab.VI Karlar

Maður á einu af málverkunum 24  og menn í svipuðum fötum og úr handriti Sæmundar um veiðimaskínuna. Myndin fyrir neðan er úr sama handriti.

Tab.III karlar

 

Fjallastafur?

skip b

Hallar karlinn sér fram á fjallastaf?

Gott ef ekki er hægt að sjá Erkiskaftfellskan fjallastaf (broddstaf), sem einn karlanna á myndinni hallar sér fram á. Slíkan staf hefði Sæmundur nú þekkt úr heimahögum sínum og jafnvel notað. Slíkir stafir og af þessari lengd eru til á söfnum, t.d. í Skógum, þar sem Þórður fornfræðingur Tómasson sýnir oft þeim sem heimsækja hann staf með járnhring á og minnir um leið til gamans á frásögn Landnámu af því hvernig landnámsmaðurinn Loðmundur gamli á Sólheimum kom í veg fyrir flóð á byggð í jökulhlaupi með staf sem á lék hringur. Er þetta sem við sjáum á myndinni rammíslenskur broddstafur? Ef svo er, hefur sá sem málað hefur myndirnar haft töluverða þekkingu á Íslandi og Íslendingum. 

Kortagerð og staðarlýsingar Sæmundar 

Sæmundur fékkst nokkuð við gerð korta og perspektíva (prospekta, eins og það var kallað upp á dönsku), og er nokkuð að því varðveitt í Kaupmannahöfn. Á einni þeirra teikninga sem sýna Dyrfjöll í fuglasýn, eru fjöllin eru mjög ýkt ekki ósvipað því sem maður sér á málverkunum 24. Hvaða fyrirmynd Sæmundur hefur haft fyrir Dyrfjallamynd sinni væri áhugavert að vita, en líklega hefur hann teiknað þetta eftir teikningum skipstjóra sem skissað hafa strandlínuna þar eystra. 

IMGP3463b

Eftir Sæmund liggja nokkur handrit og teikningar á Konunglega Bókasafninu í Kaupmannahöfn. Í þeim og í teikningu af Ólafsvík frá 1785, sem er varðveitt á safninu á Frederiksborg, er ýmislegt sem sver sig í ætt við þá fantasíu í landslaginu sem sést á málverkunum 24 á Listasafni Íslands. Myndin af Ólafsvík sýnir Ennið í yfirgengilegri stærð. Myndin er lituð pennateikning og er teiknuð í Kaupmannahöfn áður en Sæmundur fluttist aftur til Ísland. Ólíklegt er að Sæmundur Hólm hafi nokkru sinni komið á Snæfellsnes áður en hann hélt til Hafnar til að stunda nám. Það sýnir myndin á vissan hátt.  Árið 1799 kom síðan út ný mynd Sæmundar af Ólafsvík í riti Jacobs Severin Plums Íslandskaupmanns, Historien om min Handel paa Island: mine Søereiser og Hendelser i Anledning af Islands almindelige Ansøgning til Kongen om udvidede Handelsfriheder m.v. Sú mynd, sem er koparstunga eftir teikningu Sæmundar, er allt öðru vísi en sú fyrri Ólafsvíkurmynd sem Sæmundur teiknar á Hafnarárum sínum, en hún sýnir einnig nýja kunnáttu Sæmundar á staðarháttum í Ólafsvík, en þá hafði hann verið verið prestur í 10 ár í næstu sveit. Þetta sýnir, að Sæmundur gat hæglega "skáldað" landslagsmyndir.

image00123

Ólafsvík Sæmundur Hólm

Ólafvík í tveimur gerðum eftir Sæmund Hólm. Neðri myndin, sem er koparstunga eftir óþekktri teikningu Sæmundar, er öllu nákvæmari en sú efri. Myndin hefur t.d. birst í bók Árna Björnssonar og Halldórs Jónsonar: Gamlar Þjóðlífsmyndir (1982).

Uxa hver

Her fyrir ofan má sjá nálastungu sem gerð var eftir mynd Hólms fyrir ferðabók Olaviusar (1776) af Uxahver í Reykjahverfi, sem hætti að gjósa árið 1872. Myndin sýnir hver sem ekki er ólíkur þeim gusum og geysum sem maður sér á málverkunum sem komu til Íslands árið 1928. Fyrir neðan er upphaflega teikning Sæmundar sem er varðveitt í Konunglega Bókasafninu í Kaupmannahöfn.

Uxahver

Soðið Lambalæri 2 

Árið 1720 komu út frásagnir hollenska kapteinsins Gornelis Gijsbertsz. Zorgdragers, ritaðar af Abraham Moubach, sem mest fjallaði um hvalveiðar og Grænlandútgerð Hollendinga, efni sem Sæmundur hafði mikinn áhuga á og eftir hann liggja tvö handrit með myndum af hvölum og selum. Zorgdrager kom við á Íslandi árið 1699 og hitti þar danskan kaupmann á Goswijk, sem er hollensk hljóðritun á Húsavík. Kaupmaðurinn sagði hollensku ferðalögnunum frá goshver, líklega við Námaskarð. Þangað fóru Hollendingarnir. Eins og gengur á ferðalögum urðu þeir svangir. Bundu þeir kindalæri í snæri og suðu í hvernum. Í bókinni er koparstunga sem sýnir þessa matreiðslu Zorgdragers og félaga. Zorgdrager sagði síðan Abraham Moubach, að hann hafi haldið til haga vel soðnu stykki af kjötinu og farið með það á nærliggjandi sveitabæ eða kofa og hafi fengið þar mjólk að drekka, en annars hefði menn hans drukkið kælt vatnið úr hvernum. Koparstungan í bók Zorgdragers er greinilega ekki gerð af listamanni sem hafði verið í för með Zorgdrager. En minnir ekki hverinn í bók Zorgdragers á hver Sæmundar?

Uppfinningarmaðurinn Sæmundur Hólm

Sæmundur var fyrir utan að vera myndlistamaður, uppfinningarmaður, eins og fyrrnefndur gljápappír hans gefur til kynna. Hann velti mikið fyrir sér landsins gæðum eins og lærðum manni í miðri upplýsingaöld bar skylda til. Eftir hann liggur á Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn myndskreytt handrit sem hann kallaði Nogle Tanker om Fiske og Laxe Fangsten (Kall 628 b 4to). Það er Sæmundur með tillögu og teikningu af eins konar brú úr tré sem byggð er á nokkuð vafasaman hátt út í vatn til að auðvelda mismunandi netaveiði á laxi. Á Skýringamyndum hans fyrir machinuna, sem hann kallar svo, og sem ég læt fylgja hér, má sjá hvernig smíða má og nota slíka brú til mismunandi veiða. Á myndunum er menn einmitt klæddir á sama hátt og karlar á furðumálverkunum 24 sem komu til Íslands árið 1928.

    Tab.IIII min Tabula IIII

Tab.V min Tabula V

Tab.VI min Tabula VI

Sæmundur var mikill kopíisti og í einu handrita hans, sem varðveitt eru á Konunglega Bókasafninu í Kaupmannahöfn, er að finna gott dæmi um það. Hann hefur tekið upp á því að teikna Vestmannaeyjaskip (Tólfæring?) eftir eldri mynd af Vestmannaeyjaskipi, sem síra Gizur Pétursson teiknaði árið 1704 (sjá hér).

Vestmannaeyjaskip lille

Sæmundur hefur einhvern veginn komist í teikningu Gizurar og gert sína útgáfu. Takið eftir körlunum um borð. Fyrir utan að vera í nákvæmlega sömu stellingum og sjómennirnir á mynd séra Gizurar Péturssonar,  þá eru þeir með sams konar hatta og sömu hattana og allir karlar á myndunum furðulegu á Listasafni Íslands. Eftir að Sæmundur teiknaði handritið með þessari mynd, voru allir karlar hans á myndum með svona hatta, sem voru reyndar frekar gamaldags í lok 18. aldar nema á meðal, presta, gyðinga, bænda og hermanna sumra landa.

Lokaorð 

Ég tel ekki ólíklegt, að Sæmundur hafi í fljótheitum málað 32 lítil málverk af Íslandi, sem hann þekkti ekki sérstaklega vel áður en hann hélt til náms í Kaupmannahöfn. Þetta tel ég að Sæmundur hafi gert til að drýgja tekjur sínar og til að svala fróðleiksþorsta greifans. Slíkt telst ekki til falsana í þeim dúr sem Ólafur Ingi flettir ofan af. Ég tel að Sæmudur hafi helst notast við þær lýsingar sem hann gat fundið í bókum. Við sjáum slíkt t.d. í litaðri pennateikninu hans af Ólafsvík og Enninu frá 1785.

Ef Ólafur Ingi Jónsson forvörður á Listasafni Íslands greinir ekki betur frá niðurstöðum sínum og enduraldursgreiningum sem hann setti fram i sjónvarpsfréttum og útvarpsþætti, verð ég að álíta að forverðinum sem "eyðilagði" fermetrasöfn á veggjum fjölda nýríkra íslenskra "málverkasafnara" hafi í þetta sinn orðið á í messunni. En kannski hefur Ólafur samt eitthvað í handraðanum, einhver tæknileg atriði sem væri vert að fá skoðun og rannsókn á í Hollandi, fyrst hann heldur að málverkin séu ættuð þaðan. Það tel ég persónulega fjarstæðu. Handbragð myndanna er að mínu mati ekki hollenskt frekar en danskt. Af ofangreindum rökum fram settum, er ég vantrúaður á að myndirnar séu frá lokum 17. aldar eða að þær séu hollenskar, alla vega þar til sýnt verður fram á eitthvað annað og merkilegra.

Allar upplýsingar eru vel þegnar sagði Ólafur forvörður, og hér á Fornleifi, hafa menn getað lesið um tilgátu mína (Vilhjálms Arnar Vilhjálmssonar fornleifafræðings) í tveimur hlutum. Ég undirstrika orðið tilgáta. Nú má Ólafur svara og forverja sig, ef hann þorir.

Tilgáta mín um Sæmund, sem Kristján Sveinsson sagnfræðingur plantaði í mig með því að nefna Sæmund á "skæptali", tel ég engu verri en Hollendingakenning forvarðarins á Listasafni Íslands. Hollenskir listfræðingar, sem ég hef sýnt myndirnar, eru ekki á því að þær séu hollenskar, svona í fljótu bragði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Hreiðarsson

Þakka frábæra grein um Sæmund Hólm og ríkulegt myndefni sem fylgir.  Aðeins ein athugasemd:  Þú segir að hann hafi ekki kunnað að teikna fólk í réttum hlutföllum og bendir á rauðkrítarmyndir því til staðfestingar.  Segir þú að höfuð séu hlutfallslega of stór.    Á öðrum myndum Sæmundar sem þú birtir hér, eru hlutföll í fullkomnu lagi.   Getur verið að þegar listamaðurinn gerði andlitsmyndir, "portrait", þá hafi hann viljandi gert höfuð og andlit stærri til að draga fram andlitsdrætti og svip fyrirmyndarinnar?

 Kveðja,

Valdimar Hreiðarsson

Valdimar Hreiðarsson, 24.11.2012 kl. 13:39

2 Smámynd: FORNLEIFUR

Sæll Valdimar,

Mannamyndir Sæmundar, sem við þekkjum, eru flestar úr hlutfalli. En ekki er það mjög ýkt hjá honum

Ég hef reyndar sé aðra teiknara gera þetta. Þetta var kannski vegna þess að menn voru með ákveðinn ramma og voru að reyna að troða eins miklu af bolnum inn í rammann eftir að vangamyndin eða andlitið hafði verið teiknað, fyrst og fremst til að sýna fín föt og knappa. Mannamyndir voru ekki ekki sterkasta sterkasta hlið Sæmundar. Karlarnir á fiskimaskínuhandritinu og á máluðu myndunum 24 eru afar stífir og á sama hátt.

Gott dæmi um algjört flaustur í sumu því sem Sæmundur gerði er t.d. myndin af körlunum sem þæfa í fjósinu, sem birtist í Ólavíusi. Annað hvort hefur eitthvað farið úr lagi, eða honum hefur verið svo í mun að sýna þakgrindina í fjósinu, að perspektívið fer í hund og kött.

FORNLEIFUR, 24.11.2012 kl. 14:16

3 Smámynd: FORNLEIFUR

Taktu einnig eftir stærð sjómannanna á tvímastra skipunum á málverkunum. Þeir eru allt of stórir. Þetta minnir dálítið á kort og prospekt Sæmundar.

FORNLEIFUR, 24.11.2012 kl. 14:23

4 Smámynd: FORNLEIFUR

Mynd_0894569

FORNLEIFUR, 24.11.2012 kl. 14:45

5 Smámynd: FORNLEIFUR

Svo er kannski vert að minnast á, að sumar af myndunum við þessa færslu hafa aldrei birst áður.

FORNLEIFUR, 24.11.2012 kl. 15:06

6 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sæll Fornleifur og þakka þér kærlega fyrir fróðlegan lestur. Greinin er mjög vel unnin og þyrfti góð rök til að varpa tilgátunni um Sæmund sem þú leggur fram.

Mig langar að nefna við þig mynd Sæmundar nr. 9 í fyrri færslu. Hún sýnir hlaðið steinhús og þar sem ég þekki ágætlega til á Sómastöðum við Reyðarfjörð, þar sem langafi minn reisti hlaðið steinhús af svipaðri stærði árið 1875, þá "þekkti" ég staðinn undir eins. Fjöllin hægra megin á myndinni gætu sem best verið Hólmanesið með Hólmaborginni í ýktri minningu. Kletturinn fremst passar einnig mjög vel við klettabeltið sem er vestan við húsið og stóð (ef ég man rétt) mun nær áður en álversframkvæmdir hófust. Sómastaðir standa reyndar fleiri hundruð metra frá sjó þannig að fjöruborðið á myndinni passar illa. Sjá http://www.thjodminjasafn.is/minjar-og-rannsoknir/husasafn/husin-i-stafrofsrod/nr/403 með mynd af húsinu eins og það lítur út í dag.

Við stækkun sé ég að myndin á að sýna "Biarna Jökul i Island", ekki veit ég hvar þann jökul er að finna! En myndirnar eru auðvitað málaðar minnst 100 árum áður en steinhúsið á Sómastöðum reis. Er eitthvað vitað um það hvort steinhús af þessari tegund hafi verið að finna á Íslandi við lok 18. aldar? Elstu steinhúsin eru reist í Reykjavík um miðja 18. öld (Viðeyjarstofa, Nesstofa) og ekki óhugsandi að slík hús hefði mátt finna víðar.

Helst dettur mér í hug einhvers konar verbúð, eitt er víst að ekki minnir þetta á danska byggingarlist. Hér í danaveldi er grjót mjög svo af skornum skammti (og hefur trúlega aldrei mátt finna á yfirborði á 17. og 18. öld) svo mjög að hlaðin hús úr steini þykja furðuverk (t.d. stórhýhsið sem Jens Bang reisti í Álaborg 1624 og er aldrei kallað annað en "Stenhuset").

En takk fyrir góða færslu og fyrirgefðu útúrdúrinn!

Brynjólfur Þorvarðsson, 25.11.2012 kl. 10:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband