Rannsökum nasistana í Sjálfstæðisflokknum!
25.5.2015 | 19:38
"Það hefur verið farið með stjórnmálastarfsemi hinna íslenzku þjóðernisinna sem feimnismál og enginn virðist hafa haft áhuga á því að fara nánar ofan í tengsl manna hér á Íslandi við Þýzkaland á þessum árum."
Svo skrifaði Styrmir Gunnarsson á bloggi sínu í dag. Ekki held ég að þetta sé alls endis rétt hjá Styrmi. Þór Whitehead hafur skrifað býsnin öll og líka um íslenska nasista, en mest hefur hann skrifað sína styrjaldasögu út frá íslenskum, breskum og bandarískum heimildum. Jökulssynirnir, þeir Hrafn og Illugi hafi skrifað góða bók um Íslenska nasista (meðlimi Flokks Þjóðernissinna) án þess þó að geta heimilda, og Ásgeir Guðmundsson hafi velt fyrir sér íslenskum nasistum í grein og bók sinni Berlínarblús, en einnig með takmarkaðri komu í erlend skjalasöfn.
Hver varð að lokum "móðurflokkur" þessara manna? Draumkennd áadýrkun og ást á brjóstvöðvum 1942. Sólkrossinn á skildinum, sem t.d. norskir nasistar notuðu, sómdi sér nýlega á einkaþotu Björgólfs Thors.
Ekki tel ég þó að þessir aðilar og aðrir sem hafa skrifað hér og þar um íslenska nasista hafi ekki misst af svo miklu í Þýskalandi. Þar er ekki um auðugan garð að gresja þegar kemur að upplýsingar um áhuga þýskra nasista og yfirvalda á Íslandi eftir 1933. Margt eyðilagðist kannski í stríðinu og tengsl íslenskra manna við flokk og foringja í Þýskalandi voru líka takmörkuð. Það er ekki eins og rjómi þjóðarinnar hafi verið meðlimir í Flokki þjóðernissinna á Íslandi. Sumir af þessum körlum voru ótíndir tukthúslimir og innbrotsþjófar. Afi Jón Geralds Sullenbergers, Gunnar Jóelsson, var t.d. einn þessara manna og með honum í slarkinu var Haukur Mortens. Þeir félagar reyndu eitt sinn lukkuna með því að gerast laumufarþegar (sjá hér og hér).
Það voru helst menningarlega þenkjandi Þjóðverjar, og margir þeirra nasistar, sem höfðu áhuga á Íslandi. Íslendingum sem tengdust félaginu Germaníu eða sem meiri eða minni nasistar gengu í Nordisches Gesellschaft var boðið til Þýskalands, þættu þeir nógu áhugaverðir. En Þýskaland sem lagði kapp á að byggja upp hernaðaráform sín vörðu takmörkuðu fé í Ísland og settu t.d. lok á fyrirhugaðar rannsóknir á Íslandi á vegum Ahnenerbe-SS sumarið 1939.
Þjóðverjar búsettir á Íslandi voru vitanlega margir hverjir gargandi nasistasvín, en þó ekki í betri samböndum við Das Vaterland en íslensku nasistarnir.
Sem bein tengsl við Þýskaland má nefna ferðir sem ýmsum Íslendingum var boðið í. Gunnar Gunnarsson hitti Hitler. Öðrum sem boðið var var María Markan, Stefán Islandi, Jóns Leifs, Guðmundur Kamban (sjá greinar mínar Kamban er ekki hægt að sýkna og Kamban og Kalkúnninn). Guðmundar frá Miðdal, rektorar HÍ Alexander Jóhannesson rektor og Níels Dungal og fleiri aðdáendur þýskrar menningar.
Því er haldið fram að þetta fólk hafi ekki verið nasistar, en það hreifs með að mikilli áfergju. Matthías Þórðarson þjóðminjavörður og þingmaður fékk sent mikið magn af alls kyns áróðursefni frá Berlín. Því var vísvitandi eytt af Þór Magnússyni hér um árið þegar tekið var til í skjalasafni Matthíasar (sjá grein mína Þegar Matthíasi var hent á haugana). Mér tókst að bjarga örlitlu broti af nasistableðlunum sem Matthías fékk. Það verður að leita á öskuhaugunum til að finna restina.
Hvað varðar tengsl flokksbundinna íslenskra nasista við móðurflokkinn er ljóst, að hinn kynlegi kvistur Eiður Kvaran fékk einhvern stuðning frá móðurapparatinu í Þýskalandi fyrir "vísindastörf" sín (sjá niðurstöður rannsókna minna á sögu hans og félaga hans í greininni Heil Hitler og Hari Krishna). Einstaka nasisti var einnig betur gefinn en meirihlutinn í flokknum. Nasistinn Davíð Ólafsson er sagður hafa stundað nám í hagfræði í Þýskalandi, en því lauk hann aldrei, þótt því sé haldið fram af vefsíðu hins háa Alþingis (sjá grein mína Próf seðlabankastjóra, alþingismanns og nasista).
Davíð kyssir bokkur með félögum úr áður en hann hélt til Þýskalands til "náms".
Hann hafði þó aldrei fyrir því að segja okkur um samskipti sín við nasista í Þýskalandi. Þeir gáfu honum ekki einu sinni titil á pappír fyrir heimsóknina.
"Foringinn" og Þýskaland
Gísli Sigurbjörnsson í Ási (einnig kenndur við Grund), einn af foringjum íslenskra nasista, skrifaði örugglega einhver bréf til kollega sinna í fyrirheitna landinu, en hvar þau eru niður komin er engin leið að vita. Sjálfur brenndi hann bréfasafn sitt frá þessu tíma líkt og flestir flokksbræður hans og stuðningsmenn. Þýska utanríkisþjónustan hefur ekkert um hann og heldur ekki Bundesarchiv. Ég hef heldur ekkert fundið sem vísað gæti til skrifa Knúts Arngrímssonar við yfirvöld í Þýskalandi. Ég hef leitað.
Árið 1938 útvegaði Gísli í gegnum sambönd sín við Þýskaland, þjálfara fyrir Knattspyrnulið Víkings.
En er ekki fremur hlægilegt að fyrrverandi ritstjóri blaðs sem birti minningargreinar um Gísla í Ási sé að biðja um rannsókn á tengslum hans við Þriðja ríkið, þegar ekkert kom fram um nasisma Gísla í minningargreinum um hann í Mogganum árið 1994. Afneitunin var algjör. Hvað veldur áhuganum nú? Er Styrmir að reyna að skaffa ríkisstyrk handa einhverjum ættingja til að stunda "rannsóknir" við HÍ?
Guðbrandur "Bralli" Jónsson
Menn eins prófessor Guðbrandur Jónsson, sem ekki voru flokksbundnir, en heilluðust af Hitler, voru líklegar beintengdari við Þýskaland en pörupiltarnir og slagsbræðurnir í Þjóðernissinnaflokk Íslands sem síðar urðu margir hverjir góðir Sjálfstæðismenn. "Bralli", sem af einhverjum furðulegum ástæðum taldi sig vera krata, var einn þeirra sem dreymdi um að gera þýskan prins og nasista að konungi Íslands.
Var Guðbrandur óspart notaður til Þýskalandstengsla, t.d. þegar vinur hans Hermann Jónasson vildi varpa gyðingum úr landi. Þá þýddi Guðbrandur bréf yfir á þýsku, þar sem dönskum lögregluyfirvöldum var sagt hvað þau ættu að gera við gyðingana ef Danir vildu ekki sjá þá (Sjá bók mína Medaljens Bagside (2005) sem má fá að láni á íslenskum bókasöfnum sunnan og norðan heiða). Guðbrandur hafði fyrr á öldinni starfað fyrir utanríkisþjónustu Þjóðverja. Stærra idjód hefur víst aldrei fengið prófessorsnafnbót á Íslandi fyrir ekkert annað en að vera sonur föður síns. Stórmenntaður gyðingur, Ottó Weg (Ottó Arnaldur Magnússon) fékk hins vegar aldrei vinnu við neina menntastofnun á Íslandi (Sjá grein mín Gyðingar í hverju húsi).
Í skjalsöfnum Danska utanríkisráðuneytisins má sjá hvernig Danir fylgdust grannt með Íslendingum, sem utanríkisþjónustunni þótti hafa of náin sambönd við nasista. Það hef ég skrifað um á bloggum mínum. En í skjalsöfnum í Kaupmannahöfn eru ekki heimildir finna um íslenska flokksbundna nasista nema Gísla í Ási (Grund).
Styrmir telur Ísland nafla alheimsins líkt og margur landinn
Mig grunar að Styrmir Gunnarsson falli í vangaveltum sínum í þann hyl sem margir Íslendingar eiga það til að drukkna í í heimalningshugsunarhætti sínum. Þeir halda að Íslandi hafi veið eins konar nafli alheimsins sem allir höfðu og hafa áhuga á.
Vissulega höfðu Þjóðverjar og sjálfur Hitler áhuga á Íslandi, hernaðarlega séð, en ekki fyrr en mjög seint (sjá hér). Í dönskum skjalasöfnum hef ég fundið upplýsingar um að enginn áhugi hafi verið hjá Þjóðverjum þegar ruglaður Íslendingur í Kaupmannahöfn bauð Þjóðverjum bóxítnámur og hernaðaraðstöðu á Íslandi (sjá hér), en Þjóðverjar töldu manninn snarruglaðan. Danir ákváðu að ákæra Íslendinginn ekki þó hann hefði oft gengið á fund þýsks njósnara sem þeir dæmdu til fangelsisvistar, manns sem ég hef sýnt fram á að hafi viðurkennt það árið 1945 að hafa myrt Karl Liebknecht árið 1919 (sjá neðarlega í þessari grein)
Guðmundur Kamban, sem naut góðs af nasistaapparatinu, þó hann væri ekki skráður í flokkinn svo vitað sé. Hann elskuðu Þjóðverjar vegna þess að hann var menningarfrömuður sem Þjóðverjar elskuðu að sýna sem vini nasismans. Kamban gerðist líka aðalsérfræðingur Flokksins í miðaldakalkúnum (sjá sjá greinar mínar Kamban er ekki hægt að sýkna og Kamban og Kalkúnninn). Reis þar líklegast hæst virðuleiki Íslendinga í Þriðja ríkinu, fyrir utan ferð Gunnars Gunnarsson til Þýskalands og Hitlers árið 1940.
Þessa mynd og aðrar af Gunnari í ferð sinni fyrir nasistaflokkinn í Þýskalandi vill Gunnarstofa á Skriðuklaustri ekki sýna gestum sínum, og heldur ekki FB síðan Gamlar Ljósmyndir, sem stjórnað er af gömlum harðlínustalínista og mönnum sem komnir eru af karlinum sem seldi Gunnari Skriðu. Allir afneita því að Gunnar hafi verið nasisti. Það er sjúkleg afneitun.
Nasistar eru að kjarna til mjög hlægilegt lið. Ekki ósvipað ISIS og baklandi þeirra morðingja í dag. En hlægilegt fólk getur vissulega líka verið hættulegt, eins og mörg dæma sanna.
En þegar stór hluti Flokks Þjóðernissinna var ósendibréfsfær hópur götustráka með drykkjuvandamál, og einstakra sona velmegandi Dana á Íslandi og íslenskra kvenna þeirra, er líklegast ekki um auðugan garð að gresja fyrir þá sögu sem Styrmir vill sjá og hvetur Illuga Gunnarsson til að veita fé í.
Eins og Illugi sé ekki búinn að gera í nóg í buxurnar með dauðanum í moskunni Feneyjum. Margt gott hefur þegar verið skrifað um íslenska nasista af leikum sem lærðum, og heyri undan mér að á Íslandi sé blaðamaður að skrifa ekki meira né minna en 800 síðna verk um stríðárin. Kannski verður það betra en það sem sagnfræðingar hafa boðið upp á. Hann leitar samt grimmt í smiðju sérfræðinga og heimtar að fá efni hjá þeim lærðu sér að kostnaðarlausu. Ég hef látið hann hafa efni, en sé eftir því, því ugglaust þakkar hann ekki fyrir stafkrók af þeim upplýsingum eða þær myndir sem ég hef látið honum í té.
Nasistar og Sjálfstæðisflokkurinn
En Styrmir gerir á bloggi sínu einfaldlega of mikið úr þessum drulludelum sem þrömmuðu um götur Reykjavíkur á 4. áratugnum, en urðu síðar góðir þegnar í Sjálfstæðisflokkunum.
Nær væri fyrir Sjálfstæðisflokkinn, ef prófessor Hannes Hólmsteinn Gissurarson gerir það ekki af sjálfsdáðum, að flokkurinn veitti eigið fé í að skoða sögu áhrifa nasistanna í Sjálfstæðisflokknum og gera upp við þá fortíð sína, þegar gyðingahatarar, ofstopamenn og jafnvel svikahrappar gengu í flokkinn; Að það verði með rannsóknum skýrt hvernig "fyrrverandi" nasistar gátu orðið að flugmálastjórum, bankastjórum og lögregluyfirvaldi.
Ég man svo heldur ekki betur en að nasistar sjálfir hafi haldið því fram að Gísli Sigurbjörnsson hafi stofnað nasistaflokkinn í bróðurlegu samstarfi við Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins (sjá hér). Ætli til séu heimildir um það í Valhöll? Eða ríkir þar líka afneitunin ein líkt og hjá mörgum íslenskum kommum?
Meginflokkur: Sagnfræði | Aukaflokkar: Menning og listir, Íslenskir nasistar, Saga íslenskrar fornleifafræði | Breytt 29.11.2019 kl. 12:56 | Facebook
Athugasemdir
Það er reyndar misskilningur að Guðbrandur Jóinsson hafi fengið prófessorsstöðu fyrir að vera sonur Jóns Þorkelssonar forna. Hann fékk reyndar aldrei neina prófessorsstöðu. Hins vegar var honum leyft að kalla sig prófessor, varð sem sagt prófessor að nafnbót, ásamt Guðmundi Hagalín. Þótti ekki öllum mikið til koma og Halldór Laxness skrifaði í blöðin um þetta sem hneyksli.
En, sem sagt, staða fylgdi engin með prófssoratinu og þaðan af síður laun.
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 25.5.2015 kl. 21:16
Rétt Þorvaldur, en hann þáði samt laun um tíma hjá Háskólanum og kenndi einhverja kirkjusögu, sem hann var enginn sérfræðingur í. Bralli var nú bara "bípersóna" í ritgerð minni, til að minna á menn sem heilluðust af menningu og andlegu atgervi nasismans.
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 25.5.2015 kl. 21:24
Hitt er svo mála sannast að rannsókn á nasískum limum sjálfstæðisflokksins er löngu tímabær. Má þá minnast þess hversu þeir sjálfstæðismenn kvökuðu um nauðsyn þess að kommar gerðu upp við fortíðina í og eftir kalda stríðið. Mátti um þær umleitanir fjalla í sömu andrá og grjót og glerhús eða flísar og bjálka.
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 7.6.2015 kl. 20:32
Akkúrat, eins og frændur okkar í Færeyjum segja meira en við.
FORNLEIFUR, 8.6.2015 kl. 08:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.