Stradivarius íslenskra langspila

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson langspil

Drengurinn á þessari ljósmynd er enginn annar en ritstjóri Fornleifs, Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, dekraður drengur úr vel stæðu raðhúsahverfi í austurhluta Reykjavíkur. Myndin var tekin vorið 1972. Ég er að leika á langspil sem ég smíðaði í skólanum með mikilli hjálp smíðakennara míns, Auðuns H. Einarssonar heitins.

Þessi grein er fyrsti hlutinn í safni upplýsinga um langspilið, sem ég mun setja hér á síðuna svo allir hafi aðgang að þeim upplýsingum.

Hvers konar börn smíða langspil?

Snemma beygðist hugur minn til flest þess sem gamalt er. Eftir því var tekið og drengurinn talinn frekar undarlegur. Hvaða 8 ára barn fer með eintak af gamalli og slitinni skólaútgáfu af Hávamálum upp í Öskjuhlíð í nestistösku sinni, og fer að lesa þau undir heitavatnstönkunum í sólinni án þess að skilja aukatekinn staf? Það gerði ég. Kennarinn tók af mér Hávamál og þetta einkennilega uppátæki kom til umræðu á næsta foreldrafundi. Ég varð snemma, allavega á 7. ári, heimagangur á Þjóðminjasafninu. Þangað fór ég tvisvar, stundum þrisvar í viku yfir vetrarmánuðina og hékk og skoðaði allt og las alla miða og alla bæklinga  og ræddi við gömlu gæslukonurnar, sem þótti gaman að tala við þennan fróðleiksfúsa strák, sem hafði Kristján Eldjárn í guða tölu. Gæslukonurnar á Þjóðminjasafninu, sem sumar hverjar voru ævafornar, urðu verndarenglar Fornleifs.

106616857_10222708385040612_3422861892052766868_n

Einn þeirra, sem tók eftir því hve undarlegur þessi drengur var, var smíðakennarinn minn í barnaskóla, sá ágæti maður Auðun H. Einarsson (1941-2009) en honum og minningu hans er þessi grein tileinkuð. Auðun kenndi mér smíði í  Æfinga- og tilraunadeild Kennaraskóla Íslands, sem í dag heitir Háteigsskóli. Þar kenndi Auðunn mér smíði frá haustinu 1969 til barnaprófs árið 1973. Auðun, sem margir þekkja fyrir smíðakennarastörf sín og vandaða smíðavinnu, sem og torfbæjabyggingar, var líka áhugamaður um allt fornt og sögu Íslands. Þar að auki var hann með hagari mönnum á Íslandi. Betri smíðakennara og smið gat maður ekki fundið.

Hin listagóða ljósmynd af Auðuni hér fyrir ofan er birt með leyfi fjölskyldu hans.

Gert upp á milli nemenda

Þótt að Auðun væri frábær kennari, varð honum einu sinni á í messunni. Hann gerði upp á milli drengjanna og bauð mér einum að smíða langspil og ekki öðrum. Líklega var það vegna þess að hann taldi mig geta valdið verkefninu. Hann þekkti hinn mikla forneskjuáhuga og teiknihæfileika, og hafði þar fyrir utan heyrt mig tala um langspil af miklum móð. Hann reyndi að haga því þannig til, að ég ynni eitthvað að verkefninu í skólanum, stundum á eftir tímum, en mest heima. Ég fór líka heim til hans vestur í bæ um helgar, þar sem hann var með lítinn bílskúr sem var fullur af smíðaefni.

Vitanlega hjálpaði Auðun mér mikið með smíðina á langspilinu. Hann treysti mér samt fyrir óhemjumiklu og það gerði þetta smíðaverkefni okkar afar ánægjulegt. En þetta skapaði auðvitað einnig öfund meðal sumra skólafélaganna. Einn bekkjafélaga minna, sem í dag er lögfræðingur, reyndi meira að segja að koma langspilinu fyrir kattarnef, þegar það var að mestu klárað.

Ég fór á Þjóðminjasafnið og fékk þar með leyfi þjóðminjavarðar að mæla langspil með bogadregnum hljómkassa sem þar var varðveitt og sem hefur safnnúmerið Þjms. 635. Ég fór í eitt skipti á safnið með bekkjafélaga mínum Eggert Pálssyni, sem nú er páku- og slagverkmeistari í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Það var fyrsta eiginlega rannsóknarferð mín í fræðunum.

Ég hafði einnig samband við Önnu Þórhallsdóttur söngkonu sem lengið hafði reynt að efla áhugann á langspilinu og það gladdi hana, að heyra að strákpjakkur í barnaskóla væri að smíða sér slíkt hljóðfæri og ætlaði að leika eftir henni listina. Sjálf hafði hún látið smíða fyrir sig langspil eftir hljóðfæri frá 18. öld sem varðveitt er á Musikmuseet í Kaupmannahöfn (sem nú er hluti af Þjóðminjasafni Dana). Oft var Anna látin kyrja með sinni hástemmdu rödd og strjúka strengi langspilsins rétt fyrir hádegisfréttir í útvarpinu hér á árum áður. Ég mun brátt gefa lesendum mínum hljóðdæmi af hennar list. 

Þjms 365
Mackenzie Langspil
D130_1 lille
Efst er langspil á Þjóðminjasafni (Þjms. 635), en langspil dóttur Magnúsar Stephensens sem teiknað var árið 1810 í Viðey er fyrir miðju. Þessi hljóðfæri eru mjög svipuð og má telja næsta öruggt að sami maður hafi smíðað þau. Hljóðfæri mitt hefur þó reynst líkast mest því hljóðfæri frá 19. öld sem til er á Musikmuseet í Kaupmannahöfn (neðsta myndin) og sem upphaflega kom þangað árið 1915 úr búi dansks skólaumsjónarmanns (skolebetjent) sem Hans Peter Lyum hét (f. 1859; Hét upphaflega Nielsen) og bjó í Larslejestræde 9 í Kaupmannahöfn (allar upplýsingar um hann væru vel þegnar um þann mann og hvernig það kom til að hann átti langspil).

 

Ég mældi lengd og bil milli þverbandanna á gripbrettinu. Límingar, sögun, heflun og pússun hliðanna í hljómkassanum sá ég alfarið um, en Auðun hjálpaði náttúrulega með að líma saman gott tré í snigilinn og skera hann út,  skeyta saman og líma allt hljóðfærið. Eins og í fiðlu og gítar var hornlisti límdur til styrktar í innanverðum langspilskassanum. Auðuni og að útvega mahóní í gripbrettið. Ég náði í íbenholt fyrir lyklana (sem sumir kalla skrúfur eða stillingarpinna) og raspaði þá, þjalaði og pússaði eftir að Auðun hafði rennt sívalningana sem fara inn í snigilinn. Ég sá svo um lökkun og pússun. Eitt af því skemmtilegasta við þetta verkefnið, fyrir utan að heyra hljóminn þegar strengirnir voru komnir í, var að beygja eina hliðina. Það gerðum við heima hjá Auðuni yfir tvær helgar. Hliðin var mýkt með gufu og sett í koparklædda pressu sem Auðun hafði smíðað. Hliðin var svo lögð í pressu til að fá lags sitt.

Langspil 1 

»Eins og mjúkt selló«

Þegar langspilið mitt var tilbúið, fór ég með móður minni í hljóðfæraverslunina RÁN og keypti ýmsa strengi til að reyna í langspilið. Ég man þegar ég hrindi í Auðun til að láta hann heyra í gegnum símann hvernig hljóðfærið hljómaði. Auðun varð hinn ánægðasti og sagði kátur, »þetta hljómar eins og mjúkt selló«. Síðar fékk hann að heyra betur í hljóðfærinu.

Ég lék við tækifæri á langspilið, með fingrum og boga sem ég fékk að láni, en þó mest fyrir sjálfan mig. Ég spilaði þjóðlög og miðaldasmelli eftir eyranu en sjaldan fyrir áheyrendur. Hljómurinn í langspilinu var fallegur og dýpri og þýðari en í langspilinu á Þjóðminjasafninu sem var fyrirmyndin. Mér fannst sjálfum betra að heyra tóninn í mínu langspili en t.d. því sem Anna heitin Þórhallsdóttir spilaði öðru hvoru á í útvarpið. En það hljóðfæri var líka með bogadregnum kassa og var gert eftir hljóðfæri sem var frá 18. öld og sem nú er varðveitt á Musikmuseet í Kaupmannahöfn.

Svo varð maður eldri og það var ekki beint í lagi að vera kvæðamaður og sólisti á langspil í Menntaskólanum í Hamrahlíð, þar sem allir voru annað hvort að dansa í takt við Travolta eða Þursaflokkinn. Ég fór svo árið 1980 erlendis til náms og langspilið góða hékk áfram á veggnum í gamla herberginu mínu, þar sem það hangir enn móður minni til augnayndis. Engin tónlist hefur því miður komið úr langspilinu í langan tíma. Úr þessu ætla ég að bæta við fyrsta tækifæri og stend nú í að semja fornleifafræðingarímur og McGoverns-bálk um skálmöld í íslenskri fornleifafræði, sem henta örugglega vel i flutningi við undirleik mjúks sellós.

Langspil 2
Langspil 3
Langspil Vilhjálms Arnar Vilhjálmssonar smíðað 1971-72. Á hljóðfærið vantar nú útskorið lok á hljóðopið, strengina og stóla, sem margir voru reyndir til að fá sem bestan tón. Ljósm. Sigríður B. Vilhjálmsdóttir, sem einnig hefur tekið myndina að ofan með bláum bakgrunni.

David G. Woods finnur besta hljóðfærið

Árið 1981 dvaldist á Íslandi bandarískur sérfræðingur í tónmennt, David G. Woods. Á Fullbright-styrk rannsakaði hann íslenska langspilið og íslensku fiðluna, sögu þessara hljóðfæra og eiginleika. Hann rannsakið þau langspil forn sem hann hafði spurnir af og fékk sér til hjálpar ýmsa menn sem þekktu til hljóðfærisins og gátu smíðað það. Þeirra á meðal var heiðursmaðurinn Njáll Sigurðsson sem kennt hafði mér um tíma í Barnamúsíkskólanum þegar hann var nýkominn úr námi (og sem líklegast smitaði mig upphaflega af langspils-bakteríunni), og Auðun H. Einarsson sem tók Woods í smíðatíma.

Woods, sem síðar varð m.a. prófessor við háskólann í Connecticut í Bandaríkjunum lét smíða nokkur hljóðfæri, sem ég mun sýna ykkur síðar þegar hann er búinn að senda mér myndir. Þau voru smíðuð með gömul hljóðfæri að fyrirmynd. Auðun smíðaði eintak af því hljóðfæri sem ég mældi upp á Þjóðminjasafninu (þótt það hafi ekki að lokum orðið alveg eins).

Meira en áratug eftir dvöl Woods á Íslandi kom út frekar stutt grein eftir hann í Árbók hins islenzka Fornleifafélags árið 1993 sem Njáll Sigurðsson hafði þýtt. Árið 1993 hóf ég störf á þjóðminjasafninu og þá ræddi ég einmitt við Auðun um þessa grein dr. Woods. Woods greinir frá langspilsgerð, sem var að sögn Auðuns smíðuð eftir móti Auðuns og teikningu minni. Sú eftirlíking á hljóðfærinu (Þjms. 635) á Þjóðminjasafni reyndist samkvæmt tónmenntafræðingnum Woods vera það langspil sem hefði fegurstan tóninn.

Nýlega skrifaði ég prófessor emerítus David G. Woods í Connecticut tölvupóst og sagði honum frá fyrsta langspilinu með bogadreginn kassa sem Auðunn og ég smíðuðum eftir Þjms. 635. þessa góða langspils sem honum líkaði betur en mörg önnur. Þetta "Stradivaríus íslenkra langspila" var ekkert annað en samstarfsverkefni mitt og meistara Auðuns H. Einarssonar. 

Woods greindi einnig frá því í grein sinni í Árbók Fornleifafélagsins, að gerður hafði verið pakki fyrir kennslu í smíði langspila. Því miður hef ég ekki séð þessi gögn og þætti vænt um ef einhver gæti útvegað mér þau. 

Auðun kenndi fleiri börnum að smíða langspil

Ekki get ég útilokað að Auðun hafi smíðað langspil með öðrum nemanda áður en hann leyfði mér að smíða mitt hljóðfæri. En ef svo var, var það hljóðfæri ekki með bogadregnum hljómkassa. Tíu árum eftir að ég smíðaði mitt hljóðfæri með Auðuni, kenndi hann 14-15 ára krökkum að smíða ýmis konar hljóðfæri. Kennslan fór fram í kvöldtímum í Tónmenntaskóla Reykjavíkur við Lindargötu. 

1982 Tónmenntaskólinn við Lindargötu
Auðun og nemendur hans í Tónmenntaskóla Reykjavíkur árið 1982. Greinilegt er að tvær stúlknanna hafa smíðað "Stradivaríus Vilhjálms og Auðuns". Þarna má einnig sjá stoltan miðausturlandasérfræðing með gítar.

 

Á myndinni, sem birtist í Þjóðviljanum sáluga vorið 1982, má sjá fólk sem síðar hafa orðið þekktir tónlistarmenn og á sviði stærðfræði. Á þessu námskeiði ungra hljóðfærasmiða var til að mynda Jóhann Friðgeir Valdimarsson, síðar söngvari, og Katarína Óladóttir fiðluleikari, en í þessum hópi var einnig mjög svo efnilegt fólk sem því miður féll allt of snemma frá af ýmsum ástæðum, líkt og Auðun, sem snemma varð Alzheimer sjúkdómnum að bráð. Blessuð sé minning þess völundarsmiðs. 

Í þarnæstu færslu skal sagt frá ýmsum þeim

 heimildum sem til eru um

langspilið fyrir

 aldamótin

1900

langspil 4


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Æ, hvað þetta var nú fallegur og göfugur lestur. Hljómar eins og Stradivarius í allri kakófóníu Íslensks gremju og þrassamfélags.

Hér á þjóðlagasafninu á Sigló er eitthvað langspil, sem ég er ekki viss um að sé merkilegt. Það er jafnvel engin áhersla lögð á þennan merka þátt úr menningarsögunni.

Það er eins og mig minni að Diddi fiðla sé okkar helsta átorití um þetta hljóðfæri og kannski sá eini sem hefur sýnt því verðugan áhuga.

Jón Steinar Ragnarsson, 10.3.2013 kl. 06:12

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það má bæta því við að ég smíðaði einhverntíma. Langspil fyrir eitthvað Fóstbræðragrínið. Það var ekki merkilegt props.

Jón Steinar Ragnarsson, 10.3.2013 kl. 06:14

3 Smámynd: FORNLEIFUR

Sæll Jón Steinar, ég hef séð myndir af langspilinu á Siglufirði, sem er nokkuð nett. Mig vantar góða mynd af því fyrir þá skrá sem ég er að byggja upp fyrir gömul hljóðfæri (fyrir 1900). Myndirnar í grein Woods á sínum tíma voru lítils virði.

Sömuleiðis ætla ég að setja bók Ara Sæmudssonar um langspil frá 1855 í pdf skrá, svo allir geti lesið. Síðar verður stofnuð íslensk langspilssveit, lík balalækusveit Rauða hersins, þjóðbúningar og heila múlivídden.

Gaman væri að sjá Fóstrbræður fara á kostum á langspili.  Ætli sá þáttur sé til á YouTube?

FORNLEIFUR, 10.3.2013 kl. 09:00

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég var nú að leita að þessum skets fyrir þig, en fann ekki í fljótu bragði. Það er velkomið að mynda langspilið á Siglo fyrir þig og jafnvel mæla það upp og búa til 3D módel af því.

Jón Steinar Ragnarsson, 10.3.2013 kl. 15:17

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Jú, hérna er þessi vileysa. Skensið heitir Þjóðólfur.

http://m.youtube.com/watch?v=qm550ymxxVQ

Jón Steinar Ragnarsson, 10.3.2013 kl. 15:37

7 Smámynd: FORNLEIFUR

Mersí búkú. Fóstbræður voru góðir, áður en þeir fóru í pólitík. Ég hef reyndar aðeins séð þættina á YouTube, því ég bjó ekki á landinu á þeim tíma sem þeir voru sendir.

Langspilið hans Þjóðólfs frænda var ekki ónýtt, en var þetta ekki einhver blanda á milli íslensku fiðlunnar og langspils. Ég hræddur um að það hefði ekki komist í gegnum nálarauga Prófessors Woods.

FORNLEIFUR, 10.3.2013 kl. 18:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband